Fagradalsfjall – jarðfræði
Fagradalsfjall er móbergsfjall á Reykjanesskaganum vestanverðum. Það er talið vera vestasti hluti Reykjanesfjallgarðsins, en vestan þess eru stök fell. Fagradalsfjall er aflangt frá austri til vesturs, um 385 metrar á hæð og er þar með hæsta fjall á Reykjanesskaga. Það hefur orðið til á ísöld við gos undir jökli og er smáhraunlag á því ofanverðu, sem gefur til kynna að gosið hafi náð lítið eitt upp úr jöklinum. Fjallið flokkast því sem stapi.
Fagradalsfjallskerfið er fyrst nefnt hjá Mary Gee. Hún dregur fram öll helstu einkenni þess, en það er um flest ólíkt öðrum eldstöðvakerfum á Reykjanesskaga. Kerfið er um fimm kílómetra breitt á milli Svartsengis- og Krýsuvíkurkerfanna. Lengdin er um 15 kílómetrar milli Keilis í norðaustri og Húsafjalls í suðvestri.
Sérstaða þess felst í því að eiginlegur sprungusveimur tengist því ekki, og fátt er um misgengissprungur og gjár með norðaustur-suðvestur stefnu. Þar er ekki heldur að finna langar gossprungur. Hins vegar eru þar allmargar skjálftasprungur með norð-suðlæga stefnu. Háhitasvæði tengist því heldur ekki.
Einkennandi gosmyndanir eru dyngjur eða ígildi þeirra, það er stapar, bólstrabergs- og móbergsstrýtur, sem og stuttar gossprungur og snubbóttir móbergshryggir. Langihryggur er þeirra lengstur, um tveir kílómetrar. Tvær stórdyngjur eru í kerfinu, Fagradalsfjall, raunar stapi, vart eldri en frá síðasta jökulskeiði, og Þráinsskjöldur frá síðjökultíma, sjá mynd. Aldursgreiningar á skeljum næst undir breksíuhluta Þráinsskjaldar á Vatnsleysuströnd gáfu aldurinn 12.620±55 og 12.605±50 kolefnisár sem samsvarar um 14.100 almanaksárum.
Land á Reykjanesskaga utanverðum hefur orðið íslaust á Bølling-Allerød hlýskeiði. Það hófst fyrir um 14.500 árum og lauk fyrir 12.500 árum. Eftir fylgdi 1000 ára kuldaskeið, yngri Dryas, með nýrri framrás jökuls. Þetta 3000 ára tímabil er oft nefnt síðjökultími og þá runnu elstu hraunin á utanverðum Reykjanesskaga, þar á meðal Þráinsskjöldur. Þegar hann myndaðist hefur sjávarborð verið um 35 metrum lægra en nú, en skilin milli hrauns og breksíuhluta í honum eru á því dýpi.
Að frátöldum stórdyngjunum eru 30-40 smáfell í Fagradalsfjallskerfinu. Þau eru þó ekki endilega mynduð í jafnmörgum gosum. Sex þeirra, þar á meðal Skála-Mælifell, eru úr öfugt segulmögnuðu, ólivínríku bergi. Aldursgreiningar sýna þau um 90.000 ára, frá segulflöktstíð sem kennd hefur verið við Skála-Mælifell. Af öðrum goseiningum kerfisins má nefna Festarfjall. Þar má sjá gosganginn í sjávarhömrum, Festina sem fæddi það. Gangur úr pikríti með stefnu á Lyngfell (einnig úr pikríti) sést í fjörustálinu nokkru austar en Festin, efalaust aðfærsluæðin. Gossprungan hefur í því tilviki verið um 700 metra löng. Bergið í goseiningum kerfisins er þóleiít, ólivínbasalt og pikrít.
Í kerfinu eru tólf gígar og stuttar gígaraðir frá eftirjökultíma, allt í því vestanverðu, nema ein dyngja á austurjaðrinum, norðan í Hraunsels-Vatnsfelli. Óvíst er hvort gos hafi verið jafnmörg.
Elst hraunanna er sennilega Hrólfsvíkurhraun, frægt fyrir fjölda hnyðlinga sem aðallega sjást í einu belti. Líklega hefur gosið byrjað í sjó og þá myndast túffbingurinn í Berjageira upp af Hrólfsvík. Sjór hefur eytt honum að hluta áður en hraunið úr Vatnsheiði lagðist að og varði hann fyrir frekara rofi.
Aðalgosreinin frá eftirjökultíma nær frá Vatnsheiði norðaustur fyrir Fagradalsfjall með tíu hraunum.
Stærst þeirra, að undanskildum Þráinsskildi, eru smádyngjan Vatnsheiði, að mestu leyti úr pikríti, og Borgarhraun úr þóleiíti. Borgarhraun er upprunnið í fjórum gígum suðvestan í Fagradalsfjalli. Önnur hraun eru lítil, en erfitt er þó að ákvarða stærð þeirra, því að yngri hraun hafa lagst yfir þau vestan frá. Yngsta hraunið í kerfinu mun vera Beinavörðuhraun, en það er eldra en Reykjanesgjóskan R~6000.
Á árunum 2021-2023 gaus þrívegis í Fagradalsfjalli, þ.e. í Geldingadölum, við Meradali og við Litla-Hrút. Það þarf þó ekki að koma á óvart því hraun hafa runnið á ýmsum stigum allt umhverfis fjallið.
Heimildir:
-Gee, M. A. M., 1998. Volcanology and Geochemistry of Reykjanes Peninsula: Plume-Mid-Ocean Ridge interaction. Doktorsritgerð, Royal Holloway University of London. 315 bls.
-Kristján Sæmundsson, óbirt gögn 2011.
-Kristján Sæmundsson, 1995b. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, 1:25.000. Blað 1. Orkustofnun, Hitaveita Suðurnesja og Landmælingar Íslands, Reykjavík.
-Kristján Sæmundsson, 1995c. Um aldur stóru dyngnanna á utanverðum Reykjanesskaga. Eyjar í eldhafi. Afmælisrit til heiðurs Jóni Jónssyni jarðfræðingi. Gott mál, Reykjavík, 165-172.
-Sveinn P. Jakobsson og fleiri, 1978. Petrology of the Western Reykjanes peninsula, Iceland. Journal of Petrology, 19, 669-705.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=65697