Húshöfði – skógrækt

Hvaleyrarvatn

Eftirfarandi umfjöllun um skógrækt Skógræktarfélags Hafnarfjarðar birtist í 24stundir í ágústmánuði árið 2008. „Mörg hundruð hektarar af skógrækt með yfir 200 tegundum af trjám – Náttúruperla í útjaðri Hafnarfjarðar. Í Hafnarfirði leynist sannkölluð náttúruperla sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Þar eru mörg hundruð hektarar af skógrækt með yfir 200 tegundum af trjám og runnum.

HólmfríðurÍ útjaðri Hafnarfjarðar leynist sannkölluð náttúruperla, fleiri hundruð hektarar af skógræktar og uppgræðslulandi.
„Hér er góður andi,“ segir Hólmfríður Finnbogadóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar en félagið hefur umsjón með upplandi bæjarins. „Við erum rík hér í Hafnarfirði að eiga þetta fallega útivistarsvæði alveg við bæjardyrnar. Þetta er ákaflega fallegt og hér er margt að sjá. Hér höfum við opnað fjóra útivistarskóga. Þetta eru glæsilegir skógar sem eru opnir almenningi. Svo erum við með trjásýnilund hérna rétt fyrir neðan þar sem búið er að gróðursetja og merkja yfir 200 tegundir af trjám og runnum. Steinar Björgvinsson sér um trjásafnið en hann er ræktunarstjóri gróðrastöðvarinnar Þallar ehf sem félagið á.“

Fjölbreytni og fegurð
Nýverið var opnuð skemmtileg útikennslustofa í Höfðaskógi enda koma bæði grunnskólar og leikskólar í heimsókn á vorin. „Á vorin koma grunnskólanemar og Fræðsluaðstaðagróðursetja tré og hlúa að gróðri en hver skóli er með sína landnemaspildu. Við reynum að auka fjölbreytnina í skógunum. Í gamla daga var þetta svo einsleitt en í dag setjum við rósir og alls kyns runna í skóginn enda viljum við hafa skóginn fjölbreyttan og fallegan. Við prófum okkur líka áfram og könnum hvað lifir í náttúrunni. Við söfnum íslenskum fræjum, berjum og öðru og fáum það líka sent víða að úr heiminum,“ segir Hólmfríður að lokum og hvetur alla til að koma og skoða þetta fallega svæði.“

Útikennslustofan var formlega tekin í notkun laugardaginn 3. maí, kl. 14:00. Það voru hjónin Hörður Zóphaníasson og Ásthildur Ólafsdóttir sem gáfu Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar peningagjöf á 60 ára afmæli félagsins árið 2006. Gjöfinni fylgdi sú ósk að hún yrði notuð til að fræða ungt fólk um gildi skógræktar og uppgræðslustarfs og til að sýna hversu fjölbreytt not má hafa af skógum. Með þetta að leiðarljósi unnu starfsmenn og stjórn félagsins að því að þróa og móta þetta verkefni, sem nú er orðið að veruleika.

Minjar
BeitarhúsÍ Húshöfða, líkt og í næstu höfðum, Fremstahöfða, Selhöfða og Stórhöfða eru minjar fyrrum búskaparháttar, flestar tengdar selstöðunum, Hvaleyrarseli og Ásslei, við austanvert Hvaleyrarvatn.
Húshöfði dregur nafn sitt af gömlu beitarhúsi frá Jófríðarstöðum og eru tóftir þess enn sýnilegar við höfðann. Á síðustu árum hefur Skógræktarfélagið lagt göngustíga um Höfðaskóg og komið upp trjásýnireit sem áhugavert er að skoða. Ganga kringum Hvaleyrarvatn er í beinum tengslum við skógræktarsvæðið. Leiðin er auðveld því göngustígur hefur einnig verið lagður umhverfis vatnið.
Hlaðinn stekkur eða gerði er norðvestan við skála Skógræktarfélagsins. Hann tengist sennilega notkun beitarhústóftarinnar austar á hálsinum. Þar er nokkuð stór beitarhústóft og önnur minni skammt norðvestar. Hún virðist nokkuð eldri og er mun jarðlægari. Ekki er ólíklegt að beitarhúsið, sem var brúkað frá Jófríðarstöðum, hafi verið byggt þar upp úr eldri selstöðu eftir að hún lagðist af. Innan við beitarhúsatóftina er fyrrnefnd útikennslustofa.

Rós

Skammt austar í hlíðinni er minningarlundur um Kristmundsbörn er munu hafa tengst upphafi skógrækar í Hafnarfirði. Þar hjá er Ólafslundur til minningar um Ólaf Daníelsson, skógræktanda.
Efst á höfðanum er Höfðavarðan

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað árið 1946 og er því 62 ára (2008). Skóglendi þess eru Höfðaskógur, Seldalur, Skólalundur, Undirhlíðar og Gráhelluhraun. (Sjá meira um Hvaleyrarvatnssvæðið HÉR).

Heimild:
24stundir 6. ágúst 2008 – eftir Svanhvíti Ljósbjörgu.Húshöfði