Á Selsvöllum – frásagnir
Í Faxa 1960 er „Ferðaþáttur III“ eftir Hilmar Jónsson. Þar fjallar hann um ferð félaga í Ferðafélagi Keflavíkur á Selsvelli og nágrenni:
„Eins og lesendum Faxa er kunnugt, var starfsemi Ferðafélags Keflavíkur fremur lítil í fyrra, aðeins ein ferð var farin á vegum félagsins. Nú hefur brugðið mjög til hins betra um hag félagsins. — Þegar þetta er skrifað hafa 5 ferðir verið farnar, en það er einni ferð fleira en gert var ráð fyrir í áætlun F.K. — Eflaust er þessi ágæti árangur mikið veðrinu að þakka, en framhjá hinu verður ekki gengið, að í ár hafa félaginu bætzt starfskraftar, sem ríða baggamuninn. — Á ég þar við smiðina Magnús og Bjarna Jónssyni, að ógleymdum konum þeirra. En á síðasta aðalfundi var Magnús kosinn varaformaður, en Ásta Arnadóttir, kona Bjarna, gjaldkeri. Þetta fólk hefur myndað kjarnann í flestum ferðum félagsins í sumar. Og í fyrstu ferðinni, sem var gönguferð á Trölladyngju og nærliggjandi staði, var Magnús Jónsson leiðsögumaður. Lagt var af stað í þá ferð kl. 8 að morgni hins 6. júní.
Þátttakendur voru 17. Þykir það mjög gott, jafnvel í höfuðstaðnum, þegar um gönguferð er að ræða. Á Höskuldarvelli vorum við komin um kl. 10, þar var setzt að snæðingi. Þá var hæg gola og leit út fyrir bezta veður. En að hálftíma liðnum var byrjað að rigna og það veðulag hélzt til kvölds. Fyrst var haldið á Selsvelli. — Þrátt fyrir veðrið voru allir í góðu skapi, sérstaklega lá vel á Guðmundi Magnússyni, sem fór með óprenthæfan kveðskap kvenfólkinu til andlegrar uppbyggingar.
Í Árbók F.Í. 1936 skrifar Bjarni Sæmundsson um Suðurnes. Hann segir: „Einn fallegasti staðurinn á suðurkjálkanum, og einn sá, er verðast er að sjá þar, eru Selsvellir, vestan undir algrænni hlíðinni á Selsvallafjalli, sem er miðhlutinn af vestur hálsinum. Þeir byrja, má segja, þegar komið er inn úr þrengslunum og ná „milli hrauns og hlíðar“ 2 1/2 km. inn með hálsinum, rennsléttir og grösugir. Tærir lækir úr hlíðinni renna yfir vellina og hverfa svo í hraunið.“
Fjallasýn er þarna mjög fögur, á aðra hönd er Keilir, en á hina Grænadyngja (393 m.) og Trölladyngja.
Í fjarska eru Fagradalsfjöll, Frá Selsvöllum til Grindavíkur er allgreiðfær leið. Í fyrra gengum við Hafsteinn Magnússon frá Festarfjalli í Grindavík og á Keili. Gallinn var bara sá, að við fórum of nálægt Keflavík og lentum þar af leiðandi utan í aðalfjallgarðinum.
Á Selsvöllum eru nokkrar tættur eftir sel frá Grindavík. Í bókinni Útilegumenn og auðar tóttir er frásaga um þjófa þrjá, sem höfðust við á Selsvöllum við Hverinn eina. Þeir voru hengdir samkvæmt Vallaannál 13. júlí 1703.
Frá Selsvöllum fórum við síðan yfir Selsvallaháls og komum á Vigdísarvelli. Þar eru miklar rústir bæði eftir útihús og mannabústaði. Þaðan er nokkur gangur að Djúpavatni. Með í förinni voru þrír ungir piltar, synir Bjarna og Magnúsar, og Jón Eggertsson. Þegar hér er komið sögu höfðu þeir gengið okkur eldra fólkið af sér. Urðum við að hafa hraðann á til að ná þeim, því að þoka var á og villugjarnt fyrir unga menn og ókunnuga. — Frá Djúpavatni var gengið yfir hálsinn frá Grænudyngju, og það verð ég að segja, að sjaldan hefur maður verið fegnari mat sínum en þegar við komum aftur á Höskuldarvelli. Var nú farið að rigna allmikið og ekki til setunnar boðið. Tóku menn það ráð, að ganga niður á veg, þar eð bíllinn, sem skyldi flytja okkur heim, var ekki væntanlegur fyrr en kl. 6.
Lýkur hér með frásögn af þessari ágætu göngu.“ – Hilmar Jónsson.
Í Faxa 2008 segir Helga Kristinsdóttir frá „Skátaútilegu á verslunarmannahelgi 1943“ upp á Höskuldarvelli og nágrennið skoðað:
„Það var að koma verzlunarmannahelgi og skátafélagið Heiðabúar í Keflavík að fara í útilegu – og nú tók þátt í sinni fyrstu stórútilegu nýlega stofnuð kvennasveit innan félagsins, 3. sveit. Stefnan var tekin á Höskuldarvelli. Bíll var fenginn til að koma hópnum inn í Kúagerði, en ekki man ég, hvernig bíll var notaður að þessu sinni, hvort farið var á tveimur bílum eða farnar tvær ferðir. Oftast var þó farið á vörubílum, og sátu þá allir í hnapp á pallinum og breiddu yfir sig segl til að skýla sér fyrir regni eða ryki, en þá voru vegir malarbornir og holóttir og allt á kafi í ryki, ef þurrkur var.
Þegar komið var í Kúagerði, var eftir 2-3 tíma ganga upp á Höskuldarvelli. Allir urðu að bera farangur sinn, bakpoka, svefnpoka, tjöld, nesti og stundum vatn, en það fór eftir veðurfari. Ekki var talið æskilegt að bera mikið „gos“, því glerið var alltof þungt – þá voru ekki komnar til sögunnar plastflöskur. Oft höfðum við með okkur suðusúkkulaði, sítrónu og rabarbara til að draga úr sárasta þorstanum.
Í þetta skipti var þó hafður svolítið annar háttur á. Á laugardagsmorgninum fóru tveir skátar úr 1. sveit upp á Höskuldarvellit með hesta, klyfjaða tjöldum, mat og matarílátum fyrir þennan 42 manna hóp, sem ætlaði að dvelja á „Völlunum“ yfir helgina, 15 skátastúlkur, 19 skátadrengi og 8 gesti. Það voru félagsforinginn, Helgi S. Jónsson, og deildarforinginn, Gunnar Þ. Þorsteinsson, sem stjórnuðu ferðinni. Er gangan hófst meðfram hraunjaðrinum, fór það eftir veðri og vindum, hvað við vorum lengi á göngu, en að þessu sinni sýndu veðurguðirnir okkur sína beztu hlið. Öðru hverju gengum við yfir hraunfláka og eftir kindagötum. Í hrauninu eru ákaflega fallegir, grónir bollar og gjótur, en alltaf varð maður að gæta sín að detta ekki og meiðast.
Á þessari göngu var stefnt á smá skarð í Trölladyngju. Gerði maður það, var komið svo til beint á tjaldstað. Af og til var tekin smá hvíld, því þetta gat verið þreytandi ganga, ekki sízt þegar bera þurfti mikinn farangur, auk síns hefðbundna búnaðar, svo sem fána, fánastöng, vatn, ef þurrkar höfðu staðið lengi, eldhústjald, prímus og potta, meðal annars til að elda sameiginlegan hafragraut á morgnana og hita kakó á kvöldin. Ekki mátti heldur gleyma eldsneytinu, olíunni á prímusinn, en allt þetta urðu „kokkarnir“, sem skipaðir voru fyrir hverja útilegu, að sjáum.
Þegar komið var á „Vellina“, var mikið áhyggjuefni, hve langt væri nú í vatn, en lækur rennur úr Djúpavatni mislangt eftir völlunum. Fór það eftir veðurfari, hvort hann þornaði upp, en þá þurfti að elta hann langt upp í fjall. Núna reyndist þó allt í lagi, lækurinn rann niður vellina.
Þegar búið var að tjalda og afmarka tjaldbúðir, var liðið að kvöldmat. Þá tóku allir upp nestið sitt og nutu þess að borða. Nestið var oftast grautur, brauð með kæfu eða osti, harðfiskur, soðið kjöt og mjólk. Síðan var farið að huga að varðeldinum, finna stað og eldsneyti.
Aðrir fóru að sækja vatn í kakó og graut, og smávegis fyrir morgunþrifin. Nú var setzt við varðeldinn, sungið, hlegið og sagðar sögur og brandarar, en á eftir var drukkið kakó og borðað kex. Tíminn leið hratt og mál að hvíla sig, því á morgun átti að fara í göngu.
Með sól í hjarta og söng á vörum
við setjumst niður í grænni laut.
Í lágu kjarri við kveikjum eldinn,
kakó hitum og eldum graut.
Morguninn rann upp, bjartur og fagur. Fánahylling, hafragrautur, tjaldskoðun og aðrir fastir liðir. Þá var kominn tími til að leggja af stað í gönguferðir. Þeir, sem fóru í styttri gönguna, gengu á Keili, Trölladyngju og Eldborg, en hún er gamall, rauður eldgígur. Mosinn í gígnum var svo þykkur þá, að maður sökk djúpt niður, líkt og verið væri að vaða snjó. Eldborgin er aðeins um 70 fet á hæð. Á milli hennar og Trölladyngju er mikill jarðhiti, og víða gufar úr jörðinni. Þarna á jarðhitasvæðinu var talsvert um svarta snigla, sem gátu orðið upp í 5-7 sentimetrar á lengd.
Þeir, sem fóru í lengri gönguna, gengu meðfram Oddafelli og stefndu á Selsvelli. Í leiðinni var Hverinn eini skoðaður, en hann hefur átt það til að hverfa og koma síðan aftur upp á allt öðrum stað. Eftir góða göngu komum við svo niður á Selsvelli.
Í bók Árna Óla, Strönd og Vogar, er eftirfarandi lýsing doktors Bjarna Sæmundssonar á Selsvöllum:
„Einn fallegasti staðurinn á Suðurkjálkanum, og einn sá sem verðast er að sjá þar, eru Selsvellir, vestan undir algrænni hlíðinni á Selsvallafjalli, sem er miðhlutinn af Vesturhálsinum. Þeir ná milli hrauns og hlíðar 2 1/2 km, rennisléttir og vel grösugir. Tveir lækir úr hlíðinni renna yfir vellina og hverfa svo í hraunið. Er þarna mjög kvöldfagurt í góðu veðri, iðjagræn hlíðin á aðra hönd, en opið útsýni til Hraunsels, Vatnsfells, Keilis, Driffells o.fl.“
Þorvaldur Thoroddsen var líka hrifinn af Selsvöllum, er hann kom þangað og gisti þar í tjaldi. Hann sagði, að þar væri fríðara land og byggilegra heldur en víða þar, sem mikil byggð er, nógar slægjur á völlunum og ágæt beit í hálsinum. Hann hélt, að þar mundu vel geta staðið 2-3 bæir.
Þegar við vorum búin að hvíla okkur og næra, héldum við áfram. Nú var farið yfir Núpshlíðarhálsinn og á Vigdísarvelli, en þar var áður búið, eða til ársins 1905, en þá hrundu öll hús eða stórskemmdust í jarðskjálfta. Sá, er þá bjó á Vigdísarvöllum og var síðasti bóndinn þar, hét Bjarni Ívarsson. Flutti hann með fólk og búfénað að Narfakoti í Innri-Njarðvík. Rak hann búsmalann þangað yfir hraun og vegleysur.
Næst var stefnan tekin á Djúpavatn. Þar tengum við okkur fótabað, en vorum vöruð við að vaða of langt útí, því vatnið væri bæði kalt og snardýpkaði. Þarna lukum við nestinu okkar enda veitti ekki af að létta byrðarnar, því hópurinn var nú farinn að þreytast.
Nú var stefnan tekin meðfram Trölladyngju. Á leiðinni var Rauðihver skoðaður og síðan gengið niður á Höskuldarvelli, og þar með var hringnum lokað. Það var þreyttur en glaður hópur, sem skilaði sér í tjaldbúðir, eftir vel heppnaða gönguferð, og við tók bráðskemmtilegur varðeldur, sem stóð til miðnættis, enda þótt bálið væri aðeins ímyndað, því eldiviðurinn var uppurinn – en sólin sló rauðgullnum bjarma sínum á skátana og tjöldin.
Enn logar sólin á Súlnatindi,
og senn fer nóttin um dalsins kinn,
og skuggar lengjast og skátinn þreytist,
hann skríður sæll í pokann sinn.
Og skáta dreymir í værðarvoðum
um varðeld, kakó og nýjan dag.
Af háum hrotum þá titra tjöldin
í takti, einmitt, við þetta lag.
Talað hafði verið um það um kvöldið, að yrði gott veður með morgninum, væri upplagt fyrir Selsvallafarana að bregða sér á Keili. Morgunninn rann upp með lognblíðu og glampandi sól, svo veðrið gat ekki verið betra. Ekki fóru nú allir í Keilisgönguna. Sumir voru með harðsperrur eða hælsæri og vildu heldur safna kröftum fyrir heimferðina.
Þeir sem fóru, tóku daginn snemma og lögðu upp eftir fánahyllingu og morgunmat. Tveir úr hópnum höfðu þó yfirgefið tjaldbúðirnar strax eftir fótaferð, af því að þeir þurftu að komast fyrri hluta dags til byggða.
Nú þurfti að klöngrast yfir úfið hraunið. Það var alls ekki greiðfært að Keili. Enda þótt fjallið sé ekki ýkja hátt, eða aðeins 375 m, gat verið nokkurt puð að komast upp, því mikið er um skriður, og maður rennur iðulega hálft skref niður fyrir hvert skref upp.
Er upp á hátindinn var komið, blasti við okkur skrautlegur kexpakki, með erlendri áprentun. Hvernig í ósköpunum hafði þessi kexpakki komizt upp á tind Keilis óskemmdur og óveðraður? Svona gómsætt gráfíkjukex fékkst ekki í búðum á Íslandi á stríðsárunum. Hafði máski stór fugl frá útlöndum borið hann hingað?
En þegar pakkinn var opnaður, var ekkert kex í honum, aðeins lítill miði, sem á var skrifað: Borðuðum úr pakkanum kl. 11 – Gunni Gerðu og Bötti, en það voru þessir tveir, sem höfðu þurft að flýta sér til byggða. Þeir skruppu þá í leiðinni á Keili til að sitja einir að þessu ófáanlega, gómsæta kexi. Piltarnir eru kunnari nútímafólki sem Gunnar Eyjólfsson leikari og prófessor Þorbjörn Karlsson.
En við nutum útsýnisins yfir Reykjanesskagann og skrifuðum í gestabókina, sem þarna er geymd í vörðu, áður en við héldum niður aftur. Við komumst, án áfalla, í tjaldbúðirnar. Þar beið okkar sætsúpa, sem kokkamir geymdu handa okkur. Við vorum hálfhissa á, hvað þeir ætluðu okkur mikið, því komið var langt framyfir matartíma. En – hvaða bragð var þetta annars af súpunni? Olíubragð? Hvað hafði nú skeð? Og skýringin kom. Prímushausinn hafði stíflazt, og þegar þeir fóru að gera við hann, spýtti hann olíu beint í súpupottinn. Þessvegna fengum við nú svona stóran skammt af súpu. En súpunni voru gerð lítil skil, hún fékk bara að renna beint niður í hraunið, sem væntanlega væri talið mengunarslys nú.
Nú var kominn tími til að taka saman dótið og halda heim. Við þrifum eftir okkur og grófum ruslið, en það var siður hjá okkur, skátunum, að ganga vel frá öllu og valda engum spjöllum.
Nú var haldið af stað heim, eftir mjög góða og skemmtilega helgi, en nokkrir urðu þó eftir til að binda upp á hestana. Svo tóku hestasveinarnir við, og eftir 114 tíma vom þeir búnir að ná hópnum. Þegar við komum svo í Kúagerði, beið okkar bíll (eða bílar) til að koma okkur heim, og þangað komum við svo endurnærð eftir ógleymanlega útileguhelgi.“ – Helga Kristinsdóttir .
Heimildir:
-Faxi, 7. tbl. 01.09.1960, Ferðaþáttur III, Hilmar Jónsson, bls. 111-112.
-Faxi. 2. tbl. 01.05.2008, Skátaútilega á verslunarmannahelgi 1943 – Brot úr óbirtri minningabók Helgu Kristinsdóttur, bls. 16-17.