Básendar I

Básendar

Gengið var um Básenda frá Stafnesi í fylgd Magnúsar frá Bala. Farið var um gömlu steinbrúna austan Básendahóls á leið að gamla brunninum austan gömlu búðanna. Brunnurinn er greinilegur. Efstu hleðslur sjást, en að öðru leyti er hann fullur af sandi.

Básendar

Básendar – brunnur.

Í fornleifaskrá fyrir Básenda er brunnurinn sagður horfinn í sandinn. En raunin virðist önnur. Þá var gamla hústóttin á Básendum skoðuð, en bærinn, ásamt öðrum húsum, s.s. búðinni, lýsisbræðslunni, fjósinu og hlöðunni, eyðilögðust í Básendaflóðinu árið 1799. Verslunarhúsið var flutt í spýtum til Keflavíkur. Sjá má grunn hússins á Básendum.

Mesta flóð sem sögur fara af á Suðurnesjum og raunar landinu öllu er svokallað Básendaflóð, heitið eftir Básendum. Það er að öllum líkindum flóð sem aðeins gerist með mjög margra alda millibili.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Í Suðurnesjaannál, Rauðskinnu hinni nýrri, er svohljóðandi lýsing:
„1799. Eftir nýár, aðfaranótt 9. janúar, gjörði ofsalegt sunnanveður af hafútsuðri, höfðu þó komið önnur lík, en eigi jafnmikil. Fylgdi veðri þessu mikið regn, þrumur og leiptranir í stórstraum og var himinninn allur ógurlegur að líta. Það með fylgdi óskaplegt stórbrim og hafrót með miklum fallþunga og ægilegri flóðbylgju. Urðu skemmdir miklar hvarvetna…. Í Grindavík eyðulögðust tún á tveim bæjum, og önnur stórskemmdust, fimm hjáleigur spilltust, sex skip brotnuðu, átta manns meiddust og hundruð fjár fórust….

Básendar

Básendar – bærinn.

Básendakaupstaðurinn hjá Stafnesi eyðilagðist alveg, því að öll höndlunarhús braut sjór og veður, svo að þar stóð ekkert eftir og rótaðist grundvöllurinn sjálfur, enda gekk sjór 164 faðma upp fyrir efstu hús kaupstaðarins. Fórst einn maður, en Hannes kaupmaður bjargaðist í dauðans angist með konu sína og börn hálfnakin heim að Loddu, hjáleigu frá Stafnesi. (Lodda er tóft austan við Stafnes, en fyrirhugað er að rissa Stafnessvæðið upp við tækifæri). Fiskigarðar og túngarðar á Nesinu sópuðust heim á tún, sums staðar tóku af skipsuppsátur og brunna og átta skip brotnuðu. Tveir bátar fuku í Njarðvíkursókn og fundust eigi síðan og einn brotnaði, 4 bátar í Útskálasókn. Miklir skaðar á Vatnsleysuströnd og Innnesjum og vestur um allt land, sem menn vissu ekki dæmi til eins stórkostlegt, um allt land á einni nóttu“.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Neðan tóttarinnar að norðanverðu er Básendavörin og má enn sjá för eftir kjalför bátanna á klöppunum. Austan tóttarinnar er gamla réttin og vestan hennar eru kengir, sem bátar í víkinni voru festir við allt frá því á 16. öld.

Básendar

Letursteinn við Básenda.

Ef vel er gáð má sjá einar 5 til 7 kengi með víkinni og á skerjum, en í allt eru þeir 9 talsins. Draughóll með dysinni upp á var skoðaður og síðan gengin gamla Hrossagatan yfir að Þórshöfn. Á leiðinni lýsti Magnús miðum og kennileitum, s.s. Svartakletti með ströndinni, en hann var notaður sem mið í Keili, Mjóuvörðu efst á Miðsnesheiðinni, en hún var notuð sem sundvarða o.fl. Á leiðinni fann göngufólk m.a. vínleirkúta í fjörunni og var tappinn enn í sumum þeirra.
Leitað var að áletruðu Hallgrímshellunni á holti norðan Þórshafnar og síðan litið á leturklöppina ofan hennar. Á henni má sjá ýmis ártöl og fangamörk. Í bakaleiðinni var komið við í Gálgum, gömlum aftökustað, sem heimildir eru
til um.
Gangan tók 2 klst og 2 mín. Gengið var í ágætu veðri. Rigningin beið uns göngunni var lokið. Til fróðleiks er gaman að geta þess að FERLIR hefur, þrátt fyrir reglulegar ferðir, einungis tvisvar lent í rigningu á ferðum sínum.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.