Núpshlíðarháls (Vestur-Móháls)
Ætlunin var að ganga til norðurs eftir Núpshlíðarhálsi með það fyrir augum að skoða flugslysstað frá 1943 og staðsetja landamerkjapunkta á Núpshlíðarhorni, ofan við Gamlaveg með sjónhendingu í miðja öxl Borgarfjalls, Framfell, Selsvallaháls, Selsvallafjall og Sogadal.
Miðað við gildandi landamerkjabréf lá markalínan eftir hálsinum frá Dágon á Selatöngum í vesturöxl Trölladyngju. Skv. því er Hraunssel vestan við línuna, eldri Selsvallaselin eru austan hennar en þau nýrri vestan og Sogasel á mörkunum. Í landamerkjabréfi Krýsuvíkur frá 1890 segir að mörk jarðarinnar séu „sjónhending úr Dágon (Raufarkletti) … í Trölladyngjufjallsrætur að vestan.”
Með því að draga beint strik milli punktanna (sjá meðf. kort) lendir markalínan um miðja Selsvelli og þá ætti hlutinn næst Selsvallahálsi að tilheyra Krýsuvík.
Forn markavarða er uppi á Núpshlíðarhorni (sjá mynd að ofan), gróin að mestu, en þó má enn sjá efstu hleðslulögin.
Víða eru skessukatlar uppi á brúnum hálsins. LM-merki var einungis að sjá á einum stað, þ.e. á Selsvallafjalli.
Gengið verður til baka til suðurs vestan hálsins með viðkomu í fyrrnefndum seljum.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.