Selgjá – friðlýst

Selgjá

Á Vísindavef HÍ var spurt; „Hverjar eru helstu fornleifar í Garðabæ?“
Svarið, að hluta, var: „Í Selgjá eru friðlýstar seljasamstæður sem telja má einstakar í sinni röð, byggðar upp við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Þar er varla þverfótað fyrir margra alda gömlum tóftum.“

Búrfell

Búrfellsgígur.

Á vefsíðu Umhverfisstofnunar árið 2020 er m.a. fjallað um friðlýsingu Búrfells, Búrfellsgjár og Selgjár í Garðabæ friðlýst. Hafa ber í huga að minjarnar í Selgjá höfðu áður verið friðslýstar árið 1964.
„Í dag, 25. júní, undirritaði umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, friðlýsingu Búrfells, Búrfellsgjár og Selgjár í Garðabæ sem náttúruvætti.

Selgjá

Einn Selgjárfjárhellanna – Norðurgjárhellrir.

Svæðið er gott dæmi um jarðmyndanir sem eru sérstakar á landsvísu og hafa hátt vísinda- og fræðslugildi. Jafnframt er svæðið vinsælt útivistarsvæði. Búrfell og hrauntraðir frá gígnum, gjárnar og misgengi eru mjög áberandi í landi. Búrfell er stakur gjall- og klepragígur sem tilheyrir eldstöðvakerfi Krýsuvíkur. Snemma á nútíma fyrir um 8100 árum rann úr Búrfelli Búrfellshraun sem hefur breytilega ásýnd eftir svæðum. Innan svæðisins er talsvert af menningarminjum s.s. fjárskjól og seljarústir sem telja má einstakar í sinni röð, byggðar við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Hluti svæðisins hefur verið friðlýstur sem hluti af Reykjanesfólkvangi síðan 1975.

Búrfellsgjá

Selgjá og nálæg friðlýsingarsvæði.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda jarðmyndanir, eldhraun, eldstöð og hraunhella sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma. Markmið friðlýsingarinnar er einnig að varðveita náttúrulegt gróður- og dýralíf svæðisins. Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í jarðfræðinni og jarðmyndunum svæðisins. Markmið friðlýsingarinnar er jafnframt að auðvelda almenningi aðgengi og kynni af náttúruminjum þar sem svæðið er aðgengilegt og tilvalið til fræðslu og útivistar vegna nálægðar við höfuðborgarsvæðið.

Selgjá

Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Undirritunin fór fram á vettvangi að viðstöddum fulltrúum Umhverfisstofnunar, Garðabæjar, Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa, umhverfis- og auðlindaráðuneytis auk fleiri gesta.
Að lokinni undirritun var boðið upp á fræðslugöngu um svæðið sem var leidd af Snæbirni Guðmundssyni jarðfræðingi.“

Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá í Garðabæ var sem sagt friðlýst sem náttúruvætti þann 25. júní 2020.

„Svæðið er mjög gott dæmi um jarðmyndanir sem eru sérstakar á landsvísu og hafa hátt vísinda- og fræðslugildi. Búrfell og hrauntraðir frá gígnum, gjárnar og misgengi eru mjög áberandi í landi. Búrfell er stakur gjall- og klepragígur sem tilheyrir eldstöðvakerfi Krýsuvíkur. Snemma á nútíma fyrir um 8100 árum rann úr Búrfelli Búrfellshraun sem hefur breytilega ásýnd eftir svæðum. Næst upptökunum í Búrfelli er hraunið slétt helluhraun með hrauntröðum eða hraunrásum með hellum. Fjær upptökunum er það klumpahraun. Innan svæðisins er talsvert af menningarminjum s.s. fjárskjól og seljarústir sem telja má einstakar í sinni röð, byggðar við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Hluti svæðisins hefur verið friðlýstur sem hluti af Reykjanesfólkvangi síðan 1975.

Svæðið er 380 ha að stærð.“

Selgjá

Skilti við Selgjá.

Í auglýsingu á vef Umhverfisstofnunar „nr. 687 25. júní 2020 um friðlýsingu Búrfells, Búrfellsgjár og Selgjár í Garðabæ“, segir:

1. gr.
Um friðlýsinguna.

Búrfellsgjá

Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá.

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið að tillögu Garðabæjar, Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa og Umhverfisstofnunar að friðlýsa Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá sem náttúruvætti skv. 48. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013.
Búrfell er stakur gjall- og klepragígur sem tilheyrir eldstöðvakerfi Krýsuvíkur. Snemma á nútíma fyrir um 8100 árum rann úr Búrfelli Búrfellshraun sem hefur breytilega ásýnd eftir svæðum.
Næst upptökunum í Búrfelli er hraunið slétt helluhraun með hrauntröðum eða hraunrásum með hellum. Fjær upptökunum er það klumpahraun.

Búrfell

Búrfell og Kringlóttagjá.

Merkar hrauntraðir eru í helluhraununum næst Búrfelli. Kringlóttagjá er sunnan við Búrfell og Lambagjá við Kaldársel. Búrfellsgjá og Selgjá liggja frá Búrfelli að Urriðakotshrauni. Þær eru í raun sama hrauntröðin, en hún skiptir um nafn við Hrafnagjá. Næst gígnum er Búrfellsgjá þröng og með bröttum veggjum. Þegar kemur niður á jafnsléttu verður hún lægri og víðari. Selgjá er slétt og breið með lágum veggjum. Hún hverfur á kafla þar sem hraunrásir með hellum taka við, en kemur aftur fram á kafla norðar í Heiðmörk. Fjölmargir hraunhellar og skútar eru í Búrfellshrauni. Margir þeirra hafa nýst sem fjárhellar og eru hleðslur við suma þeirra. Langflestir þeirra eru hraunrásarhellar sem myndast þegar hraunrásir tæmast. Margir slíkir eru rétt norðan við enda Selgjár og kallast þeir einu nafni Selgjárhellar. Fjölmargar sprungur og misgengi eru á svæðinu. Stefna þeirra er í langflestum tilvikum til norðausturs. Mestu og virkustu misgengin eru á mörkum Selgjár og Búrfells. Þar gengur Hjallamisgengið þvert yfir hraunið ásamt nokkrum minni misgengjum, þ. á m. Hrafnagjá og Vatnsgjá.

Búrfellsgjá

Við friðlýsingu Búrfellsgjár og Selgjár.

Helstu vistgerðir innan svæðisins eru birkiskógur. Þar er einnig að finna hraunlendi þar sem er fyrst og fremst um að ræða mosahraunavist en einnig lynghraunavist á milli og á stöku stað eyðihraunavist. Á skjólgóðum svæðum sem liggja lægra í landi er að finna lyngmóavist og grasmóavist.
Innan svæðisins er talsvert um friðlýstar fornminjar, fjárskjól og seljarústir sem telja má einstakar í sinni röð byggðar upp við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Gjáarétt liggur í vesturenda Búrfellsgjár auk fyrirhleðsla, réttargerðis og vatnsbólsins Vatnsgjár. Menningarminjarnar eru friðlýstar samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012.
Svæðið er kjörið til útivistar, umhverfisfræðslu, og rannsókna, en Búrfell og nágrenni er vinsælt
útivistarsvæði. Hluti svæðisins liggur innan Reykjanesfólkvangs.
Hið friðlýsta svæði er 3,4 km2 að stærð.

2. gr.
Markmið friðlýsingarinnar.

Selgjá

Selshellir í Selgjá.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda jarðmyndanir, eldhraun, eldstöð og hraunhella sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma. Markmið friðlýsingarinnar er einnig að varðveita náttúrulegt gróður- og dýralíf svæðisins. Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í jarðfræðinni og jarðmyndunum svæðisins. Svæðið er mjög gott dæmi um jarðmyndanir sem eru sérstakar á landsvísu og hafa hátt vísinda- og fræðslugildi. Búrfell og hrauntraðir frá gígnum, gjárnar og misgengi eru mjög áberandi í landi.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá – upplýsingaskilti.

Markmið friðlýsingarinnar er jafnframt að auðvelda almenningi aðgengi og kynni af náttúruminjum þar sem svæðið er aðgengilegt og tilvalið til fræðslu og útivistar vegna nálægðar við
höfuðborgarsvæðið.

3. gr.
Mörk náttúruvættisins.
Mörk svæðisins eru sýnd á korti í viðauka I og afmarkast af þeim hnitum sem gefin eru upp í ISN93 hnitakerfi í viðauka II.

4. gr.
Verndun jarðminja.

Selgjá

Þorsteinshellir við Selgjá.

Óheimilt er að hrófla við, raska eða skemma jarðmyndanir innan náttúruvættisins nema til komi sérstakt leyfi frá Umhverfisstofnun og Garðabæ. Til verndunar jarðmyndana er heimilt, að fenginni umsögn frá Náttúrufræðistofnun Íslands, að fjarlægja gróður sem skyggir á jarðmyndanirnar.
Óheimilt er að planta hvers konar plöntum í jarðmyndunum.
Nánar skal fjallað um verndun jarðminja í stjórnunar- og verndaráætlun.

5. gr.
Verndun gróðurs og dýralífs.

Búrfellsgjá

Minjar í Búrfellsgjá.

Vernda skal náttúrulegt gróðurfar með það að markmiði að ekki verði raskað líffræðilegri fjölbreytni svæðisins.
Óheimilt er að spilla gróðri, öðrum en ágengum framandi tegundum, nema um sé að ræða gróður sem spillir útsýni að jarðmyndunum á svæðinu. Vinna skal að því að fjarlægja ágengar framandi tegundir plantna og/eða dýra sem hafa verið flutt inn á svæðið eða berast inn á það.
Óheimilt er að trufla dýralíf á svæðinu að undanskildum framandi tegundum.
Óheimilt er að sleppa eða dreifa framandi lífverum á verndarsvæðinu þ.m.t. rækta framandi plöntutegundir í náttúruvættinu sbr. reglugerð um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda nr. 583/2000.
Nánar skal fjalla um verndun gróðurs og dýralífs í stjórnunar- og verndaráætlun.

6. gr.
Vernd menningarminja.
Um vernd menningarminja fer eftir lögum um menningarminjar nr. 80/2012.

7. gr.
Umferð um verndarsvæðið.

Selgjá

B-steinninn í Selgjá.

Almenningi er heimil för um verndarsvæðið en er skylt að ganga vel og snyrtilega um svæðið og fylgja þeim umgengnisreglum sem gilda innan þess. Gestir skulu, eftir fremsta megni, fara eftir þar til gerðum stígum og stikuðum leiðum. Ríðandi mönnum er heimil för um svæðið á merktum reiðleiðum.
Akstur vélknúinna ökutækja utan vega er óheimill, sbr. 31. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Innan náttúruvættisins er óheimilt að hafa næturgistingu í tjöldum, tjaldvögnum, fellihýsum, hjólhýsum, húsbílum og öðrum sambærilegum búnaði.
Öll meðferð elds er óheimil á svæðinu, þ.m.t. notkun ferðagrilla.

Selgjá

Skilti við Selgjá.

Hundar og önnur gæludýr skulu ávallt vera í taumi innan verndarsvæðisins og þess skal gætt að þau séu undir tryggri stjórn og að þau valdi ekki truflun fyrir gesti og dýralíf svæðisins.
Notkun fjarstýrðra loftfara er óheimil innan náttúruvættisins nema að fengnu leyfi frá Umhverfisstofnun. Þó er heimilt að nota fjarstýrð loftför, ef nauðsyn krefur, vegna leitar- og björgunaraðgerða og vegna umsjónar og eftirlits Umhverfisstofnunar. Minjastofnun Íslands hefur sömu heimildir innan friðhelgunarsvæðis menningarminja. Að öðru leyti skal farið eftir reglugerð nr. 990/2017
um starfrækslu fjarstýrðra loftfara.
Nánar skal fjallað um umferð um verndarsvæðið í stjórnunar- og verndaráætlun og deiliskipulagi fyrir svæðið.

8. gr.
Umgengni um verndarsvæðið.
Óheimilt er að skilja eftir eða urða úrgang innan verndarsvæðisins og skal allur úrgangur settur í þar til gerð ílát eða hann tekinn með út af svæðinu.

9. gr.
Umsjón.

Selgjá

Fjárhellir í Selgjá.

Umhverfisstofnun hefur umsjón með verndarsvæðinu í samræmi við 2. mgr. 13. gr. og 79. gr. laga nr. 60/2013.
Umhverfisstofnun getur falið einstaklingum, sveitarfélögum eða öðrum lögaðilum umsjón og rekstur sbr. 85. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Til grundvallar samningi um umsjón og rekstur svæðisins skal liggja fyrir stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið. Í samningnum skal m.a. kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila, menntun starfsmanna og gjaldtöku.
Minjastofnun Íslands fer með umsjón menningarminja á svæðinu skv. lögum um menningarminjar nr. 80/2012.

10. gr.
Stjórnunar- og verndaráætlun.

Búrfellsgjá

Gróður við Búrfellsgjá.

Umhverfisstofnun ber ábyrgð á að gerð sé stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlýsta svæðið í samræmi við 81. gr. laga nr. 60/2013. Í stjórnunar- og verndaráætlun skal m.a. fjalla um landnýtingu, mannvirkjagerð, starfsemi, menningarminjar, landvörslu, vöktun, verndun, uppbyggingu, fræðslu og miðlun upplýsinga, verndaraðgerðir, aðgengi og umferð gesta, þ. á m. aðgengi fólks með hreyfihömlun.
Stjórnunar- og verndaráætlun skal gerð í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands, Minjastofnun Íslands og eftir atvikum aðrar fagstofnanir og hagsmunaaðila.
Stjórnunar- og verndaráætlun er háð staðfestingu ráðherra.

11. gr.
Rannsóknir og vöktun.
Náttúrufræðistofnun Íslands ber ábyrgð á vöktun á verndarsvæðinu, sbr. 74. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Vöktunaráætlun skal vera unnin í samráði við Umhverfisstofnun og vera hluti stjórnunar- og verndaráætlunar.
Aðrar rannsóknir en rannsóknir Náttúrufræðistofnunar Íslands og Minjastofnunar Íslands sem kunna að hafa í för með sér jarðrask eða truflun dýralífs eru háðar leyfi Umhverfisstofnunar.
Veiting leyfa vegna rannsókna á menningarminjum fer eftir lögum um menningarminjar nr. 80/2012.

12. gr.
Fræðsla.

Selgjá

Selgjá.

Umhverfisstofnun, í samstarfi við Garðabæ, hefur frumkvæði að fræðslu um svæðið. Í fræðsluefni skal upplýst um m.a. umgengnisreglur sem gilda á svæðinu og sérstöðu svæðisins.
Nánar skal kveðið á um fræðslu í stjórnunar- og verndaráætlun svæðisins.

13. gr.
Landnotkun og mannvirkjagerð.

Garðaflatir

Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.

Allar framkvæmdir, þ.m.t. mannvirkjagerð og aðrar breytingar á landi innan friðlýsta svæðisins eru háðar leyfi Garðabæjar, sbr. skipulagslög nr. 123/2010 og lög um mannvirki nr. 160/2010 og Umhverfisstofnunar, sbr. 2. mgr. 40. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013. Innan friðhelgunarsvæða menningarminja þarf einnig að afla leyfis Minjastofnunar Íslands. Framkvæmdir skulu vera í samræmi við samþykkt deiliskipulag og stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið.
Við framkvæmdir, starfsemi, rekstur og önnur umsvif utan friðlýsta svæðisins sem áhrif geta haft á verndargildi þess skal fyllstu aðgæslu gætt.
Vegna starfsemi eða framkvæmda, sem geta haft áhrif á friðlýsta svæðið, sem leyfisskyldar eru samkvæmt öðrum lögum, skal taka mið af því við ákvörðun um veitingu leyfis. Leita skal umsagnar Umhverfisstofnunar áður en leyfi er veitt.
Losun jarðefna og úrgangs er óheimil innan friðlýsta svæðisins.

14. gr.
Starfsemi innan svæðisins.

Selgjá

Fjárhellir í Selgjá.

Afla skal leyfis Umhverfisstofnunar vegna skipulagðra viðburða og verkefna sem kalla á jarðrask, aðstöðu, mannafla eða meðferð tækja innan verndarsvæðisins, s.s. vegna kvikmyndagerðar, listviðburða og samkomuhalds. Innan friðhelgunarsvæða menningarminja þarf einnig að afla leyfis
Minjastofnunar Íslands.
Starfsemi skal vera í samræmi við skipulag svæðisins.
Nánar skal fjallað um starfsemi innan svæðisins í stjórnunar- og verndaráætlun.

15. gr.
Notkun skotvopna.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá – hellir efst í gjánni.

Notkun skotvopna er bönnuð innan marka náttúruvættisins. Veiðar á ágengum framandi tegundum eru heimilar í samræmi við ákvæði laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum enda skulu þær stundaðar á vegum Garðabæjar og í samráði við Umhverfisstofnun.
Nánar skal fjallað um veiðar innan náttúruvættisins í stjórnunar- og verndaráætlun svæðisins.

16. gr.
Viðurlög.
Um brot gegn friðlýsingunni fer samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd.

17. gr.
Gildistaka.
Friðlýsingin öðlast þegar gildi.

Bráðabirgðaákvæði.

Selgjá

Stekkur í Selgjá.

Þar til staðfest deiliskipulag og stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið liggja fyrir er Umhverfisstofnun heimilt að veita leyfi fyrir framkvæmdum ef þær ganga ekki gegn verndarmarkmiðum friðlýsingarinnar.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 25. júní 2020.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Jón Geir Pétursson.

Selgjá

Selgjárhellir. Einnig nefndur Þorsteinshellir.

Í Örnefnaskrá 1964 segir um Selgjá: „Grunn en allbreið gjá syðst í Urriðakotshrauni. Nær allt suður í Hrafnagjá, við Gjáarrétt. Í þessari gjá mun vera að finna Norðurhellnasel Álftnesinga 1703.“ Einnig er þar: „Nær hún allt frá Sauðahelli suður á Norðurhellagjárbarm.“ Selgjárbarmar eru tveir, „annar að sunnan, hinn að vestan“, Norðurhellnagjárbarmur syðri er „nær Vífilsstaðahlíð“ en Norðurhellnagjárbarmur vestri „nær Tjarnholtinu“.
Í Ódagsettri Örnefnalýsingu segir: „Þegar komið er framhjá Sauðahellisvörðu hallar niður í Selgjána og nefnist þá stígurinn Selgjárstígur. Vestast í Selgjánni er Selgjárhellir Selgjárbyrgin og Selgjárselin eru 33 að tölu, í 11 sambyggingum, því hér höfðu Álftnesingar í seli lengi eða allt fram á 18.öld. Við Selgjárbarminn nyrðri er svokallaður B-steinn steinn með bókstafnum B. Á suðurhlið er svo Selgjárbarmurinn syðri. Við syðsta selið liggur stígurinn upp á barminn og er þar Selgjárvarðan. Þegar kemur hér spölkorn suður er komið að úfnu hrauni fram undan svarthömrum, nefnist Kargi. Selstæðið þarna var einnig nefnt: Norðurhellar, Norðurhellnasel og barmarnir því kallaðir Norðurhellnaselsbarmur nyrðri og Norðurhellnabarmur syðri.“ (Bls. 4).“

Selgjá

Eitt seljanna í Selgjá.

Í Örnefnalýsingu 1988 segir: „Úfna hraunið á móts við Svarthamra í Vífilsstaðahlíð kallast Kargi. Suður af Karganum er mikil hrauntröð, Selgjá. Hún er framhald Búrfellsgjár, sem nær upp í Búrfell. Í Selgjá eru rústir af mörgum gömlum byrgjum, og eru sum þeirra í Urriðakotslandi, en flest í Garðakirkjulandi. […] Í landamerkjabréfi er Selgjá nefnd Norðurhellagjá. Er það nafn þá dregið af Selgjárhelli og fleiri hellum í norðurenda hrauntraðarinnar, sem hafa þá heitið Norðurhellar.“ Í lýsingu á gjánni frá 1983 segir: „Á vinstri hönd, eða til suðurs, sjáum við af brúninni grunna, en nokkuð breiða gjá í hrauninu, sem er framhald af Búrfellsgjá. Þetta er Selgjá (Norðurhellragjá).

Selgjá

Selgjá – selsminjar.

Í Selgjá eru margar vallgrónar seljarústir, sem flestar eru fremur smáar í sniðum og minni en t.d. Vífilsstaðasel. Rústirnar standa flestar þétt við barma gjárinnar beggja vegna, en aðrar eru dálítið fjær. Selstaða þessi er nefnd í Jarðabók 1703 og virðast samkvæmt henni átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli. Athyglisvert er, að ávallt er rætt um selstöðu þarna í þátíð og jafnvel þannig, að hún virðist að því komin að falla í gleymsku.“ (Þ.J. og Ó.K.: 27). Minjarnar í Selgjá eru friðlýstar: „Urriðavatn: Seltóftir margar, hellar og önnur mannvirki í og við norðurenda Selgjár. Skjal undirritað af KE 30.04.1964. Þinglýst 05.05.1964.“

Selgjá

Selgjá – Norðurhellahellrir.

Sjá meira HÉR um minjarnar í Selgjá.

Heimildir
-Ari Gíslason: Ódagsett örnefnalýsing Urriðakots. 1990, Fornleifaskrá Skrá um friðlýstar fornleifar. Ágúst Ó. Georgsson tók saman.
-Gísli Sigurðsson: 1964, Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðahreppi: Garðahreppi: Hafnarfirði og Hraunum: Urriðakot nr. A154, 158, 162-3 / B155, 167-8.
-Svanur Pálsson, 1978, bætt 1988: Örnefnalýsing Urriðakots skráð eftir Guðbjörgu Guðmundsdóttur frá Urriðakoti.
-Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson, 1983: „Fjórar leiðir í Gjáarétt“. Hesturinn okkar. Bls. 46-59. Rvk.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=28813
-https://ust.is/umhverfisstofnun/frettir/stok-frett/2020/06/25/Burfell-Burfellsgja-og-Selgja-i-Gardabae-fridlyst/
-https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/sudvesturland/burfell-gardabae/
-https://ferlir.is/selgja-selin/

Sel í Selgjá

Sel í Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.