Í “Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III” frá árinu 2012 er m.a. fjallað um “Byggðasögu Kjósarhrepps“.
Byggðasaga Kjósarhrepps
Kjósarhreppur er í sunnanverðum Hvalfirði. Hreppurinn nær frá Miðdalsá og norðurhlíðum Esju í suðri, að suðurbakka Botnsár í Botnsdal í Hvalfjarðarbotni, Hvalfells og Hvalvatns í norðri. Að austan marka svo fjöllin Hlíðar, Kjölur, Leggjabrjótur og Botnssúlur skil á milli Kjósarhrepps og Þingvallasveitar. Syðst í Kjósinni í norðurhlíðum Esjunnar eru fimm dalir sem liggja gróflega norður-suður.
Vestastur er Hrútadalur, þá Eilífsdalur, Flekkudalur, Eyjadalur og loks Svínadalur austast. Innan hreppsins eru fimm fjöll; Eyrarfjall, Meðalfell, Reynivallaháls, Þrándarstaðafjall og Múlafjall, sem skipta svæðinu niður í sex stóra dali til viðbótar.
Miðdalur sunnan við Eyrarfjall, Kjósardalur milli Eyrarfjalls og Reynivallaháls, Laxárdalur milli Meðalfells/Möðruvallaháls og Reynivallaháls, Hlíða- og Skálafellsháls, Fossárdalur milli Reynivallaháls og Þrándarstaðafjalls, Brynjudalur milli Þrándarstaðafjalls/Suðurfjalls og Múlafjalls og svo loks Botnsdalur milli Múlafjalls og Selfjalls/Háafells. Upp af Fossárdal er svo Seljadalur á milli Reynivallaháls og Kjalar. Flesta bæi Kjósarhrepps er að finna í þessum dölum en þó eru nokkrir bæir dreifðir eftir Hvalfjarðarströnd. Eitt stórt vatn er í Kjósinni vestanverðri milli Esju og Meðalfells sem kallast Meðalfellsvatn og hefur þar myndast á síðustu áratugum stór sumarbústaðabyggð. Slíka byggð er einnig að finna við mynni Eilífsdals litlu vestar og á Hvalfjarðarströnd vestan við Hvammsvík. Laxá í Kjós er ásamt Meðalfellsvatni eitt stærsta aðdráttarafl Kjósarinnar enda áin ein vinsælasta laxveiðiá landsins.
Helstu bæir sem skráðir voru í Kjósarhreppi dreifast misjafnt um svæðið en flesta þeirra má þó finna í Kjósar- og Laxárdölum. Í Miðdal eru nú bæirnir Kiðafell, Morastaðir og Miðdalur, sem og bærinn Eilífsdalur við mynni samnefnds dals. Kjósardal er skipt í tvennt af Dælisá og Bugðu sem renna saman og mynda eitt langt vatnsfall sem eitt sinn var nefnt Eilífsá. Vestan við Bugðu eru bæirnir Eyri, Þúfa, Bær, Blönduholt og Laxárnes norðaustan undir Eyrarfjalli en bæirnir Sandur, Eyjar, Flekkudalur, Grjóteyri og Meðalfell eru austan við árnar tvær. Flestir bæir eru austan við Meðalfellsvatn á meðan sjálfur Meðalfellsbærinn er norðan við vatnið.
Austan við Bugðu í Laxárdal eru svo bæirnir Neðri-Háls, Valdastaðir, Sogn, Reynivellir, Vindás og Hækingsdalur norðan við Laxá. Sunnan við ána eru Fremri-Háls, Írafell, Möðruvellir, Þorláksstaði, Hurðarbak, Káranes og Káraneskot.
Vestanvert við norðurmynni Fossárdals var bærinn Fossá og upp og suður af Fossárdal er Seljadalur þar sem má finna leifar bæjarins Reynivallasels. Bæirnir Ingunnarstaði, Þrándarstaði og Skorhagi (Múli) eru í Brynjudal. Á Hvalfjarðarströnd eru bæirnir Útskálahamar norðvestan undir Eyrarfjalli og Hvammur, Hvammsvík og
Hvítanes norðan undir Reynivallahálsi og vestan við Fossá. Enginn bær sem tilheyrir Kjósarhreppi er í Botnsdal í Hvalfjarðarbotni.
Þegar saga Kjósarinnar er skoðuð má sjá að talsvert af bæjum hefur þar byggst upp og fallið í eyði í gegnum aldirnar, þó að stærstu jarðirnar hafi verið í stöðugri ábúð. Í meðfylgjandi töflu er að finna yfirlit yfir þekkta bæi og býli á svæðinu ásamt upplýsingum um hvenær þeirra er fyrst getið í heimildum.
Frásögnum um landnám í Kjós ber ekki alveg saman. Kjósin virðist þó sannarlega hafa verið hluti af landnámi Ingólfs Arnarsonar. Samkvæmt Landnámu nam Helgi bjóla, tengdasonur Ingólfs Arnarssonar land á Kjalarnesi en hafði aðeins yfir að ráða svæðinu á milli Mógilsár og Miðdalsár (Mýdalsár). Kjalnesingasaga áætlar Helga, vinum hans og vandamönnum hins vegar mun stærra svæði eða allt land milli Leiruvogs og Botnsár. Samkvæmt Kjalnesingasögu útdeildi Helgi landinu til skipverja “ok þar hverjum, sem honum þótti fallit vera.
Í sögunni eru nefndir þrír bæir í Kjósinni; Þrándarstaðir í Brynjudal, Eilífsdalur og Hækingsdalur í ofanverðum Laxárdal, sem Helgi bjóla útdeildi til skipaverja sinna (sjá kort 2). Það er áhugavert að allar þessar jarðir eru í þröngum dölum langt frá hver annarri í útjaðri Kjósarinnar sem gæti gefið til kynna að Helgi bjóla hafi haldið bestu svæðunum fyrir sjálfan sig og fjölskyldumeðlimi. Bærinn Þrándarstaðir er ekki nefndur aftur í heimildum fyrr en í dómabréfi árið 1509.7 Hækingsdals er einnig getið í Sturlungu og í landamerkjabréfi frá árinu 1270 þar sem merkja milli bæjanna Vindáss og Hækingsdals er getið og kemur þar bæjarnafnið Vindás fram í fyrsta skipti.8 Vindásjörð hefur því greinilega einnig byggst nokkuð snemma. Eilífsdalur er nefndur um 50 árum fyrr, eða um 1220, ímáldaga Saurbæjarkirkju og árið 1478 eru landamerki milli Eilífsdals og Miðdals (Mýdals) nefnd í fornbréfi. Munnmæli eru um að bænhús hafi verið bæði í Hækingsdal og að Þrándarstöðum.
Í Landnámu er sagt frá fjórum aðal landnámsmönnum í Kjósinni; Svartkeli hinum katneska, Hvamm-Þóri, Þorsteini Sölmundarsyni og Valþjófi Örlygssyni. Svartkell nam samkvæmt Landnámu land vestast í Kjósinni frá Miðdalsá að Eilífsá (nú Dælisá og Bugða). Á hann að hafa búið fyrst að Kiðafelli en flutt síðar norðaustur fyrir Eyrarfjall að kirkjujörðinni (Hvalfjarðar-) Eyri).
Heimildir eru annars þöglar um Kiðafell fyrr en komið er fram til um 1700 en Eyrar er næst getið árið 1198 í Sturlungu og Eyrarkirkja er einnig nefnd í kirknaskrá Páls þegar um 1200 og máldaga Saurbæjarkirkju um 1220.11 Meintur flutningur Svartkels frá Kiðafelli til Eyrar þar sem er betra undirlendi norðaustan og austan undir Eyrarfjalli gæti einfaldlega verið til marks um að landgæði hafi þótt betri þar, sér í lagi þegar fram liðu stundir, en undirlendi við bæjarstæði Kiðafels, suðvestan við Eyrarfjall, er takmarkað þar sem bærinn stendur nokkuð hátt í fjallshlíð stutt frá Miðdalsá og strönd Hvalfjarðar.
Hvamm-Þórir nam land milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi samkvæmt Landnámu. Í Sturlungu er Hvammur orðinn að stórbýli árið 1237 og er útkirkja nefnd þar í Hítardalsbók um 1367. Í Harðar sögu er sagt frá því þegar Ormur sonur Hvamm-Þóris gefur Bolla þræl sínum land að Bollastöðum. Bollastaða er annars ekki getið í heimildum fyrr en í Jarðabók Árna og Páls árið 1705 þar sem jörðin er talin upp sem eyðibýli. Mannvistarleifar sem gætu verið leifar af bænum eru rétt austan við landamerkin milli Valdastaða og Neðri-Háls á landsvæði innan landnáms Hvamm-Þóris.
Þorsteinn Sölmundarson nam samkvæmt Landnámu land í Brynjudal milli Bláskeggsár og Fossár en ekki er ljóst hvar hann bjó. Hann átti son sem Refur hét og talinn er hafa búið að Múla (GK-357:008) eða á Stykkisvöllum í Brynjudal (Gullhlaðsvöllum) og gæti faðir hans hafa búið á svipuðum slóðum. Þó er ekki útilokað að hann hafi búið í norðanverðum Botnsdal eða jafnvel enn norðvestar í Hvalfjarðarstrandarhreppi. Múla er annars getið í máldaga Reynivallakirkju árið 135216 en bærinn var fluttur að Skorhaga um eða fyrir 1600 þegar skriður grafa eldra bæjarstæði að mestu.
Í Kjalnesinga sögu er sagt frá kristnum Íra að nafni Örlygur sem kom til Íslands með konu og uppkomnum syni. Samkvæmt sögunni fékk Örlygur land hjá Helga bjólu frænda sínum, reisir bæ og kirkju að Esjubergi og býr á jörðinni til æviloka. Samkvæmt Landnámu nam Valþjófur sonur Örlygs “Kjós alla” og bjó að Meðalfelli við Meðalfellsvatn. Trúlega er þar átt við landsvæðið sem afmarkast af landnámi Svartkels að vestan og Hvamm-Þóris að norðan og austan, milli Eilífsár og Laxár suður að Esju og Skálafelli. Kirkjan að Meðalfelli er nefnd í kirknaskrá Páls um 1200. Innan þessa landsvæðis eru einnig Möðruvellir þar sem Valbrandur sonur Valþjófs er sagður hafa byggt fyrst en hann bjó þar árið 1198 samkvæmt Sturlungu.
Landnám Örlygs á Kjalarnesi og Valþjófs sonar hans í Kjósinni gefur til kynna að Helgi bjóla hafi sannarlega haft einhver yfirráð yfir landsvæðum í Kjósinni líkt og Kjalnesinga saga greinir frá þótt Landnáma taki ekki beint undir það. Valþjófi hefur trúlega verið úthlutað landsvæði fyrir sína fjölskyldu og vini um leið og föður hans þar sem hann kom til landsins fulltíða. Þeir sem námu fyrst land í Kjósinni hafa því flestir trúlega haft einhver tengsl við Helga bjólu og fjölskyldu hans og fylgt þeim að málum. Því til stuðnings má t.d. nefna frásögn í Kjalnesinga sögu sem greinir frá því þegar Búi Andríðarson erfir eigur tengdaföður síns Þorgríms goða Helgasonar bjólu. Þar segir m.a.: “Tók þá Búi við mannaforræði. Hafði hann allt út at Nýjahrauni ok inn til Botnsár,“ sem gefur til kynna að stuðnings- og venslamenn fjölskyldunnar hafi verið til staðar a.m.k. norður í Botnsdal.
Aðrir bæir í Kjósarhreppi sem nefndir eru í elstu heimildum er bærinn Valdastaðir sem nefndur er í Sturlungu árið 1237 og í fornbréfum frá 1352. Í Jarðabók Árna og Páls er getið um munnmæli um að bænhús hafi verið á jörðinni en staðsetning þess er óþekkt. 22 Ekki er ljóst hvort Valdastaðir byggjast úr landi Bollastaða, á svipuðum tíma og jörðin Neðri-Háls eða úr óskiptu landi Hvamms.
Bollastaðatóftir eru h.u.b. á merkjum Neðra-Háls og Valdastaða og gætu jarðirnar hafa byggst úr landareign Bollastaða eftir að jörðin leggst í eyði.
Kuml eru talin góð sönnun fyrir byggð á 10. öld en engin slík hafa enn fundist í Kjósarhreppi. Sú kenning hefur verið sett fram að skýringar kumlaleysisins gæti a.m.k. að hluta verið að leita í háu hlutfalli kristinna landnáms- manna á svæðinu en slíkar hugmyndir hafa ekki verið rannsakað neitt frekar.
Dreifing kirkna og bænhúsa á miðöldum getur einnig gefið mikilvægar vísbendingar um byggðasögu. Slík hús voru víða á bæjum fyrir siðaskipti og talið er að flest slík hús hafi verið reist í heimagrafreitum um eða stuttu eftir kristnitöku í byrjun 11. aldar. Gera má ráð fyrir að þeir bæir sem nefndir eru í kirknaskrá Páls um 1200 hafa mjög líklega verið sjálfstæðar jarðir í byrjun 11. aldar. Samkvæmt máldaga Saurbæjarkirkju á Kjalarnesi frá 1220 voru sóknarmörk kirkjunnar á miðöldum um Eilífsá og tíundir lögðust til kirkjunnar af öllum jörðum vestan við ána nema af Eyri og Miðdal þar sem einnig voru kirkjur. Hálfkirkja var að Eyjum en hennar er getið fyrst í máldaga frá 1180. Miðdalur hefur trúlega byggst út úr landnámi Svartkels en Eyjar út úr landnámi Valþjófs en báðar jarðirnar hafa trúlega verið komnar í byggð snemma á 11.öld, ef ekki fyrr. Örlygur faðir Valþjófs var í Kjalnesingasögu sagður kristinn þegar hann kom til Íslands og líklegast hefur Valþjófur sonur hans verið það einnig. Því er ekki útilokað að kirkjan að Meðalfelli hafi verið reist áður en kristni var lögtekin. Kirkjur voru einnig að Reynivöllum og á Ingunnarstöðum strax um 1180 samkvæmt máldögum.
Báðar jarðir hafa greinilega orðið til snemma. Reynivellir hafa trúlega byggst út úr landnámi Hvamm-Þóris á meðan Ingunnarstaðir gætu hafa byggst úr landi Múla í landnámi Þorsteins.
Auk þeirra kirkna og bænhúsa sem þegar hafa verið nefnd eru munnmæli um bænhús nefnd í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1705, á bæjunum Neðri-Hálsi (Stóri Háls og Írafelli en nákvæm staðsetning þeirra er óþekkt. Hafi bænhús verið á þessum jörðum styrkir það hugmyndir um að þessir bæir hafi verið komnir í byggð um eða stuttu eftir kristnitöku. Þeir hafa þá byggst úr landnámi Hvamm-Þóris (Háls) og Valþjófs (Írafell). Þess ber reyndar að geta að hvorugs bæjar er að nokkru getið í elstu heimildum. Neðri-Háls er fyrst getið í heimild frá um 1468 og Írafell virðist hvergi nefnt fyrr en í Jarðabók Árna og Páls í byrjun 18. aldar.
Samkvæmt Svavari Sigurðssyni eru ósamsett náttúrunöfn yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Ekki er útilokað að Neðri-Háls hafi í fyrstu aðeins heitið Háls eftir Reynivallahálsi en fengið á sig forliðinn Stóri-/Neðri- eftir að Efri-Háls byggðist (e-ð fyrir 1468?) mun ofar í Laxárdalnum undir Skálafellshálsi. Algengustu ósamsettu liðir í bæjarnöfnum Landnámu eru Fell, Dalur, Holt, Nes, Vík, Hóll, Á og Eyri og eru náttúrunafnaendingar einnig nokkuð algengar. Samkvæmt þessu gæti Írafell verið nokkuð gamalt bæjarnafn. Írar koma sannarlega við sögu í Landnámu og ekki er útilokað að Írafell dragi nafn af þeim sem þar reisti fyrstur bær.
Af þessum upplýsingum hér að ofan er greinilegt að mörg af bestu landsvæðum Kjósarinnar voru komin í byggð fljótlega eftir landnám. Vitað er um a.m.k. fjóra aðra bæi (Þúfa, Sogn, Hurðarbak og Káranes) sem samkvæmt heimildum hafa verið komnir í byggð fyrir lok 14. aldar en annarra jarða er ekki getið fyrr en síðar. Margar þeirra gætu þó vel hafa verið komnar í byggð á miðöldum, ef ekki fyrr, þó heimildir um það séu af skornum skammti.
Úr landnámi Svartkels hafa byggst jarðirnar Morastaðir, Útskálahamar, Þúfa, Bær, Blönduholt og Laxárnes. Þúfa er nefnd fyrst í jarðabréfum frá 1352/1397. Eins og áður sagði eru bæjarnöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu svo ekki er útilokað að Þúfa hafi verið byggð snemma út úr Eyrarlandi. Það sama mætti hugsanlega líka segja um Bæ því þó nafnið sé ekki náttúrunafn er það einfalt og ósamsett. Jarðarinnar er þó ekki getið í heimildum fyrr en um 1508. Báðir bæirnir eru í Kjósardal austan og suðaustan undir Eyrarfjalli og eru ágætis jarðnæði. Svipaða sögu er að segja um bæina Blönduholt og Laxárnes milli Bugðu og Hvalfjarðarstrandar, fast suðvestan við ósa Laxár. Laxárness er fyrst getið í sölubréfi árið 1483 en Blönduholts í jarðabréfum árið 1616. Allar þessar jarðir teljast meðalstórar (16-20 hdr) og hafa því líklegast flestar byggst út úr Eyrarlandi eftir landnám, en í hvaða röð það hefur gerst er ómögulegt að segja. Að lokum má svo nefna bæina Morastaði og Úskálahamar sem fyrst eru nefndir í heimildum í byrjun 18. aldar. Morastaðir hafa mjög líklega verið byggðir úr landi Kiðafells eða Miðdals en hvenær það hefur gerst er óljóst. Bæjarnöfn með endinguna –staðir eru yfirleitt talin tilheyra seinni stigum landnáms. Útskálahamar hefur trúlega byggst seint úr landi Kiðafells eða Eyrar enda er bæjarstæðið fremur slæmt, á strönd Hvalfjarðar norðvestan undir Eyrarfjalli þar sem undirlendi er af nokkuð skornum skammti.
Líklegt er að Flekkudalsjarðir sem upphaflega voru líklega ein jörð, hafi upphaflega byggst úr landnámi Valþjófs Örlygssonar frá Meðalfelli við mynni Flekkudals sunnan við Meðalfellsvatn. Svipaða sögu er að segja um Þorláksstaði, Hurðarbak og Káranes og loks Sogn (eða Sofn), Sand og Fremri-Háls (Litli-Háls). Flekkudalsbæjar er fyrst getið í sölubréfi frá árinu 1483. Í Jarðabók Árna og Páls árið 1705 eru bæirnir orðnir tveir en þeir voru þó ætíð taldir saman (40 hdr) fram til ársins 1802. Jörðin Sandur er einnig sunnan undir Meðalfellsvatni og vestan við Sandsá líkt og Flekkudalsbæirnir en jörðin er fyrst nefnd í heimildum árið 1687 og þá metin á 10 hdr. Ef sett er fram sú tilgáta að jörðin Sandur hafi á einhverjum tímapunkti verið byggð úr landi Flekkudals hefur jörðin upphaflega verið 50 hdr jörð sem myndi þýða að hún hefði verið með dýrustu jörðum í Kjós og mætti ætla að hefði komist mjög snemma í byggð. Bæjarnafnið Sandur gefur til kynna að bærinn gæti tilheyri elsta búsetustigi á svæðinu.
Bæirnir Hurðarbak og Káranes eru báðir nefndir í máldaga Meðalfellskirkju árið 1397. Þeir eru h.u.b. hlið við hlið á suðurbakka Laxár norðan undir Meðalfelli ásamt Þorláksstöðum austan við Þorláksstaðaás. Þorláksstaðir eru taldir hafa verið komnir í byggð eitthvað fyrir 1640 en –staðar endingin gæti þó jafnvel gefið til kynna að bærinn verði til á seinni stigum landnáms. Káranes samkvæmt Jarðabók Árna og Páls dýrasta jörðin af þessum þremur, metin á 30 hdr, en hinar eru metnar á 20 hdr. Ekki er útilokað að í upphafi hafi aðeins ein jörð verið á þessu svæði sem afmarkað er af Bugðu í vestri, Laxá í norðri og austri og Meðalfelli í suðri. Einhvern tíman á fyrstu öldum má svo gera ráð fyrir að jörðinni hafi verið skipt upp í þrennt, annað hvort í einu eða tveimur þrepum. Sé raunin sú að allt þetta svæði hafi upphaflega tilheyrt sömu jörðinni hefði hún verið um 70 hdr og líklega með fyrstu jörðum í Kjósinni til að byggjast úr landnámi Valþjófs. Ekki er þó hægt að útiloka að að jarðirnar þrjár hafi ætíð verið aðskildar og byggst ein og ein úr landi Meðalfells.
Jörðin Sogn (12 hdr) er nefnd í máldaga Reynivallakirkju árið 1352 sem eign kirkjunnar og hefur jörðin verið byggð eitthvað fyrir þann tíma annað hvort úr landi Reynivalla eða Valdastaða. Fremri Háls (Litli-Háls) er efsti bærinn í Laxárdal og í sjálfri Kjósinni, en hans er ekki minnst í heimildum fyrr en í byrjun 18. aldar.
Staðsetning hans svo langt inni í landi og í þröngum dal mætti túlka sem vísbendingu um að hann byggist fremur seint þegar annað og hentugra jarðnæði var á þrotum, og sannarlega eftir að Neðri- eða Stóri-Háls kom til sögunnar. Hvenær nákvæmlega það ætti að hafa verið er óþekkt.
Jarðirnar Hvítanes og Fossá hafa líklega báðar verið byggðar úr landnámi Hvamm-Þóris norðan Reynistaðaháls, en þeirra beggja er getið nokkuð seint í heimildum. Hvítanes er skráð í erfðabréfi frá árinu 1585 en Fossárbæjar er ekki getið nein staðar svo vitað sé fyrr en í Jarðabók Árna og Páls í byrjun 18. aldar. Nöfn beggja þessa jarða (samsett náttúrunöfn) mætti túlka sem vísbendingu um að þær gætu hafa byggst snemma. Báðar jarðirnar eru meðalstórar (metnar á 16 og 20 hdr 1705) en undirlendi er á báðum stöðum takmarkað og verður því að teljast líklegt er að þær hafi byggst úr landi Hvamms og Þrándarstaða, landsvæðið norðan við Fossána) eftir að aðrar og landbetri jarðir á svæðinu eru komnar í byggð.
Önnur stærri býli og bæir sem voru í byggð í Kjósarhreppi þegar Jarðabók Johnsens er gerð árið 1847eru Káraneskot, Þúfukot, Eyrar-Uppkot og Eyrar-Útkot, Miðdalskot, Meðalfellskot, Eyjahóll, Vesturkot, Hvammsvík og Hrísakot.
Býlin draga oftast nöfn af heimajörðinni ef frá er talið Vesturkot sem byggðist út úr landi Reynivalla og Hrísakot sem byggðist út úr landi Ingunnarstaða. Flest þessara býla eru komin í byggð í byrjun 18. aldar (sjá töflu 1) fyrir utan Miðdalskot sem nefnt er fyrst um 1802. Auk þeirra bæja og býla sem þegar eru upptalin voru skráð um 50 önnur býli, hjáleigur og tómthús í Kjósarhreppi sem þýðir um 1,2 býli á hverja jörð, sem er rétt neðan við gróft meðaltal (1,6) þegar tölurnar eru bornar saman við sjö aðra hreppi sem áður hafa verið skráðir51. Flest eiga býlin það sameiginlegt að hafa verið fremur stutt í byggð. Upplýsingar um þau er að finna í töflu 1 (merktar með gráu) en býlin eru talin upp á eftir lögbýlinu sem þau byggjast frá.
Heimildir um eldri býli eru mjög óljósar en þegar nær dregur aldamótum 1900 fjölgar heimildum. Af bústöðunum 50 voru 20 í byggð á 17. öld eða fyrr, sex í byggð á 18. öld og fyrr og 24 í byggð á einhverjum tímapunkti frá lokum 18. aldar og fram á 20. öld.
Flest býli voru skráð að Eyri, eða átta, en þar af voru fimm tómthúsbýli ásamt býlinu Harðbala frá 19. öld sem líklega hafa tengst útgerð á þessu svæði. Fimm býli voru skráð frá Valdastöðum (sex ef Valdastaðir II eru taldir með) og fjögur frá Meðalfelli. Á flestum jörðum voru aðeins skráð 0-3 býli. Þegar jarðir skráðar með fleiri en eitt býli voru skoðaðar nánar kom í ljós að oftar en ekki virðist aðeins eitt býli (í mesta lagi tvö) hafa verið í byggð á hverri jörð á sama tíma og sjálft lögbýlið.”
Heimild:
-Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III: I. bindi, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2012.