Refur

Refsnöfnin eru mörg, s.s. Djanki, Dratthali, Gráfóta, Holtaþór, Lágfóta, Melrakki, Refur, Skaufhali, Skolli, Tófa, Tæfa, Vargur og Vembla. Eftirfarandi frá Theodóri Gunnlaugssyni um “Lifnaðarhætti íslenska fjallarefsins” birtist í Náttúrufræðingnum árið 1945:

ref-1

“Þær sögur, sem hér fara á eftir, eru teknar úr einkalífi refanna sjálfra, þegar ég hefi rakið slóðir þeirra á vetrum og einnig oft séð nákvæmlega athafnir þeirra. Betri heimildir get ég ekki fengið um eðli þeirra og lifnaðarhætti á þessum tíma árs. Síðar mun ég svo reyna að gefa þær skýringar, sem mér finnst sanni næst. Framan af vetri leita refir langt um minna á að grafa upp egg, fyrst og fremst vegna þess, að þá er oftast eitthvað og stundum mikið af dauðum kindum írá því síðla sumars og haustinu, skammt frá byggð og í óbyggðum. Á þann forða ganga refir fyrst, þar til er uppétinn að mestu og eru þá líka venjulega langfeitastir, sérstaklega hvolpar frá vorinu. Þeir eru líka að öðru jöfnu miklu gráðugri og leita því fyrr niður að byggðinni, enda hafa þeir stórum lakari afstöðu við eggjaleitina af þeirri ástæðu, að þar verða þeir eingöngu að treysta sínum næmu þeffærum, en eftir því, sem eggin geymast lengur, mun af þeim leggja sterkari þef og þá jafnframt auðveldara að finna þau. Þetta hef ég margsinnis séð, því að síðla vetrar í frostleysum, sólbráði eða þýðvindi mun vera kjörveður fyrir tófurnar að leita að eggjum, enda ber þá langmest á því, að þær grafi eftir þeim. Önnur ástæða er líka sú, að þá er oft orðið litið um annað ætilegt, sérstaklega í óbyggðum, eða réttara sagt annað, sem fullkomna næringu hefur og því leita refir þá meira eftir þeim. Kemur þá einmitt fram sá mikli aðstöðumunur, sem fullorðinn refur hefur fram yfir hvolpinn á fyrsta ári, að sá fyrrnefndi, sem grafið hefur sjálfur, í öllu falli, eitthvað af eggjunum, veit nákvæmlega, hvar helzt er eftir þeim að leita, því minni refanna bregzt ekki og þá enn síður hin viðkvæmu þeffæri,
ref-2Þegar ég var strákur heyrði ég gamla refaskyttu lýsa því, hvernig tófur næðu rjúpum á veturna. Hún sagði að bezt þætti tófunni að læðast að þeim í renningi. Fyist yrðu þær varar við hvar rjúpan kúrði sig eða lægi í bæli sínu. Þá færu þær veðurmegin að henni og nálguðust hana svo skríðandi og krafsandi, þannig, að golan tæki snjóinn er losnaði og feykti honum beint á rjúpuna og við það ykist renningskófið. Því meira sem tófan nálgaðist rjúpuna, því meiri renningur og því betur kúrði rjúpan sig aftur á móti niður og lokaði augunum. Svo vissi hún ekki fyrri til en tófan væri búin að hremma hana. Í sambandi við fuglaveiðar tófunnar hefir mér þótt eitt sérstaklega merkilegt. — Ég hefi oft séð á slóðum, bæði haust og vetur, hvar tófur hafa náð rjúpum, en aldrei hafa þær etið svo mikið sem hausinn af þeim. I þess stað hafa þær æfinlega borið þær lengri eða skemmri leið og grafið þær á hinum ólíklegustu stöðum. Svo hefi ég nokkrum sinnum rekið mig á, að þær hafa vitjað um rjúpurnar næstu nótt, flutt þær úr stað og grafið þær aftur ósnertar. Hversu lengi þetta getur gengið veit ég ekki. En þetta sýnir ljóst hversu ríkt þeim er í eðli að geyma sér forða þar til sverfur að og svo einnig hitt, að þær gruna vafalaust félaga sína um græsku, því að þar munu þjófarnir ekki sleppa góðum tækifærum frekar en í mannheimi.
Það, sem sagan ennfremur sýnir, eru hin alkunnu brögð ref-3tófunnar að villa á sér heimildir, þ. e. snúa á andstæðing sinn, og mun af því vera komið orðið „bragðarefur”, sem allar refaskyttur hafa átt erfiðast með að sigra í viðureign við tófurnar. Þar sem læðan fór að lokum út úr öllu slóðasparkinu til að grafa rjúpuna og gekk svo nákvæmlega ofan í sporin sín til baka, var aðeins gert í einum tilgangi. Hann var sá, að kæmi þarna önnur tófa og hlypi í slóðina eins og þær gera oft, — sérstaklega á útmánuðum, þá hefði hún hlaupið eftir henni eins og hún lá, þ. e. frá rjúpunni. Það kemur t. d. ekki fyrir að refir, sem hlaupa í nýja læðuslóð og ætla að veita læðunni eftirför, reki slóðina öfugt.
Tófa, sem verður fyrir skoti og særist, en kemst undan, annað hvort úti á víðavangi, og sér þá undir flestum kringumstæðum manninn á eftir sér, eða hún kemur út úr greni sínu að vetrarlagi, með grun um, að eitthvað sé óhreint í nágrenninu og verður þá fyrir kveðju byssunnar, og ef til vill sér manninn einnig, þá mun sú tófa áreiðanlega, ef hún lifir eftir skotsárið, muna slíka kveðju alla æfi og verður því þeim mun erfiðari viðureignar fyrir manninn, þegar hún hittir hann næst. Slíkur ótti mun einnig megna að skapa vaxandi varúð hjá afkvæmi hennar.
rebbi-2Út frá þessu finnst mér viðeigandi að minnast á eina aðferð, sem mjög oft hefir verið notuð til að eyða refum og einnig mjög mikið er um deilt. Er hún sú, að eitra fyrir þá. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þá aðferð hér, því að til þess þyrfti langt mál, ef vel væri. En það þori ég að fullyrða, að með árlegri eitrun fyrir refi um iengri tíma, væri beint stefnt að því, að hreinrækta þá allra slyngustu, og þá jafnframt, hættulegustu einstaklingana í stofninum. Myndu þeir þá áreiðanlega komast fljótt upp á að gjalda manninum rauðan belg fyrir gráan. Reynslan er ólýgnust, og hún hefir þegar víða sýnt, að þar sem rækilegast hefir verið eitrað árlega fyrir refi, þar hafa einnig oftast komið fram hinir skæðustu dýrbítar, sem forðast að leggja sér til munns neitt annað en það, sem þeir eru vissir um að sé ósaknæmt.
Harla léleg fæða er það, sem tófur bera oft heim til yrðlinga sinna, þótt það sé á hinum mesta búsældartíma. Þó fer þetta aðallega eftir því, hve umhverfið, sem þær fara um til fanga, er auðugt eða snautt af dýralífi, og einnig líka, hve slungin veiðidýr þær eru. Það mesta, sem ég hefi séð eina læðu koma með í gininu heim til yrðlinga sinna af ungum, bæði möðkuðum, nýlega dauðum og nýdrepnum, voru: 4 rjúpuungar um viku gamlir, 3 lóuungar á svipuðum aldri, tveir stórir skógarþrastaungar, 2 urtandarungar nokkra daga gamlir, 2 þúfutittlingsungar hálfvaxnir, og einn hrossagauksungi, nýkominn úr eggi, eða alls 14 ungar.
Þessa unga bar læðan alla i kjaftinum, þannig, að uppi í sér hafði hún það, sem þar komst fyrir, og svo beit hún einhvers staðar utan um hina, er út úr henni löfðu. Mig furðaði mest á því, hvernig hún hefði farið að taka þá síðustu. Mun það hafa tekið hana talsverðan tíma, því að þegar hún tók upp ungann mun hún máske hafa misst niður tvo eða þrjá, en ekki þarf að efast um, að hún hefir ekki hætt, fyrr en allir tolldu uppi í henni.

rebbi-1

Margt bendir til þess, að refir grafi niður flest þau egg úr hreiðrum, sem þeir finna á víðavangi, ef þeim er það á annað borð mögulegt fyrir vörn eggjamóðurinnar. Ég hefi nokkrum sinnum séð refi finna hreiður og æfinlega hafa þeir tekið eggin eitt og eitt, borið þau burtu og grafið þau stundum í 50—100 m. fjarlægð frá hreiðrinu. Það hefir viljað til að þeir hafa einnig náð eggjamóðurinni, sérstaklega þó rjúpum.
Allir, sem náin kynni hafa haft af refaveiðum hér á landi, munu sammála um það, að því fleiri brögðum ,sem hann er beittur, því fleiri varnaraðferðir koma brátt í ljós hjá honum. Það, sem fyrst og fremst veldur þessu, er hið ríka eðli hans að beita brögðum sjálfur. Honum verður því fyrst fyrir, er hann lendir í háska af óaðgætni, að athuga það næst mjög nákvæmlega, og er þá oft óskiljanlega þolinmóður til þess eins að vara sig á því í annað sinn jafnframt því, sem hann brýtur heilann um að geta snúið á það.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn 15. árg. 1945, 1. tbl., bls. 38-45.
-Náttúrufræðingurinn 15. árg. 1945, 3. tbl. bls. 136-144.

Yrðlingar

Yrðlingar.