Bessi í Bessahólma

Bessi

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1981 segir Kristján Eldjárn frá minjum og örnefnum næst íbúðarhúsunum á Bessastöðum:
Bessastadir-991„Heima við bæjarhúsin, norður af flötinni milli húss og kirkju, þar sem fánastöng stendur nú, er hóll með snarbrattri brekku norður af, og segir Benedikt Gröndal (og Björn Erlendsson) að þetta heiti Bessastaðahóll, og voru nýsveinar látnir velta þar niður heldur ómjúklega á dögum skólans. Á jökulruðningnum sem áður var nefndur er þetta greinilegasta hólmyndunin, og mundi það ef til vill segja sína sögu um nafn bæjarins. Frá kirkju og vestur að Lambhúsum var nefndur Langivöllur, og var það þó einkum sunnanmegin (Lambhúsatjarnarmegin), sunnan heimreiðar en nú er þetta nafn haft um allt vesturtúnið.
Í norður og norðaustur af Bessastaðahól, niðri við tjörnina, voru áður fyrri allmikil ummerki eftir ýmiss konar búsumstang, og lýsir Benedikt Gröndal því nokkuð, en ummerki þessi eru nú að mestu horfin, meðal annars af því að sjór hefur brotið þarna mikið land, og er því erfitt að marka nákvæmlega fyrir hvar hvað eina var. Traðir lágu ofan að smiðju og þar var Sjóbúðarflöt, og þar var Skevingstún, kennt við Hallgrím Scheving kennara á Bessastöðum.
Hjá Sjóbúðarflöt var tóft sem víst var kölluð Sjóbúð, og enn fremur mun bessastadir-993þarna hafa verið uppsátur, Bessastaðavör. Af öllu þessu sést aðeins votta fyrir leifum af gömlum garði sem sjór hefur brotið af meðan enn flæddi inn í tjörnina. Þessi nöfn mega nú heita óþekkt. Norður frá bílstjórahúsi (sem nú er) var hólmynd í túninu og nefndist Smiðjuhóli og minnir á smiðjuna, en sést ekki lengur. Þarna norður frá bústjórahúsi og bílstjórahúsi nær sjó heitir nú Prentsmiðjuflöt, sem er nafn frá dögum Skúla Thoroddsen, enda sér þar enn steyptan grunn undan prentsmiðjuhúsi hans.
Í Bessastaðatjörn er áðurnefndur hólmi þar sem æður verpur og nefnist hann Bessahólmi í landamerkjaskránni og það nafn nota bæði Benedikt Gröndal og Björn Gunnlaugsson. Það á því mikinn rétt á sér, en nú er hólminn stundum kallaður Bessi í daglegu tali og einnig heyrist nafnið Bessastaðahólmi, sem kynni að vera það upprunalegasta. Björn Erlendsson telur að Bessastaðahólmi sé algengast og hermir þau munnmæli, að Bessi bóndi á Bessastöðum sé heygður þar. Í tíð Ásgeirs Ásgeirssonar forseta var hólminn mikið stækkaður til suðurs með því að aka að honum grjóti og hnausum á ís. Lítill hólmi er nær Eyvindarstöðum og var hann einnig gerður að undirlagi Ásgeirs Ásgeirssonar, sem kallaði hann Kóra eftir fæðingar stað sínum, Kóranesi á Mýrum. Ásgeir lét einnig grafa skurð þvert yfir tangann norður af bílstjórahúsi og búa þannig til ey eða hólma, sem kallast Sandey, en nýtt er þetta nafn að sjálfsögðu. Allt hefur þetta verið gert vegna æðarfuglsins. Ósinn út úr tjörninni hét Dugguós, en hann er nú úr sögunni, síðan stíflan var gerð. Áður fyrri, meðan enn fjaraði í tjörninni, kom upp með fjöru klettahryggur eða brík frá tanganum áðurnefnda (nærri Prentsmiðjunni) og að Stekkjarmýrarhól í Breiðabólstaðalandi og var þessi leið oft farin, ekki síst ríðandi. Þetta var kallaður Steinboginn.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 78. árg. 1981, bls. 136-138.

Bessastaðatjörn

Bessastaðatjörn.