Grændalur
Gengið var um Grændal ofan Hveragerðis. Dalirnir uppaf Ölfusdal heita Reykjadalur og Grænsdalur (Grændalur). Gufudalur er nafn á býli austast í Ölfusdalnum en uppaf því eru dalverpi með skemmtilegum gönguleiðum. Volgar laugar og litrík hverasvæði gera landsvæðið að einstakri náttúruperlu.
Í nýlegri Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða fékk Grændalur hæstu einkunn af jarðhitasvæðum fyrir náttúruverðmæti í jarðminjum, vatnafari og vistgerðum. Ef vernda ætti eitthvert jarðhitasvæðanna á Hengilssvæði ósnortið kæmi Grændalur þar fyrst til greina. Þrátt fyrir það hefur ásókn orkufyrirtækja til tilraunaborana í dalnum verið linnulítil. Fjallað verður um það hér á eftir.
Grensdalur liggur norðan Hveragerðis. Úr honum kemur Grensdalsá sem rennur í Varmá. Dalurinn er, sem fyrr sagði, þröngur neðst og ekki áberandi en víkkar er innar er komið og er nokkuð víðáttumikill. Dalafell er hömrum girt vestan í dalnum og virðulegur Álútur að austanverðu. Í dalnum er mikill fjöldi hvera, lauga og volgra og er fjölbreytni vistkerfa þeirra með því mesta sem þekkist. Grændalsnafnið á vel við þar sem dalurinn er gróinn og gróðurinn sérlega grænn.
Ummerki jarðhiti eru mjög víða, m.a. eftir báðum hlíðum endilöngum og í dalbotninum. Berggrunnurinn er þéttur þannig að vatn sígur lítið niður í hann en gömul framhlaup eru í hlíðunum og þar spretta upp lindir. Jarðhitinn í Grændal er óvenjulega fjölbreyttur… Gufuhverir eru áberandi en þar finnast líka leirhverir, litlir sprengigígar, heitar skellur, vatnshverir, og heitar og volgar lindir og lækir sem sitra niður hallann. Grændalur er eitt af stærstu ósnortnu hvera- og laugasvæðum landsins í nánd við byggð. Gróskan er mikil og í dalnum vaxa nokkrar sjaldgæfar plöntutegundir, sem hér á landi finnast aðeins við jarðhita. Lífríki hveranna er talið einstaklega fjölbreytt.
Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun hafa lagt til að Grændalur verði friðlýstur. Auðvelt er að komast að Grændal með því að aka í gegnum Hveragerði og áfram til norðurs þar til vegurinn endar við bílastæðið á bökkum Reykjadalsár.
Orkufyrirtæki hafa sóst eftir að virkja í Grændal. Árið 2001 lagðist Skipulagsstofnun gegn áformum Sunnlenskrar orku um rannsóknaborun í botni Grændals og vegagerð um 3 km leið inn eftir dalnum.
Skipulagsstofnun féllst á borun rannsóknarholu í mynni dalsins með einu skilyrði. Fyrirtækið kærði úrskurðinn til umhverfisráðherra sem felldi hann úr gildi.
Ráðherra samþykkti borstað norðan dalsins og veg að honum úr norðri frá línuvegi Búrfellslínu en féllst ekki á meginkröfu Sunnlenskrar orku um borstað og veg inn í dalnum sjálfum. Til fróðleiks má geta þess að í mati á umhverfisáhrifum um niðurstöðum frumathugunar og úrskurð skipulagsstjóra ríkisins um borun rannsóknarholu í Grændal, lagningu vegar o.fl. árið 2000 er fjallað um menningarminjar, en engra getið. Einungis að fulltrúi Þjóðminjasafnsins muni fara um svæðið þegar tækifæri gefst. Gefur þessi afstaða og ákvarðanataka án nauðsynlegra upplýsinga hugsunarleysi hlutaðeigandi aðila yfirdrifið til kynna.
Grændalur sem er næst ósnortinn lokast til norðurs og er Ölkelduháls norðvestan hans. Dalirnir eru hluti af eldstöð sem kennd er við Hengil og nær eldstöðin frá Hveragerði til Nesjavalla, vestur fyrir Hengil og suður í Hverahlíð. Landslag svæðisins einkennist af jarðhita og er þar fjöldi hvera og lauga, berggangar, brot og framhlaup. Á svæðinu eru góðar opnur sem eru mikilvægar til rannsókna og fræðslu. Einkennandi eru lækjarsitrur sem seitla niður hlíðar dalsins. Þær eru sérstæðar á landsvísu enda hafa þær mikið að segja til um lífríki hveranna.
Í fyrrgreindu mati á umhverfisáhrifum og úrskurði Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum fundust ekki sýnilegar fornleifar við athugun í Grændal.
Í athugasemd Björns Pálssonar ofl. er vísað í heimildir og bent á að samkvæmt þeim hafa verið hjáleiga á flötunum framan við Þrengslin og sauðhús vestan Grændalsár, sennilega nærri áætlaðri vegleið. Innan Þrengsla séu ýmis örnefni er vitna um slægnanot og þar séu einnig örnefnin Nóngiljalækur og Húsmúli sem kunni að benda á hvar bær var í dalnum, sem nefndur er í örnefnaskrá. Þá er einnig bent á að leita hefði átt ummerkja um heybandsgötur sem sjást í Þrengslunum. Hlaðið aðhald sé við Grændalsá, við áætlað vatnstökusvæði, en það hafi ekki verið kannað. Einnig kemur
fram að fundist hafi tóttir fyrir botni dalsins.
Í þessari FERLIRsferð, sem var sú fyrsta og alls ekki sú síðasta, í Grændal, fundust grónar tóftir á a.m.k. þremur stöðum ofarlega í dalnum. Greinilegt er að slægjulönd hafa þar verið mikil fyrrum og fólk hefur hafst þar við hluta af sumri. Gerði bendir til þess að hestar hafi verið geymdir þar og húsasamstæður gefa til kynna tímabundna viðveru fólks.
FERLIR er hins vegar ekki í vinnu hjá þjóðminjavörslu þessa lands, sem getur bara unnið sína vinnu eins og ætlast er til reglum samkvæmt.
Heybandsgöturnar, sem Björn Pálsson, minnist á, sjást vel í dalnum beggja vegna árinnar. Af þeim má ráða hvar mannvistarleifar megi leita í efstverðum Grændal.
Grændalur er í fáum orðum sagt stórkostlegt útivistarsvæði. Náttúrufegurðin í nágrenni þéttbýlis er óvíða meiri hér á landi. Hverasvæðin í dalnum gefa tilefni til að fara varlega, en ef götum er fylgt ætti hættan að vera sáralítil. Litadýrðin er stórbrotin og veðursældin í ofanverðum grösugum dalnum er einstök. Þaðan er stutt upp í Dalaskarð, leið yfir í ofanverðan Reykjadal. Slægjulönd voru í ofanverðum Grændal. Umbreytingar hafa orðið víða í dalnum. Bera kulnuð og ný jarðhitasvæði þess glögg merki. Í honum miðjum, að vestanverðu, þar sem áður var gróin Bóndabrekkan, er nú hverasvæði er varð nýlega virkt í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi.
Ef skynsemi ræður ríkjum ætti að taka Hveragerðisdalina frá til útivistar og ferðamennsku. Verðmætin til slíkrar framtíðar versus tímabundin orkunýting með allri þeirri röskun er henni fylgir eru án efa margföld.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.