Tuðra
„Þegar Jón Daníelsson kom að Stóru-Vogum var þar mjög reimt og stóð svo á því að bóndi sá sem þar hafði búið á undan honum hafði einu sinni úthýst manni í misjöfnu veðri, köldum og að líkindum svöngum líka.
Þessi maður ætlaði þá, þegar hann fékk ekki inni í Vogum að fara út í Njarðvíkur yfir Vogastapa og leita þar fyrir sér. En um morguninn eftir fannst hann dauður á Stapa nærri Grímshól; var hann borinn heim að bæ þeim sem honum var úthýst frá kvöldinu áður. Þegar komið var með hann í hlaðið brá bónda svo við að það leið yfir hann; sumir segja að hann hafi orðið á sömu stund bráðkvaddur, en hinir að hann hafi raknað við aftur úr öngvitinu, en aldrei orðið jafngóður og þetta hafi dregið hann til dauða.
Þegar búið var að grafa þann sem úti varð fór þegar að bera á reimleika í Vogum hjá bónda og batnaði ekki hót við það að hann dó. Menn eignuðu það því að sá sem úti hafði orðið vildi hefna sín fyrir það að honum hefði verið vísað á bug úr Vogum og orðið svo úti. þegar Jón kom að Vogum hélzt reimleikinn enn við þó allt fólk væri þaðan farið sem þar hafði verið þegar manninum var úthýst. Varð Sigríði konu Jóns einna mest mein að því og ásótti þetta hana með svefnóværð mikilli því ekki hafði hún fyrri fest blund á kvöldin í rúminu fyrir ofan mann sinn en hún fór að láta illa í svefninum.
Fyrst í stað vakti Jón hana, en jafnskjótt sem hún blundaði aftur kom að henni sama óværðin. Aldrei kom þetta fram við Jón sjálfan, en ekki var lengi áður honum leiddist þessi áleitni. Eitt kvöld þegar Jón heyrir að fer að korra í konu sinni rýkur hann á fætur aftur og fer ofan og tekur sax í hönd sér og segir ef djöfull sá láti sig ekki í náðum og alla sína skuli hann reka í hann sveðjuna og vísar honum til fjandans.
Eftir það hætti reimleikum hjá Jóni. En þegar reimleikinn hvarf frá Vogum fór hann að gjöra vart við sig í Tjarnarkoti í Vogahverfinu og var það þó ekki af því að þar væru heldur neinir niðjar þess er hafði úthýst manninum.
Sótti draugurinn einkum á bóndann þar og það svo að hann varð gjörsamlega óður eina nótt. Var þá sent heim að Vogum eftir Jóni því Vogamenn leituðu jafnan liðs hjá honum í flestu sem þeir við þurftu og kom hann vonum bráðar.
En þegar bóndinn í Tjarnarkoti sá hann var hann svo óður að hann sagðist ekki hræðast neinn nema andskotann hann Jón Daníelsson. Gekk þá Jón að manninum og segist þá munu neyta þess að hann sé hræddur við sig og skipar hinum óhreina anda út úr manninum með mikilli alvörugefni. En svo brá við það að maðurinn fékk þá værð og datt í dá.
En Jón fór þegar út; fylgdi hann hinum óhreina anda burt frá bænum í Tjarnarkoti og þangað sem nú er búð sú í Vogum sem heitir Tuðra. Þar kom hann honum fyrir og bað hann sökkva þar niður til hins neðsta og versta helvítis þaðan sem hann væri kominn og gjöra aldrei framar mein af sér í Vogum. Við þessi ummæli Jóns hvarf reimleikinn þegar svo hvorki bóndanum í Tjarnarkoti né neinum öðrum varð eftir það meint við hann. En þó hefur þótt örla á því oft að ekki væri allt hreint í Tuðru.“
Í dag er óljóst hvar framangreind Tuðra var í Vogum, en orðið hefur jöfnum höndum verið notað um fisktegund, tösku, lélegan sparkbolta eða kvensnift.
Heimild:
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, bls. 378.