Reiðskarð – Stapagata – Grímshóll – Seltjörn – Háibjalli
Gengið var upp Reiðskarð austast á Vogastapa með útsýni yfir Hólmabúð, Brekku, Stapabúð og Vogavík. Rifjuð var upp sagan af huldukonunni með kúna er hvarf sjónum vegfaranda efst í þokukenndu skarðinu.
Stapagötunni var fylgt að Grímshól, en þar segir þjóðsagan að vermaður hafi gengið í hólinn og róið með hólsbónda, huldumanni. Gamla Grindavíkurveginum var fylgt til suðurs niður Selbrekkur að Selvatni (Seltjörn), kíkt á Njarðavíkursel og þaðan gengið til norðausturs með Háabjalla.
Ævagömul leið liggur um Reiðskarð yfir Vogastapa og Grímshól, Stapagatan. Neðan við skarðið er hlaðið undir nýjasta vegstæðið, en gamla leiðin, eða öllu heldur gömlu leiðirnar, lágu í hlykkjum efst í því. Í þeirri nýrri hafa myndast háir ruðningar beggja vegna.
Eftirfarandi saga segir af Jóni Jónssyni frá Landakoti á Vatnsleysuströnd og Þorbjörgu Ásbjarnardóttur úr Innri-Njarðvík er þau voru að draga sig saman. Fóru þau oft fundaferðir hvort til annars. Eitt sinn, í síðari hluta ágústmánaðar, skrapp Þorbjörg að Landkoti. Tekið var að bregða birtu þegar hún kom að Vogastapa á heimleið. Þar er farið upp Stapann um svokallað Reiðskarð. Var það alltaf farið, áður en akvegurinn var lagður nokkru austar í Stapanum. Skarðið var mjög bratt og sendið, og teymdu vegfarendur oft reiðhesta sína upp úr því og niður úr.
Þegar Þorbjörg var að leggja á skarðið, verður henni það fyrir að óska sér, að hún hefði nú samfylgd yfir Stapann. Það er rösk fimm kílómetra leið og þótti óhreint í skuggsýnu, og nú var farið að skyggja.
Þegar upp úr skarðinu kom, gerðist gatan mjög niðurgrafin, svo að götubrúnirnar tóku meðalmanni í öxl. Þar var og mikil bugða á henni. Ekkert sá Þorbjörg til konunnar, þegar hún kom upp á skarðsbrúnina. Gerir hún sér þá í hugarlund, að hún sé niðri í götuskorningnum hinum megin við bugðuna, því henni datt ekki enn í hug, að þetta væri allt með felldu.
Hún steig nú á bak hestinum og hyggst ná konunni handan við bugðuna. En þegar þangað er komið, sér hún enga lifandi veru. Dettur henni þá í hug að konan hafi vikið út af götunni og haldið niður að bæ, sem hét Brekka og stóð norðvestan undir Stapanum. Snýr Þorbjörg hestinum á leið þangað og að stíg, sem lá niður að Brekku og kallaður var Kvennagönguskarð. En þar var ekkert kvikt að sjá. Þá fyrst rann það upp fyrir henni, að þessar verur gátu ekki verið af okkar heimi, enda lá það nú í augum uppi, að ef konan hefði verið mennsk, myndi hún hafa gengið götuna, sem lá undir Stapanum heim að Brekku, því það er venjuleg leið, í stað þess að taka á sig krók upp í Stapann og klöngrast þaðan ógreiðari veg niður að bænum.
Setti beyg að Þorbjörgu, sló hún í hestinn og reið í einum spretti heim í Innri Njarðvík.
Gengið var yfir að Brekkuskarði og litið yfir bæjarstæðið undir Stapanum sem og Hólmabúðir. Sjá má móta fyrir minjum í hólmanum. Austan við hann hvílir gamall innrásarprammi, sem siglt hefur verið þar í strand. Lágsjávað var svo leirurnar í Vogavíkinni iðuðu af fugli.
Vogastapi (80m) hét fyrrum Kvíguvogabjarg og Kvíguvogastapi og er stundum kallaður Stapi. Hann er á milli Voga og Njarðvíkur og þverhníptur í sjó fram. Uppi á Grímshóli, hæsta stað Stapans, er útsýnisskífa og útsýni gott á góðum degi.
Reykjanesbraut liggur um undirhlíðar Stapans og enn þá verður næmt fólk, sem þar er á ferðinni, vart við eitthvað óhreint. Fyrrum fóru sumir ferðamenn sér að voða á leiðinni og gengu jafnvel fyrir björg. Eftir að bílvegurinn var lagður hafa sprottið upp alls konar draugasögur, s.s. að farþegi hafi skyndilega verið kominn í aftursætið eða gangandi vegfarandi hafi verið tekinn með á Stapanum og hann skyndilega horfið úr bílunum. Margir telja sig hafa séð þar mann á ferðinni með höfuðið undir hendinni. (Atburðir á Stapa eftir Jón Dan).
Fiskislóðin Gullskista er undir Stapanum. Nafn hennar varð til vegna mikillar og góðrar veiði á þessum miðum. Til er þjóðsaga, sem segir frá göngum undir Reykjanes frá Gullkistu til Grindavíkur, þar sem fiskur gekk greitt á milli.
Nokkrar verstöðvar voru undir stapanum á dögum árabátaútgerðarinnar en ummerki þeirra eru óðum að hverfa. Meðal þessara verstöðva var Hólmabúðin, sem kennd var við hólmann skammt undan landi. Haraldur Böðvarsson hafði aðstöðu í þessum hólma, þegar hann byrjaði úrgerð sína á Suðurnesjum. Síðar flutti hann starfsemina til Sandgerðis og endanlega til Akranes, þar sem fyrirtækið er enn í dag.
Stapagötunni var fylgt áfram upp á Grímshól og fjallamið tekin af útsýnisskífunni. Á hólnum hefur einhvern tímann verið tóft og mótar enn fyrir henni. Gerði hefur og verið við götuna sunnan í hólnum, en búið er að fjarlægja mesta af grjótinu. Sennilega hefur hluti þess verið notað utan um bragga, sem staðið hefur suðvestan við hólinn. Hleðslan sést enn.
Þess er og getið um Norðlinga að þá er þeir fóru suður í verið gerði byl á þá nálægt Grímshóli á Stapanum. Einn þeirra var heldur hjárænulegur og dróst hann aftur úr hjá hólnum og hvarf félögum sínum. En er hann var einn orðinn kom maður að honum og bað hann róa hjá sér.
Norðlingurinn varð feginn boðinu og fór með hinum ókunna manni og reri hjá honum um vertíðina. En um lokin þegar Norðlendingar fóru heim fundu þeir hann í sama stað á leið sinni og þeir skildu áður við hann. Var hann þar þá með færur sínar og hafði ekki leyst þær upp því ekki hafði hann lagt sér neitt til um vertíðina. Landar hans gjörðu nú heldur en ekki gys að honum að hann skyldi hafa setið þarna alla vertíðina og spurðu hvar hann hefði verið. Hann sagðist hafa róið eins og þeir og ef til vill ei hafa aflað minna. Tekur hann þá upp hjá sér sjóvettling einn fullan af peningum og segir að þarna sé hluturinn sinn. Blæddi þeim þá mjög í augum er þeir sjá það og sýndist aflinn ei alllítill. Fóru þeir síðan allir saman norður. Maðurinn reri suður margar vertíðir eftir þetta, og fór æ á sömu leið og fyrsta skipti. En aldrei sagði hann neitt greinilega hvar hann var og vissu menn það eitt um hann að hann reri einhvers staðar þar sem hann aflaði vel.
Gengið var suður Njarðvíkurheiði, yfir gamla Keflavíkurveginn. Bandaríski herinn byggði fullkomið sjúkrahús í suðurhlíðum Stapans í síðari heimsstyrjöldinni en hann brann skömmu síðar. Herinn byggði og rak líka mikilvæga fjarskiptastöð á Stapanum og tóttir þess húss standa enn þá. Sjá má þær í suðvestri. Uppi á efstu brúnum Stapans byggðu þeir vígi, þar sem þeir gátu fylgzt vel með umferð á Faxaflóa sunnanverðum.
Á heiðinni mátti m.a. sjá hlaðið byrgi og skjól. Neðar eru trölllistaverk ofan við Reykjanesbæjarskiltið.
Skammt vestan þess liggur gamli (elsti) Grindavíkurvegurinn niður heiðina, hér nefndur Grindavíkurgata, því hann hefur verið lítið annað en hestagata. Liggur hún svo til þráðbein til suðurs, liðast niður Selbrekkur (Sólbrekkur) og vel má sjá stefnu hans í beina línu í beygjuna þar sem nýi og gamli Grindavíkurvegurinn komu saman norðaustan við Seltjörn (Selvatn). Suðaustan við vatnið, undir hraunbrúninni, eru tóftir Njarðvíkursels (Innri) og stekkur og gerði nær vatninu.
Gengið var norðaustur að Bjalla og þar undir Háabjalla. Bjallinn er skýrt dæmi um misgengi á vestanverðu rekasprungubeltinu, sem gengur NA og SV um Ísland. Skammt norðar, norðan núverandi Reykjanesbrautar, sést vel hvar gömul reiðgata, greinilega mikið farin, liggur upp á Stapann og fer undir gamla Keflavíkurveginn skammt ofar. Svipuð ásýnd vegar og efst í Reiðskarðinu.
Veður var frábært – sól og stilla. Gangan tók 3 klst og 33 mín.
Heimildir:
-nat.is
-Reiðskarð: (Ritað eftir frásögn Ásbjörns Ó. Jónssonar 1961)
-Grímshóll: (Íslenskar þjóðsögur og ævintýri I: 14)