Slaga

Í Morgunblaðinu 1991 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur m.a. um Fagradalsfjall og Slögu ofan Ísólfsskála.

Slaga

Slaga að sunnanverðu.

“Næstkomandi sunnudag verður farinn þriðji áfangi raðgöngu Ferðafélagsins um gosbeltið suðvestanlands. Brottför verður frá Umferðarmiðstöðinni, austanmegin, kl. 10.30 og 13. Hér á eftir er stiklað á stóru í jarðfræði þess svæðis sem farið verður um. Sé gengið frá Bláa lóninu austur yfir, má fara hvort heldur vill norðan Svartengisfells eða suður yfir Selháls og austur eftir hraununum þar fyrir sunnan og austan.
Hvor leiðin sem farin er verður gengið þvert yfir gígaröðina, sem Slaga er, þar gaus fyrir 2400 árum, en þá varð Þórkötlustaðanes til og Grindavík skapaðist. Gígaröð þessi er um 8 km löng og á þeirri sprungugrein hefur áður gosið.
Sé gengið norðan fellsins, er vert að veita því athygli hvað gróður breytist þegar kemur austur fyrir gilið, sem er upp af samkomustaðnum gamla. Vestan gilsins er fellið gróið upp eftir hlíðinni og þar grænkar fyrr á vorin. Þetta stafar af jarðhita og gilið er tengt sprungu og ummyndun af jarðhita er þar mikil. Á háfellinu er myndarlegur gígur og frá honum hafa hraun runnið og þekja fjallið.

Vatnsheiði

Vatnsstæðið í Vatnsheiði.

Austan við Sundhnúkahraunið tekur Vatnsheiði við. Það er hraunskjöldur (dyngja) eða hraunskildir öllu heldur, því gosopin eru fleiri en eitt. Nyrsti skjöldurinn er þó þeirra mestur en hraunið er pikrít, mjög ólívínauðugt berg, sem sums staðar er nærri grænt af ólívínkristöllum, en þeir eru mjög dreifðir um bergið. Vatnsheiði er eldri en sprunguhraunin í kring og hverfur því hraunið úr dyngjunum undir þau. Dyngjuhraunin hafa verið þunnfljótandi, heit og talið er að þau komi djúpt úr jörðu, jafnvel neðan úr möttli.

Fagradalsfjall

Gígurinn í Fagradalsdfjalli.

Fagradalsfjall er stapi og gígurinn er á norðurhorni þess og er all myndarlegur. Hraunborð er svo ofan á fjallinu og hallar borðinu til suðurs. Er talið líklegt að jökull hafi haldið að á báðar hliðar þegar komið var á lokastig gossins og þannig markað hrauninu rás svo úr verði þríhyrningur. Syðst á fjallinu eru yngri (nútíma) gígar og hraun í og við lítinn sigdal (snoturt umhverfi, góður hvíldarstaður).

Slaga

Slaga – berggangur.

Slaga. Sunnanfrá séð er Slaga mest áhugaverð. Neðst ofan við skriðurnar koma fram gráir stuðlabergshamrar (grágrýti). Að ofan eru þeir rispaðir af jökli (sést ekki nema upp sé klifrað, varúð, grjóthrun getur átt sér stað). Ofan á þessu kemur svört brotabergskennd gosmyndun, sem þó er yngri en jökull sá er heflaði grágrýtið.
Aðrennslisæð þessarar gosmyndunar má sjá norðaustan til í brúninni, ljósgrá brík, gangur, skerst þar upp í brún og fleiri gangar, þunnir, eru þarna. Á síðjökultíma hefur sjór fallið upp að fjallinu. Hraun hafa þarna og nokkuð austar eftir skapað væna sneið af nýju landi.” – Höfundur er jarðfræðingur.

Heimild:
-Morgunblaðið, 98. tbl. 03.05.1991, Slaga, Jón Jónsson, bls. 25.

Slaga

Slaga.