Blikdalur

Blikdalur

FERLIR fær jafnan ábendingar um ýmislegt áhugavert. Sumt er birt, annað geymt til betri tíma. Hér kemur ein ábendingin.

Blikdalur

Blikdalur.

Í Blikdal í Esju eru leifar a.m.k. selja frá Brautarholti, Saurbæ, Hjarðarnesi og Ártúni. Dalurinn er lengstur Esjudala. Hann er milli sex og sjö km langur og ku vera stífur tveggja tíma gangur inn í Fossurðir, innst í dalnum. Dalurinn er um 2 km. breiður milli fjallsbrúna um miðjan dal, en þrengist nokkuð þegar innar dregur og dýpkar þar sem hann klýfur Há-Esjuna milli Dýjadalshnjúks og Kerhólakambs. Svo virðist sem fjöllin á báðar hendur hækki, en í raun og veru hækkar dalurinn jafnt og þétt inn í dalbotn. Blikdalur er nokkuð grösugur, einkum norðurhlíðarnar, sem vita á mót suðri, neðst er mýrlendi, ætið forblautt og illt yfirferðar, en hærra taka við valllendisbrekkur og grónar skriður en þar fyrir ofan mosaþembur og hálendisgróður sem nær á stöku stað upp á fjallsbrúnir.
Fremst er Ártúnsá (Blikdalsá), við kletta sem heita Sneiðingaklettar. Innst eru Fossurðir. Blikdalur er hömrum girtur að sunnan og suðaustanverðu og steypist Blikdalsá í mörgum sprænum niður úr hömrunum. Í kringum 1970 féll stór skriða úr hömrunum innarlega í dalnum þar sem heita Skollabrekkur. Hún byrjaði sem lítil aurskriða en endaði 400 metra breið neðst í dalnum.
Einn FERLIRsfélaganna var að lesa bók um jólin, eins og gengur. Hann sendi eftirfarandi fróðleik um efnið: „Í gær var ég að lesa eina af jólabókunum þ.e. Upp á Sigurhæðir, saga Matthíasar Jochumsonar eftir Þórunni Erlu Valdimarsdóttur og rakst þá á eftirfarandi texta á bls 259: „Matthías segir frá því þegar Guðrún (dóttir Runólfs óðalsbónda í Saurbæ [viðbót sendandi]) sendi honum úr selinu í Blikdal ber í skjólu og fáeinar línur með. Matthías nefnir ekki hvað Guðrún skrifaði, en bregst svo glaður við að hann ríður fram á dal til að þakka henni sendinguna. Sól skein „hlæjanda í heiði“ og Blikdalurinn var hinn hýrasti. Í fyrri útgáfunni að Söguköflum Matthíasar hefur allt er varðar þetta tildragelsi verið fellt niður. Þessi stund í dalnum leið í algleymi svo auðvelt er að ímynda sér hvað þau Guðrún gerðu. Eftir þetta fór samdráttur þeirra að „verða hljóðbær““.
Á bls. 260 segir ennfremur: „Annað ástarkvæði, „Daladrósin„, er skrifað í sömu stílabók og því greinilega um Guðrúnu uppi í selinu:

Matthías Jockumsson

Matthías Jockumsson.

Hátt í dalnum, sólarsalnum,
situr stillt og þýð,
snotur, hýr og hnellin,
há og grönn og smellin
dala-drósin blíð.

Hún er þar innan um lömbin; ástin rís með yndisþrá í ungu brjósti hennar, en rósin hnígur og hún er ein eftir í dalnum þegar sá sem hún elskar fer frá henni…., en hann kemur loks aftur úr austri. Lok þessa kvæðis er bara í stílabókinni en ekki í Ljóðmælum Matthíasar. Þar er sá sem hún elskar úti á hafi, ann henni heitt og biður fjallavindinn að færa sér koss „eldheitrar meyjar“ við „úrsvalan foss“.

Blikdalur

Tóft í Blikdal.

Raunveruleikinn var nokkurn veginn eins og í kvæðinu nema hvað hann varð mun svartari þegar samdráttur þeirra Matthíasar og Guðrúnar varð lýðum ljós. Dagurinn sæli í Blikdalnum er á berjatíma haustið 1872 en barn þeirra fæðist í janúar 1874. Samband þeirra virðist því hafa staðið í marga mánuði. Það er ekki fyrr en Guðrún verður þykkari sem skelfingin vaknar.“
Það hefur ýmislegt gerst í seljunum fyrrum þó ekki séu til margar frásagnir af lífinu þar. Það verður þó að geta þess að Matthías og Guðrún giftust sumarið 1875 eftir að Matthías hafði stungið af úr hempu og sókn frá henni óléttri haustið 1873.
Áhugavert verður að rifja framangreint upp viðð seljarústirnar í Blikdal, en ganga er fyrirhuguð þangað með hækkandi sól.
Matthías fæddist 13. nóvember árið 1835 að Skógum í Þorskafirði. Hann varð stúdent í Reykjavík 1863 og lauk prestaskólanámi tveimur árum síðar. Hann var eitt af ástsælustu ljóðskáldum Íslendinga, auk þess að vera mikilvirkur þýðandi erlendra bókmennta á íslenska tungu. Í dag er hann sennilega þekktastur fyrir þjóðsönginn ,,Ó Guð, vors lands”, sem hann orti úti í Skotlandi og Sveinbjörn Sveinbjörnsson gerði lag við. Honum var veitt ýmiskonar viðurkenning á langri ævi. Hann varð t.a.m. riddari af Dannebrog 30. nóvember 1899, dannebrogsmaður 1. maí 1906, heiðursdoktor í guðfræði við Háskóla Íslands 1920 og heiðursborgari á Akureyri 11. nóvember 1920. Matthías var þríkvæntur. Hann lést 18. nóvember árið 1920, nýorðinn 85 ára. Þá hefur Blikdalurinn, tæpri hálfri öld fyrr, verið honum gleymdur – að mestu – líkt og selin okkur.

Blikdalur

Selin í Blikdal – uppdráttur ÓSÁ.