Ósmelur – Hvalfjarðareyri

Hvalfjarðareyri

Gengið var um innanverðan Ósmel að Hvalfjarðareyri.
Á leiðinni voru skoðaðar minjar, fjörur, jarð- Hestaþingshóllog bergmyndanir, fuglar og selir, sjávarlón, grunnsævi og strandlengja utan ræktaðs lands neðan þjóðvegar frá Norðurkoti, inn að vík neðan við Eyrarkot og áfram að Eyrinni. Ósmelur er stór og fagur jökulgarður frá síðjökultíma. Meðfram ströndinni eru mikil set og öskulög sem og jarðlög með fornskeljum. Óvíða finnast jafn margar steintegundir á einum stað á landinu. Hvalfjarðareyri er fundarstaður baggalúta. Ofan við hana er Hestaþingshóll og undir honum Karl og Kerling. Svæðið, sem er í nánd við þéttbýli, hefur einstaklega mikið útivistar- og fræðslugildi.
Viti er yst á 
Hvalfjarðareyri. Hann var reistur þar árið 1948. Eldri menn minnast þess að vitinn hafi staðið utar, á grasbakka sem þá var. Eftir að uppdæling malarefna hófst við eyrina uppúr 1960 fór landið að brotna niður sem endaði með því að verja þurfti hann með grjóti.
Fyrst í stað var Vitinngrjótvörnin umlukin fjöruborðinu, en er nú eftir að landið hefur enn rýrnað, sem grjóthaugur umhverfis vitann.
Vitinn er í raun svokallað ljóshús sambærilegt og ljóshús sem er ofaná steyptum vitum. Það er áttstrent norskt mannvirki úr steypujárni á steyptum sökkli. Miðaldra fólk minnist þess, að þegar það voru börn, gerðu þau sér að leik að ganga á mjóum sökklinum og var keppikeflið að komast hringinn um vitann án þess að detta af sökklinum Var þá erfiðast að komast fyrir hornin átta. Ljóshúsið var upphaflega reist á Bjarntöngum 1913 en flutt í Hvalfjarðareyri eftir stríð.
Baggalútar [spherolites] nefnast smákúlur sem myndast í rýólítkviku þegar nálar af feldspati og kvarsi vaxa út frá kristalkími. Þeir eru ýmist stakir eða samvaxnir tveir eða þrír hér og þar í kvikunni. Talið er að þeir myndist við hraða kristöllun kvikunnar. Baggalútar eru yfirleitt frá 0,5 til 3 cm í þvermál en geta þó orðið enn stærri.
Skel í fornu setlagiÖrnefnið Hestaþingshóll bendir til þess að þar hafi farið fram hestaþing, -kaup eða -at.
Hestaþings-örnefni er að finna á nokkrum stöðum á landinu og fylgir þeim mörgum sú sögn að þar hafi farið fram hestaat, hestavíg eða hestaþing. Þannig segir Árni Magnússon frá: „Sunnan undir Sólheimajökli, í tungunni milli eystri kvíslarinnar og þeirrar, sem undir jökulinn rennur, heitir Hestaþingsháls. Þar segja menn, fyrrum hestavíg brúkuð verið hafa, sem og líklegt er af nafninu“ (Chorographica, bls. 33). Höfundur Holta-Þóris sögu, sem sennilega var samin á 19. öld, notaði nafnið í sögunni (bls. 495), en það virðist ekki þekkt á síðustu tímum og er ekki í örnefnaskrám.
Árni nefnir líka að Hestaþingstaðir heiti pláss einhvers staðar í Skaftártungu nærri Flögu (sama rit, bls. 25). Það er heldur ekki í Berggangurörnefnaskrám. Hestaþingshóll er við Rangá norðan við Völl í Hvolhreppi í Rang. og Hestaþingsflöt í Hróarsholti í Árn., tilvalinn leikvangur frá náttúrunnar hendi. Hún mun draga nafn sitt af því, að þar mun hafa verið att hestum til forna (Örnefnaskrá). Þar voru líka haldin hestamannamót á síðustu öld. Hestaþingsflatir eru í Hlíð í Grafningi. Þær eru nokkuð stórar valllendisflatir, niður undan Hellisgili, með gulvíðisrunnum í kring. Þar var áður haldið hestaþing. Hestaþingshóll er í landi Kaldaðarness í Flóa. Þar voru háð hestaþing til forna. Ef til vill hefur það einmitt gerst þar að Jóra bóndadóttir trylltist er hún sá hest föður síns bíða lægra hlut fyrir öðrum (sbr. Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur I, 173-175). Í Gullbringu- og Kjósarsýslu eru tveir Hestaþingshólar þekktir, annar í landi Varmár, tangi út í Leiruvog. Bendir nafn hans á forn hestaöt þarna niður við sjóinn. Hóll þessi er á tanganum, og ef vel er að gáð, virðist vera þarna um gamalt mannvirki að gera (Örnefnaskrá). Hinn Hestaþingshóllinn er á Eyri í Kjós. Bendir þetta örnefni á, að þarna á eyrinni hafi verið höfð hestaöt til forna (Örnefnaskrá). Hestaþingseyrar eru við Norðurá í landi Kalmanstungu í Borgarfirði (Chorographica, bls. 44). Þessir staðir eru allir á Suður- og Vesturlandi en aðeins er hægt að nefna hestaþingstaði utan þess svæðis í Skagafirði. Annar er Hestaþingshamar á Víðilæk í Seyluhr. í Skag. Í sóknalýsingu frá 1842 er talað um Hestaþingshamar (eða Hestavígshamar) í Víðimýrarhvarfi og segir að þar hafi „oft verið fundir áður, og þar hafa Skagfirðingar og aðrir kosið Brand Kolbeinsson yfir sig“ (Sókn., bls. 58, sbr. Sturlungu).

Set- og öskulög

Í annarri sóknalýsingu er talað um Hestavígshamar á Flugumýri (Sókn., bls. 105). Hann er nefndur Hestaþingshamar í ritinu Landið þitt Ísland II, 61. Orðið hestaþing kemur fyrir í nokkrum fornsögum (sbr. Gísli B. Björnsson og Hjalti Jón Sveinsson, bls. 32).
Hestaöt voru einnig þekkt í Noregi og víðar á norrænu svæði til forna (sjá Svale Solheim, Hestekamp í KLNM VI, d. 538-540). Hestaþing voru ekki vel séð af kirkjunnar mönnum. Árið 1592 hélt Oddur Einarsson Skálholtsbiskup prestastefnu á Kýraugastöðum í Landsveit, þar sem gerð var löng samþykkt, og stendur þar í 6. gr.: „Item fyrirbjóði prestarnir hestaþing, vökunætur og smalabúsreiðir á helgum dögum hvort það sker nótt eður dag“ (Alþingisbækur II, bls. 255). Í annarri gerð sömu samþykktar er bætt við á eftir „á helgum dögum“: „og aðra slíka heiðinglega háttu“ (sama rit, bls. 258).
Síðasta hestavíg á Íslandi fór fram á Vindhólanesi í Fnjóskadal um 1625 að sögn Jóns Espólíns (1769-1836) og greinir hann frá því í Árbókum sínum (VI, bls. 21-22). Frásögn hans af hestavíginu er birt í lestrarbók Sigurðar Nordals (Íslenzk lestrarbók 1750-1930, bls. 28-29). Í Hestaþings-örnefnum er því varðveittur vitnisburður um einn þátt í skemmtanahaldi fornmanna.

För eftir sækýr

Kiðafell er fremsti bærinn í Kjós. Kjósarörnefni eru a.m.k. níu á landinu, ef dæma má eftir Örnefnaskrá Íslands, og staka örnefnið kemur fyrir á nokkrum stöðum. Orðið kjós merkir ‘þröngur dalur’ eða ‘þröng vík’. Í Noregi kemur örnefnið Kjos eða Kjose fyrir a.m.k. allvíða: Kjos í Akershus, Buskerud, Sogn og Fjordane, Vest Agder og Kjose á Vestfold og Kjosen á Finnmörku, Telemark og í Troms bæði sem fjörður og bær við þennan fjörð en upp af bænum er Store Kjostind.
Sem fyrr segir var gengið um Ósmel. Um er að ræða fornan sjávargranda, sem gefur til kynna að sjávarstaðan hafi fyrrum, líklega á fyrra hlýskeiði, verið mun hærri en nú er. Utan við melinn eru langir öskuhraukar, líklega leifar goss á fyrra jökulskeiði. Undir þeim eru setlög með skeljaleifum, líklega frá þeim tíma er jökullinn hopaði. Neðan við, á ströndinni, eru jökulrispuð hvalbök.
Þegar ströndinSelur var gengin mátti víða sjá stulaðbergsganga frá þeim tíma er landið myndaðist þarna. Ýmist skiptast á hraunlög og setlög.
Einstaka selur stakk upp hausnum til að fylgjast með tvífætlingum á landi. Aðrir hvíldust á nálægum skerjum. Í sandinum mátti sjá för eftir sækýr, ef vel var að gáð og grannt var skoðað. Þær virtust hafa gengið á land, spígsporað um stund á ströndinni og síðan horfið aftur jafn skyndilega til sjávar. Þær höfðu borið með sér sjávarþang úr botni Hvalfjarðar.
Sigurbjörn Hjaltason, bóndi á Kiðafelli, sagði að það kæmi fyrir að sækýr gengju á land undir háum bökkunum neðan við bæinn, einkum þó á vorin, a.m.k. hefði hann heyrt slíkar sögur. Ekki væri haft orð á því, bæði til að koma í veg fyrir átroðning forvitinna og til að minnka ekki líkur á komu þeirra þarna því sjónin sú mun jafnan vera tilkomumikil. Oftast mætti sjá það á nautunum í girðingunni ofanverðri þegar sækýrnar gengju á land því þá héldu þeim engar girðingar.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnastofnun Íslands.

Í Hvalfirði