Kolhólasel

Gengið var suður Rauðhólsselsstíg frá Vatnaborginni norðvestan við Gráhellu vestan Afstapahrauns. Þegar komið var fyrir Hraunsnefið var stefnan tekin til suðsuðvesturs, í áttina að Kolhólaseli.

Keilir

Keilir.

Gamalli götu var fylgt austan Einiberjahóls á Efri-Heiði. Eftir u.þ.b. klukkustundar gang var komið að Kolhólagjá. Skammt sunnan (ofan) við gjána eru hólar með grasi grónum hliðum. Norðaustan undir þeim næst efsta í suðvestri er Kolhólaselið. Tóftirnar hafa verið kunnar, en ekki var vitað um sel eða örnefni því tengdu á þessum slóðum. Landið er í Vatnsleysulandi svo líklegt má telja að selstaðan hafi tilheyrt henni. Kolhóll er allnokkru ofar og þá Hrosshóll áður en komið er upp að Keili.

Vatnaborg

Vatnaborg.

Vatnaborgin er skammt fyrir ofan Reykjanesbrautina. Hún er 10-12 m í þvermál og innan í grjóthringnum eru hleðslur. Líklega hefur verið stekkur þarna eftir að borgin sjálf lagðist af enda geta heimildir um Vatnsbergsrétt og Vatnsbergsstekk og einnig Vatnsberg og Vatnaberg. Líklega er örnefnið Vatnaborg það eina rétta yfir hólinn og nafnið jafnframt tengt vatnsstæðinu, sem þarna er skammt austar.

Kolhólasel

Kolhólasel.

Einiberjahóll er hornmark jarðanna Kálfatjarnar, Flekkuvíkur og Vatnsleysu. Litlu ofan við hólinn er Grindavíkurgjáin. Ofan hennar tekur við mosalægð en síðan hækkar landið í átt til Keilis. Á þessu svæði er Vatnsleysuheiðin kölluð Efri-Heiði. Þegar komið var yfir Kolhólagjá taka við nokkuð áberandi klapparásar með djúpum grasbollum milli þeirra. Sunnan við ásana er kúptur og hár hóll og norðaustan undir honum er fyrrnefndar seltóftir, í stórri gróinni lægð. Reyndar getur verið nokkrum erfiðleikum háð að finna minjarnar.

Kolhólastígur

Kolhólastígur.

Fimm greinilegar, þrískiptar og afmarkaðar tóftir eru undir brekkunni. Sagnir munu vera til um kolagrafir þarna, en hólarnir á þessu svæði munu heita Kolhólar og grasrindirnar Kolhólalágar. Ein tóftin, tvískipt, er austan undir brekkunni. Önnur tví eða þrískipt tóft er norðan undir henni og austan hennar er greinilegur stekkur. Húsaskipan eru dæmigerð fyrir selshús á Reykjanesskaganum. Í langflestum seljanna 140, sem finna má á skaganum, eru þrjár vistarverur; búr og svefnaðstaða annars vegar og eldhús hins vegar. Sameiginlegur inngangur er í hinar fyrrnefndu og sérinngangur í eldhúsið. Hefur það verið gert af eðlilegum ástæðum.

Kolholasel-21

Kolhólasel – uppdráttur ÓSÁ.

Ef ekki hefur verið kolasel þarna má vel ímynda sér selráðskonuna, sem hafði öll völd í selinu yfir sumarið, hagræða sér í vistarverunni að loknu dagsverki. Hún hefur tekið daginn snemma, smalinn verið kominn með ærnar úr nátthaganum og hún fært hverja á fætur aðra í kvína til mjalta. Ef einhverja vantaði að morgni var alveg eins líklegt að hann fengi að “eta skömm sína”, þ.e. matarskammtur hans var skorinn við trog þann daginn. Það hefur verið erfitt að vera smali í seli, en samt minnast flestir, sem það voru, þeirra daga með söknuði. Smalinn hefur verið látinn aðstoða við að færa frá og gæta þess vandlega að ekki færi dropi til spillis. Að mjöltum loknum hefur selráðskonan hafist handa við mjólkurvinnsluna og látið smalann hamast við strokkinn. Hleypa hefur þurft undan, skekja smérskökuna, grysja skyrið og búa um allt vel og vandlega í búrinu svo hægt hafi verið að afhenda húsbóndanum afurðirnar skammlaust er hann kæmi í sína reglulegu vitjun til mjólkumatsins og afhenti fiskskammtinn til selsins. Áður en hann kvaddi kyssti hann selráðskonuna að skilnaði, en stundum var sagt að “útilegumenn” eða jafnvel “huldumenn” hefðu komist í þær bæru þær ávöxt eftir selsveruna.

Kolhólasel

Tóft í Kolhólaseli.

Svæðið í kringum Kolhólaselið var gaumgæft og kannað hvort þar kynnu að leynast fleiri minjar, en svo reyndist ekki vera. Fallin varða er á hól norðvestan við selið, en selsstígurinn liggur austan við hana. Erfitt var að finna hugsanlegt vatnsstæði nálægt selinu, en tveir staðir komu til greina, þ.e. klapparholtin umhverfis eða sjálf Kolhólagjáin.
Drjúgan veg frá Kolhólum, eða um miðja vegu að Keili, er Stóri-Kolhóll eða Kolhóll, eins og hann er nefndur í landamerkjalýsingum Kálfatjarnar og Vatnsleysu og liggur Þórustaðastígurinn fast við hann að vestanverðu. Ofan í miðjan hólinn er djúp og mikil skál og dregur hóllinn líklega nafn sitt af því að í skálinni hafi fyrrum verið gert til kola. Fyrir ofan Kolhól er svo Keilisvarðan, en hún stendur við Þórustaðastíginn.

Strandarheiði

Strandarheiði – vörðukort (ÁH).

Áberandi gata liggur upp og niður frá Selinu. Henni var fylgt til norðurs. Liggur hún niður heiðina nokkuð austan við Þórustaðastíg, en nær samhliða. Þegar komið var yfir Grindavíkurgjá beygði gatan meir til austurs, með stefnu á Djúpadal við Brennihóla. Á sléttlendinu sunnan við Djúpadal virðast hafa verið vatnsstæði, en þaðan er gatan óljósari til norðurs.
Þegar komið var norður fyri Brennihóla mátti sjá hleðslur á einum klapparhólnum. Ein þeirra var greinilega byrgi refskyttu. Frá því var auðvelt að fylgjast með tófuferðum ofar í heiðinni, ekki síst við möguleg vatnsstæði við selsstíginn, ofan við Djúpudali.
Þegar FERLIR fór upp í Kolhólasel frá Vatnsleysuströnd árið 2012, eftir níu ára fjarveru, var m.a. ætlunin að skoða hvort þar kynni að vera eitthvað “nýtt” að finna, þ.e. eitthvað sem hafði yfirsést í fyrri ferð. Enda kom í ljós að svo var.

Kolhólasel

Í Kohólaseli.

Tveir mosavaxnir stekkir og garður komu í ljós norðan við tóftirnar, sem fyrir voru. Þetta segir lærðum og reyndum einungis eitt; það er aldrei of lengi leitað á svæðum sem þarf að fornleifaskrá. Sá tími, sem nú er veittur til slíkra verka, er margsannanlega allt of skammur og því hætta á að merkilegar minjar glatist beinlínis vegna þessa.
Að þessu sinni var haldið áfram upp í Kolhól og han skoðaður nánar. Greinilega er að þarna er um örvarp að ræða en ekki fornleif. Örvarp er svo nefnt þegar náttúrulegum aðstæðum er gefið örnefni er ætla megi að kynni að eiga uppruna sinn í fornleifastað. Hér er um samlíkingu að ræða, líkt og Brunnhóll neðan við Lónakotssel. Þar er um að ræða stórt jarðfall er líkist stækkaðri mynd af brunni.
Gangan tók 2 klst og 2 mín. Frábært veður. (Sjá meira undir Kolhólaselsstígur).

Heimild m.a.:
Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir- 1995.

Kolhólasel

Kolhólaselið.