Traðarfjöll – Traðarfjallahraun

Traðarfjöll

Í Náttúrufræðingnum 1983 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur, um „Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga„. Þar skrifar hann m.a. um Traðarfjallahraun sunnan Traðarfjalla:

Samkvœmt annálum urðu eldgos í Trölladyngjum á Reykjanesskaga árin 1151 og 1188. Líkur benda til að 1151 hafi Ögmundarhraun íKrísuvík og Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar runnið er umbrotahrina varð í eldstöðvakerfi Trölladyngju. Hrinunni lauk líklega 1188 með myndun Mávahlíðahrauns. Umbrotahrinan í heild er nefnd Krýsuvíkureldar.

Traðarfjöll

Móhálsadallur. Traðarfjöll efst til vinstri.

„Eftir að þessi grein var búin til prentunar, fannst enn ein eldstöð, sem telja verður óvéfengjanlegt að sé frá sögulegum tíma. Þessi eldstöð er sunnan í Traðarfjöllum, skammt sunnan við Djúpavatn. í riti mínu um jarðfræði Reykjanesskaga (Jón Jónsson 1978, bls. 165-166) er eldstöðvum á þessu svæði nokkuð lýst og hraunið nefnt Traðarhraun, en réttara væri e. t. v. að nefna það Traðarfjallahraun. Þegar vegur var Iagður gegnum Reykjanesfólkvang var hann skorinn inn í gíg sunnan í Traðarfjöllum. Við það kom í ljós allþykkt moldarlag undir gjallinu og reyndist þar auðvelt að grafa fram jarðvegssnið, sem nær frá því og niður á fast berg, sem þarna er móberg.

Traðarfjöll

Traðarfjöll – loftmynd.

Undir gjallinu er fyrst 9 cm þykkt moldarlag en þá kemur ljósleitt (nánast gulleitt) öskulag, sem ekki getur annað verið en landnámslagið margumtalaða. Sýnir þetta að þarna hefur gosið, að líkindum þó nokkru eftir árið 900 þar eð um 9 cm jarðvegur hefur verið kominn ofan á öskulagið áður en gosið varð. Vel gæti þetta hafa verið um sama leyti og Ögmundarhraun rann, þótt ekkert sé um það hægt að fullyrða. Eins og teikningin sýnir er annað ljóst öskulag neðar í sniðinu og ætti það samkvæmt reynslu að vera H3. Ekki hefur enn gefist tími til að rekja útbreiðslu hraunsins frá þessu gosi, enda er það ekki auðvelt.
Hitt er ljóst að með þessu bætist við enn eitt gos, sem örugglega hefur orðið á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Þykir þetta renna enn einni stoð undir það að meiriháttar goshrina hafi þar orðið snemma á landnámsöld.
Ekki var mögulegt að greina neinar gróðurleifar undir gjallinu. Nægilega mikið loft hefur þarna komist að til þess að gras hefur brunnið til ösku en ekki kolast.
Því má bæta hér við að þar eð svona þykkt jarðvegslag er komið ofan á landnámslagið, gæti þetta verið það gos sem Jónas Hallgrímsson talar um og Þorvaldur Thoroddsen (1925) vitnar í. Gæti þetta verið skýringin á því að ártalið 1340 hefur verið tengt Ögmundarhrauni.“

Traðarfjöll
Í Jökli 1991 fjalla Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir um Krýsuvíkurelda. Um er að ræða seinni grein af tveimur um sama efni. Í greininni lýsa þau gossprungunni, sem Krýsuvíkureldarnir eru sprottnir úr:

Traðarfjöll

Traðarfjöll.

„Gossprungan og hraunin sem frá henni hafa runnið em sýnd á 1. mynd. Eins og flestar gossprungur á Suðvesturlandi hefur hún meginstefnu nálægt N45°A. Gjallhröngl syðst í austurhlíð Núpshlíðarháls markar suðvesturenda gígaraðarinnar en norðausturendinn er austanvert í norðausturenda Undirhlíða, á móts við Helgafell ofan Hafnarfjarðar. Vegalengdin milli enda sprungunnar er um 25 km.
Syðst í Núpshlíðarhálsi er austurhlíðin orpin gjalli og hrauni sem sést vel af Ísólfsskálavegi þar sem hann liggur næst hálsinum. Gígaröðin liggur til norðausturs í eða við vesturhlíð Móhálsadals, allt norður undir Vigdísarvelli, fyrst slitrótt en síðan samfellt, og sumstaðar er gígaröðin tvöföld. Um þremur kílómetrum sunnan Vigdísarvalla breytist stefnan skyndilega; gígaröðin sveigir þvert yfir dalinn og fær síðan mun norðlægari stefnu. Áfram liggur hún skástígt norður með vesturhlíð Sveifluháls að Slögu og þaðan slitrótt með Vigdísarhálsi að Traðarfjöllum og hefur þá hliðrast aftur að Núpshlíðarhálsi.

Traðarfjöll

Gígar norðan Traðarfjalla.

Gossprungan liggur um Traðarfjöll vestanverð og í dalverpinu milli þeirra og Núpshlíðarháls. Á móts við Djúpavatn slitnar gossprungan en tekur sig upp aftur skammt norðan við vatnið. Þar em nyrstu gígamir á suðurhluta sprungunnar utan í Núpshlíðarhálsi, beint vestur af Hrútafelli.
Þar sem landið liggur hæst í Móhálsadal slitnar gossprungan en hún tekur sig upp á ný skammt norðan við Vatnsskarð, en þar er landið tekið að lækka verulega. Þaðan liggur gígaröðin, tvöföld á kafla en nokkuð slitrótt, áfram til norðausturs vestan undir móbergshryggnum Undirhlíðum. Skammt norðan Bláfjallavegar sveigir gígaröðin upp í móbergið og norðausturendi hennar, sem Jón Jónsson (1978a) hefur nefnt Gvendarselsgíga, liggur austan undir nyrsta hluta Undirhlíða, skammt sunnan við Kaldársel.“

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-4. tbl. 01.05.1983, Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga – Jón Jónsson, bls. 135-136.
-Jökull, 1. tbl. 01.12.1991, Krýsuvíkureldar II; Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns, Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, bls. 64.

Traðarfjöll

Reykjanesskagi – jarðfræðikort. Traðarfjallahraun er nr. 12.