Kotbýlið Hamrahlíð grafið upp

Hamrahlíð

Eftirfarandi umfjöllun um kotbýlið Hamrahlíð undir Úlfarsfelli birtist í fréttatíma Ríkissjónvarpsins að kveldi 26. október 2022 undir fyrirsögninni „Kotbýlið grafið upp – ný byggð við Vesturlandsveg„:

Hamrahlíð

Hamrahlíð – uppgröftur.

„Kotbýli almúgans eru síður viðfangsefni fornleifafræðinga en heldri manna híbýli. Verið er að grafa upp eitt þeirra undir hlíðum Úlfarsfells áður en athafnabyggð verður reist. Þar fæddist konan sem gætti brauðsins dýra hjá Halldóri Laxness.

Nærri sautján hektara atvinnubyggð

Hamrahlíð

Hamrahlíð – ný byggð.

Við hinn fjölfarna Vesturlandsveg milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar hefur kotbýli verið grafið upp í landi Blikastaða þar sem fyrirhugað er að reisa stóra verslunar- og athafnabyggð.

Milli golfvallarins á Korpúlfsstöðum og Úlfarsfells frá Vesturlandsvegi niður að laxveiðiánni Korpu er búið að skipuleggja land á tæpum sautján hekturum á vegum Reita fasteignafélags.

Margt hefur komið í ljós

Hamrahlíð

Hamrahlíð – gulur hringur.

Og eins og lög gera ráð fyrir þarf að skrá fornleifar áður en byggt í samráði við Minjastofnun. Fornleifafræðingar á vegum Antikva eru nú að leggja lokahönd á margra mánaða uppgröft. Þarna var búið frá því upp úr 1850 til 1920.

Hvað holur eru þetta?

Hamrahlíð

Hamrahlíð – hola.

„Hér erum við með eldunarholur og menn hafa verið að elda eitthvað hér eða vinna með mat.

Hamrahlíð

Lilja Björk Pálsdóttir.

Við erum ekki með neinar hlóðir eða neitt uppbyggt eldstæði en við erum hins vegar með þessar holur,“ segir Lilja Björk Pálsdóttir fornleifafræðingur hjá Antikva, „í þessari sem er 35 sentimetrar að dýpt þá erum við með alla vega sex lög af móösku og með brenndum beinum og viðarkolum. Það sést mjög vel á gólfunum að þau ganga upp að þessum holum þ.a. menn hafa staðið hérna mikið fyrir framan þessa holu að bardúsa.“

Og alltaf finnst eitthvað nýtt, þarna kemur í ljós hnífsblað, sem einhvern tíma hefur komið sér vel.

Hamrahlíð

Hamrahlíð – uppgröftur.

Kotbýlið hét Hamrahlíð og var hjáleiga frá Blikastöðum og voru híbýli og útihús sambyggð.

Hamarhlíð

Hermann Jakob Hjartarson.

Hermann Jakob Hjartarson fornleifafræðingur hjá Antikva stjórnar uppgreftrium: „Við höfum fundið ýmsa muni en mest af leirkerjum, diska, bolla en líka glerflöskur, nokkuð mikið af brýnum líka, skeifur þ.a. það hefur greinilega verið með hesta hérna, og ljá líka.“

Flestir bjuggu í kotbýlum og þau þarf að rannsaka frekar

Hamrahlíð

Hamrahlíð – uppgröftur.

Fáar fornleifarannsóknir hafa verið gerðar á kotbýlum. Þær þurfa að vera miklu fleiri, segir Hermann:

„Tvímælalaust finnst mér að, þetta er náttúrulega ennþá stærri partur af sögunni heldur en allt annað sko. Það voru flestir á þessum stað á þessum tíma sko að vera kotbændur.“

Sagan af brauðinu dýra

Hamrahlíð

Guðrún Jónsdóttir.

Í Hamrahlíð bjó Friðrik nokkur sem sektaður var fyrir að stela kræklingabeitu og hýddur fyrir að stela dönskum spesíum. Þar bjó líka Jón hreppstjóri og dannebrogsmaður. Í Hamrahlíð fæddist dóttir hans, Guðrún Jónsdóttir vinnukona. Halldór Laxness gerði henni ógleymanleg skil í Innansveitarkróniku sinni og hún varð aðalpersóna í stuttri sögu hans: Sagan af brauðinu dýra. Samkvæmt henni lenti Guðrún í margra daga villum á Mosfellsheiði þegar hún var að sækja brauð fyrir húsbændur sína. Þótt svöng væri snerti hún ekki á brauðinu. Um ástæðu þess svaraði hún ungum Halldóri Laxness:

Því sem manni er trúað fyrir því er manni trúað fyrir, segir þá konan,“ las Halldór Laxness í Ríkisútvarpinu 1978.“

Guðrún JónsdóttirSigurður Hreiðar gat þess í athugasemdum á fésbókinni að „Gunna „Stóra“ geymdi ekkert svona hverabrauð. Sú sem það gerði hét Björg Jónsdóttir, þá 16 ára vinnukona í Nýjabæ í Krýsuvík, bjó síðar á Aðalgötu í Keflavík og var amma Gunnars Eyjólfssonar leikara.
Halldór vantaði eitthvað mergjað til að skálda inn í Innansveitarkróníkuna og heimfærði þessa dyggð upp á Gunnu stóru – sem ugglaust var líka dyggðugt hjú.  Björg átti síðast athvarf á Æsustöðum í Mosfellsdal, hafi ég lært rétt.“

Halldór hafði þann sið að skrá hjá sér sagnir og athugasemdir er hann varð áskynja á ferðum síðum. Oftlega notaði hann þessi uppköst sín við skáldsöguskrifin, líkt og dæmin sanna, flest tekin úr sögulegu samhengi síns eigin raunveruleika.

Sjá meira HÉR.

Heimild:
-https://www.ruv.is/frett/2022/10/26/kotbyli-grafid-upp-ny-byggd-vid-vesturlandsveg?term=fornleifa&rtype=news&slot=1
-Sigurður Hreiðar á facebook.

Hamrahlíð

Hamrahlíð – uppgröftur.