Á Ísólfsskála
Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1990 fjallar Ólafur E. Einarsson um „Ísólfsskála„:
„Næsti bær við Krýsuvíkurlönd að vestanverðu er ísólfsskáli. Bærinn stendur undir lágu hamrabelti í góðu skjóli fyrir norðanáttinni. Í jarðamatsbók er jörðin talin vera 16 hundruð að dýrleika. Veglengd frá Þórkötlustöðum til ísólfsskála er um það bil 25 km og liggur upp svokallaða Hálsa, kringum Festarfjall og niður að sjó á hægri hönd. Hlunnindi jarðarinnar eru talin vera trjáreki og selalátur undir Festarfjalli. En eins og öllum mun nú ljóst vega slík hlunnindi ekki þungt nú þótt góð þættu fyrr á öldum. Landrými er mikið á Ísólfsskála en ákaflega hrjóstrugt og illt yfirferðar, hraun og sandur. Það má raunar teljast furðulegt að hægt skuli vera að búa þar góðu búi á landbúnaði eingöngu og einhvern veginn fínnst manni margir staðir ákjósanlegri til landbúnaðar. Þarf ekki að líta nema fáeina kílómetra í austurátt til að sannfærast um það.
Í mínu ungdæmi bjuggu á Ísólfsskála hjónin Agnes og Guðmundur Guðmundsson, mikil ágætishjón. Í þá daga var það talin holl og góð skemmtun að fara um helgar þegar vel viðraði í útreiðartúra frá Grindavík til Krýsuvíkur. Var þá stundum komið við í heimleið á Ísólfsskála, þar sem vel var tekið á móti gestum. Á þeim árum stundaði Ísólfsskálabóndinn venjulega sjóróðra á vetrarvertíðum frá Þórkötlustöðum í Grindavík, og þá að venju hjá bróður sínum, Hjálmari á Þórkötlustöðum, miklum og aflasælum dugnaðarformanni. Það var að vísu ekkert óvanalegt í þá daga að bændur stunduðu sjóróðra á vetrarvertíðum til að afla búum sínum fiskmetis, sem allsstaðar var talið sjálfsagt og nauðsynlegt. En það er hollt fyrir nútímamenn að gera sér grein fyrir því hvað forfeður okkar þurftu oft mikið á sig að leggja. Guðmundur þurfti mjög oft að ganga frá Ísólfsskála til skips, vegalengd sem er um 25 kílómetrar, eins og áður er getið. Hvernig skyldi ungum mönnum lítast á að gera slíkt í dag.
Þau Ísólfsskálahjón, Agnes og Guðmundur, bjuggu góðu búi, þótt aðstæður væru oft þröngar frá náttúrunnar hendi. Fjölskyldan var stór, enda börnin mörg. Ég þekkti flest þeirra vel. Sum voru um tíma á heimili foreldra minna og önnur unnu undir minni stjórn í fyrirtæki föður míns. Öll voru þau öndvegismanneskjur, dugandi, heilbrigð og ráðvönd.
Ísólfur sonur þeirra ágætu hjóna er nú eigandi jarðarinnar ásamt konu sinni Herte, sem er af þýskum ættum. Þau búa þar myndarbúi.
Það er með ólíkindum, hversu búskapur á Ísólfsskála hefur dafnað vel á liðnum árum og lýsir það best dugnaði þeirra hjóna Hertu og Ísólfs. Bæði hafa þau starfað við búskapinn svo að segja myrkranna á milli.
Þess má geta, að Ísólfur er afbragðs grenjaskytta.
Það er athyglisvert hversu búskapurinn hefur blessast vel hjá þessu dugnaðarfólki, þrátt fyrir erfiðar aðstæður frá náttúrunnar hendi.“ – Ólafur E. Einarsson
Í Víkurfréttum 1993 segir: „Fjárbúskapur að Ísólfsskála til rannsóknar – Áttu bara hey til hálfs mánaðar„:
„Ákvörðun hvað verður um sauðfjárbúið að Ísólfsskála verður tekin á morgun, 12. mars. Lögregla og forðagæslumaður Grindavíkur könnuðu aðstæður að Ísólfsskála í síðustu viku í framhaldi af bréfi Dýraverndunarfélags Íslands til sýslumannsins í Gullbringusýslu. Þar var krafist að búreksturinn að Ísólfsskála yrði kannaður.
Sigurður Ágústsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á lögreglustöðinni í Grindavík sagði í samtali við Víkurfréttir að forðagæslumaður teldi ekkert vera að búfénaði að Ísólfsskála. Áður hefur komið fram hér í blaðinu getsakir um að ástand fjársins væri ekki gott, en það virðist ekki hafa verið á rökum reist samkvæmt þessu. Hins vegar þarf að laga göt á fjárhúsi og einnig þyrfti að útvega fóður fyrir búfénaðinn, þar sem heybirgðir voru eingöngu til hálfs mánaðar þegar könnun fór fram í síðustu viku.
Á morgun verður það lögreglustjóra að taka ákvörðun um framhald búfjárhalds að Ísólfsskála ef ekki hefur orðið breyting til batnaðar sem aðilar geta sætt sig við. Þess má geta að Ísólfsskáli er eina búið á Suðurnesjum, þar sem ábúandinn hefur einu framfærslu sína af fjárbúskap. Þess má einnig geta að bóndinn, sem hefur legið á sjúkrahúsi, hefur gert ráðstafanir til úrbóta.“
Auglýsing í Morgunblaðinu 01.03.1996 segir að jörðin Ísólfsskáli sé til sölu.
Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 13. tbl. 31.03.1990, Á Ísólfsskála – Ólafur E. Einarsson, bls. 6.
-Víkurfréttir. 10. tbl. 11.03.1993, Fjárbúskapur að Ísólfsskála til rannsóknar – Áttu bara hey til hálfs mánaðar, bls. 9.
-Ísólfsskáli til sölu – Morgunblaðið 01.03.1996, bls. 21 D.