Áttunda eldgosið ofan Grindavíkur – 1. apríl 2025

Grindavík

Áttunda eldgosið við Sundhnúksgígaröðina ofan Grindavíkur hófst 1. apríl 2025 kl. 09:43 að undangenginni jarðskjálftahrinu. Áður höfðu þrjú gos brotist út í eldstöðvakerfinu sem kennt er við Fagradalsfjall. Ritstjóri FERLIRs hafði reyndar, fyrir tveimur mánuðum, spáð málamyndareldgosi nefndan þriðjudag og þar með skammvinnum goslokum í framhaldinu.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Gos hófst að þessu sinni af annars litlum krafti á sprungurein við Sundhnúk að austanverðu sunnan Hagafells í norðri og inn á Stamphólshraun í suðvestri þar sem eitthvert hraunflæði náði á kafla inn undir varnargarðinn skammt ofan við bæinn. Stamhólsgjáin liggur jú þarna, ásamt þremur öðrum samliggjandi, niður undir austanvert Járngerðarstaðarhverfi…

Fyrstu fréttir af hraunrennslinu bendir til þess að hraunstraumurinn renni í vestur og liggi sunnanvert austan við Sundhnúk, sem fyrr sagði. Tiltölulega lítill hraunstraumur sést í átt að Grindavík og hefur hann leitað lengra til suðvesturs en áður hefur verið – í átt að hraunspýju, sem kom upp í sjötta eldgosinu þegar tvö hús efst í Hópshverfinu urðu hrauni að bráð.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Gosmökkurinn er lítill, auk þess sem gosmagnið virðist minna en í öðrum undanfarið. Væntanlega mun því draga úr gosinu fljótlega.

Þetta er ellefta hrinan í röð eldgosa á sama sveimi síðan 2021, þ.e. auk þeirra þriggja fyrstu er áttu uppruna sinn í Fagradalsfjalli skammt norðaustar – hæfilega fjarri byggð. Líklega er samt sem áður um eitt og sama gosið að ræða – með hléum?

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Fyrsta eldgosalotan ofan Grindavíkur var 18. desember 2023, önnur 14. janúar 2024, þriðja 8. febrúar 2024, fjórða 16. mars 2024, fimmta 29. maí, sjötta 22. ágúst, áttunda 20. nóv. og loks þetta níunda 1. apríl 2025 sem fyrr sagði. Fyrstu goshrinurnar þrjár voru skammvinnar, vöruðu einungis í rúman sólarhring, sú fjórða varði í u.þ.b. tvo mánuði – lauk þann 9. maí sama ár, eftir 54 daga dugnað og sú fimmta tuttugu dögum síðar, eða þann 29. maí. Stærsta goshrinan að magni til varð hins vegar 22. ágúst.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Líklegt er að þessi hrina verði skammlífari, í tíma talið, og þau fyrri. Eitt er þó víst – von er á nýju áhugaverðu landslagi ofan Grindavíkur með nýjum ófyrirséðum framtíðarmöguleikum. Kvikuvirknin virðist skv. mælingum hafa teigt sig lengra til norðurs og er nú mest ofan Voga, sem kemur reyndar ekki á óvart að teknu tilliti til landshátta; gífurlegs landsigs millum Þráinsskjaldardyngjunnar og Hrafnagjár.

Gosið er nokkurn veginn á sömu slóðum og fyrri gos á þekktri sprungurein er liggur áleiðis að Kálffelli. Það ætti að þykja heppileg staðsetning m.t.t. byggðarinnar í Grindavík og að merkilegri megininnviðum standi tiltölulega lítil ógn af gosinu, utan hættu á niðurgrafinni vatnsæð Njarðvíkurlínu, háspennulínum og bílastæðum Bláa lónsins, sem eru utan varnargarða.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Eldgosið að þessu sinni, líkt og hin fyrri, undirstrikar hversu litla þekkingu jarðfræðingar og jarðeðlisfræðingar virðast hafa á náttúrufyrirbærum sem þessum. T. d. virðast Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði og bergfræði, við Háskóla Íslands, og Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðingur og prófessor í jarðeðlisfræði í Háskóla Íslands, jafn forgengilegir og áður þegar á aðdragandann reynir.
Náttúruöflin eru jú ólíkindatól. Þótt þetta eldgos hafi virst óálitlegt tilsýndar, líkt og hin fyrri, við fyrsti sýn, getur það boðið upp á nýja og spennandi tækifæri.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Spurningin er bara, fyrir okkur hin, að reyna að hugsa til lengri framtíðar og nýta það sem í boði verður. Við stjórnum ekki jarðaröflunum, en við getum nýtt okkur þau þegar svo ber undir, líkt og mannkynið hefur gert í árþúsundir.

Jörðin, og þar með umhverfið, hefur verið að breytast allt frá því að hún varð til. Slíkar breytingar, smærri sem stærri, munu eiga sér stað á meðan Jörðin lifir, en reynslan hefur sýnt að þær munu eftir sem áður koma okkur, núlifandi, alltaf jafn mikið á óvart.

Grindavík

Grindavík – jarðeldarnir 1. apríl 2025.

Sem betur fer verða jarðeldarnir ofan Grindavíkur að teljast léttvægir að teknu tilliti til atburða sögunnar.

Eld­gosinu lauk um kl. 16.45 sama dag. Gosið stóð þar með aðeins yfir í um sex klukku­tíma og rek­ur því lest­ina hvað varðar lengd ein­stakra elds­um­brota í þeirri gos­hrinu sem hófst í mars fyr­ir fjór­um árum, þrátt fyrir glaðklakkanlegar lýsingar „hinna mætustu“ vísindamanna.

Hermann Ólafsson

Hermann Ólafsson – Hemmi í Stakkavík.

Og svo virðist sem einhverjir óveraldavanir björgunarsveitarliðar sem og sérsveitarmenn hafi farið á taugum af litlu tilefni í aðdraganda gossins þegar nýlega sjötug refaskytta lyfti góðlátlega haglabyssu upp úr annars veraldlegum vönum farangri sínum. Hafa ber í huga að á þessum árstíma snýst, líkt og fyrrum, hugur Hemma fyrst og fremst um að tryggja æðarvarpið á Stað fyrir ásókn árviss Vargsins. Þetta vita innfæddir, en „vígasveitir“ Ríkislögreglustjóra bera hins vegar ekkert skynbragð á rauntilvist tilverunnar. Þeirra skammsýni snýst einungis um byssur og meinta „bófa“ í afar þröngum skilningi fjölbreytileikans.

Þórkötlustaðarétt

Hermann í Stakkavík, bóndi á Stað, og Birgir á Hópi í Þórkötlustaðarrétt.

Umrædd refaskytta, Hermann Ólafsson, eða „Hemmi í Stakkavík“, er innfæddur Grindvíkur, sonur Ólafs Gamalíassonar á Stað. Hermann hefur verið ein helsta burðarásin í atvinnuuppbyggingu Grindavíkur um áratuga skeið, og hvers manns huglúfi. Hann hefur jafnhliða stuðlað, a.m.k. hingað til, að uppbyggingu og viðhaldi björgunarsveitar bæjarins. Ólíklegt er að framhald verði á því í kjölfar framangreinds. Ef lögreglan á Suðurnesjum (Grindavík tilheyrir reyndar ekki Suðurnesjum) á eitthvað sökótt við nefndan Hermann væri það helst vegna áratuga gamals óupplýsts „sakamáls“, „Stóra Kjöthvarfisins“ í bænum, sem nú er reyndar löngu fyrrt…

Sjá MYNDIR úr eldgosunum átta við Sundhnúk sem og hrinunum í Geldingadölum og Meradölum.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.