Blomkvist á Þingvöllum

Þingvellir

Árið 1993 rak Þórarinn Þórarinsson arkitekt augun í áletrun í klöpp á Þingvöllum, þar sem gengið er út á Spöngina sem er á milli Flosagjár og Nikulásargjár. Áletrunin var uppljómuð í kvöldsólinni en reyndist þó skófum vaxin og máð og gekk því illa að lesa úr stöfunum.

Blomkvist

Þingvellir – áletrun.

Mynd sem sýnir sykri stráða áletrunina á Spönginni. Giskað hefur verið á að stafirnir séu verk ferðamanna, hugsanlega frá 19. öld. Hægt er að smella á myndina til að skoða stærra eintak af henni. Myndasmiður: Einar Á.E. Sæmundsen.

Fundurinn vakti töluverða athygli. Í fyrstu voru uppi getgátur um að áletrunin kynni að vera frá fyrsta skeiði þinghalds og gæti jafnvel tengst lögréttu sem sumir telja að hafi verið á Spönginni. Þetta var stutt með því að einhver hefði lagt mikið á sig til að slétta klöppina og höggva svo letrið í.

Þingvellir

Spöngin á Þingvöllum.

Spöngin er skammt ofan og hægra megin við miðja mynd, einhvers konar hraunrimi milli tveggja gjáa.
Sagan segir að rútubílstjóri nokkur hafi tekið sig til, stráð sykri í áletrunina og letrið þá orðið læsilegt. Í ljós kom að tvö nöfn höfðu verið höggvin í klöppina: Gulin og Blomkvist. Listfræðingurinn og rithöfundurinn Björn Th. Björnsson taldi líklegast að þarna hefðu skandinavískir ferðamenn verið að verki, sænskir Finnar, hugsanlega um eða eftir 1870, en á þeim tíma var kenningum um lögréttu á Spönginni fyrst haldið á lofti og má ætla að fleiri hafi lagt leið sína þangað í kjölfarið.

Spöng

Spöngin – áletrun.

Jafnvel var talið að um ástarjátningu gæti verið að ræða, að par hefði ákveðið að meitla heit sín í klöppina.

Áletrunin er máð, bæði hefur hún veðrast en einnig er hún fótum troðin af þúsundum ferðamanna sem hafa lagt leið sína út á Spöngina. Þótt ekkert sé hægt að fullyrða um uppruna áletrunarinnar er í það minnsta líklegra að kenna hana við ástfangna Finna en Íslendinga við þingstörf fyrir mörg hundruð eða þúsund árum.

Heimild:
-DV 14. júní 1993 á Tímarit.is.
-Mynd af áletruninni: Einar Á.E. Sæmundsen.

Þingvellir

Þingvellir. Spöngin er fyrir miðri mynd.