Borgarhraunsborg – Borgarhraunsrétt – Kastið
Ætlunin var að ganga um Borgarhraun og upp á Kastið og skoða þar brak úr B-24 sprengiflugvél er fórst þar þann 3. maí árið 1943.
Á leiðinni þangað var komið við í kapellunni á Hraunssandi ofan við Hrólfsvík. Brak og drasl er yfir tóftunum, en við þær stendur einmana staur með merki Þjóðminjasafnisins, sem segir að þarna séu friðlýstar fornminjar einhvers staðar undir. Sá, sem myndi reyna að fá því framgegnt að minjar þessar yrðu gerðar sýnilegar vegfarendum um eina fallegustu þjóðleið landsins, fengi gott klapp á bakið frá FERLIR og eflaust mörgum fleirum. Undir sandhrúgunni eru minjar kapellu frá kaþólskum sið. Dr. Kristján Eldjárn og fleiri grófu í tóftina á sínum tíma, fundu þar margt hluta, en mokuðu síðan yfir hana aftur. Kristján skrifaði merka ritgerð um uppgröftinn og síðan aðra ári seinna þar sem hann var orðinn nokkuð sannfærður um að þarna hefði verið um forna kapellu að ræða. Árið 1602 fórst Skálholtssúðin í Hrólfsvíkinni og margt ungra manna frá Skálholti með henni. Talið er að þeir séu grafnir í Kapelluláginni neðan við kapelluna. Þessum stað þarf að sýna meiri sóma, en verið hefur hingað til. Járnarusl er þarna um allt og lítil virðing sýnd því sem sandurinn hefur að geyma. Sagt er að sá sé vitur sem gerir sér grein fyrir hversu lítið hann veit í raun og veru. En sá, sem gerir sér grein fyrir með vissu hvað hið ósýnilega hylur, er ríkur. Grindvíkingar geta því, skv. þeim mælikvarða, talist mun ríkari en þeir gera sér grein fyrir.
Í Hrólfsvíkinni er hægt að finna fallegt djúpberg á kafla og skammt austar er stórbrotið útsýni yfir Ægissand og Festisfjall.
Komið var við í Móklettum og skoðað ártal þar á landamerkjum Hrauns og Ísólfsskála. Frá merki þessu er sagt frá í örnefnaskrám, en fáir munu vita hvar það er í klettunum. Við Mókletta gerðust atburðir, sem Dagbjartur Einarsson kann einn að segja frá.
Haldið var framhjá Hatti (sem sumir kalla Grettistak) og að Drykkjarsteini. Allar skálar hans voru tómar að þessu sinni, sem verður að teljast til tíðinda því menn stóluðu jafnan á vatn á þessum stað á löngum ferðum sínum milli Grindavíkur og Krýsuvíkur. Vatnsskorturinn er talinn merki um mikið hlýindasumar.
Gengið var að Borgarhraunsrétt með viðkomu í Viðeyjarborg, forni fjárborg. Gamla gatan að Siglubergshálsi liggur vestan við Drykkjarsteinsdal. Borgin er allstór og gróið er í henni og í kringum hana. Hún er utan í hól og hallar til suðausturs. Í henni hefur verið hlaðin kví eða kró. Í borginni austanverðri má sjá hversu þykkir veggir hennar hafa verið, eða faðmur. Þarna hefur verið mikið mannvirki á meðan var. Talið er að borg þessi hafi verið frá Viðeyjarklaustri, sem hafði fé á þessum slóðum líkt og t.d. í Borgarkoti á Vatnsleysuströnd og víðar.
Þegar gengið var áleiðis norður upp á hæðina norðan borgarinnar gerðist kjói allnærgöngull. Gengið var yfir að Borgarhraunsrétt, en hún er fallega hlaðin undir háum apalhraunbakka. Norðan hennar er hlaðið lítið skjól. Í rauninni hefur réttin oft verið nefnd Ísólfsskálarétt, en staðkunnugir hafa viljað halda sig við fyrrnefnda nafnið.
Gengið var áfram til norðurs, áleiðis að Einbúa. Sunnan hans er áberandi gata, greinilega mjög forn. Kastað hefur verið úr götunni á kafla. Sunnan hennar hefur verið hlaðið gerði og má enn sjá merki þess. Norðan gerðisins er hlaðið skjól, einnig greinilega mjög gamalt. Þarna gæti verið um að ræða hluta götu er kom upp frá Mosadal, um Fagradal og áfram áleiðis að Ísólfsskála, svonefndan Sandakraveg, sem lengi hefur verið merktur inn á landabréf sem slíkur. Ummerki eftir götuna má m.a. sjá í hrauninu sunnan við Kastið. Þar liðast hún um mosahraunið á kafla. Greinilegt var að þessi leið hefur ekki verið farin lengi. Selskál er undir hlíðum Fagradalsfjalls, en í henni er ekki að sjá nein ummerki eftir selstöðu. Í Skálinni má vel sjá hversu landrofið hefur orðið mikið frá því að svæðið var svo til allt gróið svo til upp á fjallskraga – einstaka rofabarð á stangli.
Gengið var vestur fyrir Kastið og síðan haldið á fjallið. Innst á því, upp undir hlíðum Fagradalsfjalls, eru hlutar nefndrar flugvélar á víð og dreif. Margir eru í fjallshlíðinni, s.s. hluti hjólastells o.fl. Einhver athöfn virðist hafa farið fram við hjólastellið því skrælnaðar rósir trjónuðu upp úr því. Traðk var í kring. Þarna má sjá ýmsa vélarhluta. Einnig hvar álið hefur bráðnað utan um steina úr hlíðinni. Um borð í vel þessari var m.a. hershöfðinginn Frank Andrews, sem Andrewsbíó o.fl. hefur verið nefnt eftir á Keflavíkurflugvelli. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum. Ljósmynd var tekin á vettvangi skömmu eftir slysið. Um var að ræða B-24 sprengjuvél.
Gengið var niður Kastið að sunnanverðu og að skotbyrgi refaskyttu suðvestan við Einbúa. Þaðan mun skyttan hafa haft gott útsýni með hraunkantinum og hraunbreiðunni vestan þess. Skammt sunnar er forn stekkur. Þrátt fyrir leit fundust ekki að þessu sinni nein önnur ummerki eftir selsstöðu á þessum stað, en hraunbakkinn er þarna mjög hár og vel gróinn. Ef um mjög gamla selstöðu hefur verið að ræða gæti reynst erfitt að finna önnur ummerki, en þó er það ekki útilokað. FERLIR hefur leitað þarna þrisvar sinnum áður, en ekki fundið.
Óvenju mikið var um brönugras í grasbollunum ásamt öðrum blómagróðri. Svo virðist sem hann sé að koma upp í auknum mæli á þessu svæði eftir að ágangur búfjár varð ekki eins mikil og áður var (með fullri virðingu fyrir sauðkindinni). Brönugras er stundum nefnt Hjónagras, elskugras, Friggjargas, graðrót og vinargras. Í Hálfdánarsögu Brönufóstra er sagt frá því að tröllkonan Brana gaf fóstra sínum grösin til að vekja ástir konungsdóttur og er nafnið brönugras dregið af því.
Þegar komið var aftur að kjóanum lét hann öllum illum látum. Mátti varla á milli sjá hvor hefði betur, jói eða kjói. Veittist hann að göngufólki, settist og reyndi að vekja athygli þess með ýmsu móti, en allt kom fyrir ekki. Árvökul og þjálfuð augu FERLIRsfélaga komu fljótlega auga á kjóaegg þarna á grasi vöxnum mosabakka. Fljótlega komu fleiri kjóar þar að. Sást vel munurinn á kven- og karlfuglinum (kvenfuglinn ljósari á bringuna).
Gengið var yfir tiltölulega slétt hraunið að upphafsstað.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 3 klst og 12 mín.