Borgarskörð – Bjössabólur
Gengið var frá Hlíðarskarði til austurs undir Katlabrekkunum að Borgarskörðum. Undir skörðunum fundust fljótlega tvær rústir í skjóli við stóran klett. Önnur rústin snéri til vesturs, en hin til suðurs. Svo virtist sem þarna hafi verið beitarhús, líklega frá Hlíð. Skammt sunnan rústanna lá gömul gata niður heiðina úr austri og áfram áleiðis vestur að Hlíð. Skammt austar sá í grænan hól. Við nánari athugun reyndist þar vera um nokkuð mikla fjárborg að græða. Hún var gróin að utan, en að innan mátti vel sjá fallega hleðslur. Borgin hefur fyrrum verið opin til suðurs, líkt og flestar aðrar fjárborgir á Reykjanesi. Langsteinninn yfir opinu sást enn vel.
Gengið var til baka og haldið niður í Krýsuvíkurhraun. Á leiðinni var kíkt ofan í jarðfall norðan við þjóðveginn, skammt austan Herdísarvíkur.
Slóðanum niður í Krýsuvíkurhraun var fylgt til komið var niður fyrir beina vestlæga stefnu á neðsta gat Bálkahellis. Þar sást til nokkurra manna, ýmist stinga höfðinu upp úr jörðinni eða hverfa niður í hana á ný. Við eftirgrennslan kom í ljós að þar voru nokkrir stórir og smáir í fylgd fulltrúa HERFÍs í hellaskoðun. Nokkur op eru þarna í hrauninu, en nokkuð þröngt þegar niður er komið.
Skammt vestan hellasvæðisins voru hleðslur er gáfu með sér að þar kynnu að vera greni, en þau eru merkt á ákveðinn hátt. Það reyndist rétt vera. Nokkur greni eru þarna í skútum og hraunbólum. Suðaustan við eitt grenið var nýlegt hlaðið refabyrgi, en norðaustan við annað var greinilega gamalt hlaðið skjól. Því var gefinn gps-punktur.
Þá var stefnan tekin á neðsta op Bálkahellis. Farið var ofan í hellinn og hann skoðaður. Þegar komið er einn má sjá stóran dropastein þegar farið er til vinstri. Leiðin niður liggurhins vegar beint af augum, niðurbeyging og áframhald. Hellirinn opnast í víðri og hárri rás.
Eins gott að hafa gott ljós meðferðis. Þarna eru fallegir dropasteinar, dellur og önnur hraunvirki, sem erfitt er að nefna. Miklar hraunstráagresjur eru í loftum og á kafla má sjá hvar brúnleitt þunnfljótandi hraunið hefur runnið upp með veggjum rásarinnar, sem er allvíð á kafla.
Hvarvetna var stigið varlega niður og þess gætt að kollur kæmi ekki of nálægt síðu hraunstrái. Þessi hellir er án efna með fallegri hellum á Reykjanesi – og þótt víðar væri leitað. Varðveita þarf hann vel, a.m.k. þennan hluta hans, til framtíðar.
Eftir að hafa skoðað neðsta hlutann var gengið upp í gegnum efsta hlutann og staðnæmst við bálkana efst í honum áður en haldið var yfir í Arngrímshelli, sem er þarna skammt vestar.
Í Arngrímshelli er tótt fyrir vesturopinu. Innan þess eru beinar hleðslur er mynda nokkurs konar flór, u.þ.b. þriggja metra breiðan. Innar til vinstri er lambakró, eins og gamlar sagnir herma. Norðan hennar er hlaðinn beinn veggur yfir mesta hluta hellisins. Það hefur væntanlega verið gert til að koma í veg fyrir að féð leitaði innar í hellinn, en handan veggjarins eru alllöng göng áfram til norðurs. Í sunnanverðum hellinum er hlaðinn lár veggur. Innan hans er sá hluti er liggur að suðuropinu, en allnokkrar hleðslur eru fyrir því. Suðurhlutinn er mun þurrari. Þar er ekki moldargólf heldur hefur gólfið verið flórað svo sem kostur hefur verið. Hleðslur eru beggja megin við vesturopið. Þjóðsagan um Arngrím og Grákollu verður ekki endurtekin hér.
Skammt sunnan við Arngrímshelli fannst lítið op. Þegar komið var niður og inn fyrir það, tók við dýpri rás. Við enda hennar, nær opinu, voru tveir raftar. Svo virðist sem þessi hellir hafi verið hafður til einhverra nota, t.d. sem geymsla. Rás liggur u.þ.b. 30 metra til norðvesturs með nokkrum minni hliðarrásum.
Á leiðinni til baka var komið við í Bjössabólum, nefndum eftir finnandanum fyrir nær þremur árum, en hann var nú með í för. Skriðið var inn í neðstu bóluna, en hún reyndist vera um 30 metra löng. Sú bóla er um 200 metrum ofan við efsta gatið á Bálkahelli. Miðbólan reyndist vera um 80 metra löng. Helstu einkennin í þeirri rás er breiður bekkur á einum stað í henni. Rásin upp úr efstu bólunni var lengst eða um 90 metrar. Nokkuð hrun er í henni, en sömu litir og í Bálkahelli. Þessi rás er með nokkrum litlum hliðarrásum, en aðalrásin gæti náð mun lengra upp eftir hrauninu til norðvesturs. Það er enn ókannað.
Veður var með ágætum – hægur andvari, hlýtt og milt.