Refir
„Á Íslandi lifir ein tegund refa villt. Það er tófan eða melrakkinn, sem fengið hefur latneska heitið Alopex lagopus.
Tófan settist að á Íslandi í lok ísaldar, fyrir um það bil 10 þúsund árum, en hingað komst hún á hafís. Útbreiðslusvæði tegundarinnar er allt í kringum Norðurheim-skautið, bæði á meginlöndum og eyjum, en útbreiðslan er takmörkuð við svæði norðan og ofan barrskóga- og birkibeltisins. Af tófunni eru tvö meginlitarafbrigði, hið hvíta og hið mórauða. Auk þess er allmikill breytileiki í lit innan hvors afbrigðis um sig. Dýr af hvíta litarafbrigðinu eru hvít á vetrum en á sumrin eru þau dökkmógrá á baki og niður með síðum en ljósgrá á kvið og innan á útlimum. Mórauðu dýrin eru flest dökkbrún allt árið, þó heldur ljósari á veturna en sumrin. Sum virðast grásilfruð að vetrarlagi sem stafar af því að hluti vindhára eru með ljóst belti neðan við hárbroddinn.
Munurinn á litarafbrigðunum tveimur ræðst af einu geni og dýr af mismunandi litarafbrigðum æxlast innbyrðis án tillits til litar. Hvíti liturinn telst vera víkjandi sem þýðir að genið sem veldur hvítum lit þarf að vera í tvöföldum skammti, þ.e. hafa erfst frá báðum foreldrum, til þess að dýrið verði hvítt. Tófur með tvö gen fyrir mórauðum lit eða með eitt gen fyrir móraðum lit og annað fyrir hvítum eru ávallt af mórauða litarafbrigðinu.
Á Íslandi eru um það bil 2/3 allra refa af mórauða litarafbrigðinu en hlutföllin eru þó misjöfn eftir landshlutum. Á Vestfjörðum og Snæfellsnesi er hlutfallslega minnst um hvít dýr, eða innan við 20%, en sums staðar á miðhálendi Íslands og á Austurlandi er hlutfall hvítra dýra yfir 50%. Á freðmýrum Norður-Ameríku og Síberíu eru hins vegar yfir 99% melrakkanna af hvíta litarafbrigðinu, en víða á eyjum og á vestanverðu Grænlandi er meirihluti dýranna mórauður, eins og á Íslandi.
Ræktaða afbrigðið af tófu, sem oftast er nefnt blárefur, er innflutt og er uppruni þess blandaður. Upphaflega voru ræktaðir blárefir ættaðir frá Alaska en síðar var þeim blandað við refi frá Kanada, Grænlandi, Svalbarða og Síberíu. Þeir eru mun stærri en íslensku melrakkarnir, að jafnaði ljósari á lit og mun frjósamari. Auk þess er feldur þeirra nokkuð ólíkur sem stafar að einhverju leyti af ólíkum uppruna en að hluta af því að dýrin hafa verið ræktuð eftir feldeiginleikum. Þar sem blárefir og villta tófan eru sömu tegundar geta þau átt frjó afkvæmi innbyrðis.
Á Íslandi eru einnig ræktaðir silfurrefir, sem eru litarafbrigði af rauðref (Vulpes vulpes). Náttúruleg útbreiðsla rauðrefs er í Norður-Ameríku, Evrópu, Asíu og Norður-Afríku en auk þess fluttu menn hann til Ástralíu þar sem hann er nú algengur.
Silfurrefir, það er að segja rauðrefir, geta átt afkvæmi með melrökkum en þau eru ófrjó og þess vegna eru þetta aðskildar tegundir. Silfurrefir hafa sloppið út af refabúum hérlendis en aldrei í þeim mæli að þeir hafi náð að tímgast í náttúrunni, ef undanskilið er eitt tilvik þar sem vitað er að silfurrefstæfa æxlaðist með villtum, íslenskum melrakka.“
Þegar aldurinn fer að færast yfir villt dýr taka tennur að slitna og gulna og á það við um íslenska melrakkann sem önnur dýr. Þegar refir nálgast að fylla tug ára hefur tönnum fækkað og sérstaklega er algengt að framtennur vanti. Vígtennur eru orðnar slitnar og algengt er að krónan sé horfin við 10 ára aldur. Illa tenntur refur á sem von er mjög erfitt uppdráttar í lífsbaráttunni, bæði í samkeppni við aðra refi og við veiðar.
Afföll refa breytast lítið með aldri fram að 7 ára aldri en eftir þann aldur fækkar dýrum hlutfallslega hraðar. Refir í íslenskri náttúru sem komnir eru yfir áratuginn eru mjög sjaldgæfir. Gömlu dýrin verða yfirleitt undir í samkeppni við yngri dýr um maka og óðul. Að öllum líkindum er refurinn upp á sitt besta frá tveggja til sjö ára aldurs en síðan fer að halla hratt undan fæti.
Heimild:
-http://www.visindavefur.is/svar.php?id=109
-http://www.visindavefur.is/svar.php?id=1721