Hafnarfjörður – Húsin á Brúarhraunskletti
Í Hafnarfirði eru nú skráð húsin nr. 21 (Arahús) og 25 (Sjóvá-húsið) norðan götunnar gegnt Thorsplani. Húsið nr. 23 var fyrrum tvö hús; Vestur-Brúarhraun og Austur-Brúarhraun. Síðanefnda lóðin hefur nú verið innlimuð í lóð húss nr. 25, en fyrrnefnda húsgrunninum hefur verið gerður sá heiður að hann hefur verið endurhlaðinn að hluta Brúarhraunsklettinum, þar sem húsin stóðu fyrrum.
Í Fjarðarpóstinum árið 1987 var rætt við athafnamanninn Jón Magnússon (1902-2002) í Skuld undir fyrirsögninni „Þá voru ferðir á 10 mínútna fresti„. Þar lýsir hann að hluta miðbæjar Hafnarfjarðar á yngri árum og nefnir m.a. Brúarhraunsklettinn og bæjunum sem þar voru á þeim tíma:
„Fyrir austan þetta athafnasvæði gekk hraundrangi [Brúarhraunsklettur] eða klettur fram í fjöruna og höfðu þeir þar uppsátur bræðurnir Hinrik og Einar Jóhannessynir ásamt fleirum. Einar átti heima í húsinu sem nú er Strandgata 19 og Hinrik var í næsta húsi við, aðeins fjær götunni. Gatan lá alveg upp við hús Einars og var þar vegaruppfyllingin talsvert há. Næst þar fyrir austan var Arahús og stóð það nokkuð framar. Þarna náði hraunið talsvert fram í fjöru.
Syðst á jarðri þessa hrauns var klettur sem kallaður var Brúarhraunsklettur og upp að þeim kletti var bærinn Brúarhraun fyrir austan Arahús. Tók gatan á sig töluverðan sveig fyrir framan Arahús og lóð Einars Þorgilssonar, því nokkur trjágarður var fyrir framan húsið. Þetta hús keypti Einar Þorgilsson af Þorsteini Egilssyni árið 1910. Í þessu húsi er nú Sjóvátryggingarfélag Íslands og lögmannsskrifstofa Árna Grétars og fleiri.
Næst fyrir sunnan er lítið hús sem ég veit ekki hver byggði. Þá erum við komin að húsi Þórðar Edilonssonar héraðslæknis sem hann byggði fljótlega eftir að hann hóf störf sín hér. Það er Sjálfstæðishúsið.“
Í „Húsakönnun fyrir Miðbær Hafnarfjarðar 2019“ er fjalað um húsin við Strandgötu en þar er ekki minnst á Brúarhraunshúsin.
Þjóðviljinn 26. apríl 1960 fjallar um „Kotin og þurrkvína“ í lýsingu Gísla Sigurðssonar, Byggðasafnsvarðar. Þar segir Gísli að „— Með fyrstu bæjarnöfnunum sem heimildir eru um hér í Hafnarfirði er Brúarhraun. Það var byggt um 1770, en líklega mun hafa verið þar sjóbúðarnefna á 17. öldinni. Klofi var byggður 1775 og Gestshús um 1790“.
Í Hamri árið 1956 segir Sigurjón Gunnarsson frá „Stuttri ferð en tafsamri„. Þar lýsir hann við aðstæðum og húsunum á Brúarhraunskletti:
„Nú kemur Steini niður sundið frá bænum og til mín. Ég vil fá hann með mér vestur í bæ, en hann stingur upp á því, að við skyldum fara fram á Brúarhraunsklett og fá okkur hryggjarmat. Brúarhraunsklettur var stór klettur framan við Strandgötuna, dálítið hærri en gatan og náði fram í fjöru rösklega miðja vegu milli flóðs og fjöruborðs.
Efst var kletturinn grasi vaxinn og þar átti Ingibjörg dálitla kálgarðsholu, en framan til voru klappir og þar þurrkuðu sjómenn stundum þorskhausa og hryggi, sem fara áttu til eldsneytis. Við máttum kroppa þann fiskmat, sem var í hryggjunum, en þorskhausana máttum við ekki snerta, en náttúrlega urðum við að hlaða upp þeim hryggjum, sem við tókum niður.
Þarna af klettinum var fagurt útsýni. Fjörðurinn spegilsléttur og fjær Hvaleyrartorfan í gróanda vorsins og upp yfir holtið sást Keilir teygja bláklædda kollhettu sína. Einnig sást fram að Melshöfða og gnæfði bærinn Hlið þar upp yfir. Þar þótti á þeim árum mikil bygging og bjuggu þar stórbændur og útgerðarmenn miklir.
Vestan til við klettinn var Brúarhraunsvör og upp af henni Brúarhraun, voru það tveir bæir. Í syðra Brúarhrauni bjó Guðmundur Ólafsson með Kristínu konu sinni. Guðmundur var snar í hreyfingum og aflasæll formaður. Hann átti sexæring, þann, er hann reri á. Syðra Brúarhraun var timburhús með lágum veggjum og miklu risi. Það sneri hliðinni fram að götunni, voru þar á tveir sexrúðu gluggar. Fyrir vestan þetta hús var bær, er einnig var nefndur Brúarhraun. Þar bjó Magnús Halldórsson með Steinunni konu sinni. Magnús var hár og þrekinn og vel sterkur, fiskimaður og sjómaður góður. Þessir fjórir bæir, sem ég hefi nefnt frá Gunnarssundi stóðu allir dálítið frá Strandgötunni. Voru kálgarðar fyrir framan þá og meðfram götunni háir grjótgarðar til hlífðar ágangi skepna.
Vestan til við bæ Magnúsar lá götuslóði upp að þriðja bænum, sem einnig var nefndur Brúarhraun. Þá kom maður á leiðinni þangað upp eftir fyrst að litlum bæ, er kallaður var Magnúsarbær, þar bjó ekkja með börnum sínum. Að efra Brúarhrauni eða Þorsteinsbæ eins og hann var stundum nefndur, bjó Þorsteinn Guðmundsson og Guðrún Guðnadóttir kona hans. Þorsteinn var sjómaður, handfastur og fiskinn og reri oftast hjá öðrum.
Næsta hús fyrir vestan Brúarhraunssund var Arahús. Það stóð þétt við götuna og því mikið staðið þar undir veggjunum, því þaðan mátti hafa tal af öllum, sem um Strandgötuna fóru, því allir þeir, er til Suðurnesja fóru eða komu þaðan og ætluðu lengra, urðu að fara þar um og því von um að frétta þar eitthvað um fiskigöngur eða annað, sem máli skipti. Í Arahúsi bjó á þessum árum Jóel Friðriksson. Fluttist hann hingað af Vatnsleysuströnd. Hann gerði út og var formaður á opnu skipi. Arahús var það háreist að loft var þar og smá kvistur á hlið þeirri, seni að Strandgötunni og sjónum vissi. Þarna uppi bjuggu nú Árni Jónsson og Þuðríður.
Þarna fyrir framan Arahús var Strandgatan hæst hlaðin að framan, en þar fram af en þó laus við götu klettur dálítill, jafnhár götunni. Illt gat verið að fara þarna um á veturna, þegar vestan garri var, og oftar en varð hefði komið skarð þarna í götuna, ef kletturinn hefði ekki verið fyrir framan og tekið á móti mestu skellunum af vestanbárunni.
Rétt fyrir vestan Arahús lá stígur af Strandgötunni upp að húsi Einars Jóhannessonar Hansen og Jensínu Árnadóttur konu hans. Einar var formaður og gerði út sitt eigið skip á vertíð og bát vor og sumar. Einar var aflamaður mikill og lítið um fisk, ef hann varð ekki var. Þegar Einar reri á bátnum var oftast háseti hans Bjarni Þórarinsson, sem áður er getið.
Gaman var að sjá, hvernig þeir gömlu mennirnir reru, er þeir komu að í logni. Þeir tóku löng áratog og hvíldu sig fram á árarnar á milli en er þeir tóku í árina var eins og báturinn þrykktist niður að framan og þyti svo áfram.
Fram af húsi Einars var fjós Linnets kaupmanns. Vestan við fjósið lá stígur af Strandgötunni upp með húsi Einars að húsi, er stóð örlítið ofar og vestar. Það hús hét Hraunprýði.“
Húsin tvö í eyðunni nr. 23 við Standgötu, millum húsa nr. 21 og 25, nefndust í byrjun síðustu aldar Vestur- og Austur-Brúarhraun.
Heimildir:
-Fjarðarpósturinn, 2. tbl. 01.02.1987, Þá voru ferðir á 10 mínútna fresti, rætt við athafnamanninn Jón Magnússon í Skuld, bls. 45-53.
-Þjóðviljinn 26. apríl 1960, Kotin og þurrkvíin – Gísli Sigurðsson, bls. 6-7 og 10.
-Hamar, 2. tbl. 30.01.1956, Stutt ferð en tafsöm, Sigurjón Gunnarsson, bls. 3.


















