Brennisteinsfjöll – Vörðufell – Eldborg – hellir
Ætlunin var að finna Lýðveldishellir þann er Þröstur Jónsson lýsir í Surti og á að vera austan við Eldborg í Brennisteinsfjöllum. Dagurinn var 17. maí.
Ekið var upp frá Sýslusteini á hæðirnar vestan við Vörðufall. Þaðan var gengið til austurs með norðanverðum grasigrónum hraunkanti með aflíðandi sandfjallshrygg á vinstri hönd. Til suðurs mátti sjá í Sandfjöllin, en Vörðufellið framundan.
Gengið var eftir greinilega fjölförnum rollustíg inn yfir hraunið í átt að fellinu. Róleg rjúpa stóð á steini og fylgdist með. Við norðausturhornið á Vörðufellinu sást ofan í rás, en hún virtist ekki ná mjög langt. Frá honum lá djúp og löng hrauntröð til vesturs. Haldið var yfir öxlina sunnan hennar og birtist þá breiður og myndarlegur eldgígur í suðaustri. Myndarlegur eldgígur var norðvestan við Vörðufell og annar norðaustan við það. Gengið var upp á brúnin og blasti þá djúpur og myndarlegur eldgígur við. Frá syðri brún þessa stóra eldgígs far hið fallegast útsýni niður á Herdísarvíkurfjöllin, Hlíðarvatn, Selvog og austur með Suðurströndinni. Eldborg trjónaði efst á hryggnum skammt norðaustar. Sjá mátti á toppinn á Kistufelli í norðaustri.
Gengið var til austurs sunnan Eldborgarinnar, upp hraunhrygg og komið niður hann að austanverðu. Framundan, metrum sunnan við Eldborgina, var komið í slétt dökkleitt hraun er hallaði undan hlíðinni til suðurs. Í stefnu um 500 m austan af borginni var komið að litlu jarðfalli. Op lá niður úr því til suðurs. Eftir að inn var komið tók við mannhæðahá falleg rás. Bekkir voru beggja vegna í mjaðmahæð. Öll rásin, sem var heil, var öll glansandi. Separ voru í lofti. Eftir nokkra tugi metra beygði hún og var gengið í hring um stóra súlu. Rásin lá lengra niður, en sá hluti var ekki skoðaður að þessu sinni. Einn gluggi var á rásinni.
Efra opið var aðgengilegra. Niður í það sáust glansandi bekkirnir mjög vel. Gengið var upp eftir henni um ca. 20 metra, en þar þrengist rásin, en hægt var að sjá upp í gíg. Þegar hann var skoðaður ofan frá sást vel hvernig þunnfljótandi rauðleitt hraunið hefur smurt rásina og leitað þarna upp úr henni. Rásin hafði fallið niður ofan opsins. Hægt var að ganga hana upp um ca. 20 metra. Hún var einnig mannhæðahá, en þrengdist svolítið áður en hægt var að komast upp úr henni þar fyrir ofan. Enn ofar var gígop og lá rásin upp úr henni. Þegar gengið var upp hraunið í stefnu rásarinnar fannst enn eitt opið. Frá því lá rásin til suðurs á móti honum. Hellarásirnar voru nefndar Kistuhellar, enda í Kistuhrauni.
Gengið var um slétta hraunið, rásinni fylgt ofanjarðar til norðurs og leitað að öðrum opum á leiðinni, en engin fundust. Skv. lýsingu Þrastar getur þarna varla verið um Lýðveldishellinn að ræða því í greininni er hann sagður vera í stóru jarðfalli og miklu, en á mjög svipuðum slóðum. Rétt er því, þangað til annað kemur í ljós, að nefna hellinn “Þjóðhátíðardagshellir Norðmanna” því þjóðhátíðardagur þeirra er 17 maí. Þarna var um fallegan helli að ræða.
Gengið var til bak upp að Eldborginni og síðan frá henni til vesturs. Þá var komið að fallegum eldgíg. Gengið var upp á brún annars og sást þá ofan í stóran og umfangsmikinn eldgíg, nokkuð sléttan í botninn með moshól nokkurn veginn í miðju. Haldið var niður brúnina að vestanverðu og var þá komið í sléttbotna hraunrás. Síðan var nokkuð slétt hraunið fetað vestur með norðanverðu Vörðufelli með viðkomu í fallegri gígaröð. Tvær rjúpur sátu á hraunhrygg skammt norðar. Gengið var niður frá henni eftir stíg til vestnorðvesturs niður í slétt hraunið, þvert yfir djúpu rásina og að grashlíðunum, sem gengið hafi verið upp með í upphafi ferðar. Meðfram þeim var gengið aftur að bílunum.
Skv. gps-tækinu var gengið um 15 km leið. Gangan tók u.þ.b. 6 klst. Veður var ágætt – skyggð sól, en bjart.
(Lýðveldishellir fannst í næstur FERLIRsferð á svæðið, skammt norðaustan við Þjóðhátíðardagshelli Norðmanna).