Fuglavík

Í Árbók Hins íslenska Fornleifafélags (1903), fyrir nálægt einni öld síðan, segir Brynjúlfur Jónsson m.a. frá letursteini í Fuglavík (bls. 38). Brynjúlfur frá Minna-Núpi ferðaðist um Reykjanesskagann fyrir og um aldamótin 1900 og skráði og skoðaði það sem teljast mátti til fornleifa. Þessi steinn var ein þeirra.

Fuglavík

Fuglavíkursteinninn í stéttinni.

Í 17. lið upptalningar hans segir m.a.: “Í Fuglavík er brunnur með fersku vatni, og er það fágætt á Suðurnesjum, að vatn hafi ekki sjókeim, eða smakki af seltu. Brunnurinn var áður á hlaðinu, en er nú innanbæjar, síðan timburhús var byggt og sett framar en bærinn var áður. Brunninum fylgir sú sögn, að útlendur maður, Pípin að nafni, hafi grafið hann, og höggvið ártalið á hellustein, sem hann setti hjá brunninum. Steinninn er nú í bæjarstéttinni, og sér enn gjörla á honum ártalið 1538.”
FERLIR hafði samband við Sigurður Eiríksson í Norðurkoti. Hann sagðist ekki hafa heyrt um stein þennan en myndi setja sig í samband við nágranna sinn og húsráðanda í Fuglavík, Jónínu Bergmann.

Fuglavík

Fuglavíkursteinninn.

Jónína hafði ekki heyrt um steininn, en var reiðubúin til að skyggnast eftir honum. Henni fannst þetta mjög áhugavert. Eftir þrjár vikur hafði Sigurður samband og kvað Jónínu hafa fundið steininn.
FERLIR fór umsvifalaust á staðinn. Jónína sagðist hafa leitað að steininum af og til. Hún hefði sópað stéttina norðvestan við húsið og jafnvel reynt að moka ofan af einhverjum steinanna. En þegar hún hafi komið út þennan morgun hafi hún rekið tá í ójöfnu í gömlu bæjarstéttinni. Reyndist þar undir vera steinn. Jónína sópaði af steininum og viti menn – í ljós kom áletrun; ártal. Við nánari skoðun sáust vel tölustafirnir 158, en aftasti tölustafurinn var óljós. Hann gæti þess vegna verið 1 eða 4 – og allt þar á milli. Þarna var þó að öllum líkindum kominn fyrrnefndur steinn, sem tekinn hafði verið úr brunninum og komið fyrir í stéttinni, með u.þ.b. 420 ára gamalli áletruninni. Hér er því um að ræða elsta einstaka ártalsletursteininn, sem enn er vitað um á Reykjanesskaganum. Til eru þó eldri áletranir á klöppum, s.s. við Básenda.
Letursteinninn var tekinn upp úr stéttinni, sem hefur reyndar undanfarin ár þjónað sem bílastæði við nýja húsið, og færður til hliðar við hana, örskammt þar frá, sem hann fannst. Þar er hann aðgengilegur og minnir á uppruna sinn.

Fuglavík

Fuglavíkurhverfi – örnefnakort Sigurðar Eiríkssonar.