Sognsel – Selstígur

Sognsel

Þegar FERLIR var á leið um Sandfellsveg fyrir skömmu virtist augljóst að selstaða væri einhvers staðar nálægt Sandfellstjörninni. Við hana austan- og suðaustanverða er grasmikill flói og svo virtist einnig vera vestan og norðvestan við hana, en melhryggur skilur þar af. Leit var þá gerð við flóann, en án árangurs.

Selstígurinn

Þegar niður var komið og gluggað var í gamlar lýsingar virtist í fyrstu fátt er staðfest gæti ályktunina. Í Jarðabókinni 1703 er getið um jörðina Sogn í Kjós. Þar segir: „Eigandinn Reynivallakirkja“. Ekki er getið um selstöðu frá bænum í Jarðabókinni. Það bendir annað hvort til þess að þá hafi hún verið aflögð fyrir löngu eða verið tekin upp eftir þetta og væri þá yngri. Hvorutveggja gerði áskorunina um að finna og staðsetja selstöðu þarna einkar áhugaverða. Hafa ber í huga að FERLIR hefur áður náð að staðsetja 257 selstöður á Reykjanesskaganum (auk fjölmargra annarra menningarverðmæta eins og sjá má á vefsíðunni), í fyrrum landnámi Ingólfs, svo næmni fyrir mögulegri selstöðu á fyrrnefndum stað kom ekki af engu. Það var því ekki góð tilfinning að þurfa að yfirgefa svæðið án þess að hafa fullnægt næmninni. Ekki bar þó á uppgjafartilfinningu því reynslan hefur kennt leitendum a.m.k. tvennt; reyna aftur og aftur þangað þangað til fullreynt er. Stundum hefur þurft að gera allnokkrar ferðir inn á tiltekin svæði áður en árangur hefur náðst. Oftar en ekki hefur fólk talið ólíklegt að nokkuð væri þar að finna ef ekki hefði þegar verið getið um það í rituðum heimildum.
Þegar skoðuð var örnefnalýsing fyrir Vindás, sem Ari Gíslason skráði eftir Hannesi Guðbrandssyni í Hækingsdal og að nokkru frá Bjarna Ólafssyni segir hins vegar: „
Suður af Hryggjunum, sem eru holt og hæðir, sunnarlega, er Sandfellstjörn, og Sandfell er hátt fell [395 m.y.s]. Austur af því eru Sandfellsmelar. Austan við tjörnina er Sandfellsflói, blautur og víðáttumikill, austan við tjörnina, en líklega heitir hitt öðru nafni. Þar var sel, sem heitir Sognsel. Það er nokkuð eftir að Fossá fellur úr Sandfellstjörn, og eru þar gamlar rústir. Sandfellsás liggur norðvestur úr Sandfelli, austur af tjörninni. Í Sandfelli er gren gamalt sunnan í fellinu; þar er hellisskúti og Gren.“

SelstígurÍ örnefnalýsingu Bjarna Ólafssonar um Vindás segir m.a. um þetta: „Sandfell er suðvestan við Skiptagilsbotn og suðaustur af því  Sandfellsmelar. Lóma heitir seftjörn norðaustur  af Skiptagilsbotni. Vestur af Lómu, og allt vestur að Dauðsmannsbrekku eru víðáttumiklir melar sem einu nafni nefnast Hryggir. Vestur af Sandfelli er Sandfellsflói og þá Sandfellstjörn, síðan Tjarnarflói, þar næst flói sem heitir Stóri-Krókur og annar vestur af honum sem heitir Litli-Krókur. Allir þessir flóar eru einu nafni nefndir Vindásflóar. Sunnan við Sandfellsflóa er Sandfellsás. Úr Sandfellstjörn rennur Fossá. Vestan við hana, nokkru eftir að hún fellur úr tjörninni er Sognsel og eru rústir þess enn mjög greinilegar. frá Sandfellstjörn gengur kvos til norðurs inn í Hryggi og heitir Hryggjardalur.
Fossá sem áður er nefnd, fellur fram af Reynivallahálsi niður í Hvammá, beygir síðan meir til vesturs og fellur í smá fossum niður í Leyni og heitir þar frá Leynislækur. Úr Leyni  rennur hann milli Leynismýrar og Kvíamýrar, um Leynislækjarmóa og saman við Gíslalæk áður en þeir falla á.
SelstígurSelstígur lá yfir Ása, austan við Eystri-Hvammamýri, upp Múla og Múlahorn vestan við Sandfell, og þar á þjóðveginn. Í framhaldi af Selstíg lá gata norður yfir Hryggi, að Seljadal. Eins og nafnið bendir til mun Selstígur í fyrstu einkum hafa
 verið notaður til selfara, því Sogn átti sel við Sandfellstjörn sunnanverða, en Vindás átti sel í Seljadal, skammt vestur af Skálafelli. Einnig var hey flutt niður Selstíg, þegar heyjað var uppi á Vindásflóum, en það mun hafa verið stundað nokkuð einkum þegar tvíbýli var á Vindási. Allmikil umferð var um Selstíg meðan búið var á Seljadal. Einnig fóru hann margir sem leið áttu yfir Reynivallaháls.“

Ekki er vitað hvenær Sognbærinn gamli var byggður en hann var rifinn um 1935 og steinhús byggt í staðinn. Til er mynd af gamla bænum frá árinu 1918.

SognselGuðbrandur Hannesson, bóndi í Hækingsdal, kvaðst ekki vita af tóftum á nefndum stað innan við Sandfellstjörn, en ef faðir hans, sem var mjög kunnugur þar, hefði getið þeirra í lýsingu sinni þá væri það áreiðanlega rétt. Sagði hann Sogn vera næsta bæ vestan við Reynivelli, milli Valdastaða og Reynivalla. Selstígurinn væri nú mjög greinilegur því hrossin á Vindási sæktu mjög upp Múlann eftir stígnum um þessar mundir. Það því væri kjörið að reyna að rekja Selstíginn einmitt núna.

Sognsel

Sognsel – uppdráttur ÓSÁ.

Og þá var ekkert annað gera en að leggja land undir fót. Þegar komið var að Hvammá ofan við Leynislæk blasti fossinn í Fossá við. Með Múlanum liggur gömul gata. Henni var fylgt til suðurs. Staldrað var við undir Múlanum. Þar liggur gatan áfram á ská áleiðis upp hann fyrir Múlahornið. Hún er þarna mjög vel greinileg og auðrötuð. Nokkru áður en þangað er komið liggur Selstígurinn af götunni ofar í Múlann á a.m.k. þremur stöðum. Ef miðstígurinn er valinn er auðveldast að feta sig upp brekkuna áleiðis upp á brún. Neðan hennar beygir stígurinn til vinstri og aftur til hægri áður en upp er komið. Þaðan er gengið spölkorn beint af augum og síðan til vinstri á ská upp sandás og síðan til hægri ofan hans með stefnu á gilskorning í stuttu hamrabelti. Þar liggur stígurinn í sneiðing uns upp er komið. Þá sést varða. Stígurinn liggur upp með henni vinstra megin og síðan beygi hann til hægri áleiðis upp ásana með stefnu á Sandfell. Þarna sést stígurinn greinilega.
Áður en upp á efsta ásinn er komið greinist Selstígurinn; annars vegar áfram upp ásana Gatna- og stígakerfiáleiðis að suðvestaverðu Sandfelli með tengingu inn á Sandfellsveg og Svínaskarðsveg norðaustan við fellið, og hins vegar til vinstri, áleiðis í Sognsel. Fyrrnefnda gatan greinist á leiðinni; annars vegar beint áfram og hins vegar til hægri, til austurs með sunnanverðu Sandfelli. Það gæti verið beinni tenging við Svínaskarðs-veginn. Síðarnefnda gatan þarna á fyrrnefndu gatnamótunum er óljósari og ekki auðvelt að koma auga á hana á melnum. Þegar Selstígurinn var rakinn til baka frá selinu kom hann þarna niður. Nú var stígnum fylgt áfram áleiðis að Sandfelli. Þar greindist hann aftur; annars vegar beint áfram inn á fyrrnefndar Þjóðleiðir, og hins vegar upp í selið. Síðanefndu leiðinni var fylgt upp á móbergsás. Þaðan var ágætt útsýni yfir Sandfellstjörn og á Kjöl. Neðan ássin lá stígurinn við enda grágrýtisholts og að Fossá þar sem hún fellur úr tjörninni. Álftarpar neri saman hálsum og gæsir horfðu á með aðdáun.

VarðaSelið kúrir undir lágu holti, einu af nokkrum austan Sandfellstjarnar, skammt norðan við Fossá. Ekki er ólíklegt að áin hafi fengið nafn sitt af litlum fallegum fossi (sjá mynd hér að neðan) neðan við selið. Stekkurinn er við fossinn. Selið er óvenjulegt að því leyti að það hefur fjögur rými í stað þriggja, sem hefðbundið er í seljum á Reykjanes-skaganum. Það virðist vera af seinni tíma gerð selja, þ.e. reglulegri mynd en þekktist í þeim eldri. Líklegt má telja, af tóftunum að dæma, að haft hafi verið í seli þarna vel fram á 19. öld. Veggir standa grónir (0.60 m) og augljóslega má sjá húsaskipan og gangverk milli rýma. Hleðslur eru fallnar, en sjást, t.d. í meginrýminu, þ.e. baðstofunni, sem hefur verið innst og aukarýmið hefur augsýnilega tengst henni. Búrið hefur verið vinstra megin við innganginn í baðstofuna og eldhúsið hægra megin.
FossáAð vettvangsskoðun lokinni var ákveðið að fylgja Sel-stígnum utanverðum, enda augljós þar sem hann lá frá selinu. Liggur hann eðlilega sem leið liggur neðan við grágrýtis- og móbergsholtin sunnan við selið, niður með hæðardrögum á vinstri hönd og að fyrrnefndum gatnamótum (stígsmótum) ofanvið vörðuna. Frá stígnum er frábært útsýni yfir neðanverða Kjósina.

Þegar að vörðunni var komið var stígnum fylgt hvylftina í hamraveggnum, á ská niður sandása og að brúninni. Þarna mætti að ósekju hlaða vörðu fyrir þá, sem áhuga hafa á áhuagverðri leið, en eru ekki fulllæsir á landslagið.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

SognP.S. Hafa ber í huga að ekkert hefur fundist hingað til nema að því hafi verið leitað, þ.e. farið á staðinn, með allri þeirri fyrirhöfn sem því fylgir. Hluti fyrirhafnarinnar hefur falist í eftirgrennslan, leit, grúski og viðtölum við fólk, sem gerst þekkir til á hlutaðeigandi svæði. Útvega hefur þurft kort, loftmyndir og skrár er upplýst geta um möguleikana, skoða vettvang, meta aðstæður, bíða eftir ákjósanlegu veðri eða jafnvel árstíma og leggja síðan af stað, horfa, meta, leita og fylgja vísbendingum. Þegar allt þetta hefur borið árangur þarf að ljósmynda, teikna upp, hnitsetja, skrá og borða nestið. Og ekki má gleyma þeim tíma, sem fer í að koma öllu þessu heim og saman í stuttum texta og útvali ljósmynda, búa til uppdrætti, gera kort, færa inn á þau helstu upplýsingar til glöggvunar. Og síðan þarf að uppfæra allt þetta í réttu hlutfalli við síbreytilega tæknimöguleika – en allt er þetta fyrirhafnarinnar virði.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Vindás
-Guðbrandur Hannesson

SelstígurinnSognsel