Útskálar

“Fornleifastofnun Íslands ses hefur síðustu vikur staðið fyrir björgunnaruppgreftri að beiðni Menningarseturs að Útskálum ehf á bæjarhólnum á Útskálum í Garði á Reykjanesi. Uppgröfturinn flest í rannsókn á um 25 m2 svæði við gamla íbúðarhúsið að Útskálum sem áætlað er að gera upp.

Útskálar

Kambur úr uppgreftri við Útskála.

Grafið hefur verið niður á 2,5 m dýpi og þegar hafa 3 mannvirki komið í ljós. Tvö þeirra eru frá seinni öldum (nákvæm tímasetning hefur ekki enn fengist), hellustétt og torbyggt hús með uppistandandi timburþili. Á síðustu dögum hefur komið í ljós torfbyggt hús með vel varðveittu timbri, hugsanlega úr þaki, sem gjóskulög tímasetja fyrir seinni hluta 12. aldar. Uppgreftri á þessu mannvirki stendur enn yfir, en allt bendir til þess að líklegast sé ekki um íveruhús að ræða, heldur einhversskonar útihús.

Ekki hefur fundist mikið af gripum við uppgröftinn, en á þriðjudaginn var fannst vel varðveittur kambur í hruni úr elsta mannvirkinu. Þessi gripur er einstakur á Íslandi af því best er vitað, en svipaðir kambar hafa fundist í Noregi í lögum frá 13. öld, en þessi er örugglega eldri en það. Kamburinn er einstaklega vel varðveittur, nánast allar tennur eru heilar og er fallega skreyttur með depilhringamunstri. Kamburinn er nú í forvörslu á Þjóðminjasafni Íslands.”

Uppgröftur þessi staðfestir enn og aftur mikilvægi lítt rannsakaðra fornminja á Reykjanesskaganum.

Sjá meira undir http://www.instarch.is/

Garður

Útskálar – fornleifar.