Hús Bjarna riddara og Byggðasafn Hafnarfjarðar

Byggðasafn Hafnarfjarðar

Hús Bjarna riddara Sívertsens er að Vesturgötu 6 í Hafnarfirði. Byggingarár: 1803-1805, hönnuður: Ókunnur. Byggðasafnið tók við húsinu 1974. Það var friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Sögufræg hús í Hafnarfirði

Hús Bjarna riddara

Hús Bjarna riddara.

Í Þjóðlífi 1987 er fjallað um „Sögufræg hús í Hafnarfirði“:
„Í miðbæ Hafnarfjarðar, nánar tiltekið við Vesturgötu 4, stendur rúmlega aldargamalt hús sem lengst af hefur gegnt nafninu „Hansensbúð“. Danskur kaupmaður, Knudsen að nafni, lét byggja húsið árið 1880 og rak þar verslun til ársins 1914. Þá keypti það Ferdinand Hansen, kaupmaður af dönskum ættum, og þaðan dregur húsið nafn sitt. F. Hansen starfrækti verslun í Hansensbúð til dauðadags 1950, en þá tók yngsti sonur hans, „Dengsi“ Hansen við rekstrinum og hélt honum áfram næstu tíu árin. Þá var húsið selt hlutafélaginu Rán h.f. sem enn þann dag í dag er eigandi þess. Næstu 20 árin var Hansensbúð leigð undir ýmiskonar starfsemi, svo sem skrifstofuhald og æskulýðsstarf. Einnig var þar um tíma starfræktur tónlistarskóli, svo eitthvað sé nefnt.

Hús Bjarna riddara

Hús Bjarna riddara 1972.

Um 1980 var húsið orðið illa farið eftir óslitna notkun í heila öld. Þá stóð til að Hafnarfjarðarbær keypti húsið, því áhugi var meðal margra um að endurbyggja það í sinni upprunalegu mynd og starfrækja þar byggðasafn, en úr því varð aldrei. Á árinu 1984 ákváðu eigendurnir loks að hefja sjálfir endurbyggingu og tók hún á annað ár. Að henni lokinni var húsið leigt félögunum Birgi Marel Jóhannessyni og Sigurði Óla Sigurðssyni, sem reka þar nú veitingahúsið A. Hansen. Veitingastaðurinn A. Hansen hefur nú verið starfræktur í eitt ár í þessu gamla húsi. Þar er ekki aðeins hægt að fá sér að borða í notalegu umhverfi, heldur hefur það þróast upp í að verða hálfgerð menningarmiðstöð. Ýmis félagasamtök halda þar fundi, málverkasýningar eru alltaf öðru hverju og jafnvel hefur Leikfélag Hafnarfjarðar fengið þar inni fyrir leiksýningar.
Þótt mikið vatn hafi runnið til sjávar frá því kaupmennirnir Knudsen og Hansen versluðu í Hansensbúð er margt við húsið sem minnir á gamla tíma. Gamlar myndir af skipaútgerð Hafnfirðinga í gegnum tíðina prýða veggina, svo og myndir frá æskuárum Hafnarfjarðar.
Hús Bjarna riddaraÍ næsta nágrenni við A. Hansen er hús Bjarna Sívertsens, [Vesturgata 6] en það er elsta hús Hafnarfjarðar, byggt um 1803. Þar er nú Byggðasafn Hafnarfjarðar til húsa. Bjarni Sívertsen var fátækur vinnumaður hjá ríkum hjónum í Selvoginum. Þegar húsbóndi hans dó varð Bjarni ráðsmaður ekkjunnar og giftist henni síðar. Þá tók hann sér nafnið Sívertsen.

Bjarni Sívertsen

Bjarni Sívertssen – stytta í Hellisgerði.

Bjarni vann sér það helst til frægðar að vera eini Íslendingurinn sem vitað er að hafi verið sæmdur riddaranafnbót. Sagan segir að Bjarni hafi verið farþegi á dönsku kaupskipi á tímum Napóleonsstyrjaldanna. Englendingar sneru skipinu til Kaupmannahafnar og vildu kyrrsetja það þar, en Bjarni kom ásamt öðrum farþegum í veg fyrir það og varð það til þess að eftir það fengu dönsk skip að fara frjáls ferða sinna.
Danakonungur þakkaði Bjarna þennan árangur og sæmdi hann að launum riddara nafnbótinni. Sívertsenshjónin byggðu húsið árið 1803 og bjuggu í því í langan tíma.
Seinna komst það í eigu Knudsens kaupmanns, sem áður er nefndur, og bjó þar lengi vel verslunarstjóri hans, Kristján Siemsen. Húsið komst í eigu Hafnarfjarðarkaupstaðar um miðja þessa öld og var í niðurníðslu allt til 1964. Þá var hafin endurbygging þess og lauk henni um 1974. Þetta elsta hús þeirra Hafnfirðinga gegnir nú hlutverki Byggðasafns Hafnarfjarðar.

Brydehús

Vesturgata 6, hús Bjarna Sívertsen og Brydehús. Byggðasafn Hafnarfjarðar
Hús Bjarna var byggt 1803 og er elsta hús Hafnarfjarðar. Brydehús var byggt 1865.

Brydepakkhús stendur við hliðina á húsi Bjarna riddara. Knudsen kaupmaður byggði það árið 1865 sem vöruhús. Húsið er stórt, enda veitti kaupmenn ekki af miklu geymsluplássi á þeim árum þegar skipaferðir til íslands voru strjálar. Í gegnum tíðina hefur pakkhúsið mest verið nýtt undir geymslu á fiski og síðar varð það geymslupláss fyrir útgerðarvörur Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. Í lægri viðbyggingu hússins var svo Slökkviliðsstöð Hafnarfjarðar til húsa um langan tíma. Þar er nú til húsa Sjóminjasafn Íslands. Þessi þrjú gömlu og fallegu hús bera sig vel þar sem þau standa á nákvæmlega sama stað og þau voru upphaflega, gömlu verslunarlóð Knudsens í Akurgerði. Það má því segja að Knudsen hafi komið sér vel fyrir nú á tölvuöld, líkt og hann gerði þegar hann var með verslun í Hansensbúð, vörulager í Brydepakkhúsi og geymdi verslunarstjórann sinn í húsi Bjarna riddara.“

Hafnfirðingar hlúa að húsi frá Napólontímunum

Sívertsenhús

Í Vísi 1971 er grein með yfirskriftinni „Hafnfirðingar hlúa að húsi frá Napóleonstímunum“ og fjallar um uppgerð Vesturgötu 6. Rætt var við Gísla Sigurðsson, lögregluvarðstjóra, um þær endurbætur, sem verið er verið gera á húsi Bjarna riddara Sívertsens.
„Í Hafnarfirði er verið að dytta að húsi, sem um langa hríð hefur staðið til að hresst yrði upp á og endurnýjað. Það er merkilegt hús og hefur sögulegt gildi, enda bjó þar eitt sinn Bjarni Sívertsen eða Bjarni riddari, eins og hann er líka kallaður.
Og nú eru Hafnfirðingar að gera við þetta hús til að forða því frá glötun. Um þessa björgunarstarfsemi var stofnað félag, og varaformaður þess er Gísli Sigurðsson, lögregluvarðstjóri í Hafnarfirði, sem er manna fróðastur, og til hans leitaði blm. Vísis til að frétta af þessu starfi, sem er til fyrirmyndar.

Sívertsenhús

Sívertsenhús og nágrenni.

,“ segir Gísli. „Það er forsaga þessa máls, að Bjarni heitinn Snæbjörnsson læknir flutti erindi í Rótaryklúbbnum hérna um, að nauðsynlegt væri aö reyna að gera eitthvað til að varðveita hús Bjarna riddara og sömuleiðis væri rétt að gera tilraun til að komast yfir muni, sem voru i eigu hans. og koma þeim síðan fyrir í húsinu. Síðan var sent bréf um málið til allra félaga og samtaka í Hafnarfirði, og upp úr því var stofnað félag til að koma upp húsi Bjarna.
Fyrst þegar farið var að huga að húsinu kom það á daginn að jörð hafði hækkað umhverfis húsið: og hlaðist að því. Fyrir bragðið var húsið mjög fúið neðst. Þá var tekið til við að skipta um þann við, sem fúinn var, og vandað vel til verksins. Eitt og annað smálegt var líka gert, en þar kom, að féð þraut. Þetta var fyrir nokkrum árum. Mig minnir, að Bjarni Snæbjörnsson hafi fyrst vakið máls á þessu árið 1936.

Sívertsenhús

Sívertsenhús.

Nú höfum við fengið styrk frá bæ og ríki til að lagfæra húsið. Í svipinn er verið að taka þá uppfyllingu, sem hefur safnast kringum húsið; sá jarðvegur er fjarlægður Síðan verður unnið, þar ti] búið er að ganga frá umhverfi hússins. Þá verður tekið til við endurbyggingu hússins sjálfs. Þjóðminjavörður ætlar að útvega okkur fagmenn til þess starfa, líkast til mennina, sem hafa verið að vinna í Viðey.“
Við spyrjum um sögu hússins, og þar er ekki komið að tómum kofanum hjá Gísla.
„Það er kannski ekki gott að segja fyrir víst hvenær þetta hús var byggt,“ segir Gísli. „En ég hef nú samt mínar kenningar um það, þótt ég geti því miður ekki rökstutt þær jafn óvéfengjanlega og ég vildi helzt.
En svoleiðis var, að hér úti á Langeyri stóðu verslunarhús, og 1804 dó sá, sem þar höndlaði.

Sívertsenhús

Sívertsenhús.

Dánarbúið, sem var líka þrotabú, var boðið upp. Bjarni hefur greinilega haft áhuga á einu húsinu því að hann bauð í það 163 ríkisdali, en það var verslunarstjóri héðan úr Firðinum, sem það hreppti fyrir 303 ríkisdali. Ég held, að Bjarni hafi síðan gengið inn í kaupin, og látið rífa húsið og flytja þangað sem það stendur nú og byggt það þar, ofurlítið stærra, en það var í upphafi.
Þetta finnst mér líkleg skýring á tilkomu hússins, einkum af því, að á þessum árum finnst mér vafasamt, að Bjarni hafi átt skipakost til að draga að sér við til húsagerðar, ef hann mögulega gat fengið efnið á annan hátt, því að hann hafði nóg með alla aðdrætti til verslunarinnar.“Hús Bjarna riddara

Gísli telur líklegt, að húsið hafi verið reist árið 1805, og dregur þá ályktun meðal annars af því, að til er heimild um að húsið hafi verið risið árið 1809, en árin þar á milli má segja, að Bjarni hafi haft öðrum hnöppum að hneppa en standa í húsbyggingum. Hann ferðaðist til útlanda, og var með eindæmum óheppinn í því ferðalagi, því að hann var hertekinn af skoskum víkingum og fluttur til Bretlands Honum tókst eftir langa mæðu að fá Joseph Banks í Englandi til að aðstoða sig við að losna, en þá tók ekki betra við, því að hann var varla fyrr sloppinn úr haldinu en hann lenti aftur í klóm víkinga og var fluttur til Skotlands á nýjan leik.

Sívertsenhús

Sívertsenhús.

Gísli lætur ekki á sér standa að segja okkur allt, sem okkur fýsir að vita um Bjarna riddara Sívertsen, þennan merka hafnfirska borgara:
Bjarni fæddist austur i Selvogi 6. apríl 1763. Hann virðist hafa verið mesti efnispiltur, því að Jón Halldórsson lögréttumaður í Nesi tekur hann til sín, þá 17 til 18 ára gamlan. Þá gerist það eftir tiltölulega stuttan tíma, að Jón Halldórsson drukknar, og þá er Bjarni eftir til að hugga ekkjuna. Þau giftust skömmu síðar. Hann var 21 árs og hún 37 ára og átti sjö börn. Þau Bjarni eignuðust síðan sex börn saman, og af þeim komust tvö á legg.
Til að gera langa sögu stutta, er næst að segja frá því, að verslun er gefin frjáls, og Bjarni fer að höndla á Eyrarbakka, en hrökklast þaðan vegna misklíðar við kaupmenn á staðnum.

Akurgerði

Akurgerði og klettar ofan þess.

Síðan hélt hann til Danmerkur og festi sér Hafnarfjörð, sem verslunarstað, og umsvif hans þar ætti að vera óþarfi að rekja.“
Og við látum þetta nægja um Bjarna Sívertsen, þótt Gísli geti eflaust sagt okkur ótal margt til viðbótar. og látum það bíða þess tíma, þegar hægt verður að hlusta á framhaldið í húsi Bjarna innan um þá muni, sem þar stóðu árið 1805, þegar þeir Napóleon og Bjarni voru upp á sitt besta. — PB

Hús Bjarna riddara Sívertsens

Hús Bjarna riddara

Hús Bjarna riddara 1973.

Í Helgafelli 1943 fjallar Ágúst Steingrímsson um „Hús Bjarna riddara Sívertsens“:
„Í Hafnarfirði stendur enn hús Bjarna riddara Sívertsens, byggt 1804. Húsið er enn að mestu í upprunalegri mynd. Breytingar hafa verið smávægilegar, og mikið af viðum hússins er óskemmt með öllu, svo sem í efra gólfi, sperrum og þaki. Útveggir eru hlaðnir úr múrsteini í timburbinding. Er þetta líklega eina húsið hérlendis, sem byggt er á þennan hátt.
Sem stendur eru skrifstofur bæjarins í húsinu, en þar sem ráðhús bæjarins verður fullgert innan skamms, verða þær fluttar þangað á næstunni. Sé hið gamla hús látið standa autt og afskiptalaust, er því eyðUegging vís, áður en langt um líður. Samkvæmt skipulagsuppdrætti bæjarins á húsið líka að þoka þaðan sem það nú er, enda nýtur það sín þar illa sökum þrengsla.

Sigurður B. Sívertsen

Skrif Sigurðar B. Sívertsen í bók útg, 1841.

Eina ráðið til þess að bjarga húsinu frá glötun er því að flytja það. Til þess þarf nokkurt fé. En væri því fé illa varið, sem til þess færi að bjarga húsi Bjarna Sívertsens? Húsi, sem er dýrgripur á margan hátt, fallegt, hefur menningarsögulegt gildi og er síðast, en ekki sízt minnisvarði Bjarna riddara Sívertsens, sem vissulega á skilið, að minningu hans sé haldið á lofti, og engu síður fyrir það, þótt gleymst hafi að geta hans í nýútkominni Iðnsögu Íslands, hvernig sem á því stendur.
Nú, þegar menn virðast kunna að meta betur en nokkru sinni fyrr gömul menningarverðmæti, ætti fjárskortur ekki að hamla björgun hússins, eins og árar. — Verslunarstéttinni ætti að vera það metnaðarmál, að varðveitt sé minning hins fyrsta íslenska verslunarmanns, sem nokkuð kvað að. Iðnaðarmenn ættu að minnast fyrsta skipasmiðsins. Hafnarfjarðarbær ætti að hlúa að minningu eins besta borgara síns. Þjóðin öll á að læra að meta heillastörf bestu sona sinna og sýna slíkt í verki.“
-Ágúst Steingrímsson.

Hús Bjarna riddara endurbyggt og gert að safni

Hús Bjarna riddara

Hús Bjarna riddara 1994.

Í Tímanum 1973 segir; „170 ára gamalt hús gert sem „nýtt“ – Hús Bjarna riddara í Hafnarfirði endurbyggt og gert að safni:
„Fátt er svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott. Svo hljóðar gamall málsháttur, sem er furðu lífseigur, enda felast í honum sannindi, sem eiga við alla tíma. Sökum fjárskorts hefur ekkert verið hægt að vinna að endurbyggingu Viðeyjarstofu i ár, þótt það verk sé alllangt á veg komið. Öll fjárveitingin, sem veitt var til verksins i ár, fór til kaupa á þakskífum á bygginguna og verður að biða betri tíma og frekari fjárveitingar að koma þeim fyrir á sínum stað. Af þessu leiðir, að þeir smiðir, sem unnu við Viðeyjarstofu og allir eru vanir endurbyggingu gamalla og sögulegra húsa, geta nú sinnt öðru verkefni og eru nú önnum kafnir við endurreisn húss Bjarna Sívertsens í Hafnarfirði. Hefur því verki miðað allvel og er gert ráð fyrir að ljúka því á næsta ári, þjóðhátíðarárinu 1974.
Smiðirnir, sem verkið vinna, eru þrír. Þótt þeir hafi ekki numið endurbyggingu gamalla húsa sérstaklega, hafa þeir aflað sér nokkurrar reynslu á þessu sviði.

Sívertsenhús

Sívertsenhús og Pakkhúsið.

Smiðirnir eru Gunnar Bjarnason, Leifur Hjörleifsson og Jón Guðmundsson. Er Gunnar yfirsmiður. Sjálfir láta þeir lítið yfir sérstakri kunnáttu sinni á þessu sviði, en sannleikurinn er sá, að það er ekki og allra smiða færi, þótt góðir handverksmenn séu, að fást við störf sem þessi. Gunnar Agústsson, hafnarstjóri í Hafnarfirði, sér að mestu um verkið af hálfu bæjarins, og sagði hann í viðtali við Tímann, að það hafi verið mikið lán að fá þessa menn til verksins. Því það er svo, að endurbygging gamals húss er vandasamt verk, ef gera á þær kröfur, að því verði breytt í upprunalega mynd, og er nauðsynlegt, að þeir, sem við þetta fást, hafi tilfinningu fyrir því verki, sem þeir eru að vinna og fari hvergi út fyrir þann ramma sem þeim er settur, sem er að umskapa húsið í upprunalega mynd, og gera það hvorki betra né lakara og umfram allt að láta ekki nútíma hagkvæmni sjónarmið hafa áhrif á vinnu sína. Enda er svo, að það er miklu dýrara að umskapa Sívertsenhúsið í upprunalega mynd heldur en að reisa nýtt hús af svipaðri stærð. Reynt er að nota sem mest af þeim efniviði, sem upphaflega var i húsinu, en það var byggt árið 1803. Síðan hefur því verið breytt nokkuð, en ekki svo að miklu nemi hvað snertir heildarútlit, og allar meginstoðir hússins standa enn.

Hús Bjarna riddara

Smiðir við vinnu í húsi Bjarna riddara.

Áður en vinna við húsið hófst, var fenginn hingað til lands danskur arkitekt, sem er sérfræðingur í endurbyggingu gamalla húsa. Í fyrrasumar gerði hann teikningar af frumgerð hússins, og sagði þá, að engum vandkvæðum væri bundið að gera þetta gamla hús upp og umbreyta því í upprunalegt horf. Á þeim tíma, sem hús Bjarna riddara hefur staðið, hafa verið gerðar á því ýmsar breytingar, var m.a. skipt um ytri klæðningu, og sett falskt bindiverk utan á húsið, en það hefur nú verið numið á brott. Að innanverðu hefur lítið verið átt við bygginguna. Settar hafa verið dyr milli herbergja, eldstæði breytt, en auðvelt er að sjá hverju hefur verið breytt og hvernig.
Hús Bjarna riddara var byggt í Kaupmannahöfn og flutt tilbúið til Íslands og reist í Hafnarfirði. Var þetta gert af hagkvæmnisástæðum, því að ódýrara var að smíða húsið fyrst, rífa siðan og reisa aftur á Íslandi, heldur en að þurfa að flytja óþarflega mikinn efnivið yfir úthafið. Dýr hefur fraktin verið í þá daga. Samt ber þess að geta, að Bjarni riddari var sjálfur kaupmaður og átti skip í förum, en hann var upphafsmaður þilskipaútgerðar hér á landi, sem kunnugt er.

Sívertsenhús

Pakkhúsið og Sívertsenhús.

Að sögn Gunnars er búið að vinna fyrir tæpa milljón krónur í húsinu, það sem af er þessu ári. Húsið var áður i eigu Hafnarfjarðarhafnar, en er nú eign bæjarins, og er undir sérstakri umsjón þjóðminjavarðar. Upphafið að endurreisn hússins var stofnun samtaka í Hafnarfirði, sem gefið var nafnið Félagið hús Bjarna riddara. 18. okt. s.l. yfirtók bærinn húsið og allar framkvæmdir og eru fyrirmæli frá bæjarráði um að ljúka verkinu snemma á næsta ári og opna húsið með sýningu á húsinu og munum úr eigu Bjarna Sívertsen Í tilefni 1100 ára byggðar á næsta ári. Þá verða einnig sýndir munir úr sögu Hafnarfjarðar. Byggðasafnsnefnd var falið að sjá um uppbyggingu hússins. Veitir bærinn og Þjóðminjasafnið fé til framkvæmdanna.

Hús Bjarna riddara

Sofa húss Bjarna riddara.

Ætlunin er, að á neðri hæðinni verði munir úr eigu og viðvíkjandi ævistarfi Bjarna Sívertsen. Þar mun bæjarstjórn einnig hafa móttökur. Gegnir húsið þá að nokkru leyti hlutverki ráðhúss. Á efri hæðinni verða myndir og munir úr sögu Hafnarfjarðar.
Til er talsvert af munum úr búi Bjarna riddara. Í Þjóðminjasafni eru til húsgögn og fleira. Í minjasafni Hafnarfjarðar er sitthvað til, og allmargir aðilar í Hafnarfirði og viðar hafa tilkynnt, að þeir eigi muni úr búi Bjarna riddara og muni gefa þá til safnsins. Um munina i Þjóðminjasafninu er að segja, að gefið hefur verið vilyrði fyrir, að þeir fáist í hús Bjarna riddara, þegar þar að kemur.
Gunnar Ágústsson sagði, að haldið yrði látlaust áfram að vinna við húsið þar til verkinu lýkur. Haldið er í hverja nothæfa flís, sem enn er í húsinu, og annað er smíðað. Er margt af innviðum hússins, sem byggja þarf upp hrein módelsmiði. Veggfóður er rifið af, málning skafin og dúkar teknir af gólfum, og eru upprunalegu fjalirnar viðast hvar heilar, en í nokkrum herbergjum þarf að skipta um gólf.

Sívertsenhús

Sívertsenhús.

Vitað er, að við bakhlið hússins var merkilegt útihús og við hæfi höfðingjaseturs. Löngu er búið að rifa það, en gamall maður man, hvernig það var útlits, og hefur verið gerð teikning af kamrinum eftir hans fyrirsögn og verður hann að sjálfsögðu reistur. Á honum voru tvennar dyr bæði utan frá og innan úr húsinu. En þótt byggingarlagið verði látið halda sér verður sett vatnssalerni í smáhúsið, þegar þar að kemur.
Í eigu byggðasafnsins eru nokkrir gamlir kolaofnar, sem notaðir voru til upphitunar. Þeir verða nú settir í þær stofur, sem bersýnilegt er, að ofnar hafa verið í. Þar verða þeir fremur sem minjagripir og er þeim ekki ætlað að hafa hagnýtt gildi, því að lofthitun verður í húsinu.

Pakkhús

Pakkhúsið.

Við hlið húss Bjarna riddara er gamalt pakkhús, svo kallað Brydeshús, og var það einnig í eigu hafnarinnar. Þetta hús verður einnig tekið undir byggðasafnið í Hafnarf. Hús þetta var byggt sem verslunarhús árið 1862. Nokkrar breytingar verða gerðar á því, en hvergi nærri eins viðamiklar og á húsi Bjarna. Í þessu húsi verður minjasafn Hafnarfjarðar, og standa vonir til, að innan skamms fáist einnig næsta hús, sem slökkvistöðin er nú í, en hún verður brátt flutt. Í sambandi við þjóðhátíðina næsta sumar er ráðgert að setja upp sjóminjasýningu i Brydeshúsi, en allgott safn muna er til í Hafnarfirði, enda eru allar líkur á, að Sjóminjasafn Íslands rísi í Hafnarfirði, sem nánar verður skýrt frá í blaðinu.“

Elsta hús í Hafnarfirði

Hús Bjarna riddara.

Við uppgerð húss Bjarna.

Í Dagblaðiðnu 1978 segir; „Elsta hús Hafnarfjarðar – Hús Bjarna riddara Sívertsen:

„Elzta hús i Hafnarfirði er hús Bjarna riddara Sívertsen að Vesturgötu 6, frá fyrsta tug 19. aldar. Húsið er varðveitt sem safn þó lítið sé til af hlutum úr heimili Bjarna.
Bjarni Sigurðsson fæddist að Nesi í Selvogi árið 1765. Kona hans Rannveig Filippusdóttir var stórættuð, nokkuð eldri en Bjarni og mun hann hafa fengið með henni auð og áræði. Árið 1790 hóf hann verslunarrekstur í Vestmannaeyjum en hann hafði áður fengist nokkuð við slíkan rekstur í heimabyggð sinni.
En hann hugsaði enn hærra og hélt sumarið 1793 til Kaupmannahafnar til að fá lán til verslunarreksturs og annarra umsvifa. Málalokin urðu góð og í byrjun næstu aldar hefur hann mörg járn i eldinum. Hann kaupir eða kemur sér upp verslunar- eða íbúðarhúsnæði á Akurgerðislóð í Hafnarfirði, kaupir jörðina Ófriðarstaði 1804 og eignast líka Óseyri og svo Hvaleyrartorfuna árið 1816. Allar þessar jarðir stórhækkuðu að mati, á meðan þær voru í eigu Bjarna. Ófriðarstaðir sem nú eru oftast nefndir Jófríðarstaðir, áttu þá land að sjó. Þar hugsaði Bjarni sér skipasmíðastöð og er hún talin fullbúin árið 1805. En þegar árið 1803 hafði þó fyrsta nýsmíðaða þilskip hans hlaupið af stokkunum. Nefndist það Havnefjords Pröven.

Akurgerði

Akurgerði fyrrum.

Ef til vill má telja Bjarna það til fordildar að nefna öll skip sín dönskum nöfnum, taka upp eftirnafnið Sívertsen og taka í seinni tíð að dveljast i Kaupmannahöfn á vetrum. En hið jákvæða í fari hans hlýtur þó að teljast þyngra á metum, dugnaður, fjölhæfni og hjálpsemi. Einkum kom þetta í ljós í sambandi við utanför Bjarna árið 1807. Honum og öðrum skipverjum var ókunnugt um ófriðinn milli Englendinga og Dana og kom mjög á óvart að vera af þeim fyrrnefnda neyddir til að halda til Skotlands. Er ekki að orðlengja það að alls voru það orðin um 15 Íslandsför sem Englendingar höfðu kyrrsett þar í höfnum. Auðséð er af samtíma skjölum að þáttur Bjarna að farsælli lausn þessara mála var ekki lítil. Kom þar, að öll Íslandsförin voru látin laus.

Hús Bjarna riddara

Húsið Vesturgata 6 er talið vera elsta hús Hafnarfjarðar, byggt af Bjama riddara Sívertsen líklega árið 1805. Þangað kom Kristján konungur IX 1874. Þar áttu verslunarstjórar Knudtzons verslunar löngum heima, en eftir að sú verslun lagðist niður og áður en Brydesverslun kom til sögunnar, mun Jón Steingrímsson trésmiður hafa búið þar. En arið 1902 fluttist verslunarstjóri Brydesverslunar í þetta hús, Jón Gunnarsson.

Það var sumarið 1809 að hinn kunni Jörundur hundadagakonungur var hér. Þótt Jörundur væri í sjálfu sér ekki óvinsæll þá komu hér öðru hvoru enskir ævintýramenn, sjóræningjar sumir hverjir, sem vitanlega var best að vera laus við. Valdi Trampe stiftamtmaður, Bjarna og annan mann til Englandsfarar til að stemma stigu við þessu. Var þetta hin mesta trúnaðarför, og sýnir valið á Bjarna bezt það traust, sem stiftamtmaður bar til hans. En valið var viturlegt, því að vegna hinna fyrri afskipta sinna af verslunarmálum Íslendinga í Bretlandi hlaut Bjarni að standa betur að vígi en flestir aðrir til að koma þar fram fyrir hönd þjóðar sinnar. Þaðan hélt Bjarni til Kaupmannahafnar þar sem hann var sæmdur riddarakrossi af Danakonungi árið 1812.

Sívertsenhús

Sívertsenhús og nágrenni.

Eftir þetta rak Bjarni verslun sína farsællega og gerðist auðugur maður. Var hann sjálfur i förum milli landa og sat á vetrum í Kaupmannahöfn en leit á sumrum eftir verslun sinni í Hafnarfirði.
Árið 1825 dó kona hans og um hana orti Bjarni Thorarensen þekkt eftirmæli. Sonur þeirra, Sigurður, kvæntist Guðrúnu, systur Helga biskups Thordersen. Árið 1832 fluttist Bjarni alfarinn til Kaupmannahafnar, en hafði árið áður kvænst danskri konu. En þegar hér var komið átti hann ekki langt eftir ólifað. Hann andaðist árið 1833 og hvílir í danskri mold.“
-GAJ.

Bjarni og Byggðasafn Hafnarfjarðar

Pakkhús

Pakkhús – sýning.

Í Morgunblaðinu 1984 segir; „Af Bjarna Sívertsen og Byggðasafni Hafnarfjarðar — rætt við Gísla Sigurðsson fyrrv. lögregluþjón“:
„Gísli Sigurðsson fyrrum lögreglumaður og safnvörður Byggðasafnsins í Hafnarfirði man tímana tvenna, en hann fluttist til Hafnarfjarðar fyrir rúmlega 70 árum. Þar starfaði hann lengst af sem lögregluþjónn, en gegndi jafnframt starfi safnvarðar Byggðasafns Hafnarfjarðar og starfaði mikið á vegum safnsins. Blm. Mbl. tók Gísla tali þar sem hann býr á Hrafnistu í Hafnarfirði og byrjaði ég á því að spyrja hann um bernsku hans og uppvaxtarár.
Ég er fæddur á Sólheimum í Hrunamannahreppi árið 1903 og ólst þar upp hjá foreldrum mínum, Sigurði Gíslasyni og Jóhönnu Gestsdóttur, en þau voru þar í vinnumennsku, sagði Gísli.

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, foreldrar og systkini.

Árið 1911 fluttust þau til Hafnarfjarðar og höfðu þá eignast fimm börn. Þar gekk ég í barnaskóla og var fermdur 1917. Eftir ferminguna fór ég strax í verkamannavinnu. Sumarið 1918 vann ég í mótekju en svo fór ég á eyrina. Næsta áratuginn vann ég aðallega hjá Edinborg sem synir Ágústs Flygenring voru með. Þetta fyrirtæki gerði út togarann Ými frá 1919 til 1928 og var hann annar af tveim togurum sem gerðir voru út frá Hafnarfirði þessi ár. Ágúst Flygenring var þá forstjóri Landverslunarinnar og hafði kolasöluna í Hafnarfirði eftir stríðsárin. Veturinn 1918 varð Hafnarfjörður alveg kolalaus og var þá eldað við mó í hverju einasta húsi. Þetta kolaleysi varð erfitt fyrir fólk því miklir kuldar voru þá um veturinn.

NÆTURVAKTIN

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson.

Hvenær byrjaðir þú svo í lögreglunni hér í Hafnarfirði?
Það var 1. júní 1930 að ég fór í lögregluna. Þá voru starfandi hér 3 lögregluþjónar. Það var venja að þeir sem voru að byrja hefðu næturvaktina og var ég á næturvakt fyrstu árin. Þá var maður á ferli um götur bæjarins frá kl. 9 á kvöldin til kl. 6 á morgnana allan ársins hring.
Þetta átti ekki illa við mig — ég var einrænn og einþykkur í skapi og var alveg sama þótt ég sæi ekki mann nótt eftir nótt. Nei, það var yfirleitt ekki mikið að gera, enda Hafnfirðingar ákaflega löghlýðið fólk. Það var líka minna um að vera á þessum árum — bílar voru t.d. sárafáir og kom varla fyrir að árekstur yrði. Að vísu þurftum við jafnan að fylgjast með dansleikjum sem þá voru haldnir á Hótel Birninum og vera tagltækir ef eitthvað bar út af, sem sjaldnast varð. Í jafn spökum kaupstað og Hafnarfirði þurfti maður yfirleitt aldrei að skipta sér af fólki. Þá þurftum við alltaf að vera tollvörðum til aðstoðar þegar skip komu að utan. Þetta var á bannárunum og var aðallega verið að ganga úr skugga um að skipverjar reyndu ekki að komast með sterkt vín til landsins. Þá tíðkaðist það að eiginkonur skipverja á togurunum fóru með þeim til Englands í einhverri vorferðinni og var þá mikið keypt. Ég man að það var alltaf glatt á hjalla þegar við vorum að tollskoða er skipin komu úr þessum ferðum og þarna eignaðist maður marga vini og hefur sú vinátta haldist síðan.

Brugg

Bruggtæki.

Var bruggað í Firðinum á þessum árum?
Já, það komu upp nokkur mál og maður komst í það að leita hjá mönnum að bruggi og bruggunartækjum. Þá fóru lögreglumennirnir í Hafnarfirði mikið út i sýsluna í landaleit með Birni Blöndal sýslumanni. Ég slapp hins vegar við þessar ferðir að mestu þar sem ég var með næturvaktina þessi ár. Svo voru bannlögin numin úr gildi 1934 og þar með var bruggið að mestu úr sögunni.
Það var ágætt að vera í lögreglunni á þessum árum þótt aðstaðan væri engin sem við höfðum, því lögreglustöð fengum við ekki fyrr en 1939.
Nú hefur þú starfað mikið að byggðasafnsmálum hér í Hafnarfirði og verið safnvörður við Byggðasafnið í áratugi — hvað varð til þess að þú hófst að sinna þessu verkefni?

BYGGÐASAFN HAFNARFJARÐAR

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, minjavörður

Árið 1953 var sett á laggirnar byggðasafnsnefnd hér í Hafnarfirði og fór svo að ég var skipaður í hana ásamt Óskari Jónssyni útgerðarmanni, sem var formaður nefndarinnar, og Grími Andréssyni kaupmanni.
Varð það mitt hlutverk að fara á milli góðbúa og safna munum. Hugur okkar stóð mjög til að vernda hús Bjarna Sívertsen riddara og þar höfðum við sterkan bakhjarl þar sem var Bjarni Snæbjörnsson læknir, en hann var mikill áhugamaður um að húsið yrði verndað og gert upp. Bæjarskrifstofur Hafnarfjarðar höfðu þá lengi verið þarna til húsa og voru nýlega fluttar þaðan en húsvörðurinn bjó ennþá á loftinu.
Húsið var fremur illa farið en þeir munir sem söfnuðust voru geymdir þar fyrstu árin. Nokkrum árum síðar fengum við til umráða Knudtzons-pakkhúsið og voru munirnir þá fluttir þangað.
Hús Bjarna riddara var svo grandskoðað og endurbyggt í fyrri mynd.

Bjarni Sívertsen

Hús Bjarna riddara.

Við uppgerð húss Bjarna.

Hús Bjarna Sívertsen mun hafa verið byggt árin 1703—05, en pakkhúsið þar sem safnið er nú til húsa ekki fyrr en 1862. Ég hef alltaf haft mikla intressu fyrir Bjarna Sívertsen og hans fjölskyldu enda var Bjarni hinn merkasti maður þótt ekki ætti hann til stórra að telja. Skírnarnafn hans var Bjarni Sigurðsson og réðst hann ungur til Rannveigar Filipusdóttur og Jóns Halldórssonar í Selvogi á Suðurnesjum. Nokkru síðar drukknaði Jón og tók Bjarni saman við ekkjuna sem þó var tveimur áratugum eldri en hann.
Þau Jón og Rannveig höfðu verið töluvert efnuð og hefur það eflaust ráðið miklu um þennan ráðahag Bjarna.

Til Hafnarfjarðar fluttist Bjarni 1790 og höfðu þau Rannveig þá eignast fimm börn. Bjarni hóf hér verslun og jafnframt umfangsmikla þilskipaútgerð og skipasmíðar. Hann mun hafa gert út ein 13 skip í fisk og siglingar og voru það talin geysileg umsvif á þessum árum, er Íslendingar voru heldur framtakslitlir almennt.

Gísli Sigurðsson

Gísli með kíki Bjarna.

Það sést á ýmsu að Bjarni var harður í horn að taka og hafði góða hæfileika til að koma ár sinni fyrir borð ef því var að skipta. Þegar Jörundur hundadagakóngur sló eign sinni á Ísland var ófriður milli Dana og Englendinga, og hafði Bjarni lent í því að vera kyrrsettur í Skotlandi meðan á þessum ófriði stóð. Félagi Jörundar sem stóð með honum að hernámi Íslands, Gilpin að nafni, tók sér það fyrir hendur að ræna hér Jarðabókarsjóðnum. Þetta var gildur sjóður sem notaður var til að greiða úr öllum embættismönnum á Íslandi. Bjarni hafði fregnir af þessu til Skotlands og tókst honum með harðfylgi að fá því framgengt að Gilpin var neyddur til að skila Dönum sjóðnum, sem varla hefur verið auðvelt. Fyrir þetta var Bjarni sleginn til riddara.

Bjarni Sívertsen

Bjarni Sívertsen.

Bjarni varð þó ekki gæfumaður að öllu leyti. Aðeins eitt af fimm börnum þeirra Rannveigar lifði til fullorðinsára. Það var Sigurður Bjarnason Sívertsen kaupmaður í Reykjavík. Hann var einstakt ljúfmenni en hafði ekki erft hæfileika föður síns til kaupmennsku. Kona hans var Guðrún Guðmundsdóttir og var mikill skörungur — hún hafði greiðasölu fyrir alþingismenn í Reykjavík og steypti einnig kerti. Dauða Sigurðar bar að með einkennilegum hætti en hann var á miðjum aldri er hann andaðist. Eitt sinn er Sigurður er á gangi í Reykjavík tekur hann eftir því að úrið hans er stoppað. Hann fór þá inn til úrsmiðs að láta líta á það en hnígur svo niður látinn þar í búðinni. Eftir að Rannveig dó tók Bjarni sér danska bústýru sem var miklu yngri en hann og eignuðust þau eina dóttur saman. Þau bjuggu síðustu árin í Kaupmannahöfn og þar dó Bjarni 1833, þá nýgiftur barnsmóður sinni. Frá Járngerði dóttur þeirra er kominn mikill ættgarður í Noregi og munu ekki færri en 200 manns rekja ættir sínar til hennar. Sjálfur var Bjarni ættaður úr Flóanum og liggja ættir okkar einhvers staðar saman.
Hvernig gekk þér að afla muna til Byggðasafnsins?

150 ÁRA GAMALL ÁRABÁTUR?

Byggðasafn Hafnarfjarðar

Bátur á Byggðasafni Hafnarfjarðar.

Það gekk allvel og menn voru furðu fúsir á að láta af hendi verðmæta gripi til okkar. Þó vorum við búnir að missa úr höndum okkar mikið safn sem Andrés Johnson rakari hafði dregið saman hér í Hafnarfirði, en það voru alls um 25 þúsund munir. Safn Andrésar fór allt til Þjóðminjasafnsins og stendur Ásbúðarsafn saman af því.
Samt gekk okkur furðu vel að efna til safnsins. Það má nefna hluti eins og gamla kistla, koffort og hljóðfæri, auk allra helstu veiðarfæra frá skútuöldinni. Þá leitaði ég uppi alla rokka, hesputré og kamba, og er sumt af því sem safnaðist trúlega orðið mjög gamalt þó erfitt sé að segja nákvæmlega til um aldurinn. Þá tókst mér að ná í árabát sem að minnsta kosti er 100 ára gamall og e.t.v. 150 ára. Síðasti eigandi hans var Helgi Guðmundsson frá Melshúsum sem reri honum lengi til grásleppuveiða.
Hvernig náðirðu í þennan bát?
Ég tók hann hreinlega í fjörunni þar sem Helgi hafði dáið frá honum. Það voru svo borgaðar fyrir hann 750 kr. til ættingja Helga að mig minnir. Aðrir gamlir munir í safninu sem vert er að minnast á eru borðstofuborð og stólar úr búi Bjarna Sívertsen, en við borðið gátu setið 18 manns þegar gestkvæmt var á þessu rausnar heimili.
-Viðtal: Bragi Óskarsson

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður um miðja 19. öld.

Þannig var… – Byggðasafn Hafnarfjarðar
Björn Pétursson, núvernadi forstöðumaður Byggðasafns hafnarfjarðar skrifaði lokaverkefni til MA–gráðu í safnafræði við Háskóla Íslands 2014. Þar rekur hann sögu Byggðasafnsins og skrifar m.a.:

Upphafið

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður fyrrum – 1772.

„Formlegt upphaf Byggðasafns Hafnarfjarðar má rekja til fundar í bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í janúar 1953. Þar voru til umfjöllunar breytingar á fjárhagsáætlun bæjarsjóðs og lögðu fulltrúar Alþýðuflokksins fram tillögu undir liðnum „Hellisgerði o.fl.“ þar sem fram kemur í c-lið að veita skuli 10.000 kr. til byggðasafns. Ekki eru neinar frekari skýringar á þessari tillögu en hún var send eins og áætlunin í heild til samþykktar bæjarráðs og var samþykkt þar.

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson.

Samkvæmt munlegum sögusögnum í bænum var það einkum lögregluvarðstjórinn, Gísli Sigurðsson, sem lagði hart að bæjarfulltrúunum að hrinda þessu verki í framkvæmd en ekki hafa fundist neinar heimildir er styðja þá sögu þó vissulega verði hún að teljast ansi líkleg.
Óskar Jónsson framkvæmdastjóri bar fram tillöguna um fjárveitingu til byggðasafnsins og samkvæmt viðtali sem tekið var við hann og birt í Alþýðublaðinu var hugmyndin „að safna saman og varðveita frá glötun gamla muni, sagnir og myndir úr atvinnu- og menningarlífi Hafnfirðinga fyrr á tímum, eins gömlum og til næst, og koma þessu fyrir í safninu.“

Garður

Spil við Helgustaði.

Þegar Byggðasafn Hafnarfjarðar var stofnað voru í gildi fyrstu lög um byggðasöfn sem samþykkt höfðu verið hér á landi, lög númer 8 frá 12. febrúar 1947, og báru nafnið „Lög um viðhald fornra manvirkja og um byggðasöfn“. Athyglisvert er að þegar þessi lög voru sett var ekkert starfandi byggðasafn á landinu en þó var söfnun hafin á nokkrum stöðum.
Þegar Byggðasafn Hafnarfjarðar var stofnað árið 1953 var ekkert friðað hús í eigu ríkisins í bænum. Strax í upphafi komu upp hugmyndir um að koma safninu fyrir í Sívertsens-húsinu við Vesturgötu. Í frétt Alþýðublaðsins frá því í janúar 1953 er þessi hugmynd viðruð en þar sagði „Sívertsenshúsið var íbúðarhús Bjarna riddara og fjölskyldu hans frá því um aldamótin 1800 til 1835. Þetta hús er því um 150 ára gamalt, og sögufrægt að því leyti, að það var bústaður Bjarna, sem mestan þátt átti í viðgangi Hafnarfjarðar á þeim tíma.

Hellisgerði

Hellisgerði 1942.

Er það gömul hugmynd, að flytja það í Hellisgerði, sem er skrúðgarður Hafnfirðinga, og verður það þá væntanlega gert sem líkast úr garði og það var á árum Bjarna riddara.“
Í annarri frétt, sem birtist í Morgunblaðinu kemur hugmyndin um flutning Sívertsens-hússins aftur fram en þar sagði „Komið hefur til tals, að byggðasafnið yrði í svokölluðu Sívertsenhúsi, en í því bjó Bjarni riddari Sívertsen frá því árið 1800 til 1835. Er þetta elzta hús í Hafnarfirði, um 150 ára gamalt. … Stungið hefur verið upp á því, að húsið yrði flutt í Hellisgerði, skrúðgarð Hafnfirðinga, og gert þá sem líkast úr garði og það var í tíð Bjarna Sívertsens. Þó telja margir, að við flutning hússins þangað, myndi það tapa sínum upphaflega svip, því að miklum erfiðleikum er bundið að flytja það. Allt er enn í óvissu, hvort af þessum flutningi verður.“

Hús Bjarna riddara

Stiginn upp á loftið í húsi Bjarna.

Ef til vill er þarna að finna skýringuna á því hversvegna stofnun byggðasafns var sett undir liðinn „Hellisgerði ofl.“ í fjárhagsáætlun bæjarins þegar stofnað var til þess. Þessi hugmynd, að varðveita Sívertsens-húsið, er þó enn eldri. Sívertsens-húsið hafði verið eign Hafnarsjóðs Hafnarfjarðar frá árinu 1924 og voru bæjarskrifstofur Hafnarfjarðar þar til húsa á árunum 1930-1944. Þegar bæjarskrifstofurnar fluttu úr húsinu komu upp ýmsar hugmyndir um hvaða hlutverk þetta sögufræga hús ætti að fá en snemma kom upp hugmynd um að varðveita það í upphaflegri mynd. Eftir umræður í bæjarstjórn var bæjarstjóra falið að ræða við hafnaryfirvöld um málið og lauk þeim samræðum með því að snemma árs 1944 var samþykkt í hafnarstjórn að afhenda húsið endurgjaldslaust til bæjarstjórnar enda skuldbatt bæjarstjórnin sig til að láta gera húsið upp og varðveita það í upprunalegri mynd. Hvenær hugmyndin skýtur fyrst upp kollinum er erfitt að segja en að öllum líkindum kom hún fyrst fram opinberlega þegar Ágúst Steingrímsson tæknifræðingur og fyrrverandi bæjarverkfræðingur í Hafnarfirði ritaði grein um málið í tímaritið Helgafell árið 1943. Hann átti einnig fyrstur manna hugmyndina að því að flytja húsið í Hellisgerði. Sú hugmynd hans kom fram í bréfi sem hann sendi Málfundafélaginu Magna árið 1946 en málfundafélagið sá um og rak Hellisgerði á þessum tíma. Í því bréfi gekk hann þó enn lengra en einungis að varðveita húsið, því þar kemur fram sú hugmynd að láta húsið hýsa byggðasafn.

Hellisgerði

Hellisgerði fyrrum.

Magna-menn brugðust við þessu bréfi með því að rita bæjarstjórn Hafnarfjarðar erindi um málið. Bæjarstjórn brást við því á þann hátt að lýsa sig reiðubúna til viðræðna en óskaði þess jafnframt að Málfundafélagið Magni hefði forgöngu um að stofna nefnd og fá félagsamtök í bænum til að taka þátt í verkefninu. Tveimur árum síðar var svo samþykkt í bæjarráði að leggja til við bæjarstjórn Hafnarfjarðar að bærinn yrði aðili að samkomulagi um athuganir á flutningi og varðveislu á húsi Bjarna Sívertsen. Rúmum mánuði síðar var það samþykkt í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Fulltrúa í þessari nefnd áttu, auk bæjarstjórnar, Málfundafélagið Magni, Útgerðarmannafélag Hafnarfjarðar, Iðnaðarmannafélag Hafnarfjarðar og Kaupmannafélag Hafnarfjarðar.

Safnkosturinn

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1890.

Þegar samþykkt var að stofna Byggðasafn Hafnarfjarðar árið 1953 hafði nokkur söfnun átt sér stað í bænum en þó var enn vitað af munum sem voru varðveittir hjá bæjarbúum. Ein af ástæðum þess að safnið var stofnað var að menn óttuðust að þessir gripir glötuðust ef þeim yrði ekki safnað saman og varðveittir á viðurkenndu safni. Í frétt frá árdögum Byggðasafns Hafnarfjarðar, sem birtist í Morgunblaðinu, sagði meðal annars: „Það sem vakir fyrir bæjarráði með stofnun byggðasafns, er að varðveita frá glötun gamla muni, sem kunna að vera til í Firðinum frá fyrri tímum — sömuleiðis allan þann fróðleik, er varðar atvinnu- og menningarlíf Hafnfirðinga. Eitthvað mun vera til af munum í Firðinum, sem kæmi til mála að setja á hið tilvonandi safn. T.d. er hér elzti rafall á Íslandi, sem Jóhannes Reykdal flutti til landsins og notaði til raflýsingar fyrstur manna hér á landi. —

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, minjavörður. með einn gripanna.

Ýmsir aðrir gamlir munir eru til í Firðinum, sem ekki má draga öllu lengur að koma fyrir á einn stað, ef þeir eiga ekki að gleymast eða týnast.“12 Auk þessa hafði upplýsingum um lifnaðarhætti og menningu verið safnað í Hafnarfirði um nokkurt skeið og í fréttum af stofnun safnsins var komið inn á þá söfnun. Í Alþýðublaðinu sagði „Áhugi á því að varðveita fornan fróðleik og minjar frá glötun virðist vera mikill í Hafnarfirði. En vafalaust er þó Gísli Sigurðsson starfsamastur allra áhugamanna í því efni. Hann hefur um skeið safnað með viðtölum við aldraða Hafnfirðinga lýsingum á gömlum húsum, húsbúnaði, staðháttum í bænum og atvinnuháttum, og einnig hafa fléttast inn í þetta gamlar minningar og sagnir og örnefni. Hvernig bærinn var fyrir aldamót.
Gísli sagði, er blaðið ræddi við hann um þessa söfnun hans í gær, að hann leitaðist fyrst og fremst við að afla lýsinga af bænum eins og hann var fyrir aldamót. Mesta rækt hefur hann lagt við að skyggnast inn í líf alþýðunnar, t.d. fá að vita, hvernig húsbúnaður var í gömlu bæjunum og annað slíkt.“

Hagldir

Hagldir úr horni.

Morgunblaðið fór nokkuð betur ofan í þetta en þar sagði að „Nokkrir Hafnfirðingar hafa á undanförnum árum safnað miklum fróðleik úr lífi fólks í Firðinum frá fyrri tímum, sem vissulega kemur að góðum notum fyrir væntanlegt byggðasafn.
Hefur Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn, verið einna skeleggastur í söfnun alls konar gamals fróðleiks. Hann hefur til dæmis gert sér far um að kynnast, hvernig gömlu bæirnir voru útlítandi í Hafnarfirði fyrir aldamót og jafnframt um fyrirkomulag innan húss. Einnig hefur hann kynnt sér, svo sem kostur hefur verið á, hvar bæirnir stóðu. Sömuleiðis hefur Gísli viðað að sér miklum fróðleik um líferni Hafnfirðinga fyrir aldamót. Mestar og beztar upplýsingar hefur hann fengið hjá öldruðum Hafnfirðingum, en einnig af gömlum sögnum og örnefnum. Gísli Sigurðsson hefur með söfnun þessa fróðleiks, varðveitt frá glötun þann fjársjóð, sem getur orðið uppistaðan í væntanlegu byggðasafni Hafnfirðinga.“
Hús Bjarna riddaraElstu fundargerðir byggðasafnsnefndar eru því miður glataðar en Gísli rekur upphafsárin ágætlega í viðtali sem tekið var við hann og birt í blaðinu í Hamri í tilefni af 50 ára afmæli Hafnarfjarðarkaupstaðar árið 1958. Þar kemur hann meðal annars að munasöfnuninni í árdaga Byggðasafns Hafnarfjarðar en þá hafði safnið fengið Sívertsenshúsið til afnota. Þar kemur fram að söfnun muna hafi farið af stað strax og safnið var stofnað og fljótlega eftir að það fékk Sívertsens-húsið afhent hafi verið fluttir þangað um 200 munir.
„Húsið var ekki í sem beztu ástandi og þurfti því mikillar viðgerðar við. Þegar nefndin fékk það undir hendur var efri hæð þess leigð út og síðan hefur allt húsið verið hitað upp.

Halgdir

Munir Byggðasafnsins.

Þessir tvö hundruð munir voru flestir frá sjóvinnu ýmis konar, en síðan hefur bætzt það mikið við safnið, að það telur nú um sjöhundruð skrásetta muni. Auk þessa eru enn fjölmargir hlutir, sem safnið á, eða hefur fengið vilyrði fyrir, sem enn eru geymdir víðsvegar um bæinn, vegna þess hve húsnæði safnsins er ófullnægjandi. Allur gólfflötur hússins er aðeins 8 x 14 mtr. að flatarmáli og segir það sig sjálft, að svo lítið húsnæði fullnægir engan veginn þeim kröfum, sem gera verður til húsnæðis fyrir gott byggðasafn. Tillaga byggðasafnsnefndarinnar til lausnar þessu vandamáli er sú, að safnið fái einnig stóra pakkhúsið, sem stendur við hliðina á Sívertsenshúsi. En það mun vera byggt um 1840 og er því í tölu allra elztu húsa hér í Hafnarfirði og þess vegna mjög æskilegt til þessara nota.“

Sjóminjasafn

Teikning að fyrirhuguðu sjóminjasafni á Skerseyri við Hafnarfjörð.

Síðar í sama viðtali telur Gísli upp nokkra helstu muni safnsins og gefur sú upptalning nokkuð góða mynd af safnkostinum eins og hann var á fyrstu árum safnsins. Þar er meðal annars haft eftir Gísla: „Áhugi Hafnfirðinga fyrir byggðasafninu hefur komið mjög glögglega í ljós með hinum rausnarlegu gjöfum, sem því hafa borizt frá mörgu fólki. Eins og áður er sagt er mikill hluti safnsins
viðkomandi sjóvinnu og er það ekki einkennilegt, þegar athuguð er saga og atvinnuhættir Hafnarfjarðar.
Áður en Byggðasafn Hafnarfjarðar var stofnað höfðu tveir aðilar stundað markvissa söfnun á gömlum munum í bænum og hvorugt þeirra safna endaði á Byggðasafni Hafnarfjarðar. Ásbúðarsafn, sem Andrés Johnson rakari í Ásbúð við Hafnarfjörð hafði safnað saman árum saman, keypti ríkið og setti á Þjóðminjasafn Íslands en hitt var safn muna er Þorgerður Bergmann safnaði og endaði það á Árbæjarsafni í Reykjavík. Er rétt að staldra hér við og skoða þessi söfn nánar þar sem söfnun þessara einstaklinga, svo og stofnun Sjóminjasafns Íslands í Hafnarfirði síðar höfðu töluverð áhrif á safnkost Byggðasafns Hafnarfjarðar.

Safn Þorbjargar Bergmann
Þorbjörg BergmannMikilsmetin hjón ein bjuggu í Hafnarfirði í upphafi 20. aldar. Þau sem hér er átt við voru Sigfús Bergmann og kona hans Þorbjörg Sigurðardóttir Bergmann. Sigfús var kaupmaður í bænum en lét þó einnig ýmis önnur málefni kaupstaðarins sig varða. Hann var til dæmis kjörinn í fyrstu bæjarstjórn Hafnarfjarðar, var frumkvöðull að stofnun sjúkrasamlags í bænum, var framkvæmdastjóri trésmiðjunnar Dvergs um tíma og einn af eigendum gosdrykkjaverksmiðjunnar Kaldá, sem var sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi auk þess sem hann átti hlut í nokkrum útgerðum í bænum. Þau Sigfús og Þorbjörg reistu sér hús við Strandgötuna, aðal verslunargötu bæjarins, þar sem verslunin var á jarðhæð en íbúð á tveimur hæðum þar fyrir ofan. Verslaði hann þar bæði með matvöru og álnavöru.
Þau hjónin voru mjög virk í þessari söfnun sinni þó Þorbjörg hafi sannarlega staðið þar við stjórnvölin. Líf Þorbjargar tók nýja stefnu árið 1918 þegar Sigfús lést úr spænsku veikinni. Flutti hún þá úr íbúð sinni en bjó þó um sinn áfram í sama húsinu en leigð það út að mestu. Þar bjó hún til ársins 1930 er hún flutti til Reykjavíkur til Huldu, dóttur sinnar, og eiginmanns hennar, Einars Sveinssonar. Þorbjörg lést 14. maí 1952 en fyrir dauða sinn gaf hún skýr fyrirmæli um að safn hennar dreifðist ekki og að ekkert af því færi úr landi.

Árbæjarsafn

Árbæjarsafn – Árbær.

Dóttir hennar og tengdasonur færðu Reykvíkingafélaginu safnið að gjöf nokkrum mánuðum eftir dauða Þorbjargar sem nokkrum árum síðar gaf safnið áfram, með samþykki gefendanna, til Árbæjarsafns. Hafa verður í huga að þegar hér er komið sögu er þegar búið að stofna Byggðasafn Hafnarfjarðar en við ritun þessarar ritgerðar fundust engar heimildir um að komið hafi til tals að gefa safnið þangað. Það hefði þó verið eðlilegur gjörningur þar sem megnið af umræddum gripum var safnað í Hafnarfirði, mun eðlilegri en að gefa gripina á byggðasafn þeirra Reykvíkinga.

Þorbjörg Bergmann

Bergmanns fjölskyldan um 1910. Sigfús Bergmann kaupmaður lést 1918 úr spönsku veikinni. 1920 lést Hrefna elsta dóttirin og 1922 lést Hulda miðjudóttir þeirra hjóna. Þorbjörg hélt áfram rekstrinum í húsi þeirra við Strandgötu í Hafnarfirði fram til 1936 að hún flutti til dóttur sinnar í Reykjavík.

Minjasafn Þorbjargar Bergmann var mjög mikilvægt fyrir safnið í Reykjavík og til vitnis um það má vitna í frétt Tímanns af opnun Árbæjarsafns en þar sagði: „Skjala- og minjasafn Reykjavíkurbæjar í Árbæ verður opnað almenningi á sunnudaginn kl. 2 að viðstöddum mörgum gestum. Verður safnið opið eitthvað fram eftir haustinu. Fyrir skömmu barst því hin veglegasta gjöf frá Reykvíkingafélaginu, en það er mjög verðmætt safn ýmissa muna, sem frú Þorbjörg Bergmann í Hafnarfirði hafði safnað. Fer það nú í Árbæ með samþykki fyrri gefenda.“
Af þessu má sjá að safn það sem Þorbjörg safnaði saman í Hafnarfirði á fyrri hluta 20. aldar var merkilegt safn og í sjálfu sér uppistaðan í munasafni Árbæjarsafns á upphafsárum þess. Munir sem hefðu skipt sköpum fyrir Hafnarfjörð á þeim árum sem unnið var að því að koma Byggðasafni Hafnarfjarðar á fót.

Ásbúðarsafnið

Annar safnari sem verið hafði afkastamikill í Hafnarfirði á fyrri hluta 20. aldar, áður en Byggðasafn Hafnarfjarðar var sett á fót, var Andrés Johnson eða Andrés í Ásbúð eins og hann var jafnan kallaður. Bakgrunnur Andrésar var sá að hann fæddist á Leifsstöðum í Selárdal í Norður-Múlasýslu laugardaginn 5. september árið 1885. Ungur flutti hann til Vesturheims en er hann snéri aftur settist hann að í Hafnarfirði og gerðist hárskeri þar. Við komuna til Hafnarfjarðar hóf hann að safna að sér hverskonar forngripum og munum sem notaðir voru í gamla íslenska bændasamfélaginu áður en hin mikla atvinnubylting tuttugustu aldarinnar gerbreytti samfélaginu.

Askur

Gripur úr Ásbúðarsafninu.

Varð þessi söfnun fljótlega mjög umfangsmikil og lét hann ekki nægja að safna munum í Hafnarfirði og nágrenni hans heldur hélt hann í ferðir út um allt land í þeim tilgangi að safna gömlum munum. Eflaust hefur þessi hegðun hafnfirska rakarans þótt nokkuð undarleg enda ekki algengt áhugamál á þessum tíma. Hins vegar varð hann það þekktur fyrir þetta áhugamál sitt að menn fóru að bjóða honum muni og jafnvel að safna fyrir hann að einhverju leyti. Til eru frásagnir af því að hann hafi jafnan rætt um þessi mál við viðskiptavini sína á rakarastofunni og þá hafi margir komið þangað færandi hendi og gefið muni úr þeirra eigu. Í frétt sem skrifuð var í blaðið Frjáls Þjóð árið 1955 í tilefni af opnun sýningar á þessum munum sagði meðal annars um Andrés: „Nú eru gripir í safni hans orðnir um eða yfir 25.000. Það mun láta nærri, að nær allir þeir fjármunir, sem Andrés hefur unnið fyrir um dagana, umfram það er hann þurfti sér til lífsframfæris, hafi farið fyrir safngripi. Það er mikil fórn fyrir óarðbært hugsjónastarf.

Árbær

Árbær 1948.

En annað, sem dýrmætara er og miklu sjaldgæfara en peningar, hefur þó verið lagt í þetta starf. Það er eljan og þrautseigjan, tryggðin og staðfestan við torsótt verkefni. Menn geta vart gert sér fulla grein fyrir því, hve mikla árvekni og þolinmæði það hefur kostað að ná þessum munum öllum saman.“
Alla þessa muni dró Andrés heim í hús sitt, Ásbúð, við Hafnarfjörð en húsið var ekki stórt og fór svo áður en langt um leið að plássleysi var farið að hamla þessari söfnun. Brást Andrés við því árið 1942 með því að leggja erindi fyrir Alþingi þar sem hann bauð safn sitt til kaups með tilgreindum skilyrðum. Varð það úr og eins og sést á frétt um byggingu Þjóðminjasafnsins sem birtist í Ingólfi árið 1944 varð þetta safn ein af burðarstoðum Þjóðminjasafnsins á þessum tíma, í fréttinni sagði meðal annars: „Þjóðminjasafnið. Alþingi hefur veitt þrjár millj. króna til að gera yfir það hús. Hið væntanlega stórhýsi á ekki einungis að rúma Forngripasafnið gamla heldur einnig Iðnminjasafn, Sjóminjasafn, Mannamyndasafn, svonefnt Ásbúðarsafn, … og söfn, sem kennd eru við einstaka menn: Jón Sigurðsson o.fl. Sömuleiðis listasafn. … Má því og vænta, að bundinn verði bráður bugur að því að reisa þetta langþráða skýli yfir hið stórmerka safn þar sem það er m.a. nokkurn veginn óhult fyrir bruna.“

Þjóðminjasafnið

Í Þjóðminjasafninu.

Til að gera ljóst hve stórt Ásbúðarsafn var í sniðum er rétt að tína til það sem skrifað var um safnið þegar það var formlega opnað í Þjóðminjasafninu á sjötugs afmæli Andrésar 1955. „Í Gær opnaði Þjóðminjasafnið Ásbúðarsafn, er safnað er af Andrési Johnson í Ásbúð í Hafnarfirði, á 70 ára afmæli hans. Er þetta stærsta minjasafn, sem nokkur Íslendingur hefur dregið saman. Safnið kom í eigu Þjóðminjasafnsins árið 1944, með sérstökum samningi við safnara þess. … Ásbúðarsafnið er geysi mikið safn.

Sjóminjasafn Íslands
Þá er komið að þriðja stóra safninu sem hvarf úr Hafnarfirði en það er Sjóminjasafn Íslands.
Hvenær fyrstu hugmyndir um sjóminjasafn kviknuðu í Hafnarfirði er ekki gott að segja en með nokkurri sanni má rekja það aftur til aldamótanna 1900 þegar skólastjórinn í Flensborgarskólanum, Jón Þórarinsson, lagði fram sínar hugmyndir um „fiskiáhaldasafn“.

Byggðasafn hafnarfjarðar

Aðdragandinn að skrifum Jóns um þessi málefni var sá að árið 1898 sótti hann sjóminjasýningu í Bergen í Noregi. Taldi hann mikilvægt að stofnað yrði sjóminja-, eða fiskiáhaldasafn hér á landi en ekkert varð þó úr þessum hugmyndum hans, hvorki í Hafnarfirði né annarsstaðar á Íslandi í hans tíð. Hafnarfjörður byggðist fyrst og síðast upp vegna góðrar hafnar frá náttúrunnar hendi.
Eins kemur það líka fram hjá þeim aðilum er fyrstir stóðu að Byggðasafni Hafnarfjarðar að það ætti að hluta til að varpa ljósi á þennan hluta menningararfsins sem sjósókn og fiskvinnsla er. Þetta kemur fram í tillögum er byggðasafnsnefnd lagði fyrir bæjarráð Hafnarfjarðar á þessum fyrstu árum safnsins en þar eru settar fram hugmyndir að vexti og viðgangi safnsins til framtíðar. Þar kemur fram listi yfir þá þætti sem safnið ætti að sinna og sýna og hvaða hlutar sögunnar það væru sem þeir helst vildu varpa ljósi á. Listinn er sannarlega langur og metnaðarfullur og snýr að sýningaaðstöðu í Pakkhúsinu að Vesturgötu 6.

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson með erlendum áhugamanni um fornleifar.

Uppúr 1970 fer að sjá fyrir endann á þeim verkefnum og fram á varanlega sýningaaðstöðu í Sívertsens-húsinu. Áhugavert er að rýna í viðtal sem tekið var við Gísla Sigurðsson árið 1973, en hann hafði þá starfað við safnið, sem nefndarmaður, frá stofnun þess. Í umræddu viðtali sagði Gísli „Þegar maður hefur verið jafn lengi í þessu og ég og lifir orðið fyrir þetta, þá er maður ekki í rónni, viti maður einhversstaðar af gömlum og sögulegum hlut, fyrr en hann er fenginn. Það er Gísli Sigurðsson, fyrrum lögregluþjónn í Hafnarfirði, sem sagði þetta er við löbbuðum með honum um geymsluherbergi, skúra og skúraloft og skoðuðum þá muni sem dregnir hafa verið saman fyrir væntanlegt sjóminjasafn í Hafnarfirði, en að þessum safnmálum hefur Gísli starfað allt síðan árið 1953 að stofnuð var nefnd til að koma á laggirnar sjóminjasafni í Firðinum. Því miður hefur málinu ekki miðað betur en svo að enn eigum við ekkert safnhús, en aftur á móti eigum við orðið gott safn gripa, meira en nóg sem undirstöðu í safn.“ Ekki má þó við blaðamanninn einan sakast því ljóst er að Gísli notar í þessu viðtali orðið „sjóminjasafn“ frekar en „byggðasafn“ eins og fram kemur í eftirfarandi línum í sama viðtali: „Þú sagðir mér Gísli að þið hefðuð byrjað 1953 að safna að ykkur munum. — Já það er rétt. Það ár var skipuð nefnd af bæjarstjórninni sem átti að hafa það hlutverk að koma á stofn sjóminjasafni í Hafnarfirði. Ég var skipaður í þessa nefnd strax og hef verið í henni síðan. … — Hvern telurðu nú merkastan hlut í safni ykkar? —

Byggðasafn Hafnarfjarðar

Bátur á Byggðasafni Hafnarfjarðar.

Það er nú ekki gott að segja. Hér eru margir fallegir og sögulegir munir. Ég vil nefna til yfir 100 ára gamlan bát með Faxaflóalagi, eins og það var kallað.“
Það sem hér gerist merkilegt er einkum tvennt, eins og áður segir er Gísli farinn að nota orðið „sjóminjasafn“ og svo hitt að hann telur merkasta mun safnsins vera bát og þó einungis sé um hans persónulega mat að ræða gefur það sannarlega vísbendingu um áherslur og áhuga þess manns sem sá um söfnun gripa til safnsins fyrstu 20 ár þess. Í lok þessa sama viðtals útskýrir hann máls sitt betur og er þá bersýnilegt að stefnubreyting hefur orðið og rökstyður hann mál sitt er hann svarar spurningu blaðamannsins: „Nú er þetta orðið miklu meira en sjóminjasafn hjá ykkur, Gísli, þetta er allt eins gott byggðasafn fyrir Hafnarfjörð.
Leira
— Já, það má kannski segja það. Þegar maður tekur til við að safna svona gömlum gripum með sérsafn eins og sjóminjasafn í huga, þá kemur það eins og af sjálfu sér að maður tekur til handargagns annarskonar gamla og verðmæta muni og síðan gerist það einnig að fólk sendir okkur alls konar muni, þótt þeir séu í sjálfu sér ekki endilega í tengslum við sjóinn eða sjóminjar. En gættu svo að öðru. Hafnarfjörður hefur alla tíð átt allt sitt undir sjó og sjómennsku, og því má segja sem svo að allir munir héðan tengist að einhverju marki sjóminjasafni. Þar á ég við þessa gömlu muni sem við erum að safna. Á þeim tíma, fyrir þetta 50 til 100 árum eða meira, var hér allt miðað við sjó og sjósókn, og séu munirnir ekki tengdir sjónum beint, þá óbeint kannski, þannig að þeir eru úr búi einhvers sjómanns. Hinsvegar má segja að yngri munir, sem vissulega geta haft sögulegt gildi, séu ekki eins tengdir sjónum, enda hafa málin breyst á síðari árum eins og allir vita. En vissulega væri það gaman ef hér risu bæði sjóminjasafn og byggðasafn Hafnarfjarðar. Efni til slíks er fyrir hendi.“

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður skömmu fyrir 1900 – mynd í eigu Byggðasafns Hafnarfjarðar.

Á þessum tíma var ákveðin vakning á Íslandi varðandi verndun sjóminja og fara hugmyndir að skjóta upp kollinum um þetta mál æ oftar. Sem dæmi um þetta er leiðari Alþýðublaðsins 28. júlí 1973 undir nafninu „Sjóminjasafn vantar“ en þar er tíundað um mikilvægi sjósóknar fyrir Ísland í gegnum aldirnar. „Mörgum hefur orðið hugsað til þess, að ekkert eigum við Íslendingar sjóminjasafnið og litla tilburði höfum við í frammi til þess að eignast það. Gamlir og merkir bátar eru að grotna niður umhirðulausir eða umhirðulitlir. Ýmiss konar áhöld og munir frá bátum og útgerð týna sem óðast tölunni og verða bráðum hvergi til. Þetta getur ekki gengið öllu lengur. Íslendingar verða að eignast gott og myndarlegt sjóminjasafn. Sjóminjasafn Íslands á að varðveita muni, sem Íslendingar hafa notað bæði fyrr og síðar við sjósókn og í sjóferðum. Það á að varðveita báta og skip, sem einkennandi hafa verið á hinum ýmsu tímum, og væri t.d. smíðaður knörr, yrði hann dýrgripur í slíku safni. Það á að varðveita ýmis tæki og tól, sem notuð hafa verið í landi við fiskvinnslu og fiskverkun. Og þar á að varðveita bækur og myndir, skjöl og skilríki um skip, sjómennsku og sjósókn.“

Hús Bjarna riddara

Hús Bjarna og nágrenni.

Í sömu grein er þó einnig minnst á það að varla sé hægt að setja upp sjóminjasafn án þess að tengja við það fiskasafn og í því samhengi er minnst á fiskasafn það sem var þá til staðar í Sædýrasafninu í Hafnarfirði og því frumkvöðlastarfi sem þar hafði verið unnið. Í lok greinarinnar segir: „En fiskasafnið í Sædýrasafninu þarf að auka og efla, og þar þarf að koma upp rannsóknaraðstaða fyrir fiskifræðinga. Til þess þyrfti að koma á samvinnu safnsins, hafrannsóknarstofnunarinnar og ef til vill háskólans. Kannski væri sjóminjasafn vel staðsett í nágrenni Sædýrasafnsins. Hitt er víst, að ekki er vanzalaust fyrir Íslendinga að eiga ekki sómasamlegt fiska- og sjóminjasafn.“

Skerseyri

Skerseyri.

Þarna er enn komin upp hugmynd um formlegt Sjóminjasafn Íslands í Hafnarfirði. Umræðan sem þarna var komin af stað vatt nokkuð uppá sig í framhaldinu og varð til þess að haustið 1973 kom fram umræða á Alþingi Íslendinga um málið. Tveir þingmenn, þeir Gils Guðmundsson og Geir Gunnarsson, lögðu fram þingsályktunartillögu um stofnun Sjóminjasafns Íslands í Hafnarfirði. „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja nú þegar, í samráði við þjóðminjavörð, undirbúning að stofnun sjóminjasafns. Skal leitað eftir samvinnu við Hafnarfjarðarbæ um hentugt landssvæði undir slíkt safn, svo og um byggingu þess og rekstur. Tillaga þessi fékk góðar viðtökur á Alþingi og var samþykkt óbreytt í febrúar 1974 með samhljóða atkvæðum.“

Sjóminjasafn

Teikning að fyrirhuguðu sjóminjasafni á Skerseyri.

Aðeins er vikið að því í áðurnefndu viðtali við Gísla Sigurðsson: „Nú hefur verið flutt þingsályktunartillaga um að reisa Sjóminjasafn Íslands hér í Hafnarfirði, hvernig list þér á það? — Já, ég var að heyra þetta, og ég skal segja þér að þetta eru einhver mestu gleðitíðindi sem ég hef heyrt lengi. Gils Guðmundsson og Geir Gunnarsson eiga ómældar þakkir skildar fyrir að flytja þessa tillögu. —

Myndi þá ykkar safn falla inn í þetta sjóminjasafn Íslands? Já, það hygg ég, sem sérstök deild eða eitthvað svoleiðis. En við skulum bara athuga það, að uppistaðan í sjóminjadeild Þjóðminjasafnsins eru munir héðan úr Hafnarfirði, og raunar víðar að, en það var Hafnfirðingur sem safnaði þeim og gaf þá til Þjóðminjasafnsins. Það var sá mikli og ötuli safnari Andrés Johnson rakari frá Ásbúð í Hafnarfirði. … Það væri því ekki margt að því að sameina þennan safnvísi okkar Sjóminjasafn Íslands sem reist yrði hér í Firðinum.“

Sjóminjasafn

Teikning að fyrirhuguðu sjóminjasafni á Skerseyri.

Réttu ári áður en þingsályktunartillagan var lögð fram var Þór Magnússon þjóðminjavörður gestur á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar. Þar var hann að kynna þá tillögu að Sjóminjasafn Íslands yrði fundinn staður í Hafnarfirði og að um sérstakt samvinnuverkefni yrði að ræða á milli Hafnarfjarðarbæjar og ríkissjóðs við uppbyggingu og rekstur safnsins.
Bæjarráðsmenn tóku hugmyndunum vel og bókuðu í fundagerð að bæjarráð hafi lýst áhuga sínum á málinu. Í viðtali við Kristinn Ó. Guðmundsson bæjarstjóra Hafnarfjarðar lýsti hann meðal annars sinni skoðun á þessari hugmynd: „Ég hef alveg sama viðhorf til þess og bæjarráðið. Svona safni verður hvorki komið upp né það rekið nema opinberir aðilar komi til.

Skerseyri

Skerseyri – túnakort 1903.

Í þessu sama viðtali kemur einnig fram að Þór Magnússon hafi ætlað, eftir fund sinn með bæjarráði, að ræða við menntamálaráðherra og upplýsa hann um stöðu mála. Eflaust á það sinn þátt í að þingsályktunartillagan var lögð fram. Í kjölfar þessa lét menntamálaráðherra skipa nefnd um sumarið 1974 sem hafði það verkefni að vinna tillögu um Sjóminjasafn Íslands og samvinnu á milli Þjóðminjasafns Íslands og Hafnarfjarðarbæjar varðandi það. Í nefndinni sátu þeir Þór Magnússon, þjóðminjavörður, Gunnar Ágústsson, hafnarstjóri í Hafnarfirði og formaður byggðasafnsnefndar bæjarins, Jón Kr. Gunnarsson, forstjóri Sædýrasafnsins í Hafnarfirði og skipstjórinn Gunnar H. Oddsson. Í frétt Þjóðviljans af málinu um haustið þetta sama ár kemur ákveðin rökstuðningur fyrir því að safninu hafi verið valinn staður í Hafnarfirði. „Sú ákvörðun alþingis, að væntanlegt Sjóminjasafn Íslands rísi í Hafnarfirði er vissulega vel við hæfi. Hafnarfjörður er útgerðarbær frá fornu fari og þar er enn blómstrandi atvinnulíf kringum sjávarútveginn.

Þorskanet

Þorskanet.

Þaðan voru fyrst lögð þorskanet hérlendis, þaðan hófst þilskipaútgerðin og þaðan var gerður út fyrsti gufutogarinn, sem Íslendingar eignuðust. Og í Hafnarfirði er nú þegar kominn fyrsti vísirinn að sérstöku sjóminjasafni, eina safnið á landinu, sem hefur sérhæft sig á þessu sviði. … Sjálfir hafa Hafnfirðingar farið mjög myndarlega af stað með sitt safn, eins og sýningin sem þeir héldu þar í sumar sannaði best. … Einn helsti kosturinn við að hafa sjóminjasafn landsins í útgerbarbæ eins og Hafnarfirði er að þar verður það jafnframt í lifandi tengslum við sjávarútveginn, sem stór hluti bæjarbúa byggir afkomu sína á enn.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður fyrrum.

Þarna kemur fram enn sterkari yfirlýsing varðandi Byggðasafn Hafnarfjarðar en áður hafði komið fram um að safnið hafi fyrst og síðast verið sjóminjasafn. Þarna er talað um að safnið hafi sérhæft sig á þessu sviði. Þrátt fyrir þessar samþykktir og nefndarskipanir gerist lítið í málinu næstu árin.
Sjóminjasafn Íslands opnaði Í Reykjavík með hátíðlegri athöfn á sjómannadaginn, 7. júní 1986.

Sjóminjasafn Reykjavíkur

Sjóminjasafn Reykjavíkur.

Sagt var frá því í fjölmiðlum og í Sjómannadagsblaðinu var fréttin undir fyrirsögninni „Sjóminjasafn Íslands, Loksins“. Í Morgunblaðinu mátti meðal annars lesa eftirfarandi frétt af opnuninni: „Sjóminjasafn Íslands var opnað við hátíðlega athöfn á laugardaginn af Sverri Hermannssyni, menntamálaráðherra. Safnið er til húsa í Brydepakkhúsi við Vesturgötu í Hafnarfirði. Í ræðu Gils Guðmundssonar, formanns sjóminjasafnsnefndar, kom fram, að opnun safnsins í þeim húsakynnum væri aðeins áfangi á langri leið. Framtíðarstarfsemi safnsins er ætlaður staður á svonefndri Skerseyri fyrir vestan Hafnarfjörð, niður undir Hrafnistu.“55 Í ræðu sinni tók Sverrir sérstaklega fram að stofnun safnsins í Hafnarfirði ætti ekki að hafa áhrif á söfnun sjóminja annarsstaðar á landinu, „tilkoma Sjóminjasafnsins raskaði í engu því mikla starfi, sem unnið hefði verið til að varðveita sjóminjar víðs vegar um land. Einstök byggðalög myndu að sjálfsögðu gæta eigin minja áfram.“

Sjóminjasafn Reykjavíkur

Sjóminjasafn Reykjavíkur.

Menn voru að þó ekki á eitt sáttir um Sjóminjasafn Íslands á þessum tíma og sitt sýndist hverjum. Einar Vilhjálmsson tollvörður skrifaði til að mynda harða grein í Sjómannablaðið Víking þar sem hann gagnrýndi þau plön sem þá voru í gangi í Hafnarfirði og taldi í raun að verið væri að beita blekkingum til að fjármagna lítið byggðasafn. Hann hafði greinilega ekki mikla trú á uppbyggingaráformum Sjóminjasafns Íslands í bænum og sagði meðal annars: „Um nokkurra ára skeið hefur ríkisfé verið varið til vafasamra framkvæmda, við lítið byggðasafn í Hafnarfirði, og þeim brögðum beitt að kalla þetta „Sjóminjasafn Íslands“, til þess að réttlæta málið og ná opinberu fé. … Nú voru kerfismenn búnir að taka málið í sínar hendur og var búið til fyrirtækið „Sjóminjasafn Íslands“, og peningar fengnir úr ríkiskassanum til að kosta þessa stofnun, sem getur aldrei orðið það sem nafnið bendir til, heldur aðeins byggðasafn. Látið er í veðri vaka að sem útgerðarbær sé Hafnarfjörður umfram Reykjavik og aðra útgerðarstaði, safnið skreytt með lánsmunum frá Þjóðminjasafni og úr einkaeigu til þess að svo líti út í augum almennings, að um verulegt sjóminjasafn sé að ræða.

Sjóminjasafn Reykjavíkur

Sjóminjasafn Reykjavíkur.

… Við skulum vona að hætt verði að ausa fé í þetta byggðasafn Hafnfirðinga og þeir látnir einir um það að gera það svo úr garði sem þeim hæfir, en hafist verði handa um að koma upp raunverulegu sjóminjasafni í Reykjavík og það tengt Sjómannaskólanum, sjómannasamtökum, útgerðaraðilum og stofnunum í sjávarútvegi auk Þjóðminjasafns.“
Það sem gerst hafði var, ólíkt því sem gerst hafði með Ásbúðarsafnið og safn Þorbjargar Bergmann, að munirnir voru enn í bænum og enn til sýnis á safni. Hins vegar var búið að færa stóran hluta safnkosts byggðasafnsins yfir á annað safn í bænum sem ekki var í eigu Hafnfirðinga heldur var það deild í Þjóðminjasafni Íslands. Hins vegar þróuðust mál á annan veg en ætlað var og hinar metnaðarfullu hugmyndir um uppbyggingu sjóminjasafns Íslands við Skerseyri urðu aldrei að veruleika. Framþróun byggðasafnsins varð ekki eins hröð og eðlilegt hefði verið enda fékk sjóminjasafnið það sýningahús sem ætlað var upphaflega byggðasafninu og eina sýningaaðstaða þess lengi vel var í Sívertsens-húsi og síðar einnig í Siggubæ. Ekki var það einungis raunin að safnkostur byggðasafnsins sem tengdist sjóminjum væri afhentur sjóminjasafninu heldur voru sjóminjar teknar út af söfnunarstefnu byggðasafnsins á þessum tíma og var þeim aðilum sem buðu byggðasafninu sjóminjar næstu árin ætíð vísað yfir á sjóminjasafnið.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður fremstur í bátasmíði.

Uppúr aldamótunum 2000 tekur þetta mál enn og aftur óvænta stefnu. Þá voru menn almennt búnir að gefa drauminn um öflugt sjóminjasafn upp á bátinn og raddir fara að heyrast um að rétt væri að loka safninu í Hafnarfirði. Um þetta leyti er viðgerðum að ljúka á Þjóðminjasafni Íslands og farið að styttast í opnun nýrra sýninga þar í endurbættu húsnæði auk þess sem Sjóminjasafnið Víkin í Reykjavík er að líta dagsins ljós. Við þau tímamót er tekin ákvörðun um að Þjóðminjasafnið muni ekki standa að sýningum á höfuðborgarsvæðinu nema í safnhúsinu sjálfu og loka þá bæði sjóminjasafninu og Nesstofusafni á Seltjarnarnesi.
Vöknuðu Hafnfirðingar nú enn upp við vondan draum, nú ætlaði Þjóðminjasafnið að loka Sjóminjasafni Íslands og fara með alla munina til Reykjavíkur en eftir stæði útgerðar- og sjósóknarbærinn Hafnarfjörður með byggðasafn án sjóminja.
Árið 2004 var sjóminjasafninu endanlega lokað og byggðasafnið fékk pakkhúsið undir sýningastarfsemi sína.

Lokaorð

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður fyrrum.

Í köflunum hér að framan hefur verið farið yfir sögu Byggðasafns Hafnarfjarðar og minjavörslunnar í bænum og þeim erfiðleikum sem einkenndu uppvaxtarár þessa málaflokks í bænum. Árið 1974 fékk safnið varanlegt húsnæði undir sýningastarfsemi er viðgerðum á Sívertsens-húsinu lauk. Fjórtán árum síðar, árið 1988 áskotnaðist safninu Siggubær og var sýningastefna þessara húsa nokkuð ljós frá upphafi. Í Sívertsens-húsinu var sýnt hvernig yfirstéttafjölskyldan í Hafnarfirði bjó í upphafi 19. aldar auk þess sem ljósi var varpað á merkilega sögu Bjarna Sívertsen og fjölskyldu hans en í Siggubæ var sýnt hvernig alþýðufjölskyldan í Hafnarfirði bjó í byrjun 20. aldar og hvernig hinir dæmigerðu bárujárnsbæir í litu út.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður fyrrum – Brekkugata.

Það verður ekki dregin dula yfir þá staðreynd að vangaveltur og vandræðagangur í kringum Sjóminjasafn Íslands töfðu mjög fyrir allri þróun og þroska byggðasafnsins. Segja má að hin síðari uppbygging á Byggðasafni Hafnarfjarðar hefjist árið 1994 þegar það fékk langþráð sýninga- og lagerhúsnæði í Smiðjunni, Strandgötu 50. Þá var í fyrsta sinn kominn í notkun hjá byggðasafninu boðlegur fastur sýningasalur þar sem hægt var að setja upp sýningar um sögu og menningu Hafnarfjarðar og nágrennis. Smiðjan var stækkuð í tvígang, fyrst árið 1997 og svo aftur 1999 og hafði þá tvo veglega sýningasali ásamt góðu lagerhúsnæði. Árið 2004, í kjölfar þess að Sjóminjasafn Íslands var lagt niður, var sýningastarfsemi byggðasafnsins flutt úr Smiðjunni yfir í Bryde-pakkhús að Vesturgötu 6 en lageraðstöðu fékk safnið í þjónustumiðstöð bæjarins við Hringhellu.
Tæplega hálfri öld eftir að hugmyndin kom fyrst upp um sýningaaðstöðu fyrir byggðasafnið í Pakkhúsinu varð það að veruleika.“

Heimildir:
-Þjóðlíf 1. mars 1987, Sögufræg hús í Hafnarfirði, bls. 32.
-Helgafell, 2. des. 1943, Ágúst Steingrímsson, Hús Bjarna riddara Sívertsens, bls. 437.
-Tíminn 18. nóv. 1973, 170 ára gamalt hús gert sem „nýtt“, Hús Bjarna riddara í Hafnarfirði endurbyggt og gert að safni, bls. 40 og 36-37.
-Dagblaðið 5. des. 1978, Hafnarfjörður liðna tímans í máli og myndun, Hús Bjarna riddara Sívertsen GAJ, bls. 16.
-Vísir, 28. ágúst 1971, Hafnfirðingar hlúa að húsi frá Napóleonstímunum, GB — Rætt v/ð Gísla Sigurbsson, lögregluvarðstjóra, um þær endurbætur, sem verið er
að gera á húsi Bjarna riddara Sívertsens, bls. 9.
-Morgunblaðið 12. febr. 1984, Af Bjarna Sívertsen og Byggðasafni Hafnarfjarðar — rætt við Gísla Sigurðsson fyrrv. lögregluþjón, bls. 35.
-Þannig var… – Byggðasafn Hafnarfjarðar, Björn Pétursson – Lokaverkefni til MA–gráðu í safnafræði, Félagsvísindasvið, 2014, 47 bls.

Byggðasafn hafnarfjarðar

Byggðasafn Hafnarfjarðar.