Borgarholt – skilti
Á Borgarholti í Kópavogi er upplýsingaskilti. Á því stendur m.a.:
Jarðfræði
Borgarholt, eins og önnur holt og hæðir í Kópavogi og á höfuðborgarsvæðinu, er að mestu gert úr grágrýtishraunum sem runnu á hlýskeiðum ísaldar fyrir nokkur hundruð þúsund árum síðan. Þá grúfði jökull yfir Kópavogi sem náði allt frá Bláfjöllum og út á Faxaflóa. Jöklarnir grófu „dali“ í hraunstaflann og mótuðu að landslag sem við sjáum í dag og eru jökulrákirnar á klöppunum glöggur vitnisburður um þau átök.
Í lok síðasta jökulsskeiðs, fyrir um 10.300 árum síðan var sjávarborð í um 40 metra hæð yfir núverandi sjávarmáli og gekk sjór yfir Borgarholt eins og lábarðir hnullungar í holtinu eru til vitnis um. Á sama tíma var sund á milli Borgarholts og ássins austan við. Síðar, fyrir um 9.800 árum, hafði sjávarstaða lækkað niður í um 20-25 metra hæð og þá myndaðist allmikil sand- og malarfjara utanvert á Kársnesi.
Seinna reis land endanlega úr sjó og strandlínan fékk á sig þá mynd sem hún er í dag.
Gróður
Á Borgarholti þrífst mosaríkt mólendi og er gróðurfarið enn að miklu leyti dæmiger fyrir Kársnesið eins og það var áður en byggð tók að rísa þar.
Á holtinu hafa fundist 95 tegundir af mosum, þar á meðal kuðulmosi, sem aðeins hefur fundist á einum öðrum stað á landinu.
Þá hafa fundist 103 tegundir af innlendum háplöntum sem er nær fjórðungur af íslensku flórunni. Rætt hefur verið um hvort hindra ætti vöxt sjálfsáðra trjá s.s. birkis í holtinu, en um það eru skiptar skoðanir.
Saga
Borgarholtið er mjög svo samofið sögu byggðar í Kópavogi. Borgarholtið var að mestu ósnortið eins langt og elstu menn muna, þó með þeirri undantekningu að á árunum milli 1920-30 var byggð vindmylla á háholtinu til að framleiða rafmagn fyrir hressingarhælið, sem Kvenfélagið hringurinn rak á Kópavogsjörðinni.
Reyndar voru myllur þessar tvær, eða frekar það að fyrri myllan var þá endurbyggð vegna skemmda á spöðum, sem ekki höfðu þolað veðurlag á holtinu. Vindmyllur þessar voru síðan teknar niður einhvern tíma á árunum eftir 1930. Holtið stóð síðan óbyggt allt þar til samþykkt var í hreppsnefnd Kópavogs 1957 að byggja þar kirkju. Reyndar hafði hreppsnefndin haldið þessu svæði óbyggðu allt frá því 1946 með það í huga að síðar yrði byggð þar kirkja. Var hafist handa við byggingu hennar síðsumars 1958. Teikningar af kirkjunni voru gerðar undir stjórn Harðar Bjarnasonar þáverandi húsameistara ríkisins. Gerður Helgadóttir gerði steinda glugga sem settir voru í kirkuna. Byggingarmeistari kirkjunnar var Siggeir Ólafsson múrarameistari. Það tók 5 ár að byggja kirkjuna og kostaði hún 5 milljónir króna á verðlagi byggingartímans. Kirkjan var síðan vígð 15. desember 1962. Bent skal á að í skjaldarmerki bæjarins sem gert var á 10 ára kaupstaðarfamæli bæjarins 1965 var hluti þess merkis einmitt útlínur kirkjunnar með mynd af kópi undir.