Hraunin I

Straumssel

Hraunin ná frá Straumsvík vestur að Hvassahrauni og tilheyrðu Álftaneshreppi frá fornu fari en árið 1878 urðu þau hluti Garðahrepps þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp. Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðaréttindi 1908 fleygaði bærinn Garðahrepp í tvennt, en Hraunin tilheyrðu áfram Garðahreppi. Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær skika úr landi Straums sem var í eigu Bjarna Bjarnasonar fyrrum skólastjóra Barnaskóla Hafnarfjarðar og 1955 var gerður makaskiptasamningur við Skógrækt ríkisins um viðbótarhluta úr landi Straums. Árið 1964 höfðu Hafnarfjarðarbær og Garðahreppur makaskipti á löndum og komu Hraunajarðirnar sunnan bæjarins í hlut Hafnarfjarðar.

Hraunamenn og gamlar götur
ÞorbjarnastaðabrunnurÍbúum Reykjanesskagans hefur löngum verið skipt í útnesjamenn sem bjuggu utan Kúagerðis og innnesjamenn sem bjuggu í Álftaneshreppi og innan hans. Í Hraunum bjuggu Hraunamenn sem voru jafnframt innnesjamenn.
Fornir stígar og götur vísuðu nesjamönnum og ferðalöngum veginn um Suðurnes. Fjölförnustu göturnar voru svokallaðir Alfaravegir sem liggja út og inn eftir Reykjanesskaga. Þvert á Alfaraveg eru stígar eins og Rauðamelsstígur, sem liggja suður í Almenning og upp í fjöllin ýmist til Grindavíkur eða Krýsuvíkur. Innan Hraunahverfis voru einnig margir stígar og götur s.s. Sjávargata, Straumsvegur, Skógarstígur, Jónsbúðarstígur og Lónakotsgata.
Ekki er vitað með vissu hvenær búskapur hófst í Hraunum. Þó er talið, útfrá fornum rústum og Straumsselsstígurskipan þeirra, að búskapur hafi verið við Óttarstaði í kringum árið 1200.
Fáein bæjarhús frá síðustu öld standa enn í Hraunum, en mun algengara er að sjá tóftir býla, hjáleiga og gripahúsa. Helstu lögbýli í Hraunum voru (talið frá austri til vesturs): Stóri Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot. Þessum býlum fylgdu hjáleigur og þurrabúðir s.s. Gerði, Péturskot, Litli Lambhagi, Þýskubúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarstaðagerði og Eyðikot. Túnskikar voru yfirleitt girtir vandlega hlöðnum tvöföldum grjótgörðum sem sjást enn, þá má víða sjá upphlaðna brunna og skjólgarða sem marka kvíaból, fjárréttir og nátthaga.

Selin voru mikilvæg
Sunnan Reykjanesbrautar í Almenningi eru selin í 3 – 4 km fjarlægð frá bæjunum. Selin voru einskonar framlenging á búskap jarðanna. Snemma á sumrin flutti vinnufólk sig upp í selin með kindur og kýr og stundaði þar búskap til haustsins. Á þessum tíma var aflað matar og afurðir unnar fyrir komandi vetur.
Við helstu götur og við sum selin eru náttúrlegir brunnar í klöppum sem geymdu rigningarvatn fyrir ferðalanga, fjársmala, matselju og þá sem leið áttu hjá. Ennfremur eru nátthagar, stekkir, fjárskjól og smalaskútar við selin.

Helstu búskaparhættir
StraumsselSauðfjárbúskapur var aðalbúgreinin í Hraunum. Sauðfé var haft á útigangi í Almenningi eða á fjörubeit. Sauðir voru ekki teknir á hús og leituðu sjálfir í skjól eða skúta í illviðrum. Fjárskjól leynast víða í Hraunum. Sauðamenn eða smalar fylgdu sauðum sínum og unnu einmanalegt og erfitt starf. Lömb sem sett voru á að hausti voru höfð í lambakofum og hrútar í hrútakofum. Víða má sjá réttir s.s. Þorbjarnarstaðarétt sem var haustrétt Hraunabænda, Óttarstaðarétt og réttina við Lónakot sem tók 70-80 fjár. Þessar réttir gegndu mikilvægu hlutverki þegar sá siður að færa frá var enn tíðkaður, en hann lagðist af seint á 19. öld.

Smalaskjól

Á 18. öld var algeng búfjáreign í Hraunum 1-3 kýr og 18-20 kindur en fækkaði þegar bráðapestir eða fjárkláðar geisuðu. Um miðja 19. öld og fram á 20. öldina fjölgaði sauðfé í Hraunum og héldu bændur þá 80-100 kindur að meðaltali.
Mjólkandi kýr gátu verið tvær og kvíga til viðbótar. Oft fylgdu kýrnar með í selið eða voru hafðar nær bæjum í kúarétt á sumrin. Flestir bændur áttu tvo hesta, en kotungar engan eða í besta falli einn hest til flutninga.
Búskapur lagðist af að mestu á kreppuárunum eða um 1930. Búið var í Óttarstaðahúsinu til ársins 1952 og í Vesturbæ til 1965. Síðasti ábúandi Hraunanna var Guðmundur Sigurðsson bátasmiður, sem lést árið 1986. Í dag eru aðeins sumarbústaðir í Hraunum og eru þar elst húsa Vesturbær og Eyðikot.

Útræði var nauðsynlegt
Sjósókn var Hraunamönnum nauðsyn. Heimræði kallaðist útræði sem stundað var frá jörðum sem lágu við sjó. Uppsveitarbændur fengu oft leyfi Óttarstaðaréttsjávarbænda til að stunda sjósókn frá jörðum þeirra og senda vermenn á vertíð.  Var það kallað að hafa inntökuskip á jörðinni og bændur sem sendu menn í ver nefndust útvegsbændur. Minjar um útræði eru víða í Hraunum; þurrabúðir, vörslugarðar og fiskreitir. Í fjörunni innan skerjagarða mótar fyrir uppsátrum, fiskbyrgjum og vörum þar sem bátar voru dregnir upp öldum saman, t.d. Péturskotsvör, Straumsvör, Þýskubúðarvarir tvær, Jónsbúðarvör, Óttarsstaðavör og Eyðiskotsvör.
Söltekja, skeljafjara og hrognkelsafjara voru hlunnindi. Skelfiskur var oft notaður til beitu, en verðmeiri voru auðfönguð hrognkelsi, sem fjaraði undan í fjörupollum.

Örnefni og kennileiti
MiðmundarvarðaSérhver þúfa, gjóta, hóll og hæð hefur sitt nafn, sem gefur umhverfinu merkingu og aukið gildi. Oft reyndust hólar og hæðir vera merkileg kennileiti eða vegvísar og gerðu mönnum auðveldara að ferðast um og vísa til vegar þegar kennileiti hétu einhverjum nöfnum. Mörg örnefni hafa haldist óbreytt um aldir, en sum hafa breyst eftir búsetu fólks, t.d. er ekki óalgengt að kot eða túnskiki hafi breytt um nafn eftir því hvað ábúandinn hét.
Þá eru sum örnefni sem einungis hafa haft gildi fyrir afmarkað svæði. Í því sambandi má nefna nöfn hóla og hæða umhverfis bæjarhús Óttarstaða, sem þjónuðu þeim tilgangi að segja til um sólargang, svokölluð eyktarmörk. Það eru örnefni eins og Dagmálahæð (kl. 9:00), Hádegishæð (kl. 12:00), Miðmundarhæð (um kl. 13:30), Nónhóll (kl. 15:00), Miðaftansvarða (kl. 18:00) og Náttmálahóll (kl. 21:00). Slík eyktarmörk koma einnig fyrir við Straum og Þorbjarnarstaði og hafa einungis gilt fyrir það svæði. Svo eru mörg örnefni sem gefa skýra mynd af því hvaðan þau eru upprunnin, eins og t.d. Smiðjubali, Fjárhlið, Markhóll og önnur í svipuðum anda.

Ferskvatnstjarnir með sjávarföllum
StraumurTalið er að Straumsvík dragi nafn sitt af sjávarstraumum þeim sem myndast á milli Straumshólmanna á fallaskiptum, eða af ferskvatnsfljóti því sem rennur neðanjarðar frá Kaldárbotnum og Undirhlíðum. Sprettur ferskvatnið fram undan hrauninu við víkina og er rennslið talið jafnast á við margfalt vatnsmagn Elliðaánna.
Undir öllu hrauninu og mestöllum Reykjanesskaga liggur jarðsjór á nokkru dýpi. Ofan á jarðsjónum flýtur ferskt jarðvatn vegna þess hversu eðlisléttara það er og eru nokkuð skörp skil á milli þeirra.
Þegar fellur að flæðir sjávarstraumurinn inn undir hraunið. Við það hækkar grunnvatnsstaða jarðvatnsins undir hrauninu og ferskvatnstjarnir myndast í lægðum og lautum við ströndina.
StraumurVið Faxaflóa getur munur sjávarhæðar milli flóðs og fjöru verið allt að 4 metrar. Í tjörnum fer munur á sjávarföllum að miklu leyti eftir staðsetningu þeirra. Flestar tjarnirnar eru þurrar á fjöru, en geta orðið 1-2 m. djúpar á flóði, t.d. Jónsbúðatjörn. Í Brunntjörn er um 2 m. munur á flóði og fjöru. Þessar ferskvatnstjarnir eru einstök náttúrufyrirbæri og ekki er vitað til þess að þær eigi sína líka hvorki hérlendis eða erlendis.
Gróðurinn við tjarnirnar er einnig einstakur þar sem hann hefur þurft að aðlagast þessum ferskvatns sjávarföllum; aðlögun sem einungis hefur staðið yfir í 5 til 7 þúsund ár, eða frá því hraunið rann.

Jarðfræði og einkenni hraunsins
KapelluhraunHraunið er dæmigert helluhraun, mishæðótt með falleg ker og skemmtilega hraunhóla sem eru yfirleitt sprungnir í kollinn. Það hefur átt upptök sín í Hrútagjárdyngju vestur undir Sveifluhálsi fyrir um 5 til 7 þúsund árum. Það þekur Almenning og myndar alla ströndina milli Straumsvíkur og Vatnsleysuvíkur.
Austan við Hraunin er Kapelluhraun sem álverið við Straumsvík stendur nú á. Það er mjög úfið gjallkennt hraun og er dæmigert apalhraun. Það hefur átt upptök sín í Undirhlíðum og rann á sögulegum tíma, að öllum líkindum árið 1151. Einungis nyrsti hluti hraunsins nefnist Kapelluhraun og er kennt við kapellu heilagrar Barböru sem stendur rétt sunnan við álverið.

Fjölskrúðugur gróður
KapellanHraunið er að mestu klætt mosa og er grámosi ríkjandi, en grónir grasbalar eru áberandi næst bújörðum og selstöðum. Lynggróður er mjög algengur t.d. beitilyng, krækilyng, bláberjalyng og sortulyng. Fallegir burknar vaxa í hraunsprungum og ýmiskonar blómplöntur þrífast á víð og dreif um hraunið s.s. blóðberg, blágresi, lyfjagras, tágamura, maríustakkur og burnirót.
Almenningur er víða vaxinn kjarri en í lok síðustu aldar var kjarrið nánast að fullu eytt af hrístöku og fjárbeit því sauðfé var öldum saman haft á útigangi í afréttinum. Eftir að dró úr lausagöngu búfjár í Hraunum eftir miðja 20. öld hafa birki, víðir og einir tekið mikinn vaxtakipp. Almenningur er stundun nefndur Hraunaskógur í dag.

Dýralíf  í Hraunum
RefurMest ber á fluglalífi s.s. rjúpu, heiðlóu, sandlóu, stelk, kríu, gæs, þúfutittlingi, skógarþresti, músarindli, spóa, hrossagauk og hrafni. Áður fyrr var tófa mjög algeng í Hraunum og sjást víða skotbyrgi sem hlaðin voru til að fella hana. Minnkur er mjög algengur við fjöruna og má víða sjá ummerki eftir hann. Margskonar smádýr t.d. hagamýs finnast í Hraunum.

Sjórinn og fjaran
Sjórinn og fjaran í Hraunum hafa löngum heillað marga, jafnt unga sem aldna. Fjaran er svo margbreytileg að það er sama hversu oft hún er gengin, það er alltaf eitthvað nýtt að sjá. Hægt er að gá að skipaferðum eða fylgjast með birtuspilinu út við sjóndeildarhringinn. Fátt jafnast á við að horfa á Snæfellsjökul baða sig í kvöldsólinni á góðum sumardegi.
Kræklingur er nokkuð algengur og víða má finna stórar skeljar. Á fjöruklettum má sjá kuðunga, aðallega þangdoppu og klettadoppu og í lónum sem verða þegar fjarar út má oft finna litla krabba.
Mikið landbrot á sér stað við ströndina sem stafar aðallega af landsigi og hefur fjaran breyst talsvert á síðustu árum.

Flutningahöfn fyrr og nú
KræklingurÍ Hraunum spila gamli og nýi tíminn saman. Straumsvík var mikill verslunarstaður frá árinu 1400 og fram yfir 1600 þegar þýskir og enskir kaupmenn vöndu komur sínar til landsins. Það var oft mikið um að vera þegar farmur var tekinn á land og verslunarbúðir settar upp þar sem nú kallast Þýskubúð. Þar áttu kaupmenn ýmiskonar viðskipti við inn- og útnesjamenn.
Nú fara stærstu flutningaskip sem sigla til Íslands um Straumsvíkurhöfn þegar þau bera hráefni um hálfan heiminn til álversins við Straumsvík og flytja síðan fullunna vöru aftur frá landinu.

Fjölbreyttar gönguleiðir
VarðaGamlir stígar og götur hafa reynst skemmtilegar gönguleiðir í Hraunum og er hægt að velja sér lengri eða skemmri leiðir með því að fylgja þeim. Svæðið er mjög áhugavert og full ástæða til að kanna það af eigin rammleik því víða leynast áhugaverðar minjar, sérstæð náttúra og margt sem gleður augað.
Markmiðið með þessu upplýsingariti og kortinu sem fylgir er að gera Hraunin aðgengileg til útivistar, náttúruskoðunar og búsetuminja fræðslu.

Útivistarsvæðið í Hraunum
Hraunin eru mun merkilegri en margur hyggur og kjörið útivistarsvæði. Hafnfirðingar eru lánsamir að eiga slíkt svæði við bæjardyrnar. Hraunin geyma minjar sem eru samofnar búsetusögu og náttúru Hafnarfjarðar, merkar jarðmyndanir, fjölbreytt gróðurfar og lífríki sem er vel þess virði að kynna sér nánar.

Samantekt: Jónatan Garðarsson og Lovísa Ásbjörnsdóttir.

Heimild:
-visithafnarfjordur.is

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.