Básendaför – sr. Gísli Brynjólfsson

Básendar

Í Lesbók Morgunblaðsins árið a978 má lesa eftirfarandi um „Básendaför“ eftir sr. Gísli Brynjólfsson:
„Rosmhvalneshreppur (rosmhvalur=rostungur) náði yfir Keflavík, Leiru, Garð og Miðnes. Miðnesið er geysilangt — ekki veit ég hvað margir km. Það byrjar með bæjunum Kolbeinsstöðum og Hafurbjarnarstöðum fyrir sunnan Skaga og nær alla leið suður að Ósabotnum, sem skilur Nesið frá Höfnunum. Í gamla daga var byggðin dreifð um alla þessa löngu strandlengju, að vísu nokkuð svo í hverfum. Sá stórfróði Suðurnesjamaður, Magnús Þórarinsson (f. 1879 d. 1964) sem var alveg einstæður sérfræðingur í Miðnesinu bæði til lands og sjávar, telur upp a.m.k. 9 útróðrastaði (varir) á Nesinu. — Langbestur þeirra var Sandgerði enda fór það svo, að Sandgerði dró til sín s.a.s. alla miðnesinga. Og raunar langtum fleira fólk, því að nú er þar saman komið hátt í 1000 manns, blómleg byggð fallegra einbýlishúsa, sem fjölgar óðfluga, en hin gamla dreifða byggð um Miðnesið endilangt er nú ekki nema svipur hjá sjón. En sú var ekki meiningin, að fara að fjölyrða um vaxtarbrodd útgerðarstaðanna á Suðurnesjum. Hér er ekki nútíðin — því síður framtíðin — á dagskrá. Fjarri fer því.
Basendar 1978Hér skal litið um öxl — a.m.k. tvær aldir aftur í tímann — og litast um á þeim slóðum þar sem allt fór í auðn árið fyrir aldamótin 1800. Og hefur ekki verið byggð síðan. Þetta eru Básendar fyrir eina tíð syðsta byggðin á Miðnesi en tók af í flóðinu mikla, sem við plássið er kennt — Básendaflóðið — aðfaranótt 9. janúar 1799. —
Ekki eru Básendar kunnir fyrir útræði heldur sem pláss þar sem „útnesjafólkið fátækt og spakt“ varð að leggja inn fiskinn sinn hversu léttur, sem hann reyndist, því að reizlan var bogið og lóðið var lakt eins og Grímur kvað í sínu kunna kvæði.
Bærinn Básendar var byggður í Stafneslandi upþhaflega hvenær skal ekki sagt. Þar var ekki mikið um fiskirí enda var Stafnes sjálft frá fornri tíð eitthvert besta útver og þaðan skemmst í fiskileit á öllu Miðnesi. Frá Stafnesi gengu líka konungsbátarnir. Hefur það eflaust verið nokkur hagur fyrir verzlunina að vera í næsta nágrenni við útgerð þeirra. Bæði enskir og þýskir hafa verzlað á Básendum fyrr á öldum. Gekk á ýmsu í viðskiptum þeirra þar eins og víðar við Faxaflóa og á Suðurnesjum. Eitt sinn (árið 1645) kom hollenskt skip á Básenda. Á því var íslenskur maður, Einar Þórðarson, — og verzlaði þar.
basendar brunnur 221Árið 1640 var tekin upp sigling til Básenda eftir nokkurt hlé. Hélst svo, þar til verslun lagðist þar alveg niður. Verslunarsvæðið var Hafnir og Miðnes. Þó voru merkin ekki gleggri en svo, að mikil deila og málaferli urðu milli Básenda og Keflavíkurkaupmanns um nyrstu bæina á Miðnesi (Kirkjuból, Kolbeinsstaði og Hafurbjarnarstaði). Höfðu bæir þessi sótt verslun ýmist til Keflavíkur eða Básenda. Gekk dómur í málinu 1693 á þá leið, að svo skyldi standa, sem verið hefði að undanförnu. — Voru menn því litlu nær. Þetta kom þó kki að sök þegar sami kaupmaðurinn verzlaði á báðum stöðunum. Þá ber þess að geta, að Grindavík var a.m.k. annað veifið einskonar útibú frá Básendum. Fengu Grindvíkingar styrk til að flytja afurðir sínar til Básenda og úttektina heim. Samt var Básendaverzlunarsvæði fámennt og innleggið misjafnt. Það fór vitanlega eftir því, hvernig fiskaðist. Básendar voru dæmigerð fiskihöfn mótsett sláturhöfn, þar sem sveitabændur voru aðalviðskiptamennirnir.
Básendar voru því fámennur staður. Þar var lítið um að vera nema í kauptíðinni, sem stóð misjafnlega lengi fram eftir sumri eftir því hvenær kaupmanni þóknaðist að læsa búðinni og hætta að höndla, ef enginn var eftirliggjarinn.
basendar 229Næst síðasti kaupmaðurinn á Básendum hét Dines Jesþersen. Þegar hann hætti, lokaði hann búðinni 16. ágúst 1787. Mundi þá engin vara fást þar fyrr en næsta vor. Bændur í Rosmhvalaneshreppi með hreppstjóra og prest í fararbroddi kærðu þetta til Skula fógeta, töldu að með þessu væri mestum hluta sveitarinnar stefnt í opinn dauðann, skepnur voru fáar sökum grasleysis s.l. sumar, afli svo rýr s.l. vertíð, að „kauðstaðarvaran hrökk ekki fyrir vorum þungbæru skuldum“. En nógar matvörur lágu lokaðar inni í kaupstaðnum engum til nota nema mús og maur. En fólkið má deyja úr hor og hungri, kónginum og föðurlandinu til skaða.
Engum trúði þetta fólk betur til að rétta sinn hag heldur en honum, sem yfir rummungum reiddi hátt, réttar laganna sverð. Skúli brást heldur ekki trausti þeirra. Hann rak nauðsyn hinna bágt stöddu Suðurnesjamanna við Levetzone stiftamtmann, sem úrskurðaði, að eftir nýjárið mætti sýslumaður opna Básendabúð og láta fólkið fá nauðsynjar sínar, vitanlega eftir ströngustu útlánsreglum.
Þrír menn hafa lýst ummerkjum á Básendum síðan þar varð auðn.
Um það bil hálfri öld eftir Básendaflóð var Magnús Grímsson, síðan prestur á Mosfelli, f. 1825 d. 1860, á ferð um Reykjanes til að athuga fornminjar.
basendar-230Um Básenda segir sr. Magnús, að á nesinu milli voganna sjáist greinilega rústir af Básendabænum. Það hefur verið lítill bær með vör niður undan út í norður-voginn. Litlu ofar eru rústir af búðinni og vöruhúsinu, 11 faðmar á lengd og 7 á breidd. Vestan þess var stór og mikill sjóvarnargarður. Ofan við vöruhúsið var kaupmannsúsiö. Utan um það hefur verið 200 ferfaðma garður. „Allar þessar rústir sýnast hafa verið vandaðar og sterklega gjörðar,… undirstöður hrundar, mjög skörðóttar.“
Inn í höfnina var vandratað, en legan góð. Kaupskipin munu hafa legið í syðri voginum bundin 4 eða 5 festum, „það kölluðu þeir svínbundið“. Tvo af festarboltunum sá sr. Magnús, ferkantaða járnstólpa með gati og digrum járnhring ryðbrunna mjög. Alls munu festarboltarnir hafa verið níu, 5 í fjörunni, 4 á útskerjum. Brunnur hafði verið á Básendum — djúpur og góður. Á botni hans var eikarkross og svo hver tunnan upp af annarri, svo að eigi félli saman. Nú fullur af sandi. —
Af örnefnum telur sr. Magnús þessi: Brennitorfa þar sem kaupmenn höfðu brennt út gamla árið. Nokkru sunnar er Draughóll þar sem sjómenn höfðu rótað í dys fornri án þess að finna nokkuð fémætt. Í suður frá Draughól eru klettar tveir allháir með nokkurra faðma millibili — Gálgaklettar. Áttu Básendamenn að hafa lagt tré milli klettanna og hengt þar menn þegar þá greindi mjög á við einhverja. Lýsing V.G.
basendar-231Næsta lýsing á Básendum er frá 1919. Þá var þar á ferð Vigfús fræðimaður Guðmundsson, og skrifaði síðan um Básenda og Básendaflóð í 3.h. Blöndu. Er oft og víða til hennar vitnað enda V.G. viðurkenndur nákvæmur og natinn fræðimaður. V.G. segir, að enn sjáist miklar leifar mannvirkja á Básendum: Fimm sambyggðar kofatætlur þar sem bærinn stóð grunnur vöruhússins, 20 m á lengd og 12—15 m á breidd og tveir húsgrunnar aðrir, en hæst og norðaustur á hraunrimanum telur V.G. að útihúsin hafi staðið. Þá getur hann um brunninn, fullan af sandi, kálgarð 400 m2 og lítil, kringlótt fiskbirgi, þar sem fiskurinn var verkaður í skreið. — Á þangi vaxinni klöpp, 42 m frá húsgrunninum stóra, stendur gildur járnfleinn, 30 cm hár. Hann er steyptur í klöppina með bræddu blýi. Í gati á teininum er brot af hring. Í hann voru skipin á legunni bundin. Síðan rekur V.G. verzlunarsógu Básenda, segir frá flóðinu og síðasta kaupmanninum. Lýsing M.Þ.
Sá þriðji, sem ritað hefur um Básenda, er Magnús Þórarinsson fyrrnefndur. Hans skrif er að finna í Safnritinu: Frá Suðurnesjum — „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi.“ — Magnús stráir um sig í örnefnum í krafti kunnleika síns og stálminnis. — Hann nefnir Stóra og Litla-Básendahól. Þarna er Gunnusandur, framan við hann Róklappir, Rósandur, Rósker, — fyrir utan það er skerjagarðurinn: Básendasker. Innan þeirra er ílangt lón — höfnin — með bindibolta á skerjum og klöppum í kring. Suðurtakmörk hafnarinnar eru við Arnbjarnarhólma. Þá nefnir Magnús Kuðungavík og Djúpuvík með Svartakletti. Ofan við hana eru Dauðsmannsklappir en sunnan hennar Skarfurð og Skarfurðartangi. Fram af henni er flúð, sem sjaldan kemur upp úr sjó. Hún heitir Vefja. Þar suður af er Stólsvík. í henni er klettur, nokkuð frá landi, oft alsetinn skörfum og ber nafnið Tómasarstóll. Tilefni þess er ókunnugt.
basendar-234Þá skal láta lokið þessari þurru nafnarunu. Það getur verið næsta girnilegt til fróðleiks að reika um þessa auðu strönd og skoða myndir náttúrunnar eftir nafnaskrá hinna fróðu manna. — Hitt er allt annað en auðvelt, að setja sér fyrir sjónir mannlífið á Básendum meðan þar var annar aðal verzlunarstaður Suðurnesja. í kauptíð var þarna vitanlega mikið fjör og líf, ys og umferð, innlegg og úttekt. Og brennivínsstaup fyrir innan disk.
Utan kauptíðar var hér oftast aðeins fámennt heimili. Hér var hvorki búskapur né útræði í stórum stíl. Árið 1703 bjó á Básendabæ Árni Þorgilsson 47 ára með konu sinni Jódísi Magnúsd. 12 árum eldri, og dóttur þeirra Steinunni 17 ára. Þau höfðu vinnumann og vinnukonu. Hjá þeim er Árni Jónsson (60 ára) stjúpfaðir Jódísar, veikburða. Loks er Rasmus, eftirliggjari á Básendum. Þ.e. vetursetumaður til eftirlits fyrir kaupmanninn.
Næstu áratugi fara ekki sögur af fólkinu á Básendum. Síðan er það að þakka sr. Sigurði Sívertsen á Útskálum, að við vitum hverjir bjuggu þar á síðari hluta 18. aldar. Hann ritaði sálnaregistur Hvalsnesþings 1758—1790 upp úr rotnum, sundurlausum blöðum. Það manntal sýnir, að á Básendum fjölgaði mikið um 1780. Þá eru þar til heimilis hátt í 20 manns: Kaupmaðurinn, Dines Jespersen, 40 ára, kona hans, 2 börn og tökubarn, pige (stofustúlka), beikir og kona hans, 2 drengir (námspiltar við verzlunarstörf) ráðsmaður, vinnumaður og vinnukona. Auk þess er þar Ingjaldur Pétursson tómthúsmaður með fólki sínu.
Hér verður ekki sagt frá Básendaflóðinu fræga, enda eru myrkar hamfarir náttúrunnar víðs fjarri blíðu þessa bjarta dags. En benda má þeim, sem um það vilja fræðast á frásögn Hansens kaupmanns, og birt er í fyrrnefndri grein V.G. í Blöndu. — Það er allt að því átakanlegt, að lesa um það, hvernig flóðaldan hrífur kaupmanninn, þennan „almáttuga“ mann og allt hans fólk, hrekur þau stað úr stað uns þau bjargast upp á baðstofupallinn í Loddu (Lúðvíksstofu), nær „örmagna af kulda, áreynslu og hugsýki“ og var tekið þar af mestu alúð og hjartagæzku. Þannig kastaði Básendaflóðið síðustu kaupmannsfjölskyldunni á Básendum í fang eins fátæks hjáleigubónda, sem barg henni frá bráðum bana.
Þessi síðasti Básendakaupmaður — Hinrik Hansen — hefur ekki fengið neitt slæman vitnisburð í verzlunarsögunni. Það er því ekki hans sök, að yfir Básendum hvílir dökkur skuggi áþjánar og einokunar, ekki síður en öðrum selstöðuverzlunum. Þar hafa skáldin haft sitt til málanna að leggja. Ólína Andrésdóttir segir í þulu um Geirfuglasker:
Görpum þótti gífurlega geigvæn sú för,
en betri samt en björg að sækja í Básenda vör.
Betra samt en björg að sækja Básendum að, ræningjarnir dönsku réðu þeim stað. Og allir kannast við kvæði Gríms; „Bátsenda þundarinn“ um hann Tugason með bognu reizluna og laka lóðið svo „létt reynist allt sem hún vó“.
Þá kemur skörungurinn Skúli fram á sviðið og réttir hlut hins fátæka útnesjafólks:
Hann skrifaði lítið og skrafaði fátt
en — skörungur var hann í gerð
og yfir rummungum reiddi hann hátt
réttar- og laganna sverð.
Þetta er hressileg blaðsíða í Básendasögunni.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 9 júlí 1978, bls. 6-7 og 12.

Básendar

Básendar – festarhringur.