Staður – Staðarmalir – Staðarberg

Staður

Þegar ekið var til Grindavíkur skein sólin skemmtilega á Þorbjarnarfell. Mátti þá vel sjá hvernig misgengið liggur þvert í gegnum fellið hvernig toppur þess hefur sigið með því niður á milli gjárbarmanna.

Staðarvör

Staðarvör.

Gengið var niður að Staðarvör við Staðarklöpp í Arfadalsvík. Innan hennar er flórað gólf í fjöruborðinu Utan við klöppina er festikengur á tanga (Vatnstanga). Ekki var nægilega lágsjávað að þessu sinni til að sjá hann. Haldið var framhjá Kasalóni, gengið með fjörunni og yfir á Gerðistanga. Ofar lágu kollur grafkyrrar á hreiðrum sínum. Ofar mátti slá leifar gamallar réttar á hól.
Á Gerðistanga voru skoðaðar heillegar tóftir Stóra-Gerðis, garðar heimtröðin og brunnurinn. Áður fyrr voru miklir hlaðnir garðar í Staðarhverfi, en þegar bryggjan var byggð í Hópinu var komíð á vörubílum og grjótið úr görðunum, réttinni og öðru, sem hlaðið var, sótt í höfnina. Nú má einungis sjá þarna búta úr görðunum.

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Utar á kambinum eru tóftir Litla-Gerðis og síðan Kvíadalur enn utar. Neðan hans er Staðarbótin. Með henni vestanverðri eru Malarendar. Innan þeirra eru tjarnir. Þýski togarinn Schluttup kom upp á Malarenda í ársbyrjun 1924. Sagan segir að fólkið í Móakoti og fleira fólk hafi verið að spila um þokukennt kvöldið þegar einhver hafi haft á orði að gott væri nú að fá svo sem eitt strand þarna fyrir utan. Um morguninn stóð togari í heilu lagi uppi á Mölunum fyrir neðan bæinn. Hafði honum verið siglt upp í fjöruna um nóttina. Varð að reisa planka með síðu hans til að ná skipstjóranum frá borði því feitari gerðust þeir varla í þá daga.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Ofan við Malarenda er gömul fjárhústóft. Í hana voru þeir, sem fórust í strandi Önnu frá Tofte, lagðir. Þessi færeyski kútter kom upp við Bergsendasker, sem er við austurenda Staðarbergs, þann 4. apríl 1924. Fimmtán eða sextán fórust þá, flestir ungir menn úr sömu fjölskyldum frá litlu þorpi í Færeyjum. Þeir voru síðan jarðsettir í kirkjugarðinum í Reykjavík. Tóftin sést enn niður við Endana.

Sléttlent og grösugt er ofan við Staðarmalir. Þar mátti sjá móta fyrir gömlum görðum á tveimur klapparhólum og svo virðist sem gerði hafi verið í lægðinni milli hólanna. Vestan þeirra er nokkuð stór aflöng tóft. Svo er á sjá sem hlaða hafi verið í vesturendanum á henni. Hluti skipsskrokks var upp á Staðarmölum sem og ýmislegt brotakyns. Ofan þeirra mátti t.d. sjá hvalbein og ýmislegt annað forvitnilegt.

Staðarberg

Staðarberg – Bergsendi ofan Ræningjaskers.

Þegar komið var út á Bergsenda mátti sá Bergsendaskerið þar utan við. Ræningjasker er nokkru austar. Klappirnar á Berghrauni eru þarna vel sléttar og þarna er ákaflega fallegt í góðu veðri, eins og nú, en eflaust getur þarna verið skaðvænlegt líkt og verið hefur þegar kútterinn Anna rak þar upp í bergið. Gengið var eftir Staðarberginu. Það er nokkuð slétt að ofan og útsýni af því eftir berginu er fagurt. Litadýrðin er mikil og margt ber fyrir augu. Önd lá t.d. grafkyrr á hreiðri sínu uppi á svörtu bjarginu. Áð var á einni syllunni þar sem lítill gatklettur var undir, en víða eru básar og rásir inn í bergið þar sem hraunrásir hafa legið áður með mýkra bergi í.

Staðarberg

Staðarberg.

Ofan við bergið má sjá lagskiptingu nokkurra hrauna, en meginhraunin eru frá Sandfellshæðargígnum og Eldvörpum. Skammt vestar eru Víkur. Skammt ofan við þær má m.a. sjá litla gíga, sem virðast hvorki vera gervigígar né sprengigígar. Helst er að sjá að lítið gos hafi orðið þarna á tiltölulega afmörkuðu svæði eða í samhengi við annað fjær.Sumstaðar mótar fyrir hraunæðum og öðrum skemmtilegum jarðfræðilegum fyrirbærum.

Skoðuð var hlaðin refagildra í Básum ofan við Víkur, en hún er með þeim heillegri á Reykjanesi.

Reykjanesviti

Vagnvegur að Reykjanesvita frá Grindavík.

Gamli vegurinn úr á Reykjanes liggur þarna skammt ofar, svo til nakinn á sléttu helluhrauninu. Sennilega hefur þetta upphaflega verið vegurinn, sem lagður var út að vitanum árið 1918, en síðan hefur verið farið í far vegarins og hann endurbættur. Veginum var fylgt til baka yfir á nýja veginn. Komið var við á hól norðan vegarins, en á honum eru þrjár vörður. Virðast tvær þeirra nýlegri, en sú stærsta gæti hafa verið nota sem mið af annarri vörðu, eða vörðum, sunnar. Gengið var yfir Grænubergsgjá, en í botni hennar er tandurhreint ferskvatn. Austanhennar er hóll, sem Tyrkjavarðan stendur á. Af fæti vörðunnar að dæma hefur hún verið allmyndarleg á meðan var. Þau álög hvíla á vörðunni að Staðarhverfi sé óhætt á meðan hún stendur. Kríuhreiðrum var raðað í móann umhverfis vörðuna.

Staðarhverfi

Staðarbrunnurinn hefur nú verið endurhlaðinn.

Loks var staldrað við Staðarbrunninn vestan við kirkjugarðinn. Brunnurinn var hlaðinn árið 1914 og nú, níutíu árum síðar, er hann að ganga í gegnum endurnýjun lífdaga. Verið er að gera brunninn upp til ánægju, fróðleiks og yndisauka fyrir aðkomandi vegfarendur. Ekki væri úr vegi, einhvern tímann í framtíðinni, að kíkja inn í hólinn sunnan við brunninn. Í honum á að vera gamall bær, Krukka, sem sandfok lagði í eyði, sennilega á 16. eða 17. öld. Ekki er ósennilegt að minjar kunni að leynast í öðrum hólum við Hundadalinn (í túninu).
Líkt og staðendurnar er lágu á hreiðrum sínum ofan við Staðarvörina lágu frænkur þeirra, syrgjendurnar, á hreiðrum sínum í kirkjugarðinum á Stað. Friður og ró ríkti á svæðinu.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 4 klst. og 4 mín.

Refagildra

Refagildra í Básum.