Ártúnsrétt
Í Fornleifaskráningu jarðarinnar Ártúns á Kjalarnesi, sem unnin var af Minjasafni Reykjavíkur árið 2010, má lesa eftirfarandi um Ártúnsrétt. Réttin, sem er orðin nokkur gróin, sést enn nokkuð vel ofan Ártúnsár (en svo nefnist Blikadalsáin neðan Mannskaðafoss) að norðanverðu.
„Tóftir Ártúnsréttar eru 210 m norðaustur af bæjarhól Ártúns. Neðanvið tóftirnar eru einnig stríðsminjar, leifar stöðvar fyrir loftvarnarbyssu.
Rústirnar eru grasivaxnar. Stórt hólf, 12×12 m, sem opnast í suður með grjóthlöðnum veggjum, hæst 1,5 m. Austan við hólfið eru tvö minni, það efra er 7×7 m með grjóthlöðnum veggjum, hæst 1 m, ekkert sjáanlegt op. Hitt hólfið er 7×3 m, hæst 1 m, og opnast í vestur. Á milli þeirra gæti hafa verið eitt rými. Fyrir neðan og austan eru tveir grjóthringir en þeim hefur verið raðað saman með einfaldri steinaröð. Kristrún Ósk Kalmansdóttir man vel eftir lítilli rétt með þremur hólfum og almenningi fyrir kannski þrjátíu kindur en réttin var ekki notuð í hennar tíð. Minnst er á Ártúnsrétt árið 1842 í þinglesinni tilkynningu frá Runólfi Þórðarsyni í Saurbæ sem varðaði upprekstur búfjár á Bleikdal/Blikdal. Hlutverk hennar hefur án efa breyst í gegnum tíðina.
Rústirnar gætu hafa raskast eitthvað þegar herinn gerði stæði fyrir loftvarnarbyssur við réttina á heimsstyrjaldarárunum síðari.“
Heimkild:
-Fornleifaskráning jarðarinnar Ártúns á Kjalarnesi, Minjasafn Reykjavíkur 2010.