„Daglegt brauð, sem drottinn gefur“ – viðtal við Þórarinn Einarsson

Krýsuvíkurkirkja

Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1969 var rætt við Þórarinn Einarsson á Höfða á Vatnsleysuströnd undir fyrirsögninni „Daglegt brauð, sem drottinn gefur„. Í viðtalinu segir Þórarinn m.a. frá Árna Gíslasyni, sýslumanni í Krýsuvík, og Oddi V. Gíslasyni, presti á Stað í Grindavík:

Þórarinn Einarsson„Að þessu sinni tökum við tali gamlan mann suður með sjó. Hann hefur lengst ævi sinnar sótt deildan verð í greipar Ægis, hið daglega brauð, sem drottinn gefur sjómanninum — brauðið, sem við hinir viljum eignast hlutdeild í og Íslendingar fá vart nægju sína af.
En ekki hefur bátur vaggað honum á bárum allar ævistundir, og þess vegna berst talið að mörgu öðru en sjómennsku og fiskidrætti.
Hann kiprar dálítið augun og hleypir í brýnnar, þar sem hann situr andspænis okkur, líkt og hann hefur oft gert, þegar rýnt var í sortann, allkeikur og hressilegur, þó að mörg séu árin, sem hann á að baki sér. Þórarinn heitir hann, Einarsson, og á heima á Höfða á Vatnsleysuströnd.
— Hvar fæddist þú, Þórarinn?
— Ég fæddist í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík árið 1884. Þetta er hálfníræður maður, sem þið eigið tal við. Faðir minn, Einar Einarsson, bjó í Stóra-Nýjabæ, og þá voru í Krýsuvík fjórtán bæir, þar sem nú er enginn. Sá, sem öllu réði þar á bernskuárum mínum — það var Árni sýslumaður Gíslason.
— Var hann búinn að vera þar lengi?

Þórarinn Einarsson

Þórarinn Einarsson og Guðrún Þorvaldsdóttir Höfða ca. 1940.

— Nei, hann kom að austan nokkrum árum áður en ég fæddist. Hann var sýslumaður Skaftfellinga í tæp þrjátíu ár og bjó þá á Kirkjubæjarklaustri. En svo brá hann á nýtt ráð, sextugur maður.
Hann keypti Krýsuvík og Herdísarvík og gerðist sjálfur bóndi í Krýsuvík. Ég man vel eftir Árna. Hann var lítill vexti, rauðbirkinn og með kragaskegg og enskt kaskeiti aftan á hausnum. Það hefur komið í staðinn fyrir sýslumannshúfuna, sem hann lengi var búinn að bera.
— Hann var mikill fjárbóndi, minnir mig, að ég hafi heyrt?
— Það mátti nú segja — hann var um tíma fjárflesti bóndi á öllu landinu. Hann rak tólf hundruð fjár af Klaustrinu, þegar hann fluttist til Krýsuvíkur. En ekki komu nema sex hundruð fullorðnar kindur til skila fyrsta haustið sem hann var í Krýsuvík. Það leitaði austur aftur, féð, vildi komast í átthagana. Ég hef heyrt, að sex kindur kæmust alla leið austur að Klaustri. En leiðin er löng og vatnsföll mörg, og það fórst víst margt eða lenti í villum.

Stóri-Nýibær

Nýibær í Krýsuvík.

— Hvernig líkaði valdsmanninum bóndastaðan?
— Hann var nú ekki neinn venjulegur bóndi. Þeir voru vanir að ráða, sýslumennirnir í þá daga, og Árni var ráðríkur. Hann gat orðið bráðvondur, og þá rauk hann út eða burt frá þeim, sem hann reiddist við. En eftir nokkrar mínútur kom hann aftur, og þá var honum runnin reiðin. Hann var hjúum sínum ákaflega góður húsbóndi og hafði sama fólkið svo árum skipti. Skammaði það aldrei — rauk bara út.
— Lét hann mikið að sér kveða í byggðarlaginu?

Krýsuvík

Í Krýsuvík 1887. Árni Gíslason lengst t.h.

— Hann vildi láta alla í Krýsuvíkurhverfi sitja og standa eins og honum þóknaðist. Hann átti þetta allt — þetta voru eintómar hjáleigur, sem fylgdu heimajörðinni, höfuðbólinu. Körlunum þótti sem þeir hefðu ekki sama frelsi og áður, enda fór fljótt að fækka í sveitinni eftir að hann kom. Faðir minn hafði verið formaður hjá séra Oddi Gíslasyni á Stað í Grindavík áður en Árni kom, en nú varð hann að gerast formaður hjá honum. Hann skyldaði karlana til þess að róa hjá sér. Já — hann átti þetta allt saman.
— Hafði hann mikinn sjávarútveg?
— Mig minnir, að hann gerði út þrjú skip, og þau lét hann ganga frá Herdísarvík. Þá voru gerð út sex skip þaðan, svo að þar var þó dálítil verstöð. Sex skipshafnir — það var ekki svo lítill hópur.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær.

— Reri faðir þinn víða?
— Það var nú einkum í Grindavík. Í nokkur ár var hann hjá séra Kristjáni Eldjárn, afa forsetans okkar — hann var prestur á Stað í sjö eða átta ár. Það var vinsæll maður og skemmtilegur. Hann var ungur og glaðvær, þegar hann var í Grindavík, og ókvæntur — mig minnir, að hann hefði systur sína hjá sér ráðskonu. Frá Stað fór hann svo að Tjörn í Svarfaðardal, og þar ílentist hann. Séra Oddur tók við af honum, og hjá honum var pabbi formaður nokkrar vertíðir eins og ég sagði ykkur áðan.
— Var séra Oddur ekki formaður sjálfur?

Krýsuvík

Krýsuvík 1936 – Ásgeir L. Jónsson.

— Hann reri tvær vertíðir með pabba, en seinna var hann sjálfur formaður. Hann sótti sjóinn, þó að hann væri prestur, eins og margir Grindavíkurprestar hafa gert. Og hann gerði út skip og báta. Frostaveturinn mikla, 1881, gaddagóuna svokallaða, var séra Oddur á bát með pabba. Eitt sinn sem oftar voru þeir á færum á sundinu fyrir utan Grindavík. Fiskurinn var ör, sílfiskur, en frostið hart og nokkur gjóla. Bátinn ísaði, svo að hann var orðinn allsokkinn. Þá vildi pabbi hætta að draga, en séra Oddur var ekki á því. „Daglegt brauð, sem drottinn gefur, Einar minn“, sagði hann. Frá því vildi hann ekki hlaupast fyrr en í fulla hnefana. Þó varð úr, að þeir hættu, og henti þá séra Oddur fiskinum, sem hann var með á önglinum. En ekki mátti tæpara standa, því að báturinn sökk, þegar þeir komu í vörina.
— Og þetta var forvígismaður slysavarna á sjó á Íslandi?

Krýsuvík

Legsteinn Árna Gíslasonar að baki Krýsuvíkurkirkju.

— Já, þetta var forvígismaður slysavarna á sjó á Íslandi. Og forvígismaður um margt. Hann hafði farið til Englands og átt þangað mörg erindi. Hann vildi læra enska tungu og komast í kynni við ensk kristniboðsfélög, og þar kynntist hann líka slysavörnum og lærði að gufubræða lifur. Með því bætti hann lýsisverkunina. Og svo fór hann að vinna að slysavörnum og ferðaðist í því skyni um landið, talaði við sjómenn, gaf út bæklinga um slysavarnir, meira að segja blað, sem hét Sæbjörg. Til þess naut hann styrks frá Alþingi — mig minnir að hann fengi þrjú hundruð krónur á ári. —

Oddur V. Gíslason

Oddur V. Gíslason.

Já, séra Oddi voru hugleiknir sjómennirnir, enda áttu sóknarbörn hans í Grindavík alla afkomu sína undir sjónum og hann sjálfur sjómaður. Og nógu voru sjóslysin mörg og átakanleg til þess, að eitthvað væri reynt að sporna við þeim.
— Bárufleygur — var það ekki eitt af því, sem Oddur vildi láta menn nota?
— Jú, bárufleyginn fékk hann frá Noregi. Það var belgur eða poki með lýsi eða olíu til þess að lægja úfinn sjó. Hann kostaði átta krónur, ef mér bregzt ekki minni.“

Þórarinn Einarsson fæddist 12. apríl 1884 og dó 7. apríl 1980.
Árni Gíslason, sýslumaður, ljóðskáld og skrifari fæddist 14. september 1820 og dó 26. júní 1898.
Árni kvað þetta t.d. einhvern tíma á búskaparárum sínum í Krýsuvík;

Vorið blíða lífgar lýð,
lengist óðum dagur.
Gyllir fríða Geitahlíð
geislinn sólar fagur.

Oddur Vigfús Gíslason, guðfræðingur, sjómaður og baráttumaður fæddist 8. apríl 1836 og dó 10. janúar 1911.

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað, 10. tbl. 16.03.1969, Daglegt brauð, sem drottinn gefur, rætt við Þórarinn Einarsson á Höfða á Vatnsleysuströnd, bls. 228-232.

Krýsuvík

Krýsuvík um 1880.