Flekkudalur – Torfdalur
Stefnan var tekin á ný á Flekkudal í Kjós. Ætlunin var að skoða ofanverðan dalinn, en FERLIR hafði áður gengið um hann neðanverðan (sjá síðar).
Guðný Ívarsdóttir tók vel á móti viðstöddum. Hún virtist þekkja þarna hverja þúfu og örnefnin las hún eins og staf á bók. Þegar henni var kynnt tilefni ferðarinnar, þ.e. leit að hugsanlegum minjum í ofanverðum Flekkudal, sagði hún strax að slíkar minjar væru ekki þar að finna. Hún þekkti dalinn það vel.
Að fenginni reynslu fara ekki alltaf saman fyrirliggjandi vitneskja og innliggjandi mannvistarleifar á tilteknum svæðum. Haft var í huga að í Jarðabókinni 1703 segir að Flekkudalur hafi haft „selstöðu í heimalandi“. Heimalandið er ekki mjög stórt, en þess nærtækara. Ólíklegt mátti telja að jörðin hafi ekki nýtt Flekkudalinn fyrrum m.v. hversu undirlendur og grasgjöfulur hann er. Ætlunin var m.a. að grennslast fyrir um hvort í dalnum ofanverðum kynnu að leynast gleymdar mannvistarleifar.
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Flekkudal segir m.a.: „Jörð í Kjósarhreppi næst austan Eilífsdals, en Meðalfell á land þar á milli. Upplýsingar gaf Guðni Ólafsson bóndi þar og Ólafur Einarsson, nú að Króki í Flóa.
Jörð þessi er í samnefndum dal á láglendinu, en var áður tvær jarðir, sem hétu Efri- og Neðri-Flekkudalur. Nú er sá neðri horfinn, en í stað hans er býlið Grjóteyri.
Norðan við land jarðarinnar er Meðalfellsvatn. Suður frá því liggur dalurinn suður í fjallið og heitir hann Flekkudalur. Eftir honum rennur Flekkudalsá. Vestan við dalinn gengur allmikill háls lækkandi til norðurs. Nyrzt á honum er hnúkur, sem heitir Miðmundahnúkur, öðru nafni Arnbjargarhnúkur, og er þarna í skógivaxinni hlíðinni.
Tveir lækir koma þarna niður, sem heita Vesturlækur og Austurlækur eftir legu sinni og afstöðu. Milli lækjanna eru smágil, sem heita Gilklofar, og þar upp af er háfjallið nefnt Nónbunga. Austan við túnið, austan við Vesturlæk, er gata niður, sem heitir Nautastígur.“ Ábúandinn í Flekkudal benti FERLIR á nefndan Nautastíg. Sagði hann (sem reyndar er hún) að hrossin færu stundum upp eftir stígnum, en þó aðallega geiturnar, sem hún hefði í vistun. Í þessum orðum sögðum birtust geiturnar ofan við brúnina. Uppi væri flói, sagði hún, sem hefði verið sleginn í gamla daga. Þá hefði fólkið farið upp eftir Nautastígnum og í flóann, heyjað, bundið í bagga og reitt þá fram á brúnina. Þaðan hefðu baggarnir verið látnir rúlla niður hlíðina, áleiðis niður að bænum. Stundum gáfu böndin sig í veltunni og þótti það slæmt. Ætlunin er að skoða Nautastíginn og flóann fljótlega.
„Austan og ofan við Austurlæk heitir Sauðatunga. Með henni að innan er annar lækur, sem heitir Sauðatungulækur. Innar er lægð, sem heitir Krókur. Neðan við Krók og norðan er Króksmelur, og austan hans er Krókmýri. Innar heitir Selhæðir, niðri í dalnum. Það er graslendi. Upp af þeirri hæð er gil, sem heitir Grýlugil.
Austur af Sauðatungulæk, næst túni, er svonefndur Háhóll, grasivaxinn hóll. Austur af honum gengur smárani fram, sem heitir Snasi, fram að ánni. Bæjarmegin við hann er rétt. Næst túni, norðvestan við Háhól með ánni, er Stöðull. En í gljúfrunum norður af Háhól með ánni er Stöðulhvammur. Þar fram er hár klettur, sem heitir Hrafnaklettur. Með gljúfrinu þar fyrir framan er hvammur, sem heitir Kúahvammur, en nær ekki alveg upp að Hrafnakletti. Þar fyrir framan er annar, sem heitir Skvompa. Þar fyrir framan er foss, sem heitir Grafarfoss og er beint niður undan Selhæðum, sem fyrr er getið.“
Ábúandinn þekkti öll framangreind örnefni og gat bent á þau af bæjarhlaðinu. Háhóll er t.d. beint upp af bænum suðaustanvert. Undir honum er nefndur Snasi. Þar kúrir lítil réttin, ferhyrnd, hlaðin og heilleg. Handan árinnar er Stöðullinn og sést enn móta fyrir honum (grónar ferhyrndar hleðslur). Selhæðir eru lengra upp með ánni að vestanverðu (sjá meira HÉR).
„Innan við Selhæðir neðst í dalnum er nafnlaust svæði inn að Djúpagilsskriðu. Þar upp af er gil, (sem heitir Djúpagil og er næsta gil innan við Grýlugil. Djúpagil er djúpt á kafla, en klettalaust. Þó nokkuð framar er gil, sem heitir Hnúksgil. Milli Djúpagils og Hnúksgils nokkuð uppi í brekkunum heita Flár. Uppi í brún er klettalítið, og framan við Hnúksgil er svonefndur Paradísartindur). Tindur þessi ber þetta fallega nafn að norðan, en frá vestri og suðri heitir hann Skálatindur. Í honum blasir við Skál frá Meðalfellsdal. Í Hnúksgili er alltaf snjór. Í Paradísarhnúk er annað gil, sem heitir Fossgil. Framan við Hnúkinn, upp undir klettum, er smáklettur með miklum urðum. Heitir hann Grjótdalur og úr honum er mikið gil, sem heitir Grjótdalsgil.“
Bæði dalurinn og gilið eru augljós þegar komið er innst í Flekkudal. Að þessu sinni voru enn (í lok júní) stórir snjóskaflar í gilinu. Fossadýrðin er einstök efst í dalnum. Staðurinn er og dýrðarinnar tækifæri fyrir ljósmyndara.
„Í botni Flekkudals er allmikið svæði, stallar og lækir neðst. Þar er Suðurdalsfoss. „Flekka“ vildi meina að þar væri nefndur Háifoss, enda rökrétt. “ Þar upp af er spilda með fossum, Lægrifossar, og svo Hærrifossar. Stallur er milli þeirra, sem aðskilur þá. Út með Flekkudalsá að austanverðu er fyrst mikil grasbrekka sem heitir Kinn. Fjallið þar upp af heitir Miðfjall. Inn í Miðfjall gengur smádalur, fyrst til austurs, beygir svo til suðurs, og heitir hann Þverárdalur. Eftir honum rennur Þverá í Flekkudalsá, nálægt efstu grösum.
Bungan milli Þverárdals og Flekkudals heitir Hryggur. Vestan í honum, utan við Kinn, sem fyrr getur, heitir Fláar. Þverárdalur er ofan við Kinnina, og eftir honum er svo Þverá. Beggja vegna árinnar heita Þverárklettar.
Miðfjallið heldur svo áfram, þar til kemur að dal þeim, sem heitir Torfdalur. Eftir dalnum rennur á, sem heitir Torfdalsá og fellur í Flekkudalsá nokkuð suður frá bæ. Fellið hér er nefnt Miðfell. Niður af því er Miðtunga, en Miðtunguhjallinn er neðstur, um það bil þar sem þær koma saman. Í miðjum Torfdal suðvestan árinnar er Böltur. Það eru grasbörð niður að á. Hár melur er þar fyrir ofan. Fremst í Torfdal er kallað Torfdalsbotn, og innst heitir dalurinn Þrengsli. Fremst eru gilin tvö. Austan við Torfdalsá er fjallið nefnt Sandsfjall.
Neðst í Torfdal móti Miðtunguhjalla er Hjalli. Þar á móti er klettur við ána, sem heitir Kálfabani, og þar er Kálfabanafoss. Fremst á Sandfjalli heitir Sandhnúkur. Efst á Sandfjalli eru Esjuflóar og Esjuhorn.
Svæðið niður við ósinn heitir Flekkudalsnes. Í nesinu er Ólafstóft. Hún er nú horfin, því gert var tún úr valllendinu efst í nesinu. Í túninu, þar sem húsin eru nú, hét Hjálmur, en gamli bærinn var, þar sem nú eru fjárhúsin. Hóll er þar austur við gilbarm, sem heitir Kerlingarhóll. Annar hóll er niður af Hjálmi, sem heitir Harðhaus. Mýrarblettur þar neðar heitir Kringla, slakki sem erfitt er að rækta. Blettur suðaustur af gamla túni heitir Dísutún.“
Í bakaleiðinni var farið yfir Flekkudalsána og inn í Torfdal og yfir Torfdalsá. Hvergi á leiðinni, utan mannvistarleifa undir Selbrekkum, var að sjá að mannshöndin hefði komið þar að verki. Þess stórbrotnari var hönd náttúrunnar á listaverkinu öllu. Það sem virtist áhugaverðast, auk umhverfisáhrifanna, var meint seltóft undir Selbrekkum, framan við Grafarfoss. Guðný sagðist hafa heyrt að þar hefði amma hennar dvalist í selstöðu og haldið ánum til haga. Ummerki benda til þess að svo hafi verið, bæði kvíin og tóftirnar.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Flekkudal.
-Guðný G Ívarsdóttir, bóndi í Flekkudal.