Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi – I

Guðmundur Björgvin

Guðmundur Björgvin Jónsson skrifaði bókina „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleystrandarhreppi“, sem hann gaf út árið 1987. Bókin er mjög merkileg heimild um framangreint í hreppnum.

Formáli
Brunnastaðir
Guðmundur Björgvin er fæddur að Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd 1. október 1913, en þar bjuggu þá foreldrar hans, Jón Einarsson útvegsbóndi, d. 1929, og Margrét Pétursdóttir, d. 1918. Hann var því ungur að árum er hann missti móður sína, aðeins 5 ára, og föður sinn á 7. ári. Hann ólst upp hjá móðursystur sinni Guðríði Pétursdóttur að Brekku undir Vogastapa og manni hennar Magnúsi Eyjólfssyni.

Skógfellavegur

Merki við „götuna“; Skógfellaveg.

Í bók Guðmundar koma m.a. fram upplýsingar um landamerkjabréf frá 8. nóv. 1889, skjal nr. 176: „Samkvæmt landamerkjalögum frá 1270 eru landamerki milli Stóru og Minni-Voga í Vatnsleysustrandarhreppi og jarðarinnar Þórkötlustaðar í Grindavíkurhreppi er hér segir: „Frá kletti þeim er stendur við götuna norðan við Skógfell hið neðra (Litla-Skógfell) að Kálffelli og þaðan í Vatnskötlum“. Ofan skrifuðu samþykktir eigendur og umbjóðendur áminnstra jarða. Garðhúsum, Vatnsleysustrandarhreppi þ. 8. nóv. 1889, fyrir Þórkötlustaði, umbjóðandi Magnús J. Bergmann, fyrir 2/3 part Vogatorfunnar Guðm. J. Waage og fyrir 1/3 part Vogatorfunnar Klemens Egilsson. Lesið á manntalsþinginu fyrir Vatnsleysustrandarhrepp að Brunnastöðum 16. júní 1890 og fyrir Grindavíkurhrepp að Járngerðarstöðum 20. júní sama ár. – Frans Siemens sýslumaður (sign).“

Skógfellastígur

LM-merki á Stóra-Steini við Skógfellastíg.

Í Landnámu er sagt frá Steinunni hinni gömlu, er gaf Eyvindi fóstra sínum land milli Hvassahrauns og Kvígu-Vogabjargs og er það land nú nefnt Vatnsleysustrandarhreppur.

Stapinn

Brekka undir Stapa.

Um nafnið Vatnsleysuströnd hefur verið nokkur meiningarmunur. Oftast er nafnið tengt við vatnsleysi, sbr. að varla sjáist rennandi vatn. Önnur skýring er til, sú að vatn renni laust og óbundið neðanjarðar og er hún trúlegri. Vatnið er í miklum mæli flæðandi undir þunnum hraunhjúp, eftir opnum æðum og sprungum (gjám) frá hálendinu þar til það fellur í sjó fram og er vel greinanlegt meðfram allri strandlengunni í Vatnsleysustrandarhreppi, að vísu einungis á lágum sjó, fjöruvötnum.
Í Landnámu er Stapinn nefndur Kvíguvogabjarg og tengist það nafn þjóðsögu Jóns Árnasonar, 1. bindi bls. 127, um Marbendil er sendi bónda kvígur nokkrar og náði hann einni undir Kvíguvogabjargi, en hvenær það nafn verður að Voga-Stapa er mér ekki kunnugt.

Kerlingarbúðir (tóftir)

Kerlingarbúðir

Áletrun á klöpp við Kerlingarbúðir.

Undir Vogastapa er lítið undirlendi og ekki búsældarlegt, og treystu búendur þar því nær eingöngu á sjávarútveg. Vestast undir Stapanum, þar sem minnst er undirlendið, eru Kerlingarbúðir. Þar upp af er hægt að komast uppá Stapann, upp Rauðastíg. Í Kerlingarbúðum má sjá margar tóftir sem ýmist hafa verið mannabústaðir eða fiskbyrgi. Um þennan stað eru til þjóðsögur. Stór steinn sem í var höggvið ártalið 1780 var allt fram á síðustu ár þarna fyrir neðan sjávarbakkann. Sennilega er þarna merkileg saga sorfinn burt af sjávarróti og landeyðingu, utan þær leifar sem enn eru sjáanlegar. Í Kerlingarbúðum eru fyrstu ummerki mannabústaða á vesturenda Vatnsleysustrandarhrepps.

Stapabúð
Stapabúðir
Nokkru austar meðfram Stapanum eru aðrar kofarústir er heita Stapabúðir. Síðast var búið þar árið 1899.
Stapabúð var grasbýli og greiddi landskuld til Stóru-Voga, er átti allt land meðfram Vogastapa. Þar má enn sjá hvernig húsaskipan var háttað. Útræðisaðstaða var mjög góð og fiskisæld mikil.

Hólmabúðir (rústir)
Hólmabúðir
Hólmabúðir voru á svokölluðum Hólma, sem er um 250 metrum útfrá Stapanum og var talið grasbýli þó lítið virðist hafa verið þar grasland. Aftur á móti sést enn vel að þarna hafa verið stórir kartöflugarðar, enda fjölmenni á vetrarvertíð. Þar var mikið útræði um miðja 19. öld og fram yfir aldamót. Voru þar eingöngu svokölluð „inntökuskip“, aðkomuskip um vetrarvertíðina, eða frá byrjun mars til lokadags 11. maí. Komu skip víða að vegna fiskgegndar á innanverðum Faxaflóa. Það svæði var nefnt „Gullkista“ og mun legi í minnum haft, því hvergi umhverfis landið var slík mergð fiskjar á þessu tímabili.

Stapakot

Stapabúð.

Á Hólmabúðum voru komin stór salthús 1830-1940 og á lofti þeirra voru verbúðir aðkomumanna. Í jarðabók frá 1849 segir: „Á Stóru-Vogajörð standa nú þrjú salthús, sem kaupmenn eiga og gjalda landsdrottni 48 ndl.“ Sýnir þetta nokkur umsvif þeirra tíma.

Hólmur

Hólmurinn undir Stapa.

Talið er að þegar útgerð var mest frá Hólmabúðum hafi verið gerð út þaðan 18 skip og ef áætlað er að jafnaði 7 menn á hvert skip verða það 126 manns. Síðan má telja landverkafólkið og má ætla að þegar mest var hafi verið þarna um 140 til 150 manns á vetrarvertíðinni. Um aldamótin komu fiskleysisár og var þá fólksflótti yfir í aðrar verstöðvar. Hólmahúsin voru rifin, efnið flutt burtu og eftir stóðu grunnar og hálfhrunin fiskbyrgi. Að vísu var útgerð áfram frá Stapabúð og Brekku og síðar komu góð fiskiár af og til.

Brekka (tóftir)
Brekka
Að Brekku undir Vogastapa fluttu hjón frá Hólmabúðum árið 1861. Það voru þau Guðmundur Eysteinsson, f. 1796, og kona hans Valgerður Þórðardóttir, f. 1799. Byggðu þau upp bæinn og bjuggu þar til ársins 1869.
Brekka var grasbýli, leiguland eins og Stapabúð og greiddi afnotagjöldin til Stóru-Voga og um 1925 var gjaldið fyrir bæði býlin kr. 20 fyrir árið. Þetta gjald hélst þar til Brekka lagðist í eyði árið 1928.

Steinsholt (að mestu horfið)
Steinsholt
Guðmundur Magnússon koparsmiður, f. um 1834, og kona hans, Ástríður Guðmundsdóttir, f. 17. júlí 1836 í Reykjavík, byggðu sér tómthús um 1874 er þau nefndu Steinsholt. Var það á milli Vogabyggðar og Vogastapa í landi Stóru-Voga. Landið fyrir neðan Steinsholt, eða sjávarmegin, heitir Kristjánstangi og þar var útgerð, enda landtaka góð. Á Kristjánstanga var þriðja salthúsið; hin tvö í Hólmabúðum, sem fyrr segir. Á miðri nítjándu öld lagðist sá útgerðarstaður niður.
Í Steinsholti má enn sjá klapparskoru (sjá mynd), sem Guðmundur refti yfir og notaði fyrir eldsmiðju. Í Steinsholti lést Guðmundur 29. mars árið 1879, og þar með lagðist sá bær í eyði.
Minna-Knarrarnes
Fyrir norðan og neðan Steinsholts, í sandfjörunni, sést í skipsstefni upp úr sandinum. Þar var skipsskaði í sept. 1904, er seglskip slitnaði upp á Vogavík og rak í fjöru án manntjóns. Skipið var frá Mandal í Noregi og var með timburfarm, er fara átti til Jóhannesar Reykdals í Hafnarfirði, en hafði einhverra hluta vegna lagst við ankeri á Vogavík, sennilega að bíða betri byrjar til Hafnarfjarðar. Hét skip þetta Fjallkonan. Timburfarmur þess var seldur á uppboði á Kristjánstanga. Þangað hafði honum verið safnað saman úr fjörunni og skipinu. Munu mörg hús hér í hrepp vera byggð úr þessu strandgóssi, m.a. Minna-Knarrarnes, af Gísla Sigurðssyni bónda þar. Var það hús rifið 1930 er núverandi Knarrarnes var tekið í notkun.
Vogavík
Í fjörunni skammt frá áðurnefndu strandi, má sjá leifar af öðru skipi er strandaði þar árið 1937, á svokölluðum Sandskerjum. Hét skipið Hansavaag, gamalt tréskip er lengi var notað til flutninga á sandi og steypumöl milli fjarða norðanlands, s.s. frá Sauðarkróki til Siglufjarðar. Áætlað var að nota skipið í þetta sinn sem fljótandi síldarsöltunarstöð og var með því í þessari ferð mikið magn af tómum sílartunnum og einnig starfsstúlkur, sem vinna áttu síldina.
Skipið kom í Vogavík árla dags í björtu og góðu verði, sigldi með landi og á Þórusker, þar sem nú er ysti hluti hafnargarðsins, losnaði þar og rak upp í áður nefnt Sandsker og er hluti skipsins þar enn.

Brekka í Vogum
Brekka Vogum
Eins og áður hefur komið fram, lagðist Brekka undir Vogstapa í eyði árið 1928 og húsið rifið af þáverandi eiganda þess Magnúsi Eyjólfssyni. Var efniviður hússins að hluta til notaður í nýtt hús sem byggt var árið 1931 í landi Bræðraparts.
Þeim hjónum Magnúsi og Guðríði varð ekki barna auðið, en ólu upp systurson Guðríðar, Guðmund Björgvin Jónsson frá Brunnastöðum. Guðmundur kvæntist Guðrúnu Lovísu Magnúsdóttur frá Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd. Byggðu þau við austurenda Brekku árið 1942 og settust þar að.
Árið 1954 seldi Guðmundur Björgvin Brekku og flutti í nýtt hús, Lyngholt.

Lyngholt
Lyngholt
Lyngholt var byggt árið 1954. Byggjandi og smiður var Guðmundur Björgvin Jónsson, fóstursonur Magnúsar og Guðríðar frá Brekku. Guðmundur og kona hans Guðrún Lovísa fluttu frá Brekku í Vogum í Lyngholt með 9 börn og með þeim flutti Guðríður, en Magnús var þá látinn.

Vogar

Kirkjugerði 5.

Lyngholt er á leigulóð frá Suðurkoti og Bræðraparti og með fyrstu húsum sem staðsett voru samkvæmt skipulagi, sem tók þó ekki gildi fyrr en árið 1960.
Guðmundur Björgvin er vélvirki og hefur unnið við verkstjórn í 40 ár, Árið 1973 var Lyngholt selt, og flutti Guðmundur og Lovísa í nýtt hús að Kirkjugerði 5 í Vogum. Börn þeirra hjóna eru 12 og öll uppkomin; 1) Magnea Guðrún (látin), 2) Erlendur Magnús, 3) Haukur Matthías, 4) Hreiðar Sólberg, 5) Sesselja Guðlaug, 6) Jón Grétar, 7) Helgi Ragnar, 8) Svandís, 9) Halla Jóna, 10) Guðlaugur Rúnar, 11) Björgvin Hreinn, 12) Viktor.
Sesselja Guðlaug skrifaði m.a. bókina „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi„, sem er gagnmerk heimild um örnefni og minjar í hreppnum ofan þess þess svæðis, sem fjallað er um í bók föður hennar, Guðmundar Björgvins.

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund Björgvin Jónsson – útgefið af höfundi 1987.
Vatnsleysuströnd