Bessastaðir á Álftanesi – Tryggvi Gíslason, lektor

Bessastaðir

Eftirfarandi er fengið úr útvarpsþætti Tryggva Gíslasonar, lektors, árið 1968 um „Bessastaði á Álftanesi„:“

Tryggvi Gíslason

Tryggvi Gíslason.

„Bessastaðir eru í hinu forna landnámi Ingólfs Arnarsonar, sem var frægustur allra landnámsmanna, að því er Ari fróði segir, af því að hann kom að auðu landi og byggði það fyrstur. Úr hinu miklíi landnámi sínu, er náði, „milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá… og öll nes út,“ lét Ingólfur menn fá lönd. Einn hlaut Álftanes allt, frá Hraunsholtslæk, sem rennur úr Vífilsstaðavatni í Arnarnesvog, að Hvassahrauni, ofan Hafnarfjarðar.
Sá, sem nam Álftanes, hét Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs. Bær hans er sagður hafa heitið á Skúlastöðum, en það bæjarnafn er ekki lengur til í hinu forna Landnámi Ásbjarnar milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, en í hrauninu undir Lönguhlíðum, suðaustan Hafnarfj arðar, heitir lítill grasgeiri Skúlatún og hraunið þar norður af Skúlatúnshraun, en óvíst er með öllu, að það eigi nokkuð skylt við hið forna bæjarheiti á Álftanesi, Skúlastaði.

Skílatún

Skúlatún norðanvert sunnan Helgafells.

En hvað sem því líður, hafa sumir fræðimenn talið, að á Bessastöðum hafi búið afkomendur Ásbjarnar landnámsmanns, frænda Ingólfs Arnarsonar, og sumir telja sennilegt, að Bessastaðir séu hinir fornu Skúlastaðir. Hefur þá Skúlastaðanafnið glatazt á einhvern hátt, svo sem er mannaskipti hafa orðið á jörðinni.
Engar spurnir fara af manni þeim, Bersa eða Bessa, sem Bessastaðir gætu heitið eftir. Í Landnámu eru nefndir sex menn með þessu nafni, en vitað er um 7 aðra bæi, sem kenndir hafa verið við Bersa, auk fjölmargra örnefna um allt land, sem draga nafn sitt af Bersa. Hitt kann að vekja nokkra athygli, að Bersi heitir hólmi í Bessastaðatjörn.

Bessastaðir

Bessastaðir 1789.

Það er ekki fyrr en á Sturlungaöld, að Bessastaðir fara að koma verulega við sögu. Þá eru þeir í eigu Snorra Sturlusonar, en ekki er ljóst, hvernig Snorri eignaðist þá, en hann var mjög auðugur og fjáraflamaður mikill og sótti oft fjármál sín af meira kappi en rétti.
Í Sturlungu er sagt frá fjárdráttarmáli einu árið 1215, er Snorri kom við og hafði mikla virðingu af; og hefur þess verið getið til, að þá hafi hann eignazt Bessastaði, en sennilegra mun, að Snorri hafi keypt Bessastaði, og benda ummæli ein í Sturlungu til þess. En er að Snorra þrengdi í Borgarfirði, leitaði hann sér hælis á Bessastöðum.

Bessastaðir

Bessastaðir 1722.

Eftir víg Snorra Sturlusonar 1241 tók Hákon gamli Noregskonungur undir sig Bessastaði, sem urðu síðan um margar aldir aðsetur norskra og síðan hins danska konungsvalds á íslandi. í bók sinni um Bessastaði, sem út kom 1947, segir Vilhjálmur Þ. Gíslason, fyrrum útvarpsstjóri, að það megi heita kaldhæðni örlaganna, að ein af höfuðeignum hins mesta höfðingja þjóðlegrar, íslenzkrarar menningar skyldi verða virki erlends konungsvalds.
Um 1340 verða Bessastaðir fastur aðsetursstaður umboðsmanna konungs og eins konar annar höfuðstaður landsins, miðstöð hins erlenda valds, en Þingvellir var hinn höfuðstaðiu- Íslands, enda þótt segja megi, að biskupsstólarnir væru það einnig.
Á fimmtándu öld koma Bessastaðir oft við sögu erlendra ævintýramanna og ránsmanna. Árið 1420 komu Englendingar til Bessastaða, tóku hirðstjórann höndum og drápu einn manna hans og særðu aðra.
SkansinnTveimur árum síðar, árið 1422, gengu Englendingar á land við Bessastaði, drápu menn og eyddu garðinn og 1425 komu enskir menn þar enn, tóku höndum hirðstjórana, sem þá voru tveir, þeir Hannes Pálsson og Balthazar, og höfðu með sér til Englands.
Í upphafi 16. aldar fóru Englendingar enn með yfirgangi og ránum um landið, og var jafnvel um það talað, að. þeir ætluðu að leggja Ísland undir sig. Árið 1512 drápu þeir hirðstjórann Svein Þorleifsson og ellefu menn hans. Þá tóku enskir menn kaupskip með allir áhöfn. Út af þessu varð mikil rekistefna og milliríkjamál, og upp úr þessu setti Danakonungur til hirðstjórnar á Íslandi alkunnan sjógarp, Sören Norby. Hann sat á Bessastöðum, og er sagt, að hann hafi fyrstur orðið til að sigla upp Seyluna, er síðan varð höfn Bessastaða.

Bessastaðir

Lágmynd á Bessastaðakirkju.

Sá maður, sem einna mestar sögur fara af á Bessastöðum um miðja 16. öld, er kóngsfógetinn Diðrik von Mynden. Hann hafði verið alllengi á Íslandi og var af þýzku bergi brotinn. Bróðir hans, Kort von Mynden, var lengi kaupmaður í Hafnarfirði, og hefur þess verið getið til, að Diðrik hafi komið hingað fyrst til kaupsýslu. Diðrik von Mynden var uppivöðslusamur og fór um með barsmíðum og gripdeildum, en tvær ferðir hans frá Bessastöðum eru sögulegastar, hin fyrri þegar hann ásamt Kláusi hirðstjóra var de Marvitzen tók Viðeyjarklaustur á hvítasunnu 1539, brutu þar upp hús og hirzlur, hröktu heimafólk nakið upp úr rúmum sínum, börðu menn og bundu, rændu og rupluðu. Hin förin var, er Diðrik fór við tíunda mann í öndverðum ágústmánuði 1539 austur yfir fjall til þess að taka klaustrin í Kirkjubæ og Þykkvabæ. Þetta var ekki fjölmennur flokkur, en þó lét Diðrik svo um mælt, að ekki mundi hann þurfa nema sjö menn til að leggja undir sig landið allt.
Þ

Bessastaðakirkja

Skjaldarmerki á turni Bessastaðakirkju?

etta fór þó á annan veg, því að í þessari ferð drápu Íslendingar Diðrik fógeta í Skálholti. Það var síðan á Bessastöðum, að þeir hittust seinast í maí 1541 forráðamenn hins nýja siðar og konungs, Gissur biskup Einarsson og Kristófer Hvítfeldur hirðstjóri. Þar munu þeir hafa ráðið þeim ráðum, er síðar komu fram, en 5. júní sigldi Hvítfeldur hirðstjóri frá Íslandi og hafði með sér fanginn Ögmund biskup Pálsson, er lézt í hafi.
Enn eru fleiri atburðir siðaskiptanna tengdir við Bessastaði eða Bessastaða menn. Haustið 1550 var helzt til forstöðu á Bessastöðum Kristján skrifari, eins og hann hefur verið nefndur, en Kristján var fógeti eða umboðsmaður höfuðsmannsins, Lauentiusar Múle. Kristján hafði áður verið bæjarstjórnarskrifari í Kaupmannahöfn, og af því mun viðurnefni hans dregið.
Þegar andstæðingar Jóns Arasonar höfðu sigrazt á honum, var fyrst gert ráð fyrir því, að hann og synir hans, Björn og Ari, skyldu geymdir í haldi og látnir bíða alþingisdóms samkvæmt lögum og landsrétti. Átti að skipta þeim á höfuðból sigurvegaranna, Bessastaði, Skálholt og Snóksdal, en þessi ráðagerð fórst fyrir, af því að Kristján skrifari treysti sér ekki til að halda neinn þeirra af ótta við fylgismenn þeirra meðal norðlenzkra útróðrarmanna um Suðurnes. Þá var afráðið, að öxin og jörðin geymdu þá bezt. Sent var eftir böðlinum til Bessastaða, og segi svo í gömlum þætti, að hann héti Jón Ólafsson, herfileg kind sunnlenzk, og hafði hann ekki réttað áður utan einn mann.

Garðaholt

Skotbyrgi á Garðaholti.

Segja má að á árunum 1551 til 1555 hafi Ísland verið hernumið land, en herforingjarnir höfðu aðsetur sitt á Bessastöðum.
Ýmsir valdamenn, er sátu á Bessastöðum á ofanverðri 16. öld, voru stjórnsamir, og var þar á ýmsa lund höfðingsskapur og stórmennskubragur. Meðal þessara manna var Páll Stígsson, sem var mikill fyrir sér og stjórnsamur höfðingi, trúmaður og framfaramaður á sína vísu, en siðavandur og harður, eins og stóridómur hans
frá 1564 sýnir. Páll Stígsson andaðist á Bessastöðum í maí 1566 og var jarðsettur fyrir framan altarið í Bessastaðakirkju, sem þá var. Sá steinn er enn í kirkjunni, og á honum er mynd af Páli í hertygjum og skjaldarmerki ætta hans í hornunum, og á steininum er Páll kallaður kóngsins af Danmörku befalingsmaður yfir Íslandi.

Bessastaðir

Bessastaðir – forneifar undir Bessastaðastofu.

Í upphafi 17. aldar sat á Bessastöðum Herluf Daa hirðstjóri, er var ævintýramaður, er hafði farið víða, verið í Hollandi og á Spáni og í hernaði á móti Tyrkjum. Hann stýrði herskipum og varð aðmíráll, en ævi sinni lauk hann í Kaupmannahöfn, fátækur maður og forsmáður.
Á eftir honum kom hér Friðrik Friis, mikilsháttar maður, er virðist hafa haft í hyggju ýmsar umbætur á landsmálum. En hann tók sótt í hafi á leið til Íslands og andaðist þremur nóttum eftir að hann steig á land á Bessastöðum, og var þar jarðsettur. Síðar létu ættingjar hans grafa hann upp og flytja til Danmerkur.
Árið 1627 komu til íslands sjóræningjar frá Alsír, er Íslendingar kölluðu Tyrki. Komu þeir að landi á Djúpavogi, í Grindavík og Vestmannaeyjum, drápu fólk og rændu. Eitt skipanna kom á Seyluna við Bessastaði og strandaði þar. íslendingar, sem þá voru á Bessastöðum, vildu leggja að skipinu og leysa úr haldi íslenzkt fólk, sem um borð
var, en höfuðsmaðurinn, Holger Rosenkranz, þorði ekki, og hlaut af mikið ámæli, en ræningjarnir sluppu.

Hendirk Bjelke

Hendirk Bjelke (1615-1683).

Um 1639 kom hingað til lands Henrik Bjælke og varð höfuðsmaður á Bessastöðum og lénsmaður. Hann eignaðist hér margar jarðir, varð vellríkur og lánaði konungi sínum fé. Árið 1662, í tíð Henriks Bjælkes, urðu hér á landi atburðir, sem lengi var minnzt. Það var í Kópavogi mánudaginn 28. júlí, að Bjælke höfuðsmaður tók hyllingareiða af fulltrúum landsmanna, sem þar rituðu undir hina nýju einveldisskuldbindingu til handa Friðriki konungi þriðja, arfakóngi íslendinga. Ætlunin hafði verið að taka hyllingareiða af mönnum á Bessastöðum, en höfuðsmaður tafðist á ferð sinni, og stefndi mönnum í Kópavog, en þar voru fyrir danskir hermenn. Eftir eiðtökuna hélt höfuðsmaður ágæta veizlu í stóru tjaldi, 9 faðma löngu.
Hafði hann þar hlj óðfæraslátt mikinn, og var leikið á trómetur, fíól og bumbu, og léku sex trómetarar. Þrjár fallbyssur voru í Kópavogi, og var skotið af þeim, en herskipið á Seylunni svaraði skotunum. Um nóttina var skotið flugeldum, en veizlan stóð lengi nætur.

Bessastaðir

Bessastaðakirkja 1834.

Síðast á 17. öld urðu breytingar á skipulagi landsstjórnar á Íslandi. 1683 var settur landfógeti og árið eftir, 1684 stiftamaður eða stiftbefalingsmaður og 1688 loks amtmaður. Hið gamla hirðstjóra- eða höfuðsmannsembætti var lagt niður, en landfógeti og amtmaður höfðu æðstu völd innan lands og sátu á Bessastöðum.
Fyrstur landfógeta var Kristófer Heidemann. Hann var á Bessastöðum 10 ár og lét reisa þar úr timbri framkirkjuna, sem áður hafði verið úr torfi. Þá gerði Heidemann út þilskip og hafði talsverðan bátaútveg, bæði fyrir sjálfan sig og konung.
Árið 1766 kom að Bessastöðum Magnús Gíslason, er orðið hafði amtmaður fyrstur íslenzkra manna. Magnús bjó að Leirá í Borgarfirði fyrstu embættisár sín, en á árunum 1760 til 1765 lét hann reisa Bessastaðastofu, sem enn stendur.

Skúli Magnússon

Skúli Magnússon.

Um miðja 18. öld voru á Bessastöðum Skúli fógeti og Bjarni landlæknir Pálsson, sem þar setti fyrstu lyfjabúð sína, 1760, áður en hann fluttist að Nesi við Seltjörn. Á Bessastöðum hófst einnig fyrsta íslenzka læknisfræðikennslan, er Bjarni Pálsson tók að kenna fyrsta íslenzka læknisefninu, Magnúsi Guðmundssyni, og hófst þessi kennsla haustið 1760.
Árið 1769 varð húsbóndi á Bessastöðum Ólafur amtmaður Stefánsson eða Stephensen, tengdasonur Magnúsar Gíslasonar. Óafur varð seinna stiftamtmaðin- og settist að í Viðey.
Þegar komið var undir lok 18. aldar og íslenzkur maður varð stiftamtmaður 1784, var orðin mikil röskun í þjóðfélaginu af hallærum og óáran og flutningur mikill á embættum og stofnunum. Stefnan var sú að safna miðstöð valds og mennta á einn stað. Bessastaðir urðu ekki fyrir valinu, heldur Reykjavík. Þar varð miðstöð nýs athafnalífs og menningar.
BessastaðirÁrið 1805 var latínuskóli þó fluttur frá Reykjavík að Bessastöðum, þar sem hann var um fjóra ártugi. Ekki er unnt að rekja hér sögu skólans, en við hann kenndi margt lærðust manna Íslands og þaðan komu margir þeir menn, er fremstir stóðu í menningar- og sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar á öndverðri 19. öld.
Þegar skólinn fluttist frá Bessastöðum til Reykjavíkur, 1846, bjó síðasti skólaráðsmaðurinn, Þorgrímur Tómasson, þar enn um skeið og hafði ábúð jarðarinnar. Sonur hans, Grímur Thomsen, er fæddur var á Bessastöðum 1820, skipti síðan á Belgsholti á Mýrum og Bessastöðum 1867, en þá hafði staðurinn verið í konungseign frá því 1241 -— eða 626 ár. Er Grímur Thomsen lézt 1896 seldi ekkja hans Landsbankanum Bessastaði. Var söluverð 12 þúsund krónur. Síðan keypti séra Jens Pálsson Bessastaði og átti tæpt ár, er hann seldi staðinn Skúla Thoroddsen, er lengi hafði búið á Ísafirði. Skúli fluttist að Bessastöðum árið 1901 og setti þar prentsmiðju. Þar gaf hann út blað sitt, Þjóðviljann, og allmargt bóka, einkum rímur, sem urðu vinsælar. Húsfreyjan Theodóra Thoroddsen, varð þjóðkunnur rithöfundur.
Um tíma átti Jón H. Þorbergsson á Laxamýri í Aðaldal Bessastaði, og á þeim árum var Einar H. Kvaran þar eitt sinn árlangt, og þar lauk hann við skáldverk sitt Sögur Rannveigar.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Árið 1927 keypti Björgúlfur Ólafsson læknir Bessastaði fyrir 120 þúsund krónur, og þar skrifaði hann bók sína frá Malajalöndum, um dvöl sína á Jövu og Borneó.

1940 keypti Sigurður Jónasson lögfræðingur og fyrrum forstjóri Tóbakseinkasölu ríkisins Bessastaði, sem hann ætlaði til búrekstrar og verksmiðjurekstrar. Gerði hann miklar jarðabætur, og urðu Bessastaðir mikil bújörð í tíð hans.
Þegar ríkisstjóraembætti var stofnað árið 1940, var nokkur óvissa um það, hvar ríkisstjóri skyldi búa. Þá kom fram sú tillaga, að ríkisstjóri sæti að Bessastöðum. Hermann Jónasson forsætisráðherra spurðist þá fyrir um það hjá eigandanum, hvort hann vildi selja Bessastaði til þessara nota. Sigurður Jónasson bauðst þá til að afhenda ríkinu
Bessastaði að gjöf, og var því boði tekið.
Síðan 1944 hafa Bessastaðir á Álftanesi verið aðsetur forseta Íslands, herra Sveins Björnssonar og herra Ásgeirs Ásgeirssonar. Þangað hefur verið litið með virðingu og stolti.“

Aðalheimild:
-Vilhjálmur Þ. Gíslason: Bessastaðir, Reykjavík 1947.
-Bessastaðir á Álftanesi eftir Tryggva Gíslason, lektor. Útvarpsþáttur fluttur 30. júní 1968.

Bessastaðir

Bessastaðir 2024.