Skiphóll – Hestaþinghóll – Varmá

Leiruvogur

Í „Fornleifaskráningu um Skiphól og Varmárbakka 2020 vegna deiliskipulagsbreytinga“ má lesa eftirfarandi um Skiphól og Hestaþinghól, auk bæjarins Varmár í Mosfellsbæ.

Varmá

Varmá

Varmá – túnakort 1916

Jörðin Varmá kemur fyrir í heimildum þegar á 14. öld og var þar þá kirkja en hún lagðist af skömmu fyrir 1600. Jörðin er síðan nefnd í Fógetareikningum frá 1547-1552 og þá sem konungseign.

Varmá

Varmá – bæjarhóll.

Varmá var þingstaður og er fyrst getið sem slíks árið 1505.
Jörðin var áfram í konungseign við jarðaskráningu árin 1704 og 1847 og ábúendur tveir.

Varmá var svo lögð undir Lágafell um 1900.
Af Fasteignabókum má sjá að jörðin var ekki lengur í ábúð árin 1922-1932 og hefur ekki verið það síðan. Rústir gamla bæjarins eru greinilegar um 40-50 metra suðaustan og austan við Varmárskóla.

Varmá – Kirkja

Varmá

Varmá – uppgröftur kirkjutóftar.

Árin 1968 og 1969 fór fram fornleifauppgröftur að Varmá. Elsta tóftin, sem kom fram við uppgröftinn, var af lítilli kirkja úr kaþólsku. Þar var líklega vallgróin tóft 1721 en skömmu síðar er reist smiðja á staðnum.

Varmá

Varmá – uppgröftur kirkjutóftar.

Á nítjándu öld virðist hún fallin og er litlum kofa þá fundinn staður í tóftinni. Af rituðum heimildum er vitað um kirkju að Varmá á 14. öld. Messuhaldi er hætt þar á árunum 1554-1584. Að öðru leyti vísast til greinar Sveinbjarnar Rafnssonar „Kirkja frá síðmiðöldum að Varmá“.

Skv. ábendingu Hauks Níelssonar, bónda að Helgafelli, á kirkjan að hafa staðið um 5-7 m vestan við bæinn. Borið saman við mynd þá, sem birt er í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1970, bls. 32, virðist staðsetning Hauks nokkurn veginn rétt. Við byggingu skólans, sem er þarna vestan við, hefur verið ýtt fram mikilli möl og mold, þannig að nú er allhár bakki vestan við rústirnar. Líklega er kirkjan öll eða að hluta komin undir þennan bakka (Ágúst Ó. Georgsson).

Varmá

Herforingjaráðskort frá 1909. Hér sjást fornar leiðir og leirvogur nær lengra inn í landið en nú.

Leiðir
Á Herforingjaráðskortinu er að finna leið sunnan megin við hafnarsvæðið sem hefur verið sunnan Leiruvogs en er nú sunnan Köldukvíslar. Þessi leið hefur legið út í Langatanga og fram hjá Skiphól og komið þar sem eru krossgötur á austurbakka Varmár. Þessi leið hefur líka verið farin út að Hestaþingshól. Loks hefur legið leið niður að Skiphól frá bænum Varmá og sést hún líka á kortinu.

Skiphóll

Leiruvogur

Siglingar um Norður-Atlantshafið fyrrum.

Kålund nefnir Skiphól þegar árið 1877: „Nord for Guvenæs skærer sig Lervågene (Leiruvogur) eller som i oldskrifterne udtrykke sig Lerevågen (Leiruvágr) sig ind i landet; nu bruges ordet sædvanlig i flt., på grund af den huk Skibshol, som adskiller dem.“ Við örnefnaskráningu í Varmárlandi sagði Ari Gíslason: „Merkin móti Lágfelli eru frá Lækjarfarveg við sjó […]. Ef við höldum með sjó inn, þá er þar tangi fram í sjóinn og voginn. Þar eru tveir hólar. Heitir sá neðri Skiphóll, en sá, sem er ofar, er með þúfu á, og heitir hann Hestaþingshóll. Bendir nafn hans á forn hestaöt þarna niður við sjóinn. Hóll þessi er á tanganum, og ef vel er að gáð virðist þarna vera um gamalt mannvirki að gera.“ Árni Jónsson gerði athugasemdir við skráningu Ara og taldi að Skiphóll væri ofar: „Farið er út með Varmá að Skiphól ekki inn með. Skiphóll er ofar, Hestaþingshóll neðar.“

Skiphóll

Skiphóll.

Eins þarna kemur fram voru áður tveir hólar á svæðinu og nokkuð á reiki hvor hóllinn var Skiphóll. Samkvæmt Hauki Níelssyni, bónda á Helgafelli og heimildamanni við fornleifaskráningu árið 1980, var hóllinn næst Varmá nefndur Hestaþingshóll þótt sjálfur teldi hann líklegra, að það væri Skiphóll því þar væri betra skipalægi. Annar heimildamaður árið 1980, Einar Björnsson á Litla-Landi, var sömu skoðunar og sagði hólinn á Varmárbakka heita Skiphól. Einar ólst upp í Norður-Gröf í Kjalarneshreppi og var fyrrverandi bóndi á Skeggjastöðum og seinna Laxnesi og því mjög kunnugur staðháttum á svæðinu. Að hans sögn var byggingarefni fyrir Álafossverksmiðjuna skipað upp við Skipshól. Þar var líka skipað út heyi sem fór til Reykjavíkur og var notað sem fóður fyrir hesta. Einar taldi þó örnefnið vera eldra.

Skiphóll

Skiphóll.

Í „Lýsingu Mosfells- og Gufunessókna“ 1855 er fjallað um lendingar við Leiruvog: „Lendingar eru hér víðast góðar, því vogar þeir, er áður eru nefndir, skerast langt inn, svo að brimsjóir af hafi ganga sjaldan inn í þá, og eyjar þar, er einnig eru nefndar, eru til hlífðar við sjógangi.

Álfsnes

Álfsnes og Leirvogur – herforingjaráðskort 1903.

Í Þerney og Kollafirði eru góðar lendingar, sömuleiðis í Viðey og Gufunesi. Í Leiruvogum eru sléttar leirur og útgrynni mikið, en ekki sker eða boðar.“ Á fyrri öldum er eins og þarna stundum talað um Leiruvoga í fleirtölu; sjórinn virðist áður hafi teygt sig lengra inn og þá hefur mótað betur fyrir tveimur vogum við mynni ánna, Köldukvíslar og Varmár sunnar en Leirvogsár norðar. Landsvæðið á milli ánna nefnist Leirvogstunga. Vogarnir hafa hins vegar grynnkað með árframburði í aldanna rás og fleirtölumyndin Leiruvogar þá horfið úr málinu. Þegar nýleg kort af svæðinu eru borin saman við Herforingjaráðskort Dana frá árinu 1909 sést greinilega að landið nær lengra út nú en áður.
Í Landnámu og Íslendinga sögum er margsinnis getið um skipakomur í Leiruvog fyrir sunnan land eða neðan Heiði og er þá átt við Mosfellsheiði. Þarna hefur verið siglingastaður og ein mikilvægasta höfnin á suðvesturhorni landsins. Skjól var fyrir brimi og vindi af landi og hafnarskilyrði góð fyrir grunnrist skip. Á flóði hefur Leiruvogur verið skipgengur allt upp fyrir Hestaþingshól og að Skiphóli. Ætla má að skipum hafi verið lent við Skiphól allt frá þjóðveldisöld og þannig hefur örnefnið orðið til. Jafnframt er líklegt að þar hafi verið haldnar kaupstefnur þar sem skipt var á varningi sem skip komu með að utan og vörum heimamanna úr nærliggjandi sveitum.

Skiphóll

Skiphóll.

Skiphóll er lágur grasi vaxinn hóll á suðurbakka Köldukvíslar, skammt vestan við Varmá sem sameinast Köldukvísl rétt áður en hún rennur fram hjá hólnum. Hann er um 10 m sunnan árbakkans og um 20 m norðan við austasta hesthúsið. Hóllinn er sa. 26 x 21 m að stærð og 2,5 m á hæð. Birkitré hafa nú verið sett niður í hálfhring um hólinn eins og skjólveggur vestan, sunnan og austan við hann. Austan og vestan hans eru mýrarsund og sunnan megin eru hesthús.

Vesturlandsvegur

Uppdráttur Björn Gunnlaugssonar af Leirvogi og nágrenni.

Engin ummerki eru lengur um höfnina við Skiphól og engar rústir sjáanlegar, hvorki á hólnum eða við hann. Þegar rætt var við Hauk á Helgafelli kvaðst hann þó hafa séð hleðslur úr torfi á honum og sýndist honum það vera tóft eða tóftir. Á þeim tíma sást að grafið hafði verið í systa hluta hólsins og mátti þá sjá að hann var úr mold. Haukur minntist einnig á hróf og varir við hólinn. Þessar minjar eru horfnar en við fornleifakönnun og jarðsjármælingar árin 2012-2014 fundust minjar. Í könnunarskurði í hólnum sjálfum komu í ljós torfhleðslur og skurðir og virtist jafnvel mega greina skurð með skipslögun innan í hólnum auk þess fannst bátasaumur. Þessar minjar eru líklega frá því skömmu eftir 871 en ekki yngri en 1226. Tveir litlir skurðir voru teknir nokkru vestan við Skiphóll en engar mannvistarleifar fundust þar. En vel má vera að mannvistarleifar leynist vestan við hann og þarf að fara gætilega á því svæði en aðeins lítill hluti af svæðinu var kannaður.

Skiphóll

Fræðsluskilti við Skiphól; -Skiphóll er gamalt skipalægi við ísa Varmár en á flóði var hægt að sigla skipum alla leið að hólnum. Lengi mátti sjá tvö skipshróf (eins konar naust) hér við Skiphól en þau eru nú horfin. Í fornum sögum er getið um skipaferðir hér í Leiruvogi og stundum talað um að skip hafi komið út í Leiruvog fyrir neðan heiði, þ.e. Hellisheiði. Í Hallferðar sögu er sagt frá viðskiptum Hallfreðar vandræðaskálds og Mosfellinga eftir að hann hafði lent skipi sínu á þessum slóðum.- „Og að sumri fór Hallfreður út til Íslands og kom skipi sínu í Leiruvog fyrir sunnan land. Þá bjó Önundur að Mosfelli. Hallfreður átti að gjalda hálfa mörk silfurs húskarli Önundar og svaraði heldur harðlega. Kom húskarlinn heim og sagði sín vandræði. Hrafn kvað slíks von að hann mundi lægra hlut bera í þeirra skiptum. Og um morguninn eftir reið Hrafn til skips og ætlaði að höggva strengina og stöðva brottferð þeirra Hallfreðar. Síðan áttu menn hlut í að sætta þá og var gjaldið hálfu meira en húskarl átti og skildu að því.“ (Úr Hallfreðar sögu)

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar af Varmá segir m.a.: „Ef við höldum með sjó inn, þá er þar tangi fram í sjóinn og voginn. Þar eru tveir hólar. Heitir sá neðri Skiphóll, en sá sem er ofar, er með þúfu á, og heitir hann Hestaþingshóll. Bendir nafn hans á forn hestaöt þarna niður við sjóinn. Hóll þessi er á tanganum, og ef vel er að gáð, virðist vera þarna um gamalt mannvirki að gera.“
Í athugasemdum við örnefalýsinguna segir: „Skiphóll er seinasta leiti á mörkum milli Helgafells og Varmár. Skip gátu komizt þar upp um flóð og tóku hey úr Skaftatungu.“

Hestaþinghóll

Hestaþinghóll.

Lágur grasivaxinn hóll á suðurbakka Leirvogsár, skammt þar frá, sem Varmá og Leirvogsá mætast. Hóllinn er um 10 m sunnan árbakkans og um 10-15 m norðan við austasta hesthúsið. Hóll þessi er ýmist kallaður Skipshóll eða Hestaþingshóll.
Engar rústir sjánlegar á eða við hólinn.
Mýrarsund eru austan og vestan við. Haukur Níelsson, bóndi á Helgafelli segir, að hóll þessi heiti Hestaþingshóll. Telur hann þó líklegra, að réttnefni sé Skipshóll. Þar sé betra skipalægi en neðar við ána (þar sem hann segir að Skipshóll sé).
Sem sagt: Munnmæli þau sem Haukur hefur heyrt segja, að Hestaþingshóll sé ofar við ána, en Skipshóll neðar. Haukur, sem pælir í Íslendingasögum, vill hins vegar ætla Skipshól stað ofar við ána.
Syðsti hluti hólsins er nú skemmdur. Hefur verið grafið þar í hann. Sýnir sárið að hóllinn er úr mold.
Á Hestaþingshól kveðst Haukur hafa séð einhverjar hleðslur, úr torfi einungis. Var því líkast sem um einhverjar tóftir eða tóft væri að ræða.
Einar Björnsson, Litla-Landi, uppalinn í Norður-Gröf, Kjalarneshr. og f.v. bóndi á Skeggjastöðum og seinna í Laxnesi, segir hól þennan heita Skiphól. Byggingarefni í Álafossverksmiðjuna hafi verið skipað upp við Skipshól. Þó telur Einar örnefni þetta vera eldra, en frá þessum tíma. Þarna var líka skipað út heyi, sem fór til Rvk og var notað sem fóður fyrir hesta.
17/9 1980 (Ágúst Ólafur Georgsson)

Hestþinghóll

Hestþinghóll

Hestþinghóll.

Auk Skiphóls var svonefndur Hest[a]þingshóll á þessu svæði. Honum er lýst í landamerkjalýsingu frá árinu 1889:
”1. Á suðursíðuna milli Varmár og Reykjahverfis: Úr Markarlæksfossi við ána Varmá ræður lækurinn upp að næsta krók á honum, og þaðan eptir beinni stefnu á Stórahnjúk allt að Lágafellslandi eptir svokallaðri Markakeldu.
2. Á vestursíðunni frá Markakeldu um Svartaklett og syðri Urðarþúfu, þaðan í stærstu steinana á svokölluðu Markholti og þaðan í beina línu í lækjarfarveg niður við sjó, þaðan ræður sjórinn merkjum að Hestaþingshól.
3. Á norður og suðursíðuna, frá nefndum Hestaþingshól, ræður áin Varmá merkjum milli Leirvogstungu og Helgafells alla leið upp að fyrstnefndum Markalæksfossi.“
Miðað við þessa lýsingu liggja merkin frá Hestaþingshól eftir Varmá og hljómar það eins og þarna sé átt við hólinn við bakka Varmár sem oftast hefur verið nefndur Skiphóll. En eins og komið hefur fram eru heimildir ekki samsagna um það hvor hóllinn hafi verið ofar með Köldukvísl og hvor þeirra utar. Ljóst er að þeir voru tveir en sá ytri er horfinn. Hann hefur verið úti á tanga sem nú er búið að ýta til og raska.
Nafnið Hestaþingshóll bendir til að þar hafi verið haldin hestaþing eða hestaöt og má ætla að efnt hafi verið til þeirra í tengslum við kaupstefnur við Skiphól. Á hestaþingum skemmtu menn sér við að etja saman stóðhestum og fara sögur af slíku allt frá landnámi. Siðurinn hefur flust hingað frá Noregi og hélst fram eftir öldum. Hestaöt virðast að lokum hafa lagst af á 16. og 17. öld í kjölfar þess að kirkjunnar menn fóru að amast við þeim eftir siðskiptin.
Leirurnar við Leiruvog hafa verið vinsælar meðal ríðandi fólks. Þar hefur verið hægt að spretta úr spori og enn í dag er þarna útivistarsvæði hestamanna og hesthúsahverfi reis sunnan Skiphóls á síðari hluta 20. aldar.

Heimild:
-Skiphóll og Varmárbakkar; Fornleifaskráning vegna deiliskipulags breytingar, Ragnheiður Traustadóttir og Rúna K. Tetzschner – ANTIKVA EHF 2020.
-Agnes Stefánsdóttir, Rúna K. Tetzschner o.fl., Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, 2006.
-Ari Gíslason. Varmá. Örnefnastofnun Íslands. ópr.
-Ágúst Ólafur Georgsson. Fornleifaskráning í Mosfellssveit 1980. Skráningarbók 1604-100.
-Árni Jónsson frá Varmá. Athugasemdir við handrit Ara Gíslasonar. Örnefnastofnun Íslands. ópr.
-Stefán Þorvaldsson. „Lýsing Mosfells- og Gufunessókna“. Sýslulýsingar og sóknalýsingar. Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess III. Félagið Ingólfur gaf út. Reykjavík 1937-1939.

Leiruvogur

Leiruvogur – loftmynd.