Gerðavellir – örnefna- og söguskilti
Grindavíkurbær og Saltfisksetrið vígðu nýtt sögu- og örnefnaskilti á Gerðavöllum.
Af því tilefni var bæjarbúum og gestum boðið til gönguferðar um Vellina og næsta nágrenni. Á skiltinu er uppdráttur af svæðinu með öllum helstu minjum og örnefnum. Um er að ræða 6. skiltið í röð slíkra í Grindavík, sem einn FERLIRsfélaga hefur m.a. haft umsjón með. Sjöunda skiltið verður vígt við Hraun austan Grindavíkur í septembermánuði n.k. (2009). Með því hefur meginhluti þéttbýlishverfa Grindavíkur verið teiknaður upp m.t.t. sýnilegra og sögulegra minja í tengslum við helstu örnefnin. Hugmyndin er og að nýta svo efnið til útgáfu fyrir þá sem vilja eignast uppdrættina á kortunum svo og til kennslu í grunnskólum bæjarins.
Í fróðleik á skiltinu á Gerðavöllum segir m.a. (textinn er ónákæmari hér): „Á Gerðavöllum og nágrenni má m.a. sjá leifar eftir svonefnda Junkara, sem hér voru við fiskveiðar á 14. og 16. öld. Sumir telja að gerðið geti verið enn eldra, frá fyrstu tíð verslunar á 13. öld eða jafnvel frá upphafi búsetu í Grindavík.
Þá eru örnefni er minna á sögusvið „Grindavíkurstríðsins“ árið 1532, s.s. Virkið og Engelskalág, en sá atburður breytti verslunarsögu landsins svo að segja á einni nóttu. Á svæðinu eru einnig minjar um búskap Járngerðarstaða-bænda frá fyrri tíð. Utar á kampinum er rétt á Skyggni. Í hana voru trippi rekin á vorin og þau klippt áður en þau voru rekin upp á Selsvelli. Gamla kirkjugatan yfir á Stað lá hér um til 1908 og ekki má gleyma sjóskrímslunum er héðan hafa sést endrum og eins um aldir. Á landakorti frá 1590 eftir Gubrand Þorláksson, biskup, eru t.a.m. teiknuð inn mörg hafskrímsli, sem höfundur byggir líklega á eigin reynslu.
Utan í Stekkhól er stekkur og á hólnum er hlaðið, uppgróið, mannvirki, hugsanlega dys eða brenniker, þ.e. eldur var kveiktur á hólnum þegar vantaði skip af hafi eftir að myrkvaði enda útsýni af hólnum hvergi betra yfir Járngerðar- og Staðarsund. Í Bjarnagjá og Hrafnagjá er fjölbreytt lífríki sem og í fjörunni með strandlengjunni.
Meðfylgjandi uppdráttur er unnin upp úr örnefnalýsingum fyrir Járngerðarstaðahverfi eftir lýsingum þess fólks er best þekkir til staðhátta. Sérstakar þakkir eru færðar Lofti Jónssyni, Guðlaugi Tómassyni, Tómasi Þorvaldssyni, Gunnari Tómassyni og Guðjóni Þorlákssyni. Í textanum er auk þess vitnað í Þjóðsögur og ævintýri Einars Ól. Sveinssonar (1952), Öldina okkar 1518 og 1532, Sögu Grindavíkur eftir Jón Þ. Þór (1994) og fyrirlestra Jóns Böðvarssonar um Grindavíkurstríðið (2006).
Junkaragerði
Gerðavellir eru nefndir eftir gerði Junkaranna. Garðarnir sjást enn mjög vel þótt sjórinn hafi brotið af þeim að austanverðu. Einar Ól. Sveinsson segir svo frá í útgáfu sinni á Íslenskum þjóðsögum og ævintýrum: „Einhvern tíma í fyrri daga höfðu nokkrir menn – tólf eða átján – hafst við í óbyggðinni milli Grindavíkur, Hafna og Njarðvíka. Áttu þeir sitt skip í hverri þessari veiðistöð og höfðu þar rammgjört gerði til að geyma í skipið og það, er til þess heyrði. Enn heitir bær einn í Höfnum Junkaragerði, og gömul girðing, er leifar sjást af á Gerðavöllum milli Járngerðarstaða og Húsatófta í Grindavík, er líka kölluð Junkaragerði. Eiga þeir að hafa haldið sig þar, er þeir voru í Grindavík, og róið út úr Stóru-Bót, sem þar er hjá. Þar er að vísu ekki ræði, nema brimlaust sé og vindur standi af landi. En Junkarar reru heldur aldrei nema þar, sem vindur stóð af landi og þá er svo var hvasst, að aðrir reru ekki.
Þá er logn var, voru þeir á landi, komu þá til bæja og réðu einir öllu hjá konum, meðan karlmenn voru á sjó. Höfðu menn illan hug á þeim, en þorðu ekki á þá að ráða, því að þeir voru mestu garpar.
Og þó að menn kæmust í gerði þeirra, þá er þeir voru eigi þar, þorðu menn eigi að láta Junkara sjá þess nein merki; þá var við hefnd að búast. Menn vildu samt fyrir hvern mun ráða þá af dögum og leituðu ýmsra bragða til þess.
Einu sinni boruðu menn göt á skip þeirra upp við hástokk, þar sem ekkert bar á, fyrr en skipið var orðið hlaðið. Þá rann sjór inn um götin; en Junkarar flöttu þá fisk og lögðu fyrir þau og björgðust svo til lands.
Í annað sinn voru dregnir af keiparnir, keipanaglarnir sagaðir sundur til hálfs og keiparnir svo reknir á aftur. Naglarnir brustu þá, er í land skyldi róa, því að þá var mótvindur. Þá reru Junkarar við hné sér til lands.
Í þriðja sinn voru skautarnir dregnir af árum þeirra, árastokkarnir svo sagaðir sundur til hálfs eða meira, skautarnir síðan negldir á aftur, svo að ekki bar neitt á neinu. Nú reru Junkarar, er vindur stóð af landi; en í það sinn komu þeir ekki að landi aftur. Sagt er, að hverjir fyrir sig; Grindvíkingar, Hafnamenn og Njarðvíkingar hafi lengi eignað sér það, að þar hafi Junkarar verið af dögum ráðnir.“
Í upphafi sögunnar er getið um stað í „óbyggðinni milli Grindavíkur, Hafna og Njarðvíkur“, sem Junkarar höfðust við í. Ekki er ólíklegt að hér geti verið átt við byrgin í Sundvörðuhrauni þar sem þeir hafi geymt byrgðir sínar. Hafa þeir getað flutt og falið þær þar og verið jafnlangt fyrir alla að sækja þangað aðdrætti.“
Verslun og fiskveiðar útlendinga
Með Ensku öldinni er átt við þann hluta sögu Íslands þegar Englendingar öðrum fremur sigldu til Íslands til að veiða og kaupa skreið og aðra vöru (t.d. vaðmál og brennistein) í skiptum fyrir ensk klæðaefni, mjöl, bjór, vín og fleira. Hún hófst skömmu eftir að Svarti dauði herjaði á landið (1402 til 1404) og siglingar frá Noregi lögðust að mestu leyti af í kjölfarið.
Um 1500 voru í raun tveir “kaupstaðir” á Íslandi; Hafnarfjörður og Grindavík. Síðarnefndi staðurinn stóð betur að vígi því hann var aðalhöfn Skálholtssbiskups, sem hafði skip í förum. Bændur greiddu m.a. skatt sinn í osti, sem seldur var í Evrópu, en korn o.fl. flutt til landsins í staðinn. Grindavík var því mikil höfn um langan tíma og það löngu eftir að “Grindavíkurstríðinu” lauk. Um það má t.d. lesa á sambærilegu skilti í Staðarhverfi.
Enska tímabilinu lauk með bardaganum og drápi Englendinga í virki Jóhanns breiða hér ofan við Stórubót í júní 1532. Þetta leiddi til þess að 16. öldin er stundum kölluð þýska öldin í Íslandssögunni. Elstu menn segja að enn megi sjá leifar virkisins sem og „Enskulágar“ eða „Engelskulágar“ þar sem hinir ólánssömu Englendingar voru grafnir. En sá bardagi átti sér langan aðdraganda.
Fram til 1300 veiddu Íslendingar aðallega við landið. Skömmu fyrir 1300 gjörbreyttist ástandið. Noregskóngur hafði einkaleyfi á veiðum við allar eyjar er tilheyrðu Noregi. Aðrir þurftu að fá leyfi til að veiða þar eða versla. Yfirleitt var slíkt leyfi ekki veitt. Síðast á 14. öld breyttist þetta ástand. Englendingar urðu fyrstir til að sækja á fiskimiðin við Ísland. Fram yfir 1380 voru fiskiskip yfirleitt lítil og yfirleitt ekki vel fallin til úthafssiglinga.
Ný siglingatækni kom fram og Norðurlandabúar töpuðu forystunni á höfunum, en Englendingar tóku yfir; fyrst með tvímastra, þrímastra og jafnvel fjórmastra skipum. Fyrir 1400 voru Englendingar farnir að sigla á slíkum skipum hingað.
Fiskur var aðallega hertur. Árið 1432 kom þýskt fyrsta skipi hingað, en það var á vegum Hansakaupmanna. Noregskóngur hélt fast í einkaleyfi sitt til vöru-, veiði- og verslunarferða á sínum svæðum. En vegna þess að norsk skip gátu veitt nær markaðinum í Evrópu var hann ekki eins fastheldinn á þennan rétt sinn er fjær dró. Er Englendingar fóru að koma til Íslands bannaði Noregskóngur för þeirra til landsins. Englendingar og Íslendingar tóku ekki mark á því banni. Íslendingar ömuðust að vísu í fyrstu við fiskveiðum Englendinga, en fögnuðu vöruflutningum þeirra og verslun. En fyrir vöruflutninga Englendinganna fengu þeir “þol til fiskveiða”. Englendingar urðu loks sterkastir við landið og víða með aðstöðu. Þjóðverjar, sem komu um 1430 urðu fljótlega vinsælli. Þeir keyptu fisk og skreið á allt að 70% hærra verði og seldu sína vöru ódýrari. Mikil eftirspurn var eftir fiski í Evrópu svo þeir gátu selt hann á margfalt hærra verði þar. Trúarbrögð, fastan, var aðalástæðan. Þjóðverjar voru einnig vinsælli en Englendingar vegna þess að hinir síðarnefndu stálu oft á tíðum fiski frá Íslendingum; fiski sem safnað hafði verið saman til sölu um vorið.
Þetta varð til þess að Englendingar töpuðu smám saman öllum höfnum sínum (sem að vísu voru ekki eiginlegar hafnir í okkar skilningi, heldur viðleguaðstaða). Englendingar höfðu haft Hafnarfjörð fyrir aðalhöfn (Grindavík var nr. tvö), en þeir sigldu jafnan til Straumsvíkur. Um 1480 ráku Þjóðverjar Englendinga frá Hafnarfirði og Straumsvík (Þýskabúð) og tóku sér fasta búsetu í Hafnarfirði. Englendingar fluttu sig til Grindavíkur, en Þjóðverjar til Básenda. Sú regla gilti að sú áhöfn sem fyrst kom að höfn að voru átti einkaaðstöðu þar það sumarið. Upp spratt verslunarstétt, nefnd “verslunarduggarar”. Þeir fóru að sigla til Íslands, ekki bara yfir sumarmánuðina, heldur alveg fram í nóvember. Íslendingar unnu hjá þeim og sáum um veiðar og vinnslu aflans, t.d. í Grindavík, á Básendum og í Hafnarfirði.
Eftir að Englendingar byrjuðu að sigla hingað komu þeir sér upp umboðsmönnum. Í Grindavík var það Marteinn Einarsson frá Stað. Stjórnaði hann verslun Englendinga hér. Eftir að Þjóðverjar lögðu undir sig Hafnarfjörð fóru þeir að herja á Englendinga annars staðar, t.d. á Básendum við Stafnes.
Hinrik VIII. var við völd í Englandi. Aðalhafnir Englendinga voru á Básendum og í Grindavík. Þegar Þjóðverjar komu til landsins 2. apríl 1532 fóru þeir ekki til Grindavíkur heldur inn á Básenda. Fyrirliði þeirra, Ludtkin Smith, hafði sagst ætla að vinna eina höfn af Englendingum, en hann mun hafa verið skyldur fyrirliða þeim er enskir hertóku við Straumsvík og færðu í þrældóm. Samkvæmt reglunni átti hann rétt á aðstöðunni (fyrstur að vori). Básendar var aðalhöfnin á Romshvalanesi. Keflavík var ekki einu sinni orðið þorp.
Skömmu síðar komu Englendingar að Básendum, réru í land og báðu um að fá að hafa þar aðstöðu. Ludtkin hafnaði beiðni þeirra, sagðist ætla að bíða eftir væntanlegu öðru þýsku skipi þangað. Englendingar virtust taka þessu furðu vel og réru til baka út í skip sitt. Skömmu síðar kom annað enskt skip þar að. Þá breyttist framkoma Englendinganna gagnvart Þjóðverjum. Annað skipið sigldi inn í höfnina og réðst á Þjóðverjana. Héldu Englendingar að þeir hefðu í fullu tré við þá. En þeir vissu ekki eitt, Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði haft vetursetu á Básendum, varðveitt fiskistafla, sem ætlunin var að flytja út að vori, og vingast við heimamenn. Þegar Þjóðverjar sáu hvert stefndi, söfnuðu þeir liði, aðallega Íslendingum, og mikil orrusta verður með fylkingunum. Þjóðverjum og Íslendingum tókst að gersigra Englendinga. Öðru skipinu var sökkt, en Þjóðverjar náðu hinu.
Grindavíkurstríðið
Þá víkur sögunni hingað til Grindavíkur. Englendingarnir, sem tekið höfðu þátt í átökunum á Básendum, en var griður gefinn, flúðu til Grindavíkur. Tóku þeir allmikið af fiski til sín, sem tilheyrði m.a. Þjóðverjum. Um það leyti kom að landi í Grindavík John nokkur Braye, eða Jóhann Breiði, eins og landinn nefndi hann, á skipi sínu Peter Gibson. Lét hann þegar reisa virki á Járngerðarstöðum, ofan við Stóru Bót. Gerðust Englendingar bitrir út í Íslendinga vegna stuðnings þeirra við Þjóðverja á Básendum. Hótuðu þeir landanum og bönnuðu honum að selja þýskum fisk. Pyntaði Jóhann mann, hótaði öðrum og tók lömb og sauði frá manni sem sinnti ekki þessu verslunarbanni hans. Nam hann hest af manni og gerðist alldjarfur til kvenna. Flutti hann t.d. konu eina út í skip sitt og hélt eiginmanninum þar í böndum.
Um þessar mundir var Diðrik af Minden fógeti á Bessastöðum. Skipaði hann þýskum og öðrum er hagsmuna áttu að gæta að finna sig við Þórðarfell ofan við Grindavík. Lofaði hann öllum þeim sem það gerðu mála í nafni konungs. Hafnarfjarðarkaupmenn tóku tilmælunum strax vel og safnaðist fljótt allnokkuð lið við Þórðarfell, eða um 280 menn (aðrar heimildir segja 180), þ.á.m. 8 skipshafnir frá Bremen, sveit Diðriks, liðsmenn frá Hafnarfirði, Njarðvíkum og frá Básendum. Diðrik lýsti Englendingana í Grindavík réttdræpa, en alla sem gegn þeim færu friðhelga að lögum. Ástæðuna fyrir aðförinni sagði hann m.a. virkisgerðina, sem hann taldi vera atlögu að sjálfum Danakonungi, auk yfirgangs Englendinganna og afbrota. Hér virtist því fyrst og fremst vera um nokkurs konar lögregluaðgerð að ræða.
Margir Englendinganna voru á sjó þennan dag, 10. júní 1532. Jóhann Breiði, fálkatemjari konungs, og 13 aðrir Englendingar voru í virkinu. Aðfararnótt 11. júní, kl. 02.00, læddust Hafnfirðingar og Njarðvíkingar að virkinu, en Básendamenn og Þjóðverjarnir héldu í átt að skipunum sem lágu utan við Stórubót. Útsinningshraglandi var og úfinn sjór. Þegar menn nálguðust virkið var gert áhlaup á það með óhljóðum og látum. Vaknaði Jóhann Breiði og menn hans við vondan draum, en náðu ekki að verjast. Voru þeir allir drepnir, alls fimmtán manns. Náðist að kyrrsetja skip Jóhanns á legunni, en fjögur skip Englendinga lágu utar. Búðir annarra Englendinga voru þarna skammt frá og voru þeir, sem þar vorum, handteknir, átta talsins. Voru þeir látnir grafa félaga sínum undir virkisveggnum. Fjórum skipum tókst að leggja frá landi, en eitt fórst á grynningunum á leið út.
Diðrik sló upp veislu, en eftir nokkra daga gaf byr svo skipi Peter Gibson var siglt til Bessastaða, enda nú metið eign danska kóngsins. Herinn var um kyrrt í Grindavík í 10 daga, enda Englendingarnir þar til alls vísir. Margir þeirra höfðu verið á sjó þegar atlagan var gerð og þótti þeim aðkoman að landi heldur kuldaleg.
Með “Grindavíkurstríðinu” lauk svonefndri “Ensku öldinni” á Íslandi, en átökunum lauk ekki, því fór fjarri. Það var upphafið að átökum stórþjóða. Með því hófst “styrjöld”, sem átti eftir að standa í langan tíma. Hinrik VIII. frétti fljótlega af átökunum. Svo virðist af skrifum hans um þetta mál að hann hafi verið mjög kunnugur hér á landi. Maximillian Þýskalandskeisari frétti einnig fljótlega af átökunum.
Í kjölfarið fylgdi þras og síðan friðasamningar á milli Dana, Englendinga og Þjóðverja.
Skrímsli
Á landakortum fyrri alda má oft á tíðum sjá, auk landa og örnefna, hinar ýmsu kynjaskepnur hafsins. Landakönnuðir og kortagerðamenn, sem vildu láta taka sig alvarlega, skráðu það eitt er þeir sjálfir sáu eða fengu staðfest eftir áreiðanlegustu heimildum. Af því að dæma ættu kynjaskepnurnar að hafa verið til á þeim tímum, þótt ekki hafi alltaf tekist fullkomlega að teikna þær af ítrustu nákvæmni, þ.e. hvað varðar lögun og lit. Stærðina höfðu menn þó jafnan á hreinu og voru ekkert að draga úr henni svo neinu næmi. Oftar en ekki brá skepnunum einungis fyrir stutta stund og yfirleitt við verstu aðstæður, s.s. í myrkri, brábrimi eða þegar einhver var í sjávarháska. Vitað er, ef tekið er mið af steingervingum, sem fundist hafa, að til voru forsögulegar skepnur, bæði í sjó og á landi, er voru ægilegri og með annað svipmót en nú þekkist og miklu mun stærri, lengri og hærri. Margar frásagnir eru til af skrímslum hér á landi og enn eru að finnast kvikindi, sem ættu að vera útdauð fyrir löngu.“
Hið skemmtilegasta við framtakið er að verkið er unnið af öldnum Grindvíkingum, sem síðan hinir yngri geta nýtt sér í námi, bæði til fróðleiks og skemmtunar. Um 80 manns gengu um svæðið með leiðsögn.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.