Sölvhóll
Nafnið Sölvhóll vísar að öllum líkindum til gamalla búskaparhátta. Mikið var um sölvatekju í Örfirisey eða á Víkurfjörum. Vel má hugsa sér að Sölvhóllinn hafi verið notaður til að þurrka söl. Eldri orðmynd gæti þá hafa verið Sölvahóll.
Bærinn Arnarhóll var um aldir næsta bújörð við býlið Reykjavík, en eftir að jörðin var lögð undir tugthús hrakaði búskapnum hratt. Elstu heimildir um búsetu á Sölvhóli, sem þá hefur verið hjáleiga Arnarhóls, eru úr tíundarreikningum og fólkstali frá 1779.
Tímamót urðu í sögu býlisins árið 1834. Þá settist þar að Jón Snorrason hreppstjóri í Seltjarnarneshreppi og reisti nýjan og veglegan torfbæ. Ári síðar var Arnarhólsland flutt undir Reykjavíkurkaupstað og Sölvhóll þar með. Jón var kjörinn í fyrstu bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1836 sem fulltrúi tómthúsmanna.
Bærinn sem Jón reisti stóð uppi í tæpa öld. Búið var að Sölvhóli fram á þriðja áratug tuttugustu aldar, en stöðugt þrengdi að býlinu. Mest þó árið 1919 þegar Samband íslenskra Samvinnufélaga reisti höfuðstöðvar sínar við gafl Sölvhólsbæjarins, í gamla kartöflugarðinum.
Nokkrum árum síðar fluttu síðustu ábúendurnir úr húsinu. Það var rifið árið 1930, ef til vill í tengslum við komu Danakonungs og Alþingishátíðina sama ár. Ekki hefur þá verið talið við hæfi að hinir tignu gestir þyrftu að horfa upp á lúinn torfbæ í bæjarlandinu.
Gatan Sölvhólsvegur í Reykjavík dregur nafn sitt af bænum Sölvhóli.
Heimild:
-wikipedia.com