Árni Óla

Árni Óla fæddist 2. des. 1888 að Víkingavatni í Kelduhverfi. Hann hóf störf við stofnun Morgunblaðsins 1913 og starfaði þar meira og minna til dánardags, 1979. Auk blaðamannstarfans skrifaði hann fjölmargar bækur um efni nátengdu landi hans og þjóð. Tilvitnanir í þær má sjá víða hér á FERLIRsvefnum. Í Alþýðublaðið 1966 skrifar Hannes á horninu eftirfarandi um Árna Óla:
Árni Óla“ÉG VERÐ að láta í ljós ánægju mína yfir því að borgarstjórn hefur gert samþykkt um að heiðra Árna Óla rithöfund fyrir skrif hans um Reykjavík, sögu hennar og borgara hennar á liðnum öldum og þó sérstaklega fyrir það, sem hann hefur skrifað um höfuðstaðinn á þeim tímamótum, er hann var að rísa úr litlu fiski og erlendra kaupmannaþorpi í borg. Þarna hefur Árni Óla unnið geysimikið og áhrifaríkt starf, sem ég efast um að hefði verið unnið ef hans hefði ekki notið við.
ÁRNI ÓLA hefur skrifað margar bækur um þetta efni. Þær eru að meirihluta ritgerðir, sem hann hefur samið á mörgum árum og birt í tímariti er hann stjórnaði og skrifaði að mestu leyti sjálfur. En það rýrir ekki gildi bókanna því að mikil nauðsyn var á að greinarnar kæmu saman í eina heild í stað þess að geymast í tímariti á víð og dreif, sem erfitt var að ná.
ENGUM BAR eins skylda til að þakka þetta starf með opinberri viðurkenningu og borgarstjórn, enda hefur hún gert það á myndarlegan hátt og ekki of seint, því að enn er Árni sískrifandi og maður finnur ekki ellimörk á skrifum hans. Það er auðfundið á öllu að enn gengur hann að starfi af fullum hug og ann verkefnunum eins og hann hefur alltaf gert. En fyrir ritstörf sín hefur Árni ekki notið þeirrar viðurkenningar, er hann hefur átt skilið — nema hjá almenningi.
ÞEGAR BÓK ÁRNA ÓLA um Þykkvabæ kom út, fyrir nokkrum árum skrifaði ég um þá bók og bar lof á hana, enda fannst mér hún frábærlega vel gerð. Það var ekki aðeins, að maður hefði þetta litla þorp milli vatnanna fyrir augun um heldur og lífsstríð þeirra kynslóða, sem þar höfðu háð sína baráttu við ágang vatnanna frá annarri hlið og sjávarins frá hinni. Þá var ég og að hugsa um það, að hann vantaði þá viðurkenningu sem þessi rithöfundur ætti skilið frá íbúum Reykjavíkur fyrir skrif hans um höfuðstaðinn.

Árni Óla

NÚ ER HÚN komin og myndarleg [bókin Erill og Ferill]. Hún var sjálfsögð. Enginn, hefur skrifað eins vel og eins mikið um sögu höfuðstaðarins. Nú vantar eina enn, en hún er sú, að Ísafold eða eitthvert annað stórt útgáfufyrirtæki gæfi út bækur Árna í einu lagi og þarf að fara að undirbúa þá útgáfu. Árni ætti sjálfur að undirbúa hana en nú er hann farinn að eldast og þetta má ekki geymast lengi úr þessu.
ÞAÐ Á AÐ vera starf rithöfunda að tengja saman kynslóðirnar. Sumir þeirra gera það, en fáir eins vel og skilmerkilega og Árni Óla. Þannig hefur hann tengt saman kynslóðirnar. Það er hverjum borgara lífsnauðsynlegt að þekkja sögu sína og byggðar sinnar. Þegar hann gengur um byggð sína eftir könnun hennar á bókum, verður honum gönguförin ánægjulegri. Þá hefur hann fyrir augunum þann árangur, sem náðst hefur. Og af sögunni lærir maður hvernig skuli snúast við viðfangsefnum.”
Í Morgunblaðinu 1979 var eftirfarandi m.a. skrifað til minningar um Árna látinn: “Árni Óla sagði, að blaðamennska væri þjónusta við land og þjóð; hún væri veglegt og ábyrgðarmikið starf. Blöðin eiga að vera andlegir leiðtogar, en ekki trúðar, eins og svo oft vill brenna við – ekkis sízt nú um stundir. Þau séu nokkurs konar háskóli daglegs lífs”, eins og hann komst að orði. “Þau eiga að vera brimbrjótur gegn aðvífandi öldu lausungar og ómenningar, sem allstaðar leitar á. En jafnframt eiga þau að vera verndarar eigin þjóðmenningar og fella við hana það bezta, sem hægt er að fá frá öðrum þjóðum.”

Heimildir:
-Alþýðublaðið 11.01.1966, bls. 4 og 15.
-Morgunblaðið 12.06.1979, bls. 14.