Bollastaðir í Kjós – fornbýli

Bollastaðir

Bollastaðir er forn eyðijörð í Kjós, sem fáir ef nokkrir núlifendur vita hvar var.
Bollastadir-2Á
www.kjos.is mátti þó fyrir u.þ.b. sex árum (2006) lesa eftirfarandi um nýbýli á þessari fornu jörð: „Íbúðarhús hefur verið byggt í Valdastaðalandi vestan við Bollastaðalæk. Húsið er byggt á lóð sem er einn hektari að stærð, mælt út úr óskiptu landi Valdastaða og Grímstaða. Það stendur neðan við skógræktarreit sem Skógræktarfélag Kjósarhrepps plantaði í um miðja síðustu öld. Lóðin hefur hlotið nafnið Bollastaðir en í Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 er jarðarinnar Bollastaða getið og hafi verið rétt austan við, þar sem hið nýja hús stendur. Þá hafði ekki verið ábúð á jörðinni í manna minnum. Var hún nýtt að jöfnu frá Valdastöðum og Hálsi.
Eigendur hinna nýju Bollastaða eru hjónin Ragnar Gunnarson málari og Unnur Sigfúsdóttir kennari, en Bollastadir-3hún var skólastjóri Ásgarðsskóla síðustu árin áður en skólahald var aflagt þar. Þau eru bæði Dýrfirðingar og áður en þau fluttust í hreppinn voru þau búsett á Þingeyri við Dýrafjörð.“
Í fyrrnefndri Jarðabók Ám og PV frá 1703 segir m.a.: „Bollastaðir: Forn eyðijörð. Veit enginn nær eyðilagst hefur, eður hvað fyrir. …Túnstæðið var mikinn part ófordjarfað inn til þess að næst umlið haust féll þar skriða yfir túnstæðið til óbóta skaða, svo að bæði fyrir því og landþröng er örvænt, að það kunni aftur að byggjast.“
Og jafnframt: „Neðri-Háls, Bollastaðir: …Á Hálsi neðra er nú tvíbýli, 2 íbúðarhús. Þar í landi eru Bollastaðir, fornt eyðiból.  …virðist hafa eyðst af skriðu.“
Í 27. kafla Harðar saga og Hólmverja segir um Bolla og Bollastaði: „Um veturinn fyrir jól fóru þeir tólf saman í Hvamm til Orms á náttarþeli. Ormur var eigi heima. Hann var farinn nokkuð að erindum sínum. Bolli hét þræll hans er annaðist um bú ávallt er Ormur var eigi heima. Þeir brutu upp útibúr og báru út vöru og mat. Þeir tóku kistu Orms er gripir hans voru í og fóru með þetta allt á burtu.
Bolla þótti sér illa tekist hafa er eigi var vakað yfir útibúrinu. Hann Bollastadir-4kveðst skyldu ná kistunni af Hólmverjum eða fá bana ella og bað þá segja bónda að hann væri við átjánda mann að naustum hina fjórðu nótt þaðan og léti hljótt yfir sér.
Bolli býst nú. Hann hafði slitna skó og vöruvoðarkufl. Hann var í Brynjudal hina fyrstu nótt og þó eigi að bæjum. Hann kom til Þorsteins gullknapps og nefndist Þorbjörn, sagðist vera sekur maður og kveðst vildu út til Harðar og koma sér í sveit með honum. Þorsteinn gullknappur flutti hann út í Hólm og er þeir Hörður og Geir sáu manninn leist þeim eigi einn veg báðum. Geir þótti ráð að taka við honum en Hörður kveðst ætla njósnarmann. Geir réð þó og sór hann þeim áður eiða en þeir tóku við honum. Margt sagði hann þeim af landi og kveðst þó vera syfjaður. Hann lagðist niður og svaf um daginn. Þeir Geir komu eigi upp kistunni og spurðu Þorbjörn hvert ráð hann legði til. Bollastadir-7 - uppdratturÞorbjörn kvað það ekki vant.
„Er þar ekki í,“ sagði hann, „utan smíðartól bónda“ – kvað Ormi það eitt mein þykja í ráni þeirra Hólmverja er tólakista hans var í burtu „en eg var þá,“ segir hann, „að Mosfelli er ránið spurðist. Mun eg færa honum kistuna ef þér viljið.“
Lítil slægja þótti Geir í vera um kistuna með því að ekki væri í nema smíðartól ein. Tvær nætur var Þorbjörn þar og taldi um fyrir þeim að þeir létu lausa kistuna. Ekki var Herði um að þeir hefðu nokkur ráð Þorbjarnar, kvað þau mundu illa gefast. Geir vildi þó ráða og fóru þeir sex saman um nátt til nausta Orms. Þeir báru þá kistuna á land og upp í naustið og settu undir húfinn á skipi Orms. Þá kallaði Þorbjörn að menn skyldu upp standa og taka þjófana. Þeir hlupu þá upp er fyrir voru og sóttu að þeim. Geir greip þá einn árarstubba og barði á tvær hendur og varðist hann þá allrösklega. Geir nær þá skipi sínu. Fjórir menn létust af Geir. Ormur tók ferju og reru eftir Geir.
Hörður tók til orða heima í Hólmi: „Það er líkara að Geir þurfi manna við og eigi þykist eg vita hve Þorbjörn sjá hefir gefist honum.“
Tók hann þá skip og rær inn á fjörð, kemur nú að eltingum þeirra Orms og Geirs. Sneri þá Ormur skjótt undan og að landi. Geir fór út í Hólm með Herði.
Ormur gaf síðan Bolla frelsi og land á Bollastöðum og öll búsefni. Bjó hann þar síðan og varð auðigur maður og ófælinn.“
Í Jarðabókinni 1703 segir ennfremur: „Þar vita menn, að yfir hundrað ár hefur hún í auðn legið, og so Bollastadir-6lengi hafa jarðirnar Valdastaðir og Háls brúkað land þessarar eyðijarðar og grasnautn alla átölulaust til helminga hvörir.“ Hvorki er getið um selstöðu frá Valdastöðum né Neðra-Hálsi, en þó má ætla að selstaða hafi verið frá þeim bæjum í heimalandi, a.m.k. um tíma, einkum þegar tvennt er haft í huga. Rústir Bollastaða er á þurrum bala ofan mýri u.þ.b. 70 metrum austan við nýbýlið Bollastaði. Rústirnar eru greinilega mjög fornar, en þó sést þar móta fyrir fjósi, u.þ.b. 14 metra löngu og tilhlýðilega breiðu, skála og þremur til fjórum rýmum öðrum, þ.a. þremur stökum sunnan við meginrústirnar. Bollastaðalækurinn er rétt austan við bæjarstæðið. Augljóst má telja að fínar aurskriður hafa fallið oftar en einu sinni ofan úr bröttum hlíðum Reynivallahálsar niður um „túnin“ því að sjá er þar víðasthvar grunnt á skriðurnar.
Því má ætla að bæjarstæðið Bollastadir-51(bæjarhóllinn) geti verið bæði hærri (dýpri) og breiðari en ætla megi. Fjóstóftin er allgreinilegust. Hún er óvenju stór af fornkotbýli að vera. Því er ekki óraunhæft að ætla að þarna hafi áður verið kúasel, annað hvort frá Valdastöðum eða Neðra-Hálsi og síðar fjársel (í heimalandi). Líklegra má ætla að kúaselið, sem virðist eldra, hafi verið frá síðarnefnda bænum og síðar fjársel frá þeim síðarnefnda. Hafa ber þó í huga, skv. samtölum við þá er til þekkja, að kýr beggja vegna markanna, hafa unað hag sínum hið besta á þeim stað er landamerkin liggja nú. Efst í þeim er stór steinn. Á hann er klappað „LM“. Fallin mosagróin varða er á honum. Þaðan liggur markalínan, að sögn Ragnars, í beina línu um skurð í klett (berggang) niður að Laxá. Þar segja heimildir að eigi einnig að vera klappað „LM“ en ummerki þess eru þar hvergi að finna (enda sagðist Ragnar ekki hafa komið auga á þau við eftirgrennslan).

Bollastadir-7 - kuastekkur

Tvennt ber að hafa í huga þegar áætlað er að í Bollastöðum hafi fyrrum verið selstöður á einhverjum tímum. Annars vegar fjósið, sem virðist óvenjustórt í fornbýli. Líklegra er að þarna hafi áður verið kúasel og þá líklega frá Neðra-Hálsi. Aðstæður eru dæmigerðar slíkar í landnámi Ingólfs. Þarna eru bæði nægt vatn og góð grasbeit. Kotið Bollastaðir, sbr. framangreinda sögu, kann því að hafa byggst upp úr selstöðunni. Hlaðinn kúastekkur (sem reyndar virðist vera frá 18. og/eða 19. öld), skammt vestar (í núverandi landi Neðri-Hálsar) bendir til þess. Stekkurinn sá gæti þó hafa verið endurhlaðinn oftar en einu sinni í gegnum tíðina vegna hagstæðra aðstæðna. Hins vegar, að teknu tilliti til fjárborgarinnar skammt norðaustar við bæjarstæðið, má ætla, út frá því hversu heillegar hleðslurnar eru, að þar hafi síðar verið selstaða nýtt sem fjársel út frá kotbúlinu, og þá líklega frá Valdastöðum. Frá bæjarstæðinu má sjá, ef vel er að hugað, selstíg áleiðis að bænum. Í hann hefur verið lagst í vegaumbætur; stuttan vagnveg, sem ætla megi að geti verið frá því um og eftir aldarmótin 1900 (þriggja álna breiðan og „púkkaðan“, eins og dæmi eru um slíkar vegaúrbætur).

Bollastadir-9

Núverandi ábúendum Bollastaða, Ragnari og Unni, var bent á fyrrum bæjarstæði hinna fornu Bollastaða, bæði til að auka líkur á að flytja megi vitneskju um það til komandi kynslóða og jafnframt til að minnka líkur á að það fari forgörðum vegna vanþekkingar (eins og svo oft vill verða). Og svo er alls ekki útilokað að sveitarstjórn Kjósar kunni að hafa áhuga á að láta grafa bæjarstæðið upp í heild sem framlag þess til varpa ljósi á sögu byggðaþróunnar og mannlífs á svæðinu.

Heimildir m.a.:
-http://www.kjos.is/allar-frettir/nr/58288/
-Harðar saga og Hólmverja, 27. kafli.
-Jarðabókin 1703, bls. 428 (Gullbringa- og Kjósarsýsla).
-Björn Bjarnason, Kjósarsýsla 1937, Landnám Ingólfs II, 1936-40.

Bollastaðir

Gerði við Bollastaði.