Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1908 fjallar Matthías Þórðarson m.a. um nýfundinn rúnastein á Hvalsnesi undir framangeindri fyrirsögn (Nýfundinn rúnasteinn á Hvalsnesi).
Í dag er ekki vitað um rúnastein á Hvalsnesi. Hvar er þá þessi merkilegi steinn sem fyrrverandi þjóðminjavörður taldi ástæðu til að geta sérstaklega um í árbókinni?
“Á skrásetningarferð minni um Suðurnes í ágústmánuði í sumar var mér sagt til tveggja rúnasteinsbrota á Hvalsnesi. Athugaði ég brotin (28. ágúst) og virtist mér þau vera úr sitt hvorum steini, svo ólík voru þau að sjá bæði að rúnalagi og allri gerð. Annað lá úti undir kirkjugarðsveggnum að sunnanverðu, fyrir utan hann; er það aftar hluti steinsins. Hitt var í hleðslunni í norð-vesturvegg kirkjugarðsins að innanverðu og sást á þá hlið sem rúnirnar voru á. efni beggja brotanna er grágrýti (dolerit) og er það brotið, sem í hleðslunni var, orðið eytt og veðurbarið; hefði það verið hér mörg ár enn, var fyrirsjáanlegt að allt verk hefði eyðst af því.”
Þá getur Matthías um forgengileika grjótsins og að “allt letur er horfið af þeim á fám árum” þótt víða megi enn sjá grafsteina allt frá 16. og 17. öld í kirkjugörðum.
“Bæði brotin eru nú komin á Forngripasafnið, og er ég sá alla lögun þeirra og gat lagt þau saman, sá ég brátt, að þau áttu saman og að lítið vantaði í steininn. Lengd steinsins er nú á efri hlið 117 sm., en endafletirnir eru skáhallir og er neðri hlið steinsins um 9 sm. lengri. Að framan er steinninn 40 sm. að breidd, efri hliðin, en hann er allur mjórri í aftari endann, aftast um 20 sm. Efri röndin, sú er frá veit, er um 28 sm. að breidd, en þeim megin, sem að snýr, er steinninn aðeins 7 sm. að þykkt. Steinninn hefir verið lítið eitt lengri og hefir brotnað af áletruninni.
Sú hlið steinsins, er áletrunin er á, er allvel slétt af náttúrunni og virðist ekki hafa verið jöfnuð af mannavöldum; dálítið er hún hvelfd inn. Steinninn má heita fremur vel valinn og hefir aflaust verið lagður, en ekki reistur, á leiðið. Á fremri enda steinsins hefir verið höggvinn út upphækkaður kross, en mjög lágt upphækkaður (um 3-4 mm.) og höggvið einungis meðfram álmunum og um 4 sm. út frá þeim.”
Þá er rúnum þeim er mynda nafn á steininum lýst og reynt að ráða í þær. “Áletrunin er því í heild sinni þannig: hér hv[íe]r ingibrig [l]ofs dóter, þ.e. -Hér hvílir Ingibjörg Loftsdóttir-“.
Ekki er vitað hverjum steinninn heyrði. “Það er eftirtektarvert, að einn legsteinn er kunnur héðan frá Hvalsnesi áður, og af lýsingu dr. Kr. Kålunds af honum í “Isl. fortidslævninger” (Kbh. 1882; bls. 46) sést, að hann mmuni vera ekki ósvipaður þessum að ýmsu leyti. ennfremur ber þess að geta, að 2 rúnasteinar eru komnir frá Útskálum, næsta kirkjustað, sjá “Isl. fortidsl.”, bls. 43-35; hvergi annars staðar hafa fundist ráunasteinar í Gullbringu, Kjósar- og Árnessýslu. Þessir þrír rúnasteinar frá Útskálum og Hvalsnesi, sem Kålund lýsir, flæktust til Kaupmannahafnar árið 1844; Hoppe stiftamtmaður sendi þá til forngripasafns Dana (nationalmusæet). Þar er og 4. íslenski rúnasteinninn; hann sendi þangað sama árið síra Ólafur Sívertsen í Flatey, og er hann úr Gufudalskirkjugarði.”
Fyrirspurn hefur verið lögð fram til Þjóðminjasafnsins um steininn frá Hvalsnesi. Fróðlegt verður að sjá hvernig hann lítur út, ef hann þá kemur í leitirnar.
Heimild:
-Árbók Hins ísl. forleifafélags 1908, Matthías Þórðarson, bls. 48-52.