Brennisteinsvinnsla – saga

Seltún

Eftirfarandi er úr grein um sögu brennisteinsvinnslu hér á landi eftir Ingvars Birgirs Friðleifssonar í Lesbók Morgunblaðsins árið 1997:
Krysuvikurnama-5„Þótt Íslendingar hefðu ekki mikil not af jarðhitanum, allavega ekki þegar átti að tíunda hann til skatts eins og í Jarðabókinni, hafði Danakóngur þeim mun meira gagn af brennisteini sem víða finnst á gufuhverasvæðum. Brennisteinn var snemma fluttur út frá Íslandi og varð er fram liðu stundir dýr verslunarvara. Svo virðist sem erkibiskup í Niðarósi hafi á 13. öld haft nokkurs konar einkarétt til að flytja eða kaupa brennistein frá Íslandi, en síðar náði kóngur réttinum undir sig. Ekki er vitað hvað mönnum erkibiskups gekk til að flytja út brennistein, því púðurgerð hófst ekki í Evrópu fyrr en eftir 1400. Lýður Björnsson, sagnfræðingur, hefur komið með þá athyglisverðu tilgátu að prestar hafi ef til vill kveikt í brennisteini í kirkjum sínum til að hrella sóknarbörnin, sýna þeim hvernig Vítislogar líta út og leyfa þeim „að finna lyktina“ (Lýður Björnsson, munnlegar upplýsingar 1995).
Á fyrri hluta 16. aldar keyptu Hamborgarar brennistein á Íslandi og varð Danakóngur að kaupa af þeim brennistein til púðurgerðar á krysuvikurnamur-4geypiverði. Árið 1561 forbauð kóngur Íslendingum að selja útlendingum brennistein, nema þeir hefðu sérstakt leyfisbréf. Eftir þetta lét danska stjórnin flytja út brennistein frá Íslandi út 16. öldina og var verslunin svo arðsöm framan af að kóngur hafði eitt sinn 6000 ríkisdala ábata af einum skipsfarmi. Þetta svaraði til 1500-2000 kýrverða sem jafngilda 150-200 milljónum króna í dag. Brennisteinsverslunin var þá helsti arður sem Danir höfðu af Íslandi.
Helstu brennisteinsnámurnar voru í Krýsuvík og Brennisteinsfjöllum á Suðvesturlandi og í Þingeyjarsýslu (Hlíðarnámur í Námafjalli, Fremrinámur, Kröflunámur og Þeystareykjanámur). Fróðlegt er að lesa um hvernig kóngsins mönnum tókst í skugga Stóradóms, sem þá var verið að lögfesta, að sölsa undir sig námuréttindi í Mývatnssveit vegna legorðsmála þar í sveit (sjá Ásverjasögu eftir Arnór Sigurjónsson, 1967).
Í byrjun 17. aldar hætti stjórnin sjálf að kaupa og flytja brennistein enda fór hann þá mjög að falla í verði í Evrópu. Var brennisteinsnámið því í minni metum á 17. og 18. öld og fengu þá ýmsir einkaleyfi til brennisteinsverslunar. Brennisteinsvinnsla var einn liður í Innréttingum Skúla Magnússonar, fógeta, en var lítt arðbær.“

Heimild:
-Ingvar Birgir Friðleifsson, Lesbók Morgunblaðsins 20. sept. 1997, bls. 10-13.

Brennisteinsvinnsla

Brennisteinsvinnsla Við Seltún.