Gufuskálar í Leiru

Gufuskálar

Brynjúlfur Jónsson segir m.a. frá Gufuskálum í Leiru í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1903 undir fyrirsögninni „Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902„:

„Gufuskálar

Gufusálar

Gufuskálar – brunnur.

Miðskálar og Útskálar eru nefndir í fornum rekaskrám Rosmhvalaness, svo og Miðskálaós og Útskálaós. Miðskálar eru einnig nefndir Miðskálagarður, sem mun eiga að merkja heimajörð með hjáleigum. Í óprentuðu riti eftir séra Sigurð B. Sivertsen á Útskálum hefi eg séð það, að bærinn á Miðskálum heiti nú í Vörum og Miðskálaós Varaós, en Útskálaós Króksós. Sr. S. B. S. getur þess til, að þessir þrennir »skálar«, svo skamt hver frá öðrum, hafi í fyrslu verið eitt land með einu nafni (Gufuskálar), en skifzt fyrst í 3 jarðir, er allar hafi haldið nafninu, en hinar yngri verið aðgreindar með afstöðuorði framanvið nafnið (Mið-Gufuskálar, Út-Gufuskálar), en svo hafi nöfnin verið stytt í framburðinum er frá leið.

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar tóftir ofan sjávarsíðunnar.

Þessi tilgáta gerir ráð fyrir því, að bygð á Gufuskálum hafi eigi lagzt niður, þó Ketill gufa færi þaðan, heldur hafi landeigandi þá sezt að í »skálum« hans, og er ekkert á móti því. Það gerir tilgátuna sennilegri, að samskonar tilfelli hefir átt sér stað með Arnarbæli undir Eyjafjöllum. Úr þeirri jörð hafa verið bygðar jarðirnar: Mið-Arnarbæli og Yzta-Arnarbæli, en nöfnin síðar orðið að: Miðbæli og Yztabæli. Fleiri dæmi lík þessu mun mega finna. Eg vil nú bæta þeirri tilgátu við, að Miðskálagarður hafi í fyrstu verið haft um Miðskála sem hjából, en smámsaman verið látið ná yfir alt það hverfi, sem þar myndaðist.
Nafnið hafi svo í daglegu tali verið stytt og að eins nefnt: Garðurinn.
Miðskálanafnið hafi síðan týnzt, en nafnið: »Garðurinn« haldist, og loks náð bæði yfir Miðskálahverfi (nú Inn-Garðinn) og Útskálahverfi (nú Út-Garðinn). — Rit séra Sigurðar er að mörgu fróðlegt, sem von er af
slíkum fræðimanni. Ætti Landsbókasafnið að eignast það.“

Í Faxa 1968 er grein eftir Ólaf B. Björnsson; „Þar fékk margur sigg á lófa„:

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar tóftir ofan sjávarsíðunnar.

„Lengi fara litlar sögur a£ Leirunni, enda er hún ekki nema lítill hluti úr stórum hreppi. Þar búa fáir bændur og þar eru ekki margar góðjarðir, en þar hefur lengi þótt útræði gott. Þegar á landnámsöld koma þó við sögu Gufuskálar og Hólmur, og er líklegt, að þar hafi búið Steinunn gamla, frændkona Ingólfs landnámsmanns. Um hana eru ekki margar línur í Landnámu. Þó opna þessi fáu orð fyrir manni heilan heim um þessa konu. Hún hefur verið veraldarvön, óvenjulega hyggin og framsýn. Um hana segir svo í Landnámu:
„Steinunn (Steinunn) hin gamla, frændkona Ingólfs fór til Íslands ok var með Ingólfi inn fyrsta vetur. Hann bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun. En hún gaf honum fyrir heklu flekkótta enska og vildi kaup kalla. Henni þótti það óhættara við riftingum. Steinunni hafði átt Herlaugr bróðir Skalla-Gríms. Þeirra synir voru Njáll og Arnórr“.

Gufuskálar

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar tóftir ofan sjávarsíðunnar.

Jörðin er þá kóngsins eign. Í landsskuld greiðir ábúandinn 10 vættir af fiski í kaupstað. Henni fylgja tvö kvígildi, og leigur af þeim verður ábúandinn einnig að gjalda með fiski, en auk þess að leggja sjálfur við til húsabóta. Einnig verður hann að yngja kúgildin upp. Enn er sú kvöð ábúandans, hann verður að lána mann á kóngsskip um vertíð.
„Heimræði er árið um kring og ganga skip ábúandans að hentugleikum. Inntökuskip eru mjög sjaldan, nema kóngsskip. Þau hafa stundum gengið eitt og það oftast, sjaldan tvö, og ekki stærri en sex manna far, og það undirgiftarlaust.
Verbúð fylgir kóngsskipunum fyrir fimm menn, henni viðheldur ábúandinn. Lending slæm um stórstraum“. Þessari jörð fylgja tvær hjáleigur.“

Í Lesbók Morgunblaðsins 1966 fjallar G.Br. um „Leiruna“:

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar tóftir á hól.

„Gufuskálar eru landnámsjörð Ketils gufu Örlygssonar. En ekki átti það fyrir honum að liggja, eða fólki hans, að setja svip sinn á byggðina í Leirunni. Frá honum segir svo í Egilssögu:
Ketill gufa kom til Íslands, þá er land var mjög byggt. Hann var hinn fyrsta vetur að Gufuskálum á Rosmhvalanesi. Ketill hafði komið vestan um haf af Írlandi. Hann hafði með sér þræla marga írska.
Lönd voru öll byggð á Rosmhvalanesi þann tíma. Réðst Ketill því þaðan á brott og inn í Nes og sat annan vetur á Gufunesi og fékk þar engan ráðstafa. Síðan fór hann í Borgarfjörð og sat þar hinn þriðja vetur. Ketill gufa fór síðan vestur í Breiðafjörð og staðfestist í Þorskafirði.“

Í Faxa 1999 skrifar Skúli Magnússon um „Gufuskála í Leiru„:

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar tóftir á hól.

„Í Landnámu er alþekkt sögn um Ketil gufu, sem flæktist á milli staða við Faxaflóa og á Vesturlandi, sem hafa gufu að forlið í nafni.
Ekki er ljóst hvað vakað hefur fyrir skrásetjurum Landnámabókar með sögninni. Helst virðist svo að þeir séu að reyna að skýra tilurð staðarnafnanna með þessum forlið, með manns eða auknefninu gufu. Þar af leiðandi er mjög varasamt að treysta nokkuð á sannleiksgildi sagnarinnar og eins lfklegt að Ketill gufa hafi aldrei í Leiruna stigið fæti. Raunar tengjast „katlar“ eldamennsku og „gufu“ en hvort í sögninni leynist um leið orðaleikur eða kímni fullyrði ég ekki um. Þó má vera að hér sé á ferðinni gamansemi Landnámu skrásetjara.

Gufuskálar

Gufuskálar – hleðslur ofan við Gufuskálavör.

Þórhallur Vilmundarson hefur, sem kunnugt er, fyrir löngu sýnt fram á, að mörg nöfn landnámsmanna, sem menn töldu að hefðu verið til, væru tilbúin, dregin af staðháttum, en staðir ekki nefndir eftir mönnum jafnmikið og talið var. Leitaði Þórhallur þar annarra skýringa, m. a. í staðháttum í náttúrufari. Ef ég man rétt taldi hann gufuforliðinn í nafninu Gufuskálum, dreginn af sjóroki og ágjöf.
Einu sinni, þegar við Ólafur frá Litla-Hólmi, vorum á ferð úti í Leiru, lögðum við leið okkar niður að Gufuskálum. Fórum við þar niður í fjöru og þar sýndi Ólafur mér hvar allvolgt eða heitt vatn vall undan klöppunum niður í fjöruna. Gat hann þess að fyrrum hefði verið þveginn eða skolaður þvottur þarna. Þó var vatnið ekki svo heitt að úr því ryki. Þetta er hins vegar á fárra vitorði og hefur ef til vill alltaf verið sökum þess, að heita vatnið er neðan flóðmarks og fer á kaf á flóði.
Gufuskálar.Þetta leiðir hugann að nafninu Gufuskálum og hvernig umhorfs var þar fyrrum. Var þar við landnám, 870-900, svo mikill hiti að úr vatninu rauk? Varð heitt vatn þarna ef til vill til þess að fommenn komu sér þar snemma upp verbúð eða viðlegu til fiskjar? Er ef til vill kjarni sannleiks í sögn Landnámu um að Steinunn gamla hafi haft þar útræði? Ekki er ólíklegt að á Gufuskálum hafi verið búið fyrr en til að mynda á Hólmi í Leiru, vegna hitans, hafi hann verið meiri á þeirri tíð.
Í öllu eldiviðarleysinu fyrrum, einkum þegar leið fram um landnám, var sírennandi heitt vatn, sem von er, almesta nauðsyn á köldum vetrum, ekki síst í verstöð þar sem kaldir og hraktir menn tóku oft lendingu.
Aldrei hefur það verið kannað, svo ég viti, hvort og hve mikið af heitu vatni mætti finna á Gufuskálum. Ef til vill gæfi slík rannsókn einhverja vísbendingu um hvernig ástand þar var í vatnsmálum við upphaf landnáms. – Skúli Magnússon.“

Í Faxa 1979 segir Njáll Benediktsson frá „Sögnum af Suðurnesjum„, nýútkominni bók Guðmundar Á. Finnbogasonar:

Gufuskálar

Gufuskálar – tóftir ofan við Gufuskálavörina.

„Sagnir af Suðurnesjum heitir ný bók eftir Guðmund Á. Finnbogason frá Hvoli í Innri-Njarðvík. Kom hún út fyrir síðustu jól, útg. er Setberg.
Guðmundur rifjar upp gamlar minningar um menn og málefni sem eru kryddaðar notalegri kímni. Það verður enginn svikinn af þessari bók, enda finnst í henni mikill fróðleikur og grunur minn er margir bíði með eftirvæntingu eftir meiru frá Guðmundi og má hann ekki gleyma kviðlingum.
Guðmundur segir í bók sinni m.a. frá Símoni Sigurðssyni og Þórdísi Ófeigsdóttur, konu hans, sem bjuggu í Kóngsgerði í Leiru 1860. Guðmundur yrkir um Símon:

Lítið oft þó léti í maga
lundu glaða Símon bar.
Fátæktina festi á snaga
fór að semja skrítlurnar.
Hafinn yfir heimsins gengi
hungur basl og mæðustand.
Grannur sló á gamans strengi
gullu hljómarvítt um land.
Það er besti auður öllum
andanns gull sem verða kann.
Mikið ofar matardöllum
marga gleði Símon fann.

Með þessum vísum lýsir Guðmundur Símoni best.

Gufuskálar

Gufuskálar – Hausthús.

Þegar ég var að vaxa úr grasi í Garðinum heyrði ég marga brandara hafða eftir Símoni og lifa þeir enn á vörum manna. Skulu nokkrir þeirra sagðir hér eins og ég man þá best.
Árið 1860 búa í Kóngsgerði í Leiru Símon Sigurðsson, 34 ára ættaður úr Sigluvíkursókn og kona hans Þórdís Ófeigsdóttir, 31 árs, ættuð úr Njarðvíkursókn. Eitt barn var hjá þeim þá, Sigurður 3 ára.
Árið 1860 er kaupmaður í Keflavík sem hét Pétur Duus, 65 ára. Símon átti oft erindi í verslun Duus enda líka byttan þar á stokkum en Símoni þótti sopinn góður. Símon þótti orðheppinn og fljótur til svara og margir brandarar eftir honum hafðir sem flestir eru gleymdir, þó skal rifja upp nokkra: Kóngsgerði var talið til tómthúsa en þó mun hafa verið þar smá túnblettur.

Gufuskálar

Gufuskálar – Vesturkot.

Eitt sumar voru þau hjón að taka saman heytugguna vildi Símon leggja lítið undir sátuna til þess að fá hana sem hæsta. Svo kom að því að Símon náði í stiga og rétti Þórdís honum heytugguna. Þegar allt heyið var svo komið í sátuna fer Símon upp á hana og kallar: „Er logn á jörðu Þórdís mín“. Með þessu vildi Símon láta það út ganga að í Kóngsgerði væru há hey.
Eitt vor var Símon að þurrka vertíðarfiskinn sinn á klöppunum fyrir neðan Kóngsgerði. Staflaði hann fiskinum í stakk rétt fyrir ofan flóðfarið en um nóttina gerði austan strekkings vind með nokkrum sjógangi og fór allur staflinn í sjóinn. Morguninn eftir kemur nágranni Símonar á gluggann til hans og segir að allur fiskurinn sé kominn í sjóinn en Símon rís upp með hægð og segir: „Hann átti með það blessaður sjórinn, hann var úr honum hvort sem var“, og Símon lagði sig til svefns aftur. – Njáll Benediktsson.“

Í Faxa 1991 fjallar Njáll benediktsson um „Mannlíf í Leiru„:

„Nú höldum við í norður og komum í Gufuskálaland, það var kallað Út-Leira.

Gufuskálar

Gufuskálar – Vesturkot.

Við komum í Gufuskála, þar býr Eyjólfur Eyjólfsson húsbóndi 51 árs, Sigrún Halldórsdóttir kona hans 47 ára, Halldóra Eyjólfsdóttir dóttir þeirra 16 ára, Björn Eyjólfsson sonur þeirra 12 ára, Ingibjörg Eyjdlfsddttir dóttir þeirra 5 ára, Sigrún Oddleif Eyjólfsdóttir dóttir þeirra 3 ára, Guðjón Jónsson hjú þeirra 27 ára, Sigurður Guðmundsson hjú 65 ára, Elfn Magnúsdóttir hjú þeirra 55 ára, Eyjólfur Eyjólfsson sonur hjónanna 13 ára. Þá er haldið í norðvestur og komið að Vesturkoti, þar býr Eggert Einarsson húsbóndi og sjómaður 56 ára, Þóra Þorsteinsdóttir kona hans 63 ára, Þorsteinn Eggertsson sonur þeirra 33 ára, Björn Eggertsson sonur þeirra 30 ára, Þorgerður Eggertsdóttir dóttir hjónanna 22 ára, Jón Jónsson leigjandi, sjómaður 64 ára, Eiríkur Þorsteinsson sjómaður 59 ára, Guðmundur Guðmundsson sjómaður 39 ára. Nú höldum við niður að sjó, þar stóð Hausthús, fallegur bær með blóm í haga. Þar býr Jósep Oddsson húsbóndi og sjómaður 46 ára, Gróa Jónsdóttir kona hans 33 ára, Jósepína Jósepsdóttir dóttir hans 11 ára, Jónína Halldóra Jósepsdóttir dóttir þeirra 7 ára, Ólafur Jósepsson sonur þeirra 3 ára, Oddný Jósepsdóttir dóttir þeirra 1 árs. Fyrir vestan Hausthús er Kóngsgerði, þar býr Þórarinn Eyjólfsson húsbóndi 39 ára, Sigríður Arnadóttir kona hans 43 ára, Ingibjörg Þórarinsdóttir dóttir hans 11 ára, Guðrún Þórarinsdóttir dóttir hans 10 ára, Guðbjörn Þórarinsson sonur þeirra 8 ára, Katrín Árnea Þórarinsdóttir dóttir þeirra 6 ára, Eyjólfur Þórarinsson sonur þeirra 4 ára, Helgi Þórarinsson sonur þeirra 1 árs. Þá höfum við gengið Leiruna á enda.“

Í Lesbók Morgunblaðsins, Jólalesbók 1984, segir Guðmundur Á. Finnbogason frá „Leirunni„:

Gufuskálar

Gufuskálar – lindin.

„Landnám Steinunnar gömluLeiran var á landnámsöld einn þeirra staða við sunnanverðan Faxaflóa, sem Ingólfur landnámsmaður Arnarson skenkti Steinunni gömlu frænku sinni. Hún hafði átt Herlaug bróður Skalla-Gríms, sem land nam á Mýrum og hún bjó í Leiru, þar sem hét Hólmur og síðar Stóri-Hólmur eða Stokkhólmur. Síðan fer engum sögum af búskap í Leiru þar til 1703, að manntalið fór fram, en þá voru 4 býli í Leiru og íbúar samtals 51.“

Í ferð FERLIRs um Gufuskála nýlega komu í ljós nánast jarðlægar tóftir, auk tóftir nafngreindra bæja, á a.m.k. tveimur stöðum, en hvorugra er getið í örnefnalýsingum. Annað tóftarsvæðið er skammt ofan varanna og hitt á grónum hól miðja vegu ofarlega. Þar eru augljós merki skála. Skammt vestar er greinilega forn vatnslind, umhlaðin.

Heimildir:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902, Brynjúlfur Jónsson, bls. 35.
-Faxi, 9. tbl. 01.11.1968, Þar fékk margur sigg á lófa, Ólafur B. Björnsson, bls. 166.
-Lesbók Morgunblaðsins, 40. tbl. 12.11.1966, Leiran, G.Br. bls. 14.
-Faxi, 3. tbl. 01.10.1999, Gufuskálar í Leiru, Skúli Magnússon, bls. 63.
-Faxi, 2. tbl. 01.05.1979, Sagnir af Suðurnesjum, Njáll Benediktsson, bls. 22.
-Faxi, 4. tbl. 01.06.1991, Mannlíf í Leiru, Njáll Benediktsson, bls. 128.
-Lesbók Morgunblaðsins, 34. tbl. Jólalesbók 22. 12. 1984, Leiran, Guðmundur A. Finnbogason, bls. 33.

Gufuskálar

Gufuskálar – Kóngsgerði.