Bóndinn í STRAUMSVÍK – Magnús Guðjónsson
Eftirfarandi viðtal við Magnús Guðjónsson birtist í Vísi fimmtudaginn 19. júní 1969 undir yfirskriftinni „Bóndinn í STRAUMSVÍK„:
„Hin mikilfenglegu mannvirki, sem rísa upp norðan Straumsvíkur, vekja athygli þeirra vegfarenda, sem ekki eru þar daglega á ferð. En sjálfsagt verður það með þau eins og margt annað, að vaninn slævir eftirtektina og hin því nær kílómetralanga verksmiðjubygging hættir að vekja sérstæð viðbrögð augans.
Hraunið, sem nú hefur verið brotið niður, bjó yfir dulrænni fegurð í litbrigðum ljóss og skugga. Á því var aldrei hinn óumbreytanlegi kuldasvipur steinmúranna. Lifandi mosafeldur brosti við skapara sínum eins og önnur jarðarinnar börn.
Árið 1891 bjuggu í Stóra-Lambhaga í Hraunum, Guðjón Gíslason og Kristbjörg Steingrímsdóttir. Þann 21. september það ár fæddist sonur þeirra Magnús. Þá var fjölbýlt í Hraunahverfinu, enda fólkið margt, búskapur nokkur og áraskipaútgerð. Guðjón var útvegsbóndi, hélt út og stjórnaði sjálfur sex rónu skipi, varð honum gott til manna, því hann var ötull sjósóknari og aflasæll.
Þótt oft væri snöggslægt Lambhagatúnið eftir langvarandi þurrka, tókst honum oftast að hafa tvær kýr og rúmlega eitt hundrað sauðfjár. En sum ár varð hann að sækja nokkurn heyskap inn á Álftanes.
Á þessum tíma voru eftirtalin býli og hjáleigukot í Garðahreppi sunnan Hvaleyrar: Stóri-lambhagi, Litli-Lambhagi, Gerði, Þorbjarnarstaðir, Péturskot, Straumur, Þýzkabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Eyðikot, Óttarsstaðir og Lónakot. Það var ysti bær í Garðahreppi hinum forna.
Eins og fyrr er sagt, var mikil sjósókn frá þessum bæjum með an enn þá var öld áraskipanna. Oftast var stutt róið. Aðalmiðin voru Lóndjúpið Brúnin eða vestur á Svið. Til bar það, að farið var út í Garðssjó væri ördeyða á innmiðum, en þangað var að eins farið á velbúnum skipum að forviði, veiðarfærum og mannafla.
Venjulega var aflavon þangað til togararnir fóru að skafa botninn með fram ströndinni, þá skipti sköpum. Ýmsir útvegsbændur voru brúnaþungir þegar þeir sáu aðfarirnar. Fullir pokar voru dregnir upp. Koli og lúða var hirt en öðrum fiski var hent og flaut hann dauður um allan sjó. Þetta varð til þess að sumir fóru að sækja í togara. Aðrir voru svo stórir af sjálfum sér að þeir höfðu ekki skap til en sátu í landi með sárt ennið, og bölvuðu ástandinu án þess að fá nokkuð að gert.
Á vertíðinni var oft margt að komumanna, sem reru á útvegi heimabænda. Lending var fremur góð umhverfis Straumsvíkina bæði í Stóra-Lambhaga og þó sérstaklega við Straum eða í Straumsós en inn á hann varð aðeins komist á flóði og þarna er mikill munur flóðs og fjöru.
Á þessari öld, þegar ýmiss konar skoðanakannanir virðast vera mjög ofarlega á dagskrá, er það ekki óalgengt, að þeir sem fræðast vilja taki upp símann, velji númer og spyrji um álit manna, sem þeir aldrei áður hafa átt nein samskipti við.
Vel má vera að með svona hátta lagi þyki sumum sér nóg boðið, jafnvel þótt orðnir séu aldurhnignir og hafi á langri leið ýmsu kynnst og mörgu vanist.
— Hringdu bara, — segir Hrafnkell sölustjóri, og svo hringi ég.
Bifreiðin undir stjórn Magnúsar Guðjónssonar rennur mjúklega suður Hafnarfjarðarveginn. Hann er kunnugur þessari leið gamli maðurinn, því frá árinu 1916, að hann tók bifreiðastjórapróf hjá Agli Vilhjálmssyni, hefur hann oft setið undir stýri og lengst af milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.
Hann vildi gjarnan láta fólkinu í sín um heimabæ góða þjónustu í té og auðvelda því ferð til höfuðstaðarins. Árið 1922 fékk hann Kristján vagnasmið til þess að byggja fyrir sig farþegahús á vörubíl. Það rúmaði 13 manns. Þá varð Steindór Einarsson reiður og sagði að með þessu væri Magnús að stofna til harðvítugrar samkeppni við sína dýru og fullkomnu fólksbíla, en hann hafði þá keypt eina tuttugu slíka. En Magnús lét sig ekki og hélt sínu striki, sagði aðeins: „Stærri bifreiðar til fólksflutninga er það sem koma skal“, og sú varð raunin á. Það sá Steindór síðar.
Og nú byrjar fræðslan.
– Sjáðu, hérna, þar sem við ökum með fram höfninni í Hafnarfirði var áður sjór. Þetta er nýtt land gjört af mönnum. Þar sem vegurinn liggur framan undir hamrinum var áður hyldýpi. Í Ásbúðum bjó Andrés Jónsson. Ásbúðir, það er litli bærinn með fánalitunum þarna undir brekkunni Andrés safnaði fornminjum. Ég starfaði að þessu með honum af og til í fimmtíu ár, ók út um sveitir og sótti muni. Nú er sérstök deild í Þjóðminjasafninu, sem varðveitir þessar minjar, — Ásbúðasafnið. —
— Hér er Óseyrin, þar var áður býli og oftast vel búið. Einu sinni átti þar heima ísak í Fífuhvammi. Einar Þorgilsson útgerðarmaður þurrkaði fisk á grandanum framan við eyrina. Þarna syðst er svo Hvaleyrin. Sú jörð átti landamerki móti Stóra-Lambhaga. Í Óseyrar og Hvaleyrartjörnum var fyrrum mikil rauðsprettuveiði. Já, ég man vel aðra mynd af Hafnarfirði en þá sem nú er sýnileg þeim sem um veginn fara.
Nú erum við komnir móts við hið mikla mannvirki — Álbræðsluna — sem reist hefur verið á landi Stóra-Lambhaga.
— Hér er orðið breytt síðan ég var að smala hraunin og ára skipum var hrundið á flot og ráðið til hlunns í Straumsvíkur og Lambhagavörum.
Fyrstu sjóferðina fór ég 9 ára gamall. Ekki mun þá hafa verið til mikillar liðveislu ætlast, enda var pilturinn lítt til stórræða, því sjóveikin þjakaði mig mjög og var svo jafnan, enda þótt ekki þýddi að láta slíkt á sig fá. Uppeldissystur minni, Margréti Magnúsdóttur, var öðruvísi farið. Hún var bæði kjarkmikil og sjósterk, enda reri hún sem dugandi karlmaður væri og þótti engu síður hlutgeng. Ekki sjaldan kom það fyrir, að hún fór á sjóinn þegar verra var veður og ég kaus heldur að hirða fé föður míns.
Einu minjarnar um hina fornu byggð í Stóra-Lambhaga er vörin, sem lent var í og þetta gamla fjárhús við sjóinn. Í Straumi bjó lengi Guðmundur Símonarson. Hann hafði stórt bú. Þó sérstaklega sonur hans, Guðmundur Tjörfi, hann hafði mikinn fénað. Hjá honum var „Stjáni blái“ oft á veturna áður en vertíð hófst. Stjáni ólst upp hjá séra Þórarni í Görðum, kom þangað 7 ára gamall frá Klöpp í Reykjavík. Séra Þórarinn keypti áraskip handa honum og Óla Garða. Stjáni var mikill sjómaður, ég þekkti hann vel.
Þegar hann fór sína síðustu för var ég á bryggjunni í Hafnarfirði. Stjáni var örlítið ör og þegar ég hafði orð á því að honum lægi ekkert, á út eftir, leit hann til mín þeim augum, sem gáfu greinilega til kynna, að það væri hann en ekki ég, er réði þár ferðinni.
Mun ég sennilega hafa verið einn þeirra síðustu, sem rétti honum höndina til kveðju.
Svo „strengdi Stjáni klóna“, settist við stjórn og tók stefnu fyrir Keilisnes. Hann var þá búsettur í Keflavík. Hið snjalla kvæði, sem Örn Arnarson kvað, mun gefa nokkuð sanna hugmynd um þessa síöustu siglingu og einnig um manninn sjálfan, Meðan Stjáni var formaður fyrir séra Þórarin í Görðum reri hann venjulega úr Garðavör og sótti oftast út á Svið.
— Í Straumi bjó síðar Bjarni Bjarnason, sem lengi var skólastjóri héraðsskólans á Laugarvatni. Hann var þá kennari í Hafnarfirði.
Nú eru því nær öll hraunabýlin í eyði fallin. Að vísu hefur verið rekið svínabú í Straumi, en heyrt hef ég á orði haft, að þeim rekstri mundi senn lokið. Á Óttarsstöðum eru heimilisföst roskin hjón. Húsbóndinn stundar smíðar og auk þess hafa þau nokkur hænsni.
Öll þau ár, sem ég var heima í Stóra-Lambhaga, voru í Eyðikoti þrjú systkini – bræðurnir Sveinn og Guðmundur og systirin Steinunn Bergsteinsbörn. Sveinn var sjómaður en Guðmundur var sjálfmenntaður járnsmiður. Hann smíðaði mikið af skónálum og brennimörkum.
Smiðjuhurðin bar glögg merki þeirrar iðju. Eins og ég drap á áðan, þá höfðu bændur hér í hverfinu talsverðan búpening. Enda þótt heyfengur væri venjulega rýr, þá kom þar f móti, að sauðfé var mjög létt á fóðrum. Marga vetur kom það aldrei í hús, nema lömbin fyrsta veturinn. Þegar verri voru veður lá féð í hellisskútum hér og þar í hrauninu. Ef tað safnaðist í þá voru þeir þrifnir og stungið út úr þeim, mátti segja að hér væri um að ræða nokkurs konar fjárhús. Þrátt fyrir það, að hraunið virðist gróðurvana yfir að sjá, þá þreifst féð vel bæði vetur og sumar, en hirðingin var erilsöm, sérstaklega á vorin, því víða eru jarðföll og holur, sem hættuleg eru nýfæddum lömbum og þungfærum ám. Yfir þessu þurfti að hafa vakandi auga.
Það féll oft í minn hlut að sinna þessu starfi meðan ég var drengur heima í Lambhaga, þá kunni ég því vel. Þó hér sé ekki stórbrotið til lands að líta er víðáttan fögur og heillandi, sérstaklega á vorin, og hraunið býr yfir meiri og fjölbreyttari náttúruöflum en ætla mætti þegar menn líta yfir það sem hraðfara vegfarendur. Það er margur fagur reitur falinn í skjóli hraunborganna.
Þeir voru engir smákarlar sumir bændurnir hérna á ströndinni í gamla daga. Guðmundur á Auðnum, Guðmundur í Landakoti, Guðmundur i Flekkuvík og Sæmundur á Vatnsleysu. Þeim Guðmundi á Auðnum og Sæmundi þótti nú sopinn góður og komið gat fyrir að kaupstaðarferðin til Reykjavíkur tæki þá upp undir hálfan mánuð. Þá var komið við á bæjunum, þeginn og Veittur beini, sem orsakað gat næturdvöl. En þetta voru dugnaðarmenn, aflasælir og sjálfum sér nógir.
Og hef svo sem fengist við ýmislegt fleira en aksturinn, enda þótt ég telji hann hafa verið mitt aðalstarf um ævina. Í tíu ár fékkst ég við útgerð og átti um sjö ára skeið elsta skipið í íslenska veiðiflotanum, m.b. Njál, 38 lestir að stærð. Nokkuð kom ég einnig við verslunarsöguna bæði sem sjálfstæður aðili og nú síðustu átta árin verið innheimtumaður hjá firmanu Nathan & Ólsen.
— Jú, ég kvæntist árið 1913. Konan mín hét Herdís Níelsdóttir, ættuð úr Hafnarfirði. Við bjuggum saman í 33 ár, þá lézt hún. Við vorum barnlaus og nú er ég einn míns liðs.
— Okkur liggur ekkert á, ég er minn eigin herra í dag.
— Aka, jú, ég sé vel til að aka þótt ég sé senn 79 ára gamall. Enn þá les ég gleraugnalaust.
Ég hef aldrei ekið hratt, ó nei, og komist leiðar minnar þrátt fyrir það.
Sérðu hvernig þeir hafa brotið niður hraunið. Á gömlum fjárgötum fortíðarinnar, hrófum áraskipanna, harðbalatúnum og húsatóftum fornra mannabyggða hafa þeir reist þetta verksmiðjuhús.
— Hvort munu þeir, sem þar ráða ríkjum svara betur kalli sinnar samtíðar en hinir, sem áður lifðu þar lífi íslenskra útvegsbænda?“ – Þ.M.
Sjá meira HÉR.
Heimild:
-Vísir – Bóndinn í Straumsvík; Magnús Guðjónsson, fimmtudagur 19. júní 1969, bls. 9-10.