Minjar á Reykjanesskaganum – erindi á Ferðamálakynningu FSS

Arnarfell

Fornritin eru almennt talin til hinna mestu gersema. En hvað um minjarnar á vettvangi?
Á Reykjanesi býr yfir helmingur Íslendinga, á einu fjölbreyttasta útivistarsvæði landsins, en Handritjafnframt því vannýttasta. Á svæðinu er mikill fjöldi ómetanlegra minja, bæði náttúruminja og menningarminja. Flestar lýsa menningarminjarnar sögu þjóðarinnar frá upphafi norræns landnáms, stig af stigi, sem og búskapar- og atvinnuháttum liðinna alda. Ótaldar eru náttúruminjarnar á Reykjanesi, sem margar hverjar eiga hvergi sína líka.
Minjasagan lýsir m.a. einkennum þjóðarinnar og hvernig hún nýtti landkosti og efni öðruvísi en aðrar þjóðir, hvernig dreifing útvegsbændabyggðarinnar var með ströndum landsins, nýting innlandsins og önnur hagnýting landsgæðanna. Á Reykjanesskaganum er hægt að sjá bæði þróun híbýlanna hér á landi og upphaf steinhúsabygginganna á 19. öldinni. Um þetta og ótalmargt annað er fjallað á vefsíðu þessari.
HúshólmiGönguhópurinn FERLIR hefur nýtt undanfarin misseri til að ganga um einstök svæði á Reykjanesi. Upphaflega var markmiðið að fara eitt hundrað ferðir um svæðið til að skoða það helsta, en þrátt fyrir tæplega 1100 ferðir, sem að jafnaði hafa tekið 1-5 klst hver, eru enn stór svæði ógengin og óskoðuð.
Hópurinn hefur á ferðum sínum um Reykjanesið leitað til fólks, sem fætt er eða uppalið á hinum ýmsu svæðahlutum. Hvarvetna hefur hópnum verið vel tekið og fólk verið ótrúlega áhugasamt og viljugt að miðla af fróðleik sínum og þekkingu. Berlega hefur komið í ljós að þetta fólk býr yfir bæði mikilli og ómetanlegri vitneskju um minjar og sögu staðanna. Þessu fólki fer því miður fækkandi og líklega kemur að því að margt af því, sem vitneskja er um í dag, hverfi með tímanum.
FERLIRTil gamans má geta þess að þátttakendur hafa fram að þessu skoðað um eitt hundrað og áttatíu sel á svæðinu frá Suðurlandsvegi að Reykjanestá, auk allra mannvirkjanna, sem þeim fylgja, s.s. stekkir, kvíar, fjárskjól, gerði, brunnar, vatnsstæði og leiðir, gamlar hlaðnar réttir, um 350 hella og nafngreinda skúta, fjölmargar gamlar leiðir, gamla hlaðna brunna, letursteina og áletranir, vörður, sem tengdar eru einhverjum sögum, hlaðnar refagildrur sem og margt annað er ætti að þykja áhugavert.
Mest um verð er þó sú innsýn, sem þátttakendur hafa öðlast á landssvæðið, breytingar á því í gegnum aldirnar, aðstæður fólksins og dugnað þess við takmarkaða möguleika og erfiðan kost. Þetta fólk á skilið mikla virðingu frá okkur afkomendunum. Mikilvægt er og að láta ummerkin um það lifa áfram á meðal þeirra sem eiga að erfa landið – og vanda til allra ákvarðana um nýtingu þess til langrar framtíðar.
Fólk er hvatt til að kynna sér efni vefsíðu FERLIRs – www.ferlir.is – með von um aukna vitund á verðmæti Reykjanesskagans, hvort sem um er að ræða náttúruleg eða söguleg, svo og minnkandi líkur á eyðileggingu þeirra.

Framangreint erindi var haldið á Ferðamálaráðstefnu Ferðamálasamtaka Suðurnesja á Hótel Sögu þriðjudaginn 27. mars. 2007.

Selsvellir

Selsvellir – tóftir.