Bakki – Borgarkot

Bakki

Markmið FERLIRsferða hefur verið að leita að, skynja og finna minjar og sögulega eða safaríka staði. Þrátt fyrir það hefur engin ein ferð verið nákvæmlega eins og önnur.

Borgarkot

Skeljafjara við Borgarkot.

Nú átti að gera tilraun til að nýta fyrirliggjandi þekkingu á afmörkuðum sviðum og reyna að finna einstakar blómategundir í móa og á melum og kíkja á það sem fjaran er að ala af sér.
Gengið var til austurs frá Bakka, áleiðis yfir að Borgarkoti. Við fyrsta fet stóð jakobsfífill upp úr lyngi umvafinn smjörvíði. Þetta lofaði góðu. Þarn avar og blóðberg, lyng og tröllasúra innan um gras og lágvaxinn grávíði. Friggjargras, hvítmura, kornsúra, gulmara og lyfjagras, tágamura, geldingahnappur og týsfjóla. Í rauninni var alltaf eitthvað að sjá, hvert sem litið var. Svæðið var greinilega miklu mun fjölbreyttara en reiknað hafði verið með. Þar fyrir utan hýsti það allar hinar algengu blómategundir, s.s. sóleyjar, fífla, fífu, brönugras, gullkoll, umfeðmingsgras og annað það er sést svo til alls staðar á Reykjanesskaganum.

Borgarkot

Borgarkot – refagildra.

Þegar komið var niður í fjöru greip minkur, högni eða læða, alla athyglina. Þetta var brún, þvengmjótt, kvikyndi. Hann kom í humáttina ekki langt frá, staðnæmdist af og til og leit í kringum sig. Þá snéri hann allt í einu við og skellti sér út í þangsjóinn. Þar fyrir utan voru nokkrar kollur með unga. Honum skaut upp af og til, en loks hvarf hann alveg sjónum viðstaddra. Fuglarnir höfðu greinilega orðið hans varir því þeir syntu með unga sína lengra frá landi. Á landklöppunum speglaðist fagurgrænn mosaþarinn í pollunum. Meistaraleg litasamsetning hjá meistaranum.

Borgarkot

Breiðufit – girðingasteinar ofan Borgarkots.

Þang og þari, skeljar, kuðungar, krabbar og annað, sem fjaran geymir var svo til við hvert fótmál. Hangert flotholt úr stórum vikursteini, koddi, fótbolti og hvalbein – höfuðkúpa af háhyrningi. Af nógu var að taka. Í fjörunni þarf greinilega engum að láta sér leiðast – alltaf ber eitthvað nýtt fyrir augu, sama hvert litið er. Sjórinn var ládauður, en sjávarloftið er alltaf jafn svalandi.
Gengið var yfir að tóftum Borgarkots, skoðaður stóri krossgarðurinn, sem minkaveiðimenn hafa nær lagt við jörðu, jarðlægir garðar, hlaðin refagildra og vatnsstæði. Lóan lét vel í sér heyra sem og þrællinn hennar. Tjaldur tipplaði á nálægum hólum og mikið var af sólskríkju á svæðinu. Gengið var vestur með stórgripagirðingunni og einn steinninn í henni skoðaður. Göt höfðu verið höggvin eða boruð í hvern stein og trétappar reknir í þau. Tapparnir stóðu síðan út úr steinunum og á þá var hengdur þráður til að varna því að stórgripir færu út fyrir það svæði, sem þeim var ætlað. Sjá nánari umfjöllun HÉR.
Frábært veður – hiti og bjart. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær.